Þóra Guðrún Pálsdóttir

18.10.2007 01:22

Föstudagur

Föstudagur 7. 9.

Daginn þann lögðum við af stað heim eftir að hafa gert hreint í bústaðnum og reynt að skilja vel við. Þá var sæmilegasta veður. Fyrst fórum við niður á Selfoss. Þar hittum við vin okkar Hallgrím Guðmannsson og þágum hjá honum góðgerðir. Létum kisu dúsa í búrinu sínu út í bíl á meðan. Á eftir fórum við að heimsækja Kristinn og Lilju. Kristinn er uppeldissonur Ásgríms frá 12 ára aldri. Þau tóku okkur með virktum og kisu var boðin mjólkurskál sem hún tók þó með fyrirvara en þetta hafði samt góð áhrif. Hún virtist draga það af gestrisni þessa fólks að hér þyrfti engan sérstakan vara að hafa, í viðkynningu við það. Hún er nú samt þeirrar gerðar aðhún flanar ekki í fang ókunnugra.

Eftir að hafa þegið góðgerðir og spjallað nokkra stund, héldum við af stað heim og gekk það vel. Héldum svo áfram að pakka næstu daga og undirbúa flutning.  Veðurspáin mun ekki hafa verið uppörvandi fyrir laugardaginn 14.  Þegar við vöknuðum var ausandi rigning, já hún var mikil. Ég hugsaði að það gæti létt seinnipartinn og það mætti biðja Guð að láta létta. Ásgrímur taldi að ég gæti gert það. Ég vonaði nú bara að hægt yrði að flytja þrátt fyrir allt. Það hafði hlaðist svo mikið upp af smákössum á ganginn svo erfitt yrði að koma stóru hlutunum framhjá nema að flytja kassana fyrst. Ákváðum því að reyna að flytja þá nokkra í okkar bíl því hægt er að leggja sætin niður í honum.

Helga dótturdóttir Ásgríms er nýflutt í Keflavík og hennar fjölskylda var búin að bjóða fram hjálp sína og komu þau fljótlega eftir að Ásgrímur hringdi í þau og einnig komu 2 vinir sonar þeirra. Rigningin fór nú minnkandi þótt eitthvað rigndi allan daginn. Er fram leið færðist kapp í liðið. Helga mun hafa hringt í systur sína Jensey og hún kom og hennar maður. Ekki var hætt við, fyrri en allt var útborið af hæðinni og aðeins eftir í bílskúrnum og geymslunni í kjallaranum, því að bílskúrinn í Engjadalnum var ekki tilbúinn. Þessa nótt sváfum við í nýju íbúðinni sæmilega sátt og sæl yfir framgangi mála og kötturinn líka, yfir að hafa sín venjulegu húsgögn að hnusa af og hátta við og húsbændur líka

Flettingar í dag: 70
Gestir í dag: 15
Flettingar í gær: 74
Gestir í gær: 17
Samtals flettingar: 77852
Samtals gestir: 16188
Tölur uppfærðar: 23.4.2024 17:32:10

Eldra efni

Tenglar