Þóra Guðrún Pálsdóttir

19.05.2006 02:01

Sáðmaður gekk út að sá

Aftur tók hann að kenna við vatnið. Svo mikill mannfjöldi safnaðist ,að honum, að hann varð að stíga út í bát og sitja þar, úti á vatninu. En allt fólkið var á landi við vatnið. Hann kenndi þeim margt í dæmisögum og sagði við þá:

"Hlýðið á! Sáðmaður gekk út að sá, og þá er hann sáði, féll sumt hjá götunni, og fuglar himinsins komu og átu það upp. Sumt féll í grýtta jörð, þar sem var lítill jarðvegur, og það rann skjótt upp, því það hafði ekki djúpa jörð. En er sól hækkað visnaði það, og sökum þess að það hafði ekki rætur, skrælnaði það. Og sumt féll meðal þyrna, og þyrnarnir uxu upp og kæfðu það, og það bar ekki ávöxt. En sumt féll í góða jörð. Kom upp, óx og bar ávöxt, það gaf þrítugfaldan, sextugfaldan og hundraðfaldan ávöxt." Og hann sagði: "Hver sem eyra hefur að heyra, hann heyri!" Mark. 4: 1-9.

Menn sáðu í Gyðingalandi og menn sá á Íslandi. Þann 16 maí gekk húsbóndinn í þessu húsi út til að sá gulrófufræi og gulróta, í þessu unaðslega sólskinsveðri. En þótt veðrið sé gott þá geta ýmsir verið á ferð sem hugsa meira um sinn eigin hag en okkar. Fuglarnir hafa býsna góða fréttaþjónustu á veturna að ég ætla, því að ég hefi séð þá setja, einn og einn upp í háum trjám með löngu millibili. Þeir hafa að mínu áliti það starf að tilkynna félögum sínum ef einhver góðhjörtuð sál fleygir fuglamat út í garðinn sinn. Þeir eiga ef til vill líka að líta eftir köttunum, hvort óhætt sé, þeirra vegna, að setjast að krásunum.

Fuglarnir minna á sig á veturna en við erum ekkert að gefa þeim núna. Þeir fóru líka að verða lausari við þegar voraði. Gæti best trúað að þeir hefðu farið í langt ferðalag. Þeir sjást lítið það næsta okkur. Samt fylgjast þeir meira með athöfnum okkar en við höldum.

Að lítilli stundu liðinni eftir að beðið hafði verið stúngið upp og sáning var hafin, hafði hópur fugla safnast í nágrenni við sáðmanninn. Gátu varla biðið með að setjast að krásinni þar til hann hefði lokið verkinu og léti sig hverfa. Þeir höfðu sennilega komist að því að það gæti verið arðsöm atvinna að ganga í spor sáðmannsins og týna fræin um leið upp úr moldinni. Þannig fréttir höfðu mér áður borist af athæfi þessara fugla hér á suðurnesjum og varð þessi atburður til að staðfesta að það væri engin lygasaga, þótt mér fyndist hún ótrúleg. Svona innrætta fugla hafði ég aldrei heyrt um, þar sem ég ólst upp, nema Krumma. Hann hafði það til á haustin að vakna á undan okkur til að draga silunganetin uppúr Kistulæknum sem lögð höfðu verið kvöldinu áður. Hann hafði víst málsháttinn í höfðinu: "Morgunstund gefur gull í mund." Sáðmaðurinn sá nú hvert stefndi með sitt ræktunarstarf og sótti plastdúk til að verjast frekari ágangi nágranna okkar. Ég hefi ekki séð þá síðan.

Jesús sagði: ,,Heyrið þér nú dæmisöguna um sáðmanninn: Hvenær sem einhver heyrir orðið um ríkið og skilur það eigi, þá kemur hinn vondi og rænir því, er sáð var í hjarta hans."

Flettingar í dag: 18
Gestir í dag: 10
Flettingar í gær: 321
Gestir í gær: 15
Samtals flettingar: 77163
Samtals gestir: 16016
Tölur uppfærðar: 18.4.2024 07:10:56

Eldra efni

Tenglar