Þóra Guðrún Pálsdóttir

Færslur: 2012 Október

27.10.2012 22:27

Kýr eru merkilegar

Við fengum nokkra góða gesti frá Danmörku í heimsókn á liðnu sumri. Meðal þeirra var sonarsonur minn, sem hefur alist upp í Danmörku og er nú orðinn fulltíða maður. Faðir hans fór á sínum tíma til Danmerkur að læra mjólkurfræði. Hann settist þar að eftir að námi lauk, við það starf sem hann lærði en var alltaf með íslenska hesta á sínum snærum í hjáverkum. Ég var búin að heyra að sonur hans sækti ekki í það tómstundagaman fjölskyldunnar þótt systur hans gerðu það. Nú gafst mér tækifæri að spyrja hann sjálfann hver væru hans uppáhaldsdýr, fyrst hann hefði ekki áhuga á hestum. Það kom alveg flatt uppá mig er ég heyrði hann segja að það væru kýr. Reyndar vissi ég að pilturinn var búinn að mennta sig til að verða bóndi og ef til vill gefur sú menntun fleiri möguleika. Mér hafði þótt mjög vænt um öll dýrin sem voru á heimilinu sem ég ólst upp á. Hestar og kettir voru held ég efstir á vinalistanum hjá mér. Þar næst held ég hundurinn en kýrnar lentu í númer 4.

 

 Frá kúnum fannst mér samt alltaf stafa miklum friði og ró. Mér leið bara vel í návist þeirra en ég hafði aldrei lesið neinar frægðarsögur af þeim á borð við hesta, sem höfðu bjargað mönnum úr lífsháska í hættulegum vatnsföllum og leitt knapann heilan heim þegar hann var orðinn alveg rammvilltur í myrkri og hríð og sá þann kost einan, að láta hestinn sem hann reið ráða för. Þannig var líka með forustusauði.

Þeir gátu bjargað heilli hjörð með sér frá að farast í stórhríðum, með því að spá rétt í veðrið og halda til húsa í tæka tíð. Kettir gátu líka spáð. Það voru öðruvísi spár. Þeir spáðu gestakomum. En ég trúði víst ekki nóg á þeirra spár til þess að fylgjast með hvort þær rættust, enda hafði ég ekki séð neitt skráð í bækur um að þær hefðu yfirleitt ræst. Hundar voru mikil nytjadýr á heimili til að hjálpa mönum að hafa stjórn á hinum dýrunum. Ef til vill hefur þá dreymt fyrir gestakomum. Ég sá hundinn okkar dreyma og urra uppúr svefni en hann gat ekkert sagt frá neinu þegar vaknaði.

 

Svo ég snúi mér að öðru. Síðan húsbóndinn hér á heimilinu fékk þetta áfall sem ég hefi áður lýst hér á blogginu, þá getur hann ekki fengist vil allt það sama og áður. Þessvegna hefi ég reynt að fara oftar í bókasafnið og velja þjóðlegan fróðleik og ævisöguþætti sem hann hefur helst gaman af að lesa og ég líka. Seinast fékk ég bók sem heitir, Á lífsins leið" þar sem fjöldi þjóðþekktra manna segja frá, þeirra á meðal Styrmir Gunnarsson fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins. Honum var sem unglingi komið í sveit eins og tíðkaðist hér á landi á þeim tíma er hann var að alast upp.(Bls.153 Hjá góðu fólki.) Hann var í fimm sumur á bænum Hæli í Flókadal.  Greinilega hefur hann lifað sig inní hlutverk sitt þar. Hann segir: Þótt réttarferðir væru skemmtilegar og ég yrði fjáreigandi, var ég lítið fyrir sauðfjárbúskap. Á Hæli tók ég ástfóstri við kýr og mér þótti fjósið skemmtilegasti vinnustaðurinn. Enn þann dag í dag líður mér bezt í fjósinu á Hæli. Mér fannst gaman að mjólka og skemmtilegt að moka flórinn.

 

 Ég rak kýrnar á morgnanna og sótti þær á kvöldin. Flutti mjólkina á hestvagni hálftímaleið til móts við mjólkurbílinn.. Svo telur hann upp þá, sem hann hitti og voru í sömu erindagjörðum að flytja mjólk frá sínum bæjum.. Þá segir hann: ,,Ég fylgdist vel með mjólkurbókhaldinu, þar sem skráð var nytin í hverri kú og fitumagnið í mjólkinni. Ég kynnti mér skírslurnar yfir kýrnar mörg ár aftur í tímann. Ég las mér til um kýr í Búnaðarblaðinu Frey.. Áhugi minn á kúm hefur ekki minnkað með árunum. Það yljar mér alltaf um hjartaræturnar, þegar Morgunblaðið birtir fréttir og myndir af nythæstu kúm á landinu." Þetta sagði Styrmir og það gleður mig að lesa þetta og ég sé að Drengurinn minn er í góðum málum, að þykja vænna um kýr en önnur dýr.

  • 1
Flettingar í dag: 122
Gestir í dag: 27
Flettingar í gær: 125
Gestir í gær: 49
Samtals flettingar: 78167
Samtals gestir: 16290
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 23:46:47

Eldra efni

Tenglar