Þóra Guðrún Pálsdóttir

Færslur: 2006 Nóvember

26.11.2006 21:46

Ljósið

Bláa ljósið.

Fimmtudaginn 23 nóvember stóð eftirfarandi fyrirsögn á forsíðu Fréttablaðsins.

,,Bláar perur verða stöðugt algengari á almenningssalernum borgarinnar.

Bláa ljósið fælir burt fíklana

Eiturlyfjaneysla Stöðugt verður algengara að bláar perur séu settar í ljós á almenningssalernum til varnar gegn eiturlyfjafíklum. Þannig hafa bláar perur verið settar í ljósastæði á almenningssalernum á Slysavarðstofunni og í Sundhöll Reykjavíkur. Fíklarnir sjá ekki æðarnar í bláu ljósi. Ólafur þorgeirsson yfirlæknir á Slysavarðstofunni, segir að fíklarnir eigi erfiðara að sprauta sig í bláu ljósi en vörnin sé ekki hundrað prósent."

Frásögnin um þetta bláa ljós sem hindrar fólk í verkum myrkursins minnti mig á þann sem sagði,

:,, Ég er ljós í heiminn komið, svo að enginn sem á mig trúir, sé áfram í myrkri. Ef nokkur heyrir orð mín og gætir þeirra ekki, þá dæmi ég hann ekki. Ég er ekki kominn til að dæma heiminn, heldur til að frelsa heiminn. Sá sem hafnar mér og tekur ekki við orðum mínum, hefur sinn dómara: Orðið sem ég hefi talað verður dómari hans á efsta degi. Því ég hefi ekki talað af sjálfum mér, heldur hefir faðirinn, sem sendi mig, boðið mér, hvað ég skuli segja og hvað ég skuli tala. Jóh.12:46-49.

15.11.2006 22:07

Afmælisóskir

Kæru afkomendur sem hafið átt afmæli nýlega.  Mig langar að færa ykkur síðbúnar afmælis óskir.  Suma hefi ég haft samband við.  Nöfnin eru eftir röð í mánuðunum.  Fyrst er þá sonardóttirin Sara 2. október, þá faðir hennar 6 október og yngri dóttir hans Anna 27 okt.  Þessi búa í Danmörku. Næst kemur dóttir mín Guðný sem býr á Akureyri.  Hún á afmæi 12 nóvember og dagin eftir 13 nóv. rekur lestina Hrefna Sæunn sem dvelur nú sem námsmaður á fyrsta ári úti í Danmörku.  Með afmælis óskunum sendi ég ykkur lítið ljóð sem  heitir,

                        Trúfastur vinur

      Ég á þann vin, sem aldrei brugðist hefur,

      sem alltaf stöðugt hefur reynst mér trúr,

      er hjálp og styrk í hverri raun mér gefur

      og hrifið fær mig hverri freisting úr.

 

      Hann annast mig svo ástúðlega blíður.

      í elsku hans og náð er sál mín þyrst.

      ,,Ó, komið til mín allir ", blítt hann býður,

      _Hver betri átti vin en Jesúm  Krist?

 

      Og, vinur þinn nú vill hann einnig vera

      að vernda þig og styðja lífs á braut.

      Hann fyrir þig vill hverja byrði bera

      og bæta hverja sorg og lífsins þraut.

                              S.G.J.

      Kær kveðja Þ.G.P.

 

 

10.11.2006 23:02

Ágæt uppfinning

Eigðu mig, eigðu mig.

Þegar ég var ung heyrði ég orðtak sem hljómar svona: ,,Hann þarf nú meira með, hann búskapur en að segja, eigðu mig, eigðu mig". Eins er það, þegar maður hefir eignast kött, þá er að mörgu að hyggja. Ég vissi svo sem alveg í hverju ég gæti lent því ég er nú ekki fædd í gær og hefi fyrr lent í ýmsu í sambandi við ketti og kattaeigendur. Fyrir mörgum árum vann ég með konu sem mér féll mætavel við. Hún átti frjósama læðu og þurfti því að reyna að troða kettlingunum inn á einhverja sakleysingja sem ekki áttu kött fyrir. Ég var nú lengi treg til , því að þótt ég hafi alltaf verið hrifin af köttum, þá var ég búin að reyna að það er hægt að fá meira en nóg af þeim, sérstaklega af læðum. Ég sagði konunni að ég vildi alls ekki læðu. Hitt væri frekar möguleiki með fress sem hún greip þá eins og gefinn hlut. Dag nokkurn birtist hún svo með skenkinn og afhendi mér hann með miklum asa. Að mér læddist illur grunur en kunni ekki við að auglýsa tortryggni mína opinberlega með því að skoða undir kvikindið.

Það er nú viðkunnanlegra að hafa einhverjar sannanir í höndunum áður en farið er að sýna fólki opinberlega að efast sé um heiðarleika þess. Konan mátti ekkert vera að því að koma inn og stoppa og var horfin eins og snæljós. Þá fékk ég nú tækifæri að prófa getspeki mína og hvað kom ekki á daginn ? Læða var það. Ég gat séð fram á, að á stuttum tíma gæti ég komið mér upp heilli hjörð af köttum án þess að þurfa að borga nokkurn fressatoll. Fjórir ?fimm fresskettir mundu hefja umsátur um húsið mitt á hverju gangmáli læðunnar og þar ofan í kaupið sprauta miður vel þefjandi ilmefni á útihurðina og þröskuld húss míns, já og ef til vill kjallaragluggana líka. Ég kvartaði auðvitað yfir þessum prettum við konuna en hún taldi þetta nú ekki mikið mál. Bara að gefa henni pilluna. Ég fékk uppgefið hvenær slíkt ætti að hefjast, en mín læða varð nú svo bráðþroska að hún náði að verða kettlingafull áður sá tími kæmi, sem mér var uppgefinn.

Jæja, nú var ég aftur komin með læðu, búin að láta skrá hana, örmerkja og ormahreinsa. Nú þurfti að fara að huga að getnaðarvörn, annað hvort með uppskurði eða töflum. Við völdum nú töflurnar og maðurinn minn fékk upplýsingar hjá dýralækni um hvernig ætti að haga sér við það að koma pillu ofan í kisu. Hann hélt á henni og lét hana gapa og ég lét töfluna detta niður í ginið hálfhrædd um puttana á mér því hún er vel tennt. Þetta fór vel í fyrsta sinn en ekki jafnvel í næsta skipti. Þá var hún víst búin að gera sér grein fyrir að þetta héti ofbeldi, sem verið væri að beita hana og hugsaði sér að láta hart mæta hörðu. Hún hafði yfir að ráða fimm flugbeittum klóm á hverri löpp og sá sem hagaði sér svona við hana, skyldi nú aldeilis komast að því fullkeyptu. Við þessa árás varð haldaranum svo bilt að hann sleppti takinu og um leið stökk Uppáþrengja frjáls úr fyrri skorðum og skyrpti töflunni langt fram á gólf. ,,Mörg er búmannsraunin" eins og þar stendur.

Framtíðin var skýlu hjúpuð hjá okkur og ekki augljóst hvað til bjargar yrði með að koma lyfinu ofan í köttinn í framtíðinni En eitthvað þeim til líknar leggst sem ljúfur Guð vill bjarga. Nú datt húsbóndanum harðfiskurinn í hug. Hann hefir vanið hana á að gefa henni smáharðfiskbita á kvöldin eins og sumir fá konfektmola. Hún er vitlaus í harðfisk. Hann sker nú lítinn bita af harðfiski niður og gefur henni og svo vefur hann öðrum bita utan um töfluna og þetta heppnaðist átakalaust og rann ljúflega niður. Hefur síðan heppnast fram að þessu. Stundum hefir taflan viljað bítast sundur og detta úr umbúðunum en þolinmæði þrautir vinnur allar. Svona mannlega séð á húsbóndinn allan heiður af þessu framtaki og uppfinningu, sem hefur orðið enn einfaldari í framkvæmd með því að nota heldur nýjan fisk hráan til að setja töfluna í.

02.11.2006 16:53

Sunnudagur 22/10.

Skroppið til höfuðstaðarins 22/10

Kunningi okkar, sem við höfðum smávegis kynnst, meðan hann bjó hér í Keflavík, hafði hringt og boðið okkur í afmælisveislu sonar síns sem var að verða fjögurra ára. Við vorum búin að vera á sunnudagssamkomu kl.11 um morguninn, sem tekur allt að tveimur tímum með eftirspjalli í loftstofunni. Þegar heim kom fórum við að hita matinn og borða. Við höfum alltaf þennan gamla sið að borða heita máltíð um hádegi. Það er auðvitað engin nauðsýn, en af því ég er svo löt finnst gott að ljúka þeirri máltíð af, sem meiri tíma tekur og eiga hina léttari eftir seinnipartinn. Mér finnst það mikil fyrirmyndarregla sem maður les um í Gamla testamentinu að gyðingar áttu að elda og baka daginn áður, það sem með þyrfti til að eta á hvíldardeginum. Þannig gátu meira að segja skepnurnar fengið hvíld. (Mós.20: 10) Þrælarnir og ambátirnar einnig ásamt hinum, ef ekki voru skepnur að detta í gryfjur sem draga þurfti þær uppúr, samanber Matt. 12:11.

Sjálfsagt hefði ég getað verið búinn að koma þessari reglu á hjá mér fyrir 50 árum, að elda fyrir tvo daga í einu og græða mikla hvíld á góðu skipulagi. Páll postuli lagði mikið upp úr góðu skipulagi eins og líklega flestir sem koma miklu í verk. Í Kólossubréfi öðrum kafla, segist hann í anda horfa með fögnuði á gott skipulag hjá þeim. (Útgáfan 1946.) Það getur komið að gagni í eldhúsunum líka. Annars er nú ekki sambærilegt að snúa rofa á rafmagnseldavél eða fara út á mörkina að tína saman viðarkvisti eða grámosa eins og ég man eftir, til þess að kveikja eldinn við. Nú eftir að við höfðum lokið máltíð þennan áminnsta sunnudag og lagt okkur smástund á eftir þá vorum við það hress að við ákváðum að fara í afmælið. Það varð að samkomulagi að ég æki inn að álverinu. Þar er stórt stæði og gott að skipta. Mér finnst ágætt að láta aka mér en það má ekki verða að fastri reglu þá færi mér að finnast erfitt að byrja aftur, þótt ég aki alltaf eitthvað í hverri viku að Bónus eða Kaskó. Það er samt öðruvísi að aka innanbæjar á 50, heldur en á 90 á vegum úti.

Ákvörðunarstaður okkar var í Breiðholtinu svo mér fannst auðvitað miklu öruggara að hann æki þangað til að finna staðinn, því hann hefur svo miklu betra sjónminni og hafði farið þetta einhvern tíman áður. Líka lesið sér til á kortinu á leiðinni til Hafnarfjarðar. Allt gekk líka að óskum að finna staðinn. Þar voru nokkrir samankomnir á ýmsum aldri af þremur þjóðernum, svo langt sem ég vissi, meðal annars ein fjölskylda sem við þekktum. Eftir kaffidrykkju og eðlilegan stans kvöddum við og héldum heimleiðis. Það var yndislegt veður og því má bæta við, að þótt leiðin suður með sjó bjóði ekki upp á stórfenglega náttúrusýn, aðeins hraunið svart og grett, næst manni, þá er himininn oft ákaflega fallegur með allskonar yndislegum skýjabólsltrum og rauðu sólsetri við hafsbrún. Það er eins og segir í 19 sálminum í Biblíunni:

,, Himnarnir segja frá Guðs dýrð,

og festingin kunngjörir verkin hans

handa.

Hver dagurinn kennir öðrum,

Hver nóttin boðar annarri speki.

Engin ræða engin orð,

ekki heyrist raust

þeirra.

Og þó fer hljómur þeirra um alla jörðina,

og orð þeirra ná til endimarka heims.

Þar reisti hann röðlinum tjald.

Hann er sem brúðgumi er gengur út

úr svefnhúsi sínu,

hlakkar sem hetja til að renna skeið sitt.

Við takmörk himinsins rennur hann upp,

og hringferð hans nær til enda himins,

og ekkert dylst fyrir geislaglóð hans.

  • 1
Flettingar í dag: 87
Gestir í dag: 29
Flettingar í gær: 36
Gestir í gær: 7
Samtals flettingar: 99750
Samtals gestir: 20162
Tölur uppfærðar: 21.7.2024 14:43:33

Eldra efni

Tenglar