Þóra Guðrún Pálsdóttir

12.05.2008 22:57

Bogi Péturson

                                                                                                                                                   Þegar fólk hefur náð mínum aldri verð ég þess vör að vinaflokkurinn þynnist ört.  Þetta er gangur lífsins.  Samferðamenn um langan aldur hverfa af sjónarsviði.  Nú hefur Bogi  Pétursson lokið sínum starfsdegi.  Hann var safnaðarbróðir minn um áratugi á Akureyri.  Hann var fæddur á Eskifirði þriðja febrúar 1925 en lést á sjúkrahúsi Akureyrar 17 apríl  2008 og var jarðaður frá Glerárkirkju 29 sama mánaðar.

 Það sem mér fannst einkenna Boga öðru fremur var fúsleiki hans til starfa. Ævi hans hefur verið gerð góð skil i blöðum og margir hafa minnst hans.  Ég held að ég hafi kynnst Boga fyrst sumarið 1955 er ég kom til Skjaldarvíkur til afleysinga á elliheimilinu en þar var þá starfandi hjúkrunarkona,trúsystir mín og vinkona Sóley  Jónsdóttir.  Hún notaði sitt sumarfrí til að vinna við Ástjörn.  Þegar hún kom heim þaðan fór ég austur þangað, til að vinna þar.

 Þá var verið að skipuleggja hverjir væru fáanlegir úr söfnuðinum til að vinna við heimilið yfir sumarið.  Drengirnir voru 18 minnir mig og starfsemin fór fram í gömlum hermanna bragga sem Arthuri hafði verið gefinn.  Margt var heldur frumstætt sem ekki var óeðlilegt þar sem þetta var ung starfssemi.  Ég var þarna með systur Boga sem María hét og var afar rösk og dugleg eins og Bogi og eflaust fleiri af þeim mörgu systkinum þótt ég kynntist þeim ekki á sama hátt og þessum tveimur sem  voru í Sjónarhæðarsöfnuðinum.

 Í einni minningargreininni um Boga í Morgunblaðinu stendur að hann hafi starfað í 54 ár við sumarbúðirnar, þar af í 40 ár sem forstöðumaður.  Aðalstarfsemin fór að vísu fram yfir sumarið.  Þá fórnaði hann sínu sumarfríi og varð að auki að fá sig lausan úr sinni vinnu á verksmiðjunni í viðbót.  Það var eflaust oft erfitt að safna nógu fólki til starfa, því söfnuðurinn var alltaf fámennur en alltaf  rættist úr þessu með fólki héðan og þaðan.  Ekki minnst hafa Færeyingar komið þar við sögu, svo Ástjörn hefur getað haldið áfram.

 Guð gaf honum Boga mikið úthald og ódrepandi þrautseigju bæði við þetta starf og önnur sem hann tók sér fyrir hendur, svo sem sunnudagaskólstarf og fangaheimsóknir um margra ára skeið og skátastarf.  Guð gaf honum líka umburðarlynda konu sem stóð með honum í anda í því starfi sem hann vann fyrir Drottinn þeirra beggja.  Slíkir menn, sem eru svo störfum hlaðnir í þjónustu Guðsríkis, hafa oft minni tíma afgangs fyrir sín heimili,  heldur en aðrir, en ekki hefi ég heyrt óánægju hjá henni í sambandi við það.

 Við getum þakkað Drottni fyrir að gefa þjóð okkar slíka menn, sem eru fúsir að leggja sig fram í þjónustunni, og gefa þeim burði til þess bæði andlega og líkamlega.

Flettingar í dag: 7
Gestir í dag: 3
Flettingar í gær: 140
Gestir í gær: 11
Samtals flettingar: 78963
Samtals gestir: 16392
Tölur uppfærðar: 4.5.2024 08:34:03

Eldra efni

Tenglar