Þóra Guðrún Pálsdóttir

11.10.2007 18:59

Þegar vantar verkamenn

...Nú  Drottinn sem forðum þig ávarpar enn;
  ,,til uppskeru verkamenn þarf."
   Sjá, neyðin er mikil og nótt kemur senn,
   þá notast ei lengur þitt starf. Þ.M.J.


  

11.10.2007 00:28

1.september

Ég set hér inn smápistil sem ég skrifaði 1 september.  Þessari nýju tölvu minni hefir ekki þóknast að halda utan um neitt sem ég hefi skrifað fyrst í Wörd.  
 

05.08.2007 23:38

Tuttugasti og sjöundi júlí 2007.

 

Ennþá var sama góða veðrið. Ég heyrði að bóndi minn var að tala við kunningja sinn í síma. Þeir höfðu verið að dunda sér eitthvað saman nýlega heima hjá honum. Nú var komið að því að minn maður þurfti aðstoðar við. Sagði reyndar seinna er við vorum búin að sjá hve erfitt verkið reyndist í framkvæmd ,að ef hann hefði verið vel frískur, þá hefði hann gert þetta sjálfur en ekki lagt það á aðra. Þannig var að hann þurfti að skipta um blöndunartæki í eldhúsinu.og hafði þessi vinur hans einmitt unnið að pípulögnum sem iðn. Það var spurning um hvenær hann gæti komið. Hann sagðist geta komið strax. Það var nú gott og blessað. Biðin gæti nú orðið allmiklu lengri ef biðja ætti einhvern sem væri á vinnumarkaði en nú er bara rúmur mánuður þar til við eigum að afhenda húsið.

 En nú fannst mér ég ekki eiga nógu gott með kaffinu og fór að hugsa að annaðhvort yrði ég að fara í búðina eða reyna að baka pönnukökur en þar sem ég þreytist í fótum og baki við að standa lengi við eldavélina þá ákvað ég heldur að fara í búðina. Minn maður er nú alltaf hjálpsamur og spyr hvort hann megi ekki baka pönnukökurnar og hvort það vanti mjólk í þær. Ég sé að það er ábyrgðarhluti að drepa niður göfugar hugsjónir sem hann hefir fengið til að létta lífsgöngu konu sinnar, þótt hann sé ekki vanur að standa í pönnukökubakstri. Ég segi að það sé til hálfur lítir af mjólk og dugi í hálfa uppskrift. ,,Láttu mig bara hafa uppskriftina," segir hann. Ég sýni honum blaðsíðuna og brýni fyrir honum að fara nákvæmlega eftir uppskriftinni. Mér datt í hug um leið að ég væri á sama róli og Páll þegar hann var að brýna fyrir Korintumönnum, ,, Farið ekki lengra en ritað er." Mínum manni finnst oft þurfa meira salt í mat, heldur en ég er sátt við og í pönnukökum er gert ráð fyrir salti. Hann tók öllu vel.

Ég ákveð svo að fara í búðina og bæta einhverju meiru við. Við snerum okkur því næst hvort að sínu, hann að pönnukökunum og ég að fara í búðina. Ég þurfti líka að fara í efnalaug með sæng sem ég vildi þvo en gekk svo illa að koma henni inn í mína þvottavél. Ég vil auðvitað ekki flytja inn í nýja íbúð eitthvað sem kynni að vera svitalykt úr. Fór svo að versla á eftir. Þetta tók allt töluverðan tíma hjá mér því ég var ekkert að flýta mér fyrst ég var ein. Heima fyrir gekk allt vel. Pönnukökur hlóðust upp óaðfinnanlegar að allri gerð. Svo var bakstrinum senn lokið og hægt að fara að slaka á. Sú seinasta var á pönnunni lítil og vesöl sem oft vill verða með þá seinustu, aðeins eftir að snúa henni. Vinurinn sem ætlaði að hjálpa til með blöndunartækin birtist. Ef til vill hafa þeir strax farið að ræða um það verk sem fyrir lá og þar með gleymdist að ljúka hinu fyrra verkinu með fullum sóma. Allt þar til brunalykt og reykjarmökkur fyllti eldhús gang og stofu og áminnti þannig bakarann um að kominn væri tími til að snúa seinustu pönnukökunni.sem var á leiðinni að verða að ösku.

Í þessum svifum ber mig að garði og birti nú ekki fyrir augum. Spurningin gerðist áleitin Hvort húsgögnin yrðu gegnsósa af óviðeigandi lykt. Það sagði nú lítið þótt gluggar væru opnir. Ég varð að opna dyrnar út í garðinn og einnig aðaldyrnar sem vita að götunni til að fá gegnumtrekk og reykræsta. Bílastraumurinn var á þessum tíma nærri óslitinn eftir Hringbrautinni og golan feykti útblæstri þeirra upp að dyrunum hjá okkur eins og öðrum sem bjuggu sömu megin götunnar. Spyrja mátti hvor stybban væri óhollari. Okkur fannst óskiljanlegt að brunaboðinn á ganginum skyldi ekki fara í gang. Til að fullvissa sig um að rafhlöðurnar væru ekki útgengnar bar minn maður logandi eldspítu að honum og þá hvein í kauða þegar hann kenndi elds á eigin skinni, vælið var í meira lagi óþægilegt.

Af því að gola var úti gekk reykræstingin mun hraðar fyrir sig og að lítilli stundu liðinni gátu allir sest að kaffidrykkju og pönnukökurnar voru svo vel heppnaðar að þær áunnu sér vinsældir fram yfir annað kaffibrauð á borðinu svo að allar mættu þær sínu endadægri. Þær báru því vitni að engu var ofaukið í þeim.

Svo hófst nú viðgerðarstarfið. Pípulagningamaðurinn tróð sér inn í skápinn sem ekki var stærri en svo að efri hluti mannsins fyllti út í hann og í þessari óhagstæðu stellingu hóf hann með erfiðismunum að losa rærnar sem héldu blöndunartækjunum á vaskinum, neðan frá. Að lokum hafðist það en tækin sátu samt föst. Minn maður taldi að sjálfsagt hefði cilicon verið sett undir þau. Það fannst á manninum að slíku hefði nú gjarnan mátt sleppa. Mér skildist á honum að smiðir vildu hafa allt svo vandað að til vandræða leiddi en það væri algjör óþarfi. Minn mann setti hljóðan undir þessari ályktun. Hann tilheyrir þeirri stétt sem um var rætt og verkið var hans.

Allt um það losnuðu nú tækin allt í einu. Fljótlega eftir þetta vildi Ásgrímur fresta frekari framkvæmdum og maðurinn fengi hvíld frá erfiði sínu til næsta dags. Það tók á okkur bæði að sjá hve erfitt þetta verk var fyrir aldraðan mann við þessar aðstæður, þótt hann vildi sjálfur ekkert úr því gera. Hann var þessu samþykkur og sagðist mundi koma daginn eftir, sem hann og gerði, til að ljúka verkinu. Guð var okkur miskunnsamur og gaf að maðurinn hlaut ekki skaða af þessu erfiða verki



08.07.2007 01:44

Vestmannaeyjar

VESTMANNAEYJAR

Þann 22 júní fórum við 3 saman til Vestmannaeyja á sumarmót Hvítasunnumanna. Það vorum við hjónin og Kristinn sonur Ásgríms sem er forstöðumaður Hvítasunnusafnaðarins hér. Hann hafði nú alla ábyrgð á því að panta handa okkur flugfar og gistingu. Það má nú kannski segja að honum hafi borið siðferðileg skylda til þess gagnvart sínum föður en hann skuldaði mér nú ekkert viðvíkjandi sínu uppeldi en sýndi mér sömu umhyggju og honum. Guð var svo góður við hann að hann lét móður hans lifa svo lengi sem hann var í foreldrahúsum og langt fram yfir það. Hann var orðinn harðfullorðinn, giftur og orðinn húsbóndi á egin heimili, auk heldur forstöðumaður síns safnaðar þegar ég kom til sögu. Ég náði því aldrei að höndla vondu stjúpu hlutverkið margfræga gagnvart honum. Þetta er nú bæði gott og ekki gott. Auðvitað gott og áhyggjulaust að þurfa ekki að standa í neinum uppeldiserjum við annarra manna börn en þar sem ekkert er gert hvorki gott né illt verður heldur ekkert að þakka fyrir.

Við það að gerast kona föður hans má segja að kynni okkar hafi byrjað sem ókunnugs fólks í söfnuði, sem mætist oft í viku við messur og bænir. Ég kynnist honum þó meira en hann mér, því það er hann sem heldur ræðurnar og ég hlusta. Hann veit ekkert hvernig mér líkar ræðan því ég læt það ekkert í ljós, er of feimin til að eyða orðum að þarflausu á þennan þroskaða mann. Þetta er líka merkilegur maður, það eru ekki allir sem fá köllun til að sinna hirðisstarfi við hjörð Drottins.

Þegar ég var krakki þá sótti bróðir minn sem var 11 árum eldri en ég , íslendingasögurnar í bókasafnið. Í þeirri bókafátækt sem búið var við, þá setti maður það ekkert fyrir sig þó málið væri fornlegt. Ég held að eitthvað hafi ég innbirt af eðlisfari umræddra persóna sem þar er getið. Svo sem, að við hæfi væri að láta engin svipbrigði sjást, á hverju sem gengi. Seinna varð nú Biblían í meira uppáhaldi en Íslendingasögur.

Jæja, ferðin hófst með því að ekið var inn á Reykjavíkurflugvöll seinnipart föstudagsins 22 júní. Þar áttum við að taka flugvél til Vestmannaeyja. Kristinn sótti farmiðana handa okkur. Eftir litla stund vorum við komin í loftið og eftir svo sem 20 mínútur var vélin sest í Vestmannaeyjum. Þangað hafði ég ekki komið áður og ekki haft grænan grun um að þar væri svo fallegt og víðlent eins og reyndist vera. Á flugvellinum mættum við tveimur mönnum úr Keflavík, sem komið höfðu sjóleiðina og höfðu tekið bíl með sér. Voru þeir þar komnir til að aka okkur til náttstaðar og reyndar eitthvað um eyjuna fyrir samkomu. Klukkan 17 var bænastund í safnaðarhúsi Hvítasunnumanna. Það er mikið hús og vel við vöxt. "Gefst í gerðar spyrður," ,Það var trú manna fyrrum. Mætti það rætast sem fyrst hjá þessum hugumstóra söfnuði. Steingrímur sem verið hefur forstöðumaður ávarpaði okkur og var ánægjulegt að heyra og sjá hve snöggan kipp heilsufar hans hefur tekið í rétta átt. Kl. 8 um kvöldið var fagnaðarsamkoma. Hinrik Þorsteinsson hafði orðið og fórst það vel þótt fyrirhuguð ræða hefði víst tekið sér það bessaleyfi að stinga höfundinn af og sitja bara heima. Við fimm úr Keflavík fengum svo næturgistingu hjá Árnýju og góð rúm að sofa í.  Daginn eftir sem var laugardagur þá var samkoma klukkan 11 nutum við lofgerðar og kennslu sem Lilja Óskarsdóttir sá um. Eftir það fórum við að fá okkur eitthvað svanginn. Klukkan 14 gat maður valið um ýmislegt. Síðan fyrir jól hafði vinstri fótur minn verið mér misjafnlega erfiður og verið reynt að sprauta nokkrum sinnum í mjaðmarliðinn, með ekki nógum árangri og þar eftir var það sama uppá teningnum með vinstri axlarlið,en með það fór ég ekki til læknis. Hvorumtveggja var þó orðið betra er hér var komið sögu. Mér hefði þó ekki hentað að standa á útisamkomu. Við völdum því að fara í útsýnisferð með rútu um eyjuna og vorum hátt í 3 tíma. Þá var ég nú orðin lúin, því ég verð dálítið þreytt að sitja lengi í bíl. Þegar þessu ferðalagi lauk langaði mig ekki í annað meira en að fá leigubíl þangað sem við héldum til. Einhvernvegin misheppnaðist það og eftir að hafa setið nokkra stund áleit ég að ég hlyti að geta komist gangandi og lögðum af stað. En það reyndist mér sú erfiðasta ganga þótt hún væri ekki löng. Ég hátttaði og svaf lengi. Klukkan hálf átta var svo samkoma sem Mike og Sheila Fitzgerald töluðu á og um áhugavert efni. Þau eru ávallt svo elskuleg. Tónleikar áttu að hefjast kl.11 um kvöldið. Guð hefur gefið mér mjög takmarkaða hæfileika til að meðtaka eða framleiða hljómlyst svo ég þráði nú meira að fara í rúmið, losaði þó svefn einhvern tíma og fannst vera ljós í herberginu og var undrandi á að húsbóndinn hefði ljós.

Honum er nú frekar lítið um það og umber það frekar en aðhyllist, þegar ég er að lesa við ljós. Heima erum við búin að einangra skinið frá því með dökkri svampsessu úr bílsæti eða baki sem við klemmum á milli rúmanna. Samviskan fer nú samt að ónáða mig ef ég heyri hann hreyfa sig þegar klukkan er á tólfta tíma og að hann sé ef til vill enn vakandi. Ég færi mig þá yfir í annað herbergi ef svefninn er enn ekkert farinn að banka á dyrnar hjá mér.  Þessum umbúnaði er venjulegu fólki ekki séð fyrir á gistiheimili. Ég horfði því fram svefn og bókarlausa nótt af því ég var búin að sofa svo lengi þennan dag eftir útsýnisferðina. En móti öllum líkum sofnaði ég frekar fljótt, hefi líklega enn verið þreytt eftir áreynslu dagsins.  Hvað viðkom ljósinu sem ég þóttist sjá um nóttina skýrðist það um morguninn. Það lá spegill lágréttur í glugganum og er sólin um nóttina skein á hann varpaði hann birtunni upp á vegginn svo að þetta sýndist eins og ljós og birtu lagði um herbergið.

Það var dýrlegur morgunn að vakna og líta út um gluggann, alveg logn og glaða sólskin og þessi voldugi klettur og umhverfið svona hátt uppi. Það er nú góði kosturinn. Einhver hafði sagt í mín eyru að það rigndi mikið í Vestmannaeyjum og þá er eflaust allt annað um að litast.  Klukkan nýju átti að vera bænaganga. Ásgrímur fór í hana. Ég fór ekki. Það stendur í Biblíunni um einhvern mann að honum aukist æ þróttur á göngunni.  Það er ef til vill þannig með Ásgrím líka.  Hann er þremur árum eldri en ég svo ég ætti einnig að geta orðin sprækari til göngunnar eftir þrjú ár.

Um hálftólf fæ ég svo orðsendingu frá honum að hann vill fá mig í mat á tiltekinn stað. Hann hafði þá hitt hjón í göngunni sem buðu okkur í mat. Sannaðist þar með máltækið, ,,Sveltur sitjandi kráka en fljúgandi fær." Í ljós kom að reyndar vorum við tengdar konan og ég. Hafsteinn blessaður ók mér þangað. Hann var okkar þræll sem bíllaus komum úr Keflavík. Klukkan eitt var svo komið að mótslitum. Hafliði Kristinsson hafði þá orðið. Það var bara vel til fundið, friðarins maður að ég ætla að eðli til og mannasættir að menntunarstigi. En ég vona að það hafi nú ekkert alvarlegt komið upp í samfélagi okkar á þessu móti. Þetta var svo stutt og reyndi þar af leiðandi minna á samskiptahæfni þátttakenda.

14.06.2007 13:57

Sól skeiní heiði

Sólin skein í heiði



Það var fallegur og sólríkur dagur í dag 12 júní 2007. Engin ský sem skyggðu á hinn fjarlæga fjallahring. Það er nú að vísu ekki heill hringur en í svona skyggni er bara unaðslegt að virða hann fyrir sér. Hann blasti svo vel við er við vorum að koma niður brekkuna á leiðinni frá Húsasmiðjunni. Konan sem er flutt á efri hæðina var að gróðursetja blóm á sinni lóð upp við húsið. Svona er það að fólk getur örvað nágranna sinn til dáða án þess að segja orð, bara með því að ganga vel um umhverfi sitt. Það minnti mig á að bóndi minn hefur verið vanur að setja niður sumarblóm í dálítið beð við suðurvegg hússins. Nú hefir hann ekki orðað það, líklega af því að við erum orðin leigjendur og eigum að fara 1 sept.

Mér fannst nú samt skemmtilegra að halda góðri venju og njóta þess í nokkrar vikur að horfa á blómin og svo hitt að eigandinn kæmi ekki að sviðinni jörð, eins og þegar flýjandi þjóðir hafa skilið við hýbýli sín í stríði, þegar hann tæki við húsinu 1 september. Mér fannst líka þurfa að kaupa nýjan barka við sturtuhausinn á baðinu, þótt ekki hefði verið farið fram á það. Smávægilegir hlutir hafa oft svo mikið að segja svona eins og þegar mynd hangir skökk á veggnum. Það fer ekki langur tími í að laga hana en það gerir mikinn mun. Maðurinn minn varð öllu samþykkur sem til bóta mátti teljast og hefur kannski verið búinn að hugsa það sama sjálfur.

Bara að drífa sig í það strax. Það er hans háttur að vera fljótur að koma sér að verki.

Það tekur okkur ekki langan tíma að bruna upp í Blómaval í Húsasmiðju og förum að leita að stjúpum. Ég fór nú strax að athuga hvaða litir færu vel saman í beði og vil ekkert flýta mér og kaupa eitthvað í flaustri sem ég verði strax óánægð með er heim kemur. Þetta reynir á þolinmæði húsbóndans. Hann er sennilega langt kominn í huganum við að gróðursetja. Afgreiðslukonan tekur eftir þessu þótt hann segði ekki mikið og segir, ,,Hann má ekkert vera að þessu, það er stundum betra að skilja þá eftir heima." Ég skildi fljótt að hún var að tala þetta heilræði til mín þótt of seint væri, til þess að því yrði viðkomið í þetta skipti. Góð ráð er gott að geyma til seinni tíma.

Í Orðskviðunum 15 kafla og 7 versi stendur ,,Varir hinna vitru dreifa út þekkingu."

01.06.2007 20:26

Búferlaflutningar

Búferlaflutningar fyrirhugaðir

Ég bið blogglesendur mína afsökunar á þessum ódugnaði mínum að halda uppi sambandi til að segja einhver tíðindi. Ég ætla nú að byrja á upphafinu að tíðindum

Þannig var að Ásgrímur hafði búið hér um tvö ár þegar ég flutti suður og við giftum okkur. Hann hafði keypt neðri hæð í húsi og eldri hjón áttu efri hæðina og bjuggu uppi. Það hafði nú komið til tals hjá okkur hjónum að kaupa annað húsnæði því mig hafði langað að búa heldur á efri hæð eða uppí brekku þar sem eitthvert útsýni væri. Ég hafði nú lengst minnar ævi búið við svo fallegt útsýni bæði í Hornafirði, á Lágafelli, í Efstasundi í Reykjavík og svo í mörg ár á Akureyri    Það er nú ekkert sjálfsagður hlutur því margir eiga ekki kost á meiru en að horfa í næsta vegg eða rúmlega það.

Þegar þau hjón hér í á efri hæðinni fréttu af þessum háleitu draumum frúarinnar á neðri hæðinni leist þeim ekki á. Ásgrímur var búinn að koma sér svo rækilega innundir hjá þeim á þeim tveimur árum eða þar um, sem hann hafði búið á neðri hæðinni að nú vildu þau ekki þurfa að sjá honum á bak, vitandi ekkert hvað við tæki og fengu hann til að lofa sér einhverju í þessum efnum að því er mér skilst með því að leggja saman tvo og tvo. Ásgrímur er nú svo fram úr hófi bóngóður maður og sagði mér að hann gæti ekki yfirgefið Ólaf. Ég heyrði á öllu að þeim hefði fallið vel saman. Mér sýndust nú þá,ekki miklar líkur á að við færum nokkurn tíma úr þessu húsi þar sem mér fannst nú enn síður viðeigandi að skilja ekkjuna eina eftir ef Ólafur dæi á undan, sem mestar líkur voru til, þar sem aldursmunur þeirra var svo mikill. Hann var fæddur 1915.

Hvað um það, okkur hefur öllum fallið vel hverju við annað þessi meira en 8 ár, sem við gengum inn og út um sömu dyr eftir að ég kom. Þar kom að lokum að heilsu Ólafs hafði hrakað svo mjög að hann var ýmist heima eða á sjúkrahúsinu og stiginn upp á loftið var orðinn honum algert ofurefli. Þau ákváðu þá að leita sér að húsnæði á jarðhæð, vildu eiga sitt húsnæði en ekki fara í kaupleigu að sinni. Þau fundu sér því íbúð á jarðhæð í tveggja hæða fjölbýlishúsi, sem verið var að byggja í Innri Njarðvík, skammt þar frá sem við ásamt þeim, höfðum áður ræktað kartöflur á til heimilisnota, í þessu blessaða Nýfundnalandi Njarðvíkinga til að raða niður nýbyggingum á.

Ólafur blessaður náði því nú ekki að flytja í hið fyrirhugaða hús því hann lést 7.febrúar 2007.

Ég fékk nú meiri áhuga en áður að lesa húsnæðis auglýsingar í dagblöðunum og athuga um verðið. Þá kom nú að því að Nesbyggð, byggingarfélagið sem byggði fyrir sambýlisfólk okkar, auglýsti sölusýningu hjá sér. Fórum við þangað hjónin og leist vel á íbúðina sem sýningin fór fram í og að auki var hún uppi á hæð. Hún var óþarflega stór fyrir okkur og svo var enginn bílskúr. Ég kærði mig alls ekki um stærri íbúð en við höfum um 80 ferm en fannst alveg nauðsýnlegt að húsbóndinn fengi bílskúr og í honum afdrep eins og áður fyrir verkfæri sín, því stundum hefur hann nú þurft að dytta að einhverjum hlutum fyrir sjálfan sig, kirkjuna og aðra. Þar sem okkur hentaði ekki, það sem þarna varð séð, ætluðum við að fara en sölustjórinn gafst ekki upp.

Hann vildi nú fara með okkur niður í dalina en ég sagði það óþarfa. Ég vildi ekki fara niður í þessa holu en fann á eftir að þetta var óvirðing að segja svona. Ég átti heldur að segja að mér líkaði ekki að lenda í lægðinni. Þetta er engin smáspilda, allir dalirnir sem búið er að kortleggja byggð á. Svona bjartsýni á skilið fulla virðingu. Líka hafði mér verið sagt á fasteignasölu að þarna ættu bara vera lágar byggingar, engar háar blokkir. Fasteignasalin fór með okkur lóð af lóð sem hann ætlaði að byggja á og landslagið fór smáhækkandi. Á það benti hann ef verða mætti frúnni til freistingar að komast fáeinum fetum hærra yfir sjávarmálið. Þaðan sást nú reyndar til bílanna fara um Reykjanesbrautina. Við fórum svo heim bæði með löngun eftir að eignast heldur íbúð á hæðinni. En okkur virtist sem þessi eini maður legði sig fram við að byggja litlar íbúðir sem mögulegt væri að fá bílskúr með. Þær eru líka með sérinngangi. En það skal viðurkennt að við höfum ekki skoðað handaverk allra húsbyggenda á svæðinu.

Við gátum þó fengið eina hjá þessum sölumanni í Engjadal 4, af réttri stærð og með bílskúr undir. Hún átti að vera tilbúin 1.september. Mér fannst það dálítið sérstakt að maðurinn sagði okkur að sú íbúð hefði alltaf selst fyrst í húsunum en nú var hún ein eftir og með bílskúr. Hún var í enda, að vísu óbyggð aðeins búið að steypa skrokk neðri hæðar. Nú var annaðhvort að hrökkva eða stökkva og við ákváðum að vísu ekki þá strax en nokkru seinna að stökkva og höfnuðum þar með í næsta húsi við sambýliskonu okkar úr Hringbraut 80. Við höfum nú selt en fáum að vera hér áfram til fyrsta september.

07.05.2007 10:54

Annað afm.

Annað afmæli.

Daginn eftir lögðum við af stað í annað afmæli. Það var ögn lengra að fara. Hekla fósturdóttir Ásgríms sem búsett er á Akranesi átti 60 ára afmæli. Það vill nú þannig til að við búum líklega á einna skjólsælasta staðnum í Keflavík svo við vitum ekki hvernig viðrar annarstaðar í bænum eða á Reykjanesbrautinni þegar komið er útúr bænum. Við fengum bara að kynnast því þegar við vorum komin vel af stað að veðrið var síst betra en daginn áður á sama tíma. Veðrið var þungbúið og dimma í lofti, engin þó rigning en rosalega hvasst lengst af leiðinni til Hafnarfjarðar. Þegar verst lét vildi ég að hringt væri upp á Akranes til að vita hvort veðrið væri þar, ef til vill, ennþá vitlausara. Ég hafði heyrt að stundum er hættulega hvasst á þeirri leið. Húsbóndinn hummaði það nú fram af sér og allt varð nú veðrið betra eftir að við nálguðumst Hafnarfjörð.

Eftir það var ekki yfir neinu að kvarta leiðina sem eftir var. Ég er alveg ánægð með jepplinginn okkar en hefi ekki trú á að hann sé bíla bestur í hliðarstormi því hann er fremur hár en stuttur, lítill og léttur.

Alltaf er dálítið sérstakt fyrir mér að aka framhjá, á hægri hönd, þorpinu fyrir neðan Lágafellskirkju. Þar átti ég heima um þriggja ára skeið þegar ég var innan við þrítugt. Þangað fluttum við bróðir minn ásamt móður okkar austan úr Hornafirði. Þá stóðu þarna tvö stór hús. Thór Jensen hafði áður rekið stórt kúabú á Korpúlfstöðum og þessi hús höfðu tilheyrt þeirri útgerð eða þannig held ég að það hafi verið. Annað húsanna var gríðarstór hlaða með súrheyisgryfjum í öðrum endanum. Þær voru nú komnar í aðra notkun. Búið að saga úr fyrir hurðum og gluggum og innrétta í þeim tvær íbúðir. Hinn endinn sem hafði áður verið heyhlaða hafði nú verið tekin undir bílaverkstæði Áætlunarbíla Mosfellsveitar. Bróðir minn fékk vinnu hjá bróður sínum og meðeiganda hans, á verkstæðinu og við fengum aðra íbúðina til afnota og einn af bílstjórunum fékk hina. Kýrnar og kötturinn fluttu líka í Mosfellssveitina.

Kýrnar fengu bása í stóra fjósinu sem var tómt. Við héldum þær bara til haustsins. Önnur hélt sínu lífi áfram á einu af nýbýlunum hinumegin við veginn og kom þar áreiðanlega í góðar hendur. Rauður foli fagurskapaður en ótaminn kom líka og tilheyrði mér. Ég kynntist engu hestafólki í Mosfellssveitinni og sá ekki leið til sjá um hann svo endirinn varð sá að ég lét fella hann sem var ef til vill mest eftirsjáin í. Það komst nú samt svo langt að það var lagt við hann nokkrum sinnum og virtist hann ætla að verða sjálftaminn svo þægur var hann. Bóndi austur í Hornafirði spurði mig seinna hvort hann hefði ekki orðið gæðingur. Það urðu allt gæðingar sem undan Churchill komu, sagði hann. Eigandi hans átti heima í Nesjunum. Við fylgdumst svona með heimspólitíkinni að vissu leyti í fjarlægðinni þarna austur frá og létum ,á sumum bæjum, blessuð saklausu dýrin okkar heita í höfuð æðstu þjóðaleiðtoga. Einn veturinn fæddust þrír kálfar hjá okkur

Sá elsti var svart og hvítflekkóttur og hann var látinn heita eftir forsætisráðherra Bretlands. Annar var svartur og fékk nafnið Hitler. Sá þriðji var rauður og fékk því nafnið Stalinn. Ég er nú ekki viss um að tveir þeir síðarnefndu hefðu fengið þessi nöfn ef við hefðum þekkt betur fyrirmyndirnar á þeim tíma er nöfnin voru gefin.

Mig minnir kisa mín hafi nú ekki lifað lengi eftir að hún kom suður. Hún fékk einhverja vesöld og sálaðist. Henni hafði aldrei orðið misdægurt áður um ævina það ég man til. Að líkindum hefur hún étið einhverja óhollustu eða bara verið búin að fylla tölu daga sinna.

Jæja, við vorum nú annars á leiðinni upp á Akranes nú í meinlausu veðri. Ferðin gekk því vel og við sáum afmælisblöðrur hangandi við íbúðina þegar í bæinn var komið. Hittum þar afmælisbarnið, eiginmann og hinn álitlega af komendahóp sem virðist hafa bæði dugnað og drift til að bera. Við nutum góðrar stundar með þeim og ríkulegra veislufanga. Að því loknu lögðum við af stað heim og ekkert sérstakt frá því að segja en fengum þó nokkrar snarpar vindhviður stuttu eftir að við lögðum af stað. Svo var því lokið og eftir það aðeins gott veður.

30.04.2007 16:42

Afmæli

Afmæli Benjamíns.

Hann Benjamín Þórðarson vinur okkar varð 80 ára í gær. Afmælisveislan var haldin á heimili dóttur hans, Ferjubakka 12 í Reykjavík. Við erum nokkra mánuði á sama árinu. Mikið megum við þakka Guði fyrir þessa löngu ævi sem hann hefir gefið okkur. Ég var að líta yfir minningargreinar í blaði og af þeim sem minnst var á, sá ég að einn hafði dáið 101 árs. Annar hafði dáið 83 ára og þriðji 80 ára. Hinir voru mun yngri eða 60 ára 58 og 52 ára. Við erum lánssöm sem Guð hefur vitjað á ungum aldri og gefið okkur fullvissu um eilíft hjálpræði fyrir trú á frelsisverk Drottins Jesú, ættum því að geta tekið óvissri dauðastund með meira jafnvægi en þeir sem ekki hafa enn tekið við og tileinkað sér verk meðalgangarans. Hallgrímur Pétursson segir í 39 passíusálmi:                                                        

Enn þú skalt ekki treysta 

óvissri dauðans stund,

né guðs með glæpum freista,

gjörandi þér í lund,

náðartíminn sé næsta

nógur höndum fyrir;

slíkt er hættusemd hæsta;

henni guð forði mér.(eldri rith.)

Jæja, okkur hjónum hafði verið boðið í afmælisveislu Benjamíns. Lögðum við af stað kl.rúmlega 2 héðan úr Keflavík í yndislegu sólskini en ekki höfðum við nú lengi ekið þegar við erum komin í eitthvert rosalegt rok sem lagðist svo ískyggilega á hlið bílsins að mér var ekki sama. Það var líka meiri hvinur þessu samfara í bílnum en ég hefi áður lent í. Ég hugsað að ég vildi ekki fara heim aftur fyrr en veðrinu slotaði en við vorum svo lánssöm að við lentum ekki út fyrir þá aksturslínu sem okkur tilheyrði og veðrið fór batnandi. Það gekk vel að finna húsið. Maðurinn minn er svo klókur að rata þegar hann er búinn að líta í símaskrána áður en við förum að heiman og ég verð ennþá meiri rati fyrir bragðið, af því ég þarf aldrei að leggja það á mig að villast nokkrum sinnum við að reyna að rata.

Það var gaman að koma í afmælið og hitta þar afmælisbarnið og ýmsa kunningja. Þiggja góðar veitingar sem nóg var af. Af heimferðinni er nú ekkert að sérstakt að segja. Er við horfðum til fjallanna úr Reykjavík voru þau öll hulin í einhverjum mistursmekki, líklega stormurinn að dreifa moldarkornum fósturjarðarinnar út yfir lönd og höf. Sumir vilja meina að allt sé sauðkindinni að kenna. Mér finnst íslendingar eigi að bera virðingu fyrir sauðkindinni, fyrir að halda hita á okkur í gegnum aldirnar. Við höfum nú skemmstan tímann gengið í hör eða silki. Það var ullin innst sem yst þegar ég man fyrst og nokkrar voru kynslóðirnar komnar á undan mér. Ég held nú að eldgosin og jökulárnar komi nú eitthvað við sögu í sambandi við uppblásturinn. Veðrið sem við fengum í bakaleiðinni til Keflavíkur var hið allra besta.



 

05.04.2007 11:54

Stíg sjaldan fæti þínum í hús náunga þíns

Stíg sjaldan fæti þínum í hús náunga þíns svo hann verði ekki leiður á þér og hati þig.

Þetta segir hinn vitri Salómon í orðskviðum sínum 25.17. Þetta sagði hann löngu áður en Heilagur Andi var gefinn söfnuðinum á Hvítasunnudag. Eftir það var talað um að hinir kristnu höfðu allt sameiginlegt um tíma, því við lesum um, að enginn taldi neitt vera sitt, það er hann átti. Þá var kærleikurinn svo brennandi. En í Matt 24.12 gerir Jesús ráð fyrir að þeir tímar komi, vegna þess að lögleysi magnist muni kærleikur alls þorra manna kólna.

Þótt Salómon geri ráð fyrir að við getum orðið leið á meðbræðrum okkar sem ekkert hóf hafa á heimsóknum sínum, þá getur hið sama alveg eins átt við dýr.

Þegar ég átti heima í Hornafirði þá fengum við að kynnst því. Ein rauð meri sem átti heima utar í sveitinni varð svo yfirkomin af ást á hrossunum okkar að hún virtist hvergi una sér nema þar sem þau voru. Þessi meri virtist nú eiga eitthvað rólega daga heima hjá sér, var víst ekki í neinni stritvinnu og sýndist hafða góðan tíma til að slæpast. Hún var heldur ekkert í handraða ef á henni þurfti að halda þar sem hún hélt sig fjarri sínu heimili. Hún taldi nú ekki eftir sér sporin að hlaupa til okkar eða ganga. Þetta var ekki nema klukkutíma gangur frá hennar heimili. Þá voru vegalengdir mældar, milli bæ, með því að mæla hve lengi væri gengin hin eða þessi bæjarleið.

En þegar við vorum að sækja hrossin okkar og nota þau við vinnu, þá var ekkert hentugt að hafa laust hross alltaf hlaupandi með. Við leyfðum okkur samt aldrei, svo ég muni til, að beisla hana eða binda. Það var fjarlægt okkur að leggja hendur á annarra manna hross. En mér fannst hún óskaplega þreytandi svo að ég man það ennþá.

En það voru fleiri skepnur en þessi hryssa sem reyndu á þolrif fólks. Við áttum eina á sem tók slíku ástfósrti við annan bæ í sveitinni að hún settist þar alveg að og vildi hvergi vera nema í túninu á þeim bæ. Það var nú á þeim tímum að grasstráin voru dýrmætari en í dag. Þá var ekki búið að rækta þessi ósköp af túnum eins og núna. Túnin þá, voru því hjá sumum, nærri heilagar skákir og því stórsynd hjá skepnum að hafa að engu eignarrétt manna og stökkva yfir túngirðingar.

En það er, held ég, ómögulegt að girða fyrir sauðfé ef það kemst upp á lag með að stökkva girðingar. Ekki veit ég hvað henni gekk til. Hún var ekki að sækja sér félagskap annarra kinda. Hún var bara komin til þess að vera á þessum bæ. Í þjóðsögum má lesa um ókindur sem settust að í hömrum eða hættulegum skriðum og ollu tjóni og dauða á vegfarendum sem um veginn fóru. Í katólskri tíð voru heilagir menn fengnir til að vígja slíka staði. Ærin þessi olli nú ekki þannig tjóni þótt hún ylli þeim leiðindum sem hún ásótti svo mjög. Þetta var álíka löng leið fyrir hana að fara eins og fyrir Rauðku sem ásótti okkur. Ég get ekki sagt um það, hvort í þessu túni hafi vaxið meiri sælgætisstrá en hún hefði getað veitt sér heima fyrir.

Frændi minn, sem þarna bjó, var orðinn svo þreyttur á þessari skepnu, sem hafði vissulega til að bera hinn margnefnda sauðþráa, sem oft hefir verið klínt á suma menn. Hann hefir eflaust verið búinn að reyna allt sem hann gat upphugsað til að fæla hana burt og sjálfsagt búinn að kvarta yfir henni oftar enn einu sinni. Dag nokkurn kom hann svo með hana alla leið reiðandi fyrir framan sig á hesti. Ég veit ekki hvort það var til að eigendur skepnunnar skildu betur alvöru málsins, eða hvort honum datt í hug að ærin kynni að hvekkjast við þennan óvenjulega hreppaflutning á hestbaki og hugsa sig um tvisvar áður en hún legði af stað til baka, eða bara verða ánægð heima einhverja daga og veita með því heimilisfólki á hinum bænum langþráða hvíld frá nærveru sinni. Ég man nú ekki alveg hver urðu örlög hennar en tel víst að henni hafi verið slátrað um haustið. Skepnur geta gengið of langt.

14.03.2007 00:07

Vandræðum aflétt

Nú er orðið langt síðan ég hefi fest nokkuð á þetta þykjustublað, sem tollað hafi á því. Þegar ég seint og síðarmeir reyndi, sá ég að búið var að klæða bloggsíðuna í nýjan búning, bjartan og fagran eins og brúðarkjól. Þegar ég svo er búin að undirbúa brúðkaupið í Word og opna fyrir brúðgumanum þá stekkur hún upp með látum og skellir hurðinni að stöfum svo eftir sitja aðeins nokkrir íkonar í grænu túni á skjánum.

Eftir nokkrar árangurslausar tilraunir ákveð ég að reyna þá að skrifa beint inn á bloggsíðuna og vona að allt gangi vel. Þá kemst ég að því að tölvan er orðin spillt og hefur lært að skrökva. Hún fullyrðir að færslan sé virk og birtist á blogginu en þar er ekkert að sjá annað en óskrifað blað. Ég hringi svo í dóttur mína og segi að ég geti ekki heldur komist þarna megin að síðunni. Hún gerir eitthvað sem hún álítur duga. Daginn eftir reyndist allt við það sama. Þá dettur mér í hug að reyna að skrifa service@ 123.is og segja frá "vandræðum"og gaf það sem efni.

Að því loknu dettur mér samt í hug að prófa einu sinni enn að opna síðuna. Þar er eitthvert hak sem ég hefi ekki þurft að skipta mér af. Mér þykir alltaf öruggara að vera ekki að skipta mér af fleiri tökkum en ég kemst af með. Ég hætti samt á það og viti menn þá virtist nú síðan taka við og varðveita það sem henni var trúað fyrir.

Morguninn eftir fór ég að hugsa um einn af þessum nýju tökkum sem búið var að bæta við á bloggsíðuna fínu og sagt að hægt væri með honum að taka efni beint úr word. Nú ákvað ég að prófa það í staðinn fyrir að fara í paste. Mér til undrunar eftir allt puðið virtist þetta koma að gagni. Ég hafði líka verið í vandræðum með hvernig ég ætti að komast út úr síðunni. Með því að fara nógu langt niður síðuna laukst það upp.

Næst fór ég í póstinn og athuga hvort þjónustan hjá 123 sé búin að svara. Hún svaraði svo fljótt einu sinni er ég hafði hringt. Nú var líka komið bréf með fjórum spurningum á íslensku, sem ég hefði getað svarað, ekki þó öllum. T.d. ekki, hvaða vafra ég notaði. Ég kann svo ákaflega lítið á tölvu. Ég ætlaði að fara á námskeið í sambandi við vefsíður en fyrrihluti námskeiðsins féll niður vegna skorts á þátttakendum hér í Keflavík. Í stað þess að reyna að svara spurningum sem engu skiptu lengur, ákvað ég að svara með tveimur orðum, "Vandræðum aflétt."Ég er ekki fyrr búin að blikka á "send " en ég fæ svar aftur á ensku sem ég skil afar takmarkað. Af því mér finnst það sé beggja hagur að viðskiptum ljúki sem fyrst ákveð ég að senda annað bréf jafn fáort, með þakklæti, því það er jú þakkarvert þegar brugðist er jafn skjótt við og það hefði komið að notum ef ég hefði ekki verið búin að taka á móti hugskeytum svona rétt áður. En þetta seinna svarbréf mitt er naumast komið út um gluggann þegar svar við því birtist á skjáum í svipuðum búningi og hitt sem ég skildi ekki. Þannig standa málin. Hvað er best að gera næst?





13.03.2007 10:37

Ótitlað

19.02.2007 22:34

Afmælisdagur Andra Þórs

         Kæri dóttursonur minn Andri!

Óska þér innilega til hamingju með 17 afmælisdaginn.  fyrirgefðu að ég  var búin að gleyma honum.  Það er búið að vera svo margt haustfólk í kringum mig allt frá æsku.  Daníel bróðir minn átti afmæli 20 sept.  Ég 21 sept.  Eldri bróðir minn 11nóvember.  Móðir mín 1 desember og faðir minn 16 des.  Svo kom Sæmundur afi þinn 13 nóv.  Mamma þín 12 nóv. og Hrefna systir þín 13 nóv.  Anna móðursystir þín 13 sept.  Hennar sonur Sigurd 24 nóvember.  Jóhannes Páll móðurbróðir þinn 6.okt.  Sara dóttir hans 2 okt.  Anna systir hennar 27 okt.  Pálína bróðurdóttir mín 9 des.  Hvernig fórstu eigilega að því að hafna samfloti með þessum haustelska lýð og fæðast með hækkandi sól?  Já áður en ömmu gömlu dettur í hug að hún þurfi að leiða hugann að afmælum yrirleitt.  Jólin svo til nýlega liðin.  Jú Bára frænka á afmæli í janúar.  Hún gleymdist auðvitað líka.

Það eru fleiri snemma á ferðinni.  Ég keypti blóm í haust.  Þau voru með þvílíku blómaskrúði langt fram í nóvember.  Ég keypti þau á útsölu og gat ekki fengið að vita nöfn þeirra en þau voru sömu tegundar með sitt hvorum lit.  Mig langaði að vita hvað þau hétu en það lá nú ekki á lausu.  Líka hvenær þau færu að blómstra aftur að ári en fékk að vita að það gæti nú orðið erfitt.  Nauðsýnlegt væri að hafa mikið vatn á þeim.  Og nú eru þau byrjuð að springa út  annað fallegum bleikrauðum blómum en hitt verður með rauðum og er líka komið með einn knúpp.  Ég reyndi alltaf að passa að hafa nóg vatn í skálunum og stundum vökvaði ég með blómaáburði. Þá varð vatnið moldarbrúnt á litin.  Uppáþregja vildi samt miklu heldur lepja það heldur en hreint vatn úr sinni eigin skál.  Hún hefir samt aldrei lagst á blómin sjálf eins og heyrst hefir að sumir kettir á norðurlandi hafi gert.  Það er gaman að eiga svona falleg blóm bæði heima og að heiman sem renna upp eins og fíflar í túni.  Að lokum einn orðskviður frá Salomon.

,,Minnig hins réttláta verður blessuð en nafn óguðlegra fúnar".  Kær kveðja úr Hringbraut 80, þín amma Þóra. Tölvan var mér erfið og vildi alltaf ráða letrinu.

 

 

 

 

29.01.2007 18:56

Hinn réttláti

Hinn réttláti er nærgætinn

Yfirskriftin er tekin úr 12 kafla í Orðskviðum Salómons og er þar fyrrihluti setningar í 10 versi er hljóðar svo, ,,Hinn réttláti er nærgætinn um þörf skepna sinna". Ég var búin að leita að ritningarstað sem mig minnti að væri þannig: ,,Ill meðferð á skepnum ber vott um grimmt og guðlaust hjarta". Ég var svo viss um að ég hefði lesið hann í Biblíunni en fann hann alls ekki, bara þennan sem fer í sömu átt. Ég held nú að öllum í sveitinni þar sem ég ólst upp hafi þótt vænt um húsdýrin sín og viljað sýna þeim nærgætni. Ég held þó að ekkert íslenskt skáld hafi ort eins lofleg kvæði um nokkurt þeirra eins og reiðhestinn og ef t.v.rakkann fyrir hans miklu tryggð. Mér koma í hug hendingar úr ljóði um hund, sem ég man þó ekki eftir hvaða skáld er.

Sá er nú meira en trúr og tryggur, með trýnið svart og augun blá.

Fram á sínar lappir liggur líki bóndans hjá.

Kötturinn var nú allra vinur, svona eftir sínum hætti. Hann varði heimilið fyrir músunum svo þær komust ekki í matarforða heimilisins og var líka leikfang barnanna. Mér hefði þótt mikið vanta ef ég hefði ekki notið nærveru kattar í minni bernsku. En hún kisa mín sem ég átti lengst, var á vissan hátt fötluð, hún kunni ekki að mala. Mér finnst það mikill galli á ketti. Hann er eiginlega þar með ófær um að lýsa því, hvað lífið sé skemmtilegt frá sínum bæjardyrum séð.

Þá er að minnast á hestana. Margt loflegt ljóð hefur íslenski hesturinn hlotið fyrir sín afrek. En hefir einhver ort verðugt kvæði um blessaða mjólkurkúna, sem hélt lífinu í fátæku fjölskyldunum þegar annar vetrarforði var að ganga til þurrðar. Kýrnar höfðu ekki endilega eins fallegt sköpulag og ávalar línur eins og hestar, en þegar þær horfðu á mann sínum stóru saklausu augum þá var maður umvafinn rósemd og hlýju sem engu öðru var lík.

Tuddarnir voru nú leiðinlegri og höfðu ljótt orðbragð fyrir hinum dýrunum en þau voru svo saklaus að þau reyndu aldrei að læra það af þeim. Ég var bara smástelpa þegar ég komst í kynni við tuddalegt innræti þeirra. Ég held að við bróðir minn höfum verið að reka kýrnar gegnum traðirnar og út fyrir túngirðingu. Þá fór bróðir minn í annað verk og ég varð ein eftir, sennilega átt að reka þær lítið eitt lengra. Í hópnum var lítill tuddi. Ef til vill ekki orðinn ársgamall en hafði svona lúalegt innræti, fullur af valdahroka eða hvað það nú var. Þegar bróðir minn var horfinn af svæðinu þá ákvað hann, að nú væri komið tækifæri til að prófa afl sitt á mér og sýna kúnum að hann væri fullfær um að vernda þær fyrir öllum óviðkomandi, sem væru eitthvað að skipta sér af þeim. Ég var nú ekki há í loftinu og það tók hann ekki langan tíma að stanga mig um koll og byrja að hnoða mig á jörðinni.

Ég öskraði náttúrlega eins og sá sem er í lífsháska, sem hefir líklega æst bola ennþá meira. Sem betur fór var bróðir minn ekki kominn lengra í burtu en það, að hann heyrði til mín og kom hlaupandi og nógu snemma til að bjarga mér úr þessari dauðans hættu. Seinna var svo komið upp girðingu fyrir þarfanaut sveitarinnar á svæði sem hét Drangsnes og var í okkar landareign. Leiðin heim að okkar bæ lá framhjá girðingunni.  Þegar ég svo hafði farið af bæ og var á leið heim til mín, þá komst tuddi stundum í kallfæri við mig og sendi mér tóninn.  Mikið var ég nú fegin þá að vera á hestbaki í haustmyrkrinu þegar nautið fylgdi mér eftir sótbölvandi gott ef ekki líka froðufellandi, innan girðingarinnar, svo lengi sem gatan sem ég þurfti að fara lá meðfram girðingunni. Ég treysti á það að hesturinn gæti hlaupið nautið af sér ef það legðist af öllu afli á girðinguna og slyppi út. Þetta var heljarmikill dreki en mér var nú ekki kunnugt um að hann hefði nokkurn tíman sloppið út. Vel strengd gaddavírsgirðing er auðvitað fráfælandi fyrir skepnur með stóran haus, honum er ekki svo auðsmeygt milli strengjanna.

09.01.2007 08:07

Kvarnarstúlkurnar

 

Og mundu eftir skapara þínum á unglingsárum þínum, áður en vondu dagarnir koma og þau árin nálgast, er þú segir um: ,,Mér líka þau ekki"- áður en sólin myrkvast og ljósið og tunglið og stjörnurnar, og áður en skýin koma aftur eftir regnið  Þá er þeir skjálfa sem hússins geyma, og sterku mennirnir verða bognir og kvarnarstúlkurnar hafast ekki að, af því þær eru orðnar fáar. Þetta er tekið úr Predikaranum 12: 1-3.

Mér finnst ég hafi heyrt að hér sé predikarinn að lýsa breytingaskeiði mannsins frá æsku til elli. Á sumum fara hendurnar að skjálfa er þeir verða gamlir og hér séu það þær sem átt er við að geymi hússins og sterku mennirnir verði bognir, þá sé átt við fæturna en kvarnarstúlkurnar séu tennurnar. Þær voru nú orðnar fáar hjá mér svo tími var til kominn að öllum úr efri gómi yrði hent út, þar sem ekki voru eftir nema tvær heillegar og nokkur brot og rætur. Ég hlakkaði nú ekki beint til þar sem önnur augntönnin hafði brotnað við rótina og hún hafði reynst rosalega föst er hún var fjarlægð fyrir mörgum vikum. Þess vegna hafði ég ekki verið að flýta framkvæmdinni því tvíburasystir hennar var eftir hinummegin og var heil

.

Jæja loks fannst mér þetta yrði ekki umflúið og dreif í því að fara til tannlæknisins. Hann auðvitað byrjaði á að deyfa og það tókskt vel. Svo lagði hann í þá erfiðu eða það minnir mig, enda man ég ekki eftir að neitt væri í frásögur færandi með hinar. En þessi fannst honum og mér vera föst. ,,Það er ekki beineyðing í þér " sagði hann og mátti skilja að hann hefði ekki átt von á þessu í svona gamalli manneskju. Hann vildi nú samt greinilega tala varlega um aldur við mig en ég er ekkert viðkvæm fyrir aldri mínum. Maðurinn er mjög handlaginn og lipurmenni á allan hátt. Hann vildi meina að þetta kæmi einstöku sinnum fyrir að tennur virtust vera grónar við beinið. Þessu lauk þó að lokum öllu farsællega og án þess að nokkuð illt hlypi í sárin á eftir. Ég fékk strax fallegar tennur upp í munninn í staðin. Þær urðu mér sjálfri nú ekki til mikillla nytja fyrsta kastið nema það, að nú gat ég brosað framan í viðmælendur mína án þess að þeim ofbyði útgangurinn á kvarnarstúlkunum.

Ég fékk að vísu einn dökkan marblett eftir tanndráttinn en það var nú sem ekki neitt í samanburði við andlitið á henni móður minni eftir að hún hafði látið hreinsa úr sér þegar ég var unglingur. Þeir marblettir allir eru mér enn minnisstæðir. Sjálfsagt hafa þær verið fastar í henni líka eins og mér. Þá áttum við heima á Hornafirði og enginn tannlæknir þar, bara héraðslæknirinn. Það var auðvitað ekkert bara. Þeir öðluðust mikla reynslu gömlu héraðslæknarnir í að draga út tennur, því eina ráðið þá var, ef maður varð viðþolslaus af tannpínu, á þessum útkjálkum landsins, að rífa tennurnar úr. En þeir smíðuðu ekki tennur. Ég man að mamma mín fór svo eftir tilhlýðiegan tíma til Eskifjarðar til þess að fá tennur því þar var tannlæknir búsettur. Það var þó minna fyrirtæki og ódýrara heldur en að fara alla leið til höfuðstaðarins í þá daga en nógu dýrt samt fyrir fátæk heimili. Samt hefir þetta orðið eftirminnilegur viðburður á fábreyttri æfi að komast út fyrir sýslumörkin.

Að lokum bestu kveðjur og heillaóskir á nýju ári til skyldfólksins í Reykjavík, Akureyri, Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Þakka liðin ár Þ. P.

07.12.2006 11:29

Hvíld

Gamli fullveldisdagurinn var fyrsti desember. Það var eitthvað sérstakt við þann dag finnst mér í minningunni frá uppvextinum. Þjóðin mat hann sem sinn frelsis og fullveldisdag en nú er öldin önnur og allar gamlar þrautir gleymdar. Nú finnst ýmsum af þessari sömu þjóð nauðsynlegt að hafa kóng yfir sér eða hans ígildi, sem hafi nógu öflugan her. Hvað um það. Þann fyrsta desember síðast liðinn áttum við hjónin erindi til Höfuðstaðarins. Það var nú aðallega húsbóndinn sem átti erindi og átti að vera mættur kl.1.Ég ákvað að nota ferðina og fara í Rúmfatalagerinn. Þessvegna fórum við fyrir hádegi af stað og stoppuðum í Kópavogi á leiðinni því þar er ein verslun Rúmfatalagersins.

Þegar við komum þar inn fyrir dyr ákvað bóndi minn að fá sér sæti því nóg er af stólum miðsvæðis í þessari byggingu og undirbúa sig undir það sem fyrir honum lægi er hann kæmi á sinn ákvörðunarstað í höfuðborginni. Þetta þótti mér góð ákvörðun sem ég var hæst ánægð með. Nú gat ég alveg verið ein með sjálfri mér við mín erindi. Ég reyndi samt að vera ekki alltof lengi og þegar ég hafði lokið mínum erindum var nógur tími eftir til þess að fá sér eitthvað í svanginn. Á þessum stað er líka úr nógu að velja annars höfum við yfirleitt látið okkur nægja pylsur á ferðalögum þar sem við höfum stoppað og verið ánægð með þær. Augu okkar staðnæmdust þarna við rétt sem þeir sögðu að héti pitsa. Hún var samt miklu þykkri en þær sem við höfðum áður séð og borin fram heit með sósu og salati, virkilega góð. Ég hugsa að ég vilji ekki pylsu aftur ef ég get valið þennan rétt.

Nú kom tími til að halda ferðinni áfram. Húsið sem hann á erindi í er rétt við Grensásveginn og ég vil bara nota tímann og rölta í búðir. En það er ótrúlega kalt. Næðingurinn er svo nístings napur og þótt ég fari annað slagið inn í búðir til þess að hlýja mér helst ekki á mér nógur hiti. Það er líka svo lítið af búðum þarna sem ég hefi áhuga fyrir svo ég ætla heldur að setjast inn í bílinn. En á leiðinni þangað geng ég framhjá húsinu sem maðurinn fór inn í og dettur í hug að líta inn í forstofuna og hvað haldið þið að ég sjái? Ég sé tvo stóla hlið við hlið og ofn á veggnum. Þarna hlýtur að vera hlýrra en í óupphituðum bíl. Það er auðvitað algjört tillitsleysi við andrúmsloftið að setja hann í gang til að láta hann hita sig upp. Nei þarna er upplagt að setjast fyrst einhver hefir hugsað svona hlýtt til fótfúinna gamalmenna. Það er nú það sem vantar svo víða allra helst í búðum því fátt er eins þreytandi og búðarrölt og svo líka að fara á söfn. Það er miklu verra að standa kyrr litla stund heldur en ganga jafnlengi.

Ég hefi verið svo slæm í vinstri fæti um tíma og til að byrja með átt erfitt með að snúa mér í rúmi og upp á síðkastið ekki getað gengið upp stiga nema að láta sama fótinn alltaf fara á undan. Fór til læknis að lokum sem hafði svo góðan endi að hann bauð að tekin yrði mynd og hún sýndi skemmd í mjaðmarliðnum. Hann bauðst til að sprauta í liðinn sem hann og gerði. Það var nú ekki svo mikil breyting eftir fyrstu sprautu en ég átti að fá aðra eftir viku. Eftir hana varð ég allt í einu jafngóð og áður en ég fór að finna til í fætinum. Þetta kemur samt ekki í veg fyrir eðlilega þreytu á mínum aldri sem ég er löngu farin að finna fyrir. Þessi hugulsemi þarna með stólana minnir mig á þann sem sagði:

,,Komið til mín allir sem erfiði hafið og þungar byrðar og ég mun veita yður hvíld"

Ég fæ mér því sæti í öðrum stólnum sem þarna hefir verið settur. Það er talsverð umferð um þessar dyr. Einn eldri maður gengur inn og upp stigann líklega upp á næsta gólf. Annar yngri á líka leið upp og ég heyri hann spyrja:,,Er þetta konan þín sem situr þarna niðri?" Hinn virðist ekki gefa nein svör við því. Ef til vill hefir hann aldrei átt neina konu og finnst þessi spurning ekki koma sér við. Hinn vill nú ekki sæta þessu tómlæti og brýnir raustina og spyr hærra en áður: ,,Er þetta konan þín sem situr þarna niðri?" Mér líst ekki á að bíða þarna lengur ef manninum skyldi finnast ég hljóti að vera í óskilum á þessum stað og það vera skylda sín að finna réttan eiganda að mér eða einhvern sem standi mér næst, líkt og þegar ég hefi lagst inn á sjúkrahús og hef átt að gefa upp aðstandanda, heldur tvo en einn, minnir mig. Hann er líklega óvanur að sjá nokkurn setja í þessum blessuðu stólum. Ef til vill eru allir svo stoltir að enginn vill láta aðra sjá að hann sé haldinn þeim veikleika sem heitir þreyta. Sá sem sagði:

,, Komið til mín allir?og ég mun veita yður hvíld." Hann sagði líka við annað tækifæri:,,Hversu oft hefi ég ekki viljað samansafna börnum þínum eins og hæna safnar ungum sínum undir vængi sér en þér hafið ekki viljað það."

Ég bíð ekki eftir að frekari rekagátt verði út af veru minni hér. Stend nú upp og yfirgef þennan hvíldarstað, rölti upp í bílastæðið og sest inn í bílinn. Ég er í hlýrri úlpu og mér verður ekki kalt. Ég get hlustað á útvarpið og líka lesið blað sem maðurinn minn hafði fengið og sett inn í bílinn. Tíminn hann líður bara eðlilega hratt þar til hann birtist og við getum lokið dvölinni í höfuðstaðnum með því að líta inn til mágkonu hans sem alltaf hefir tekið svo vel á móti okkur. Heimferðin gekk að óskum.

Flettingar í dag: 150
Gestir í dag: 9
Flettingar í gær: 257
Gestir í gær: 20
Samtals flettingar: 79418
Samtals gestir: 16425
Tölur uppfærðar: 6.5.2024 13:37:21

Eldra efni

Tenglar