Þóra Guðrún Pálsdóttir

Færslur: 2012 Janúar

15.01.2012 17:04

Ótitlað

                                HEILSA  GÆLUDÝRANNA

 

Kæru vinir, það er orðið langt síðan ég skrifaði síðast. Allt gott að frétta af nýju gæludýrunum mínum, það er blómunum. Burknarnir eru duglegir að koma með nýja sprota og þeir lengstu hafa sumir náð meira en hálfum metra á lengd.

Friðarliljan mín var að keppast við að koma  blómum á legg en ég vildi heldur að hún að hún legði meira í grænu blöðin svo að ég klippti blómin niður við rót. Ég veit ekki hvort hún er að reyna að leika á mig  af því að ég eyddi hvítu blómunum. Nú blómstrar hún  grænum blómum að hluta til en það leynast nú ekki fræknúbarnir innan í blöðunum. Þeir sýna að hér eru ekki  blöð ein á ferðinni, en hvítu blómin sem komið hafa í bland eru agnarlítil og pervisin. Það er ef til vill óþarfa bjartsýni að halda að blóm og jurtir geti hugsað og villt um fyrir vörslumanni en ég yrði ekkert hissa þótt það ætti eftir að koma í ljós.

 

  Ástareldurinn sem ég fékk í afmælisgjöf í september hefur vaxið og er farinn að blómstra í annað sinn en grænu blöðin eru sum að verða gulleit og veit ég ekki hverju sætir eða hvort það geti verið af ofvökvun.

 Við fórum norður í land og ég tók hin blómin og setti í vatn í baðkerið en skildi Ástareldinn eftir í stofunni því hann er ekki drykkfeldur og dugar eitt staup í nokkra daga. Honum hefur ef til vill leiðst einsemdin í húsinu. Það er allt of þröngt um hann í pottinum og ég verð að reyna að skipta honum.  Upphaflega hafa verið settir þrír afleggjarar í pottinn. Burknarnir voru aftur á móti svo greinilega glaðir yfir að fá að fara í alvörubaðker og þeim hefur farið mikið fram.

                                                                                                                                 Ég er að lesa skemmtilega bók sem heitir ,,UNDRAHEIMUR DÝRANNA". Eftir MAURICE  BURTON, Dr.  Sc. Hún er þýdd af Dr.Brodda Jóhannessyni  og Guðmundi Þorlákssyni, prentuð á Akureyri 1955. Þar segir ,, Sannleikurinn er sá, að ekki verða sett skörp mörk, sem geta staðist, milli plantna og dýra, því að engin slík mörk er að finna í náttúrunni. Enda þótt við tölum um grasafræði og dýrafræði sem tvær aðskildar fræðigreinar, þá getum við þó ekki aðgreint þær til fulls, en stundum er þó þægilegra að hafa þessa skipting".

  • 1
Flettingar í dag: 52
Gestir í dag: 17
Flettingar í gær: 57
Gestir í gær: 20
Samtals flettingar: 77972
Samtals gestir: 16231
Tölur uppfærðar: 25.4.2024 08:09:39

Eldra efni

Tenglar