Þóra Guðrún Pálsdóttir

Færslur: 2007 Mars

14.03.2007 00:07

Vandræðum aflétt

Nú er orðið langt síðan ég hefi fest nokkuð á þetta þykjustublað, sem tollað hafi á því. Þegar ég seint og síðarmeir reyndi, sá ég að búið var að klæða bloggsíðuna í nýjan búning, bjartan og fagran eins og brúðarkjól. Þegar ég svo er búin að undirbúa brúðkaupið í Word og opna fyrir brúðgumanum þá stekkur hún upp með látum og skellir hurðinni að stöfum svo eftir sitja aðeins nokkrir íkonar í grænu túni á skjánum.

Eftir nokkrar árangurslausar tilraunir ákveð ég að reyna þá að skrifa beint inn á bloggsíðuna og vona að allt gangi vel. Þá kemst ég að því að tölvan er orðin spillt og hefur lært að skrökva. Hún fullyrðir að færslan sé virk og birtist á blogginu en þar er ekkert að sjá annað en óskrifað blað. Ég hringi svo í dóttur mína og segi að ég geti ekki heldur komist þarna megin að síðunni. Hún gerir eitthvað sem hún álítur duga. Daginn eftir reyndist allt við það sama. Þá dettur mér í hug að reyna að skrifa service@ 123.is og segja frá "vandræðum"og gaf það sem efni.

Að því loknu dettur mér samt í hug að prófa einu sinni enn að opna síðuna. Þar er eitthvert hak sem ég hefi ekki þurft að skipta mér af. Mér þykir alltaf öruggara að vera ekki að skipta mér af fleiri tökkum en ég kemst af með. Ég hætti samt á það og viti menn þá virtist nú síðan taka við og varðveita það sem henni var trúað fyrir.

Morguninn eftir fór ég að hugsa um einn af þessum nýju tökkum sem búið var að bæta við á bloggsíðuna fínu og sagt að hægt væri með honum að taka efni beint úr word. Nú ákvað ég að prófa það í staðinn fyrir að fara í paste. Mér til undrunar eftir allt puðið virtist þetta koma að gagni. Ég hafði líka verið í vandræðum með hvernig ég ætti að komast út úr síðunni. Með því að fara nógu langt niður síðuna laukst það upp.

Næst fór ég í póstinn og athuga hvort þjónustan hjá 123 sé búin að svara. Hún svaraði svo fljótt einu sinni er ég hafði hringt. Nú var líka komið bréf með fjórum spurningum á íslensku, sem ég hefði getað svarað, ekki þó öllum. T.d. ekki, hvaða vafra ég notaði. Ég kann svo ákaflega lítið á tölvu. Ég ætlaði að fara á námskeið í sambandi við vefsíður en fyrrihluti námskeiðsins féll niður vegna skorts á þátttakendum hér í Keflavík. Í stað þess að reyna að svara spurningum sem engu skiptu lengur, ákvað ég að svara með tveimur orðum, "Vandræðum aflétt."Ég er ekki fyrr búin að blikka á "send " en ég fæ svar aftur á ensku sem ég skil afar takmarkað. Af því mér finnst það sé beggja hagur að viðskiptum ljúki sem fyrst ákveð ég að senda annað bréf jafn fáort, með þakklæti, því það er jú þakkarvert þegar brugðist er jafn skjótt við og það hefði komið að notum ef ég hefði ekki verið búin að taka á móti hugskeytum svona rétt áður. En þetta seinna svarbréf mitt er naumast komið út um gluggann þegar svar við því birtist á skjáum í svipuðum búningi og hitt sem ég skildi ekki. Þannig standa málin. Hvað er best að gera næst?

13.03.2007 10:37

Ótitlað

  • 1
Flettingar í dag: 87
Gestir í dag: 29
Flettingar í gær: 36
Gestir í gær: 7
Samtals flettingar: 99750
Samtals gestir: 20162
Tölur uppfærðar: 21.7.2024 14:43:33

Eldra efni

Tenglar