Þóra Guðrún Pálsdóttir

15.10.2007 21:37

2 september

Nú er orðið langt síðan ég hefi sest við skriftir. Tíminn hefir farið í að pakka búslóð og gera hreint. Til stóð að flytja um þessi mánaðarmót. Það dregst vegna þess að íbúðin sem við ætlum að flytja í er ekki tilbúin. Við fáum að vera hér hálfan mánuð í viðbót á okkar fyrra heimili. Á morgun ætlum við að fara í sumarbústað sem Kennarar eiga austur á Flúðum og vera þar fram á föstudag. Við höfum hvorugt farið í orlofsbústað áður í okkar félögum. Við ætlum að drasla kettinum með og fórum því með hann í prufutúr í dag í bílnum Hún vældi mestallan tíman í nýja búrinu sem húsbóndinn var búinn að laga handa henni en var afskaplega ánægð þegar við vorum komin lifandi heim aftur úr þessu skelfilega ferðalagi.

Daginn eftir munum við hafa farið austur á Flúðir með kisu í farteskinu sem bar sig þolanlega, þótt ekki verði sagt að hún hafi skemmt sér konunglega. Hún heitir nú reyndar Uppáþrengja en tölvan vill ekki kannast við að það orð sé nothæft sem nafn á skepnu, heldur skal hún heita Uppáþrenging. Kennarar hafa líklega aðeins einn bústað sem leyfilegt er að vera með dýr í. Þegar við báðum um leyfi fyrir kettinum var hætt við að láta okkur fá nýjan bústað. Ég er ekki móðguð út af því, Mér finnst það bara mjög eðlilegt. Við fengum ágætan bústað umlukinn trjám svo rétt sást í heiðan himinn. Það rigndi mikið þessa daga sem við dvöldum þar en við undum rólegheitunum og hvíldumst. Kisa fékk að fara út í skóginn en ekki með mínu leyfi. Ég var búin að sjá marga fugla og var hrædd um að hún sæist ekki meir en hún var vör um sig og fylgist grannt með til að missa ekki af sínu athvarfi og aðstandendum.

Flettingar í dag: 64
Gestir í dag: 22
Flettingar í gær: 57
Gestir í gær: 20
Samtals flettingar: 77984
Samtals gestir: 16236
Tölur uppfærðar: 25.4.2024 11:48:14

Eldra efni

Tenglar