Þóra Guðrún Pálsdóttir

10.12.2009 23:47

Jarðakaup

                                                            Hoffellspartur Keyptur.

                                                         Frásögn Daníels Pálssonar

Ég man greinilega eftir því, að ég fór, ábyggilega að vori til, 1928 með pabba inn að Hoffelli þegar hanni fór til að kaupa þennan jarðarpart. Hann kostaði þúsund krónur. Ég man sérstaklega eftir þessari ferð alla tíð. Austurfljótin voru alltaf straumhörð og þarna hefur sennilega verið nokkuð mikið vatn í þeim. Það hefur ef til vill ekki verið fundið nægilega grunnt brot. Ég var á bleikum hesti sem kunni ekki að synda eins og aðrar skepnur, heldur hagaði sér þannig þegar fór að dýpka á honum, að hann tók bara dýfur. Hann hóf sig upp að framan og uppá endann þegar hann kemur niður í strauminn aftur þá tekur straumurinn hann og það munaði engu að ég félli af þegar straumurinn kippti klárnum svona til hliðar en þetta bjargaðist nú allt saman vel og hann fór svona á harða spretti til lands.

Einu sini var Sigurbergur bróðir sendur á þessum bleika hesti austur á Höfn í kaupstað. Hann lagði af stað að morgni dags og það var engin von á honum fyrr en að kvöldi. Tiltölulega fljótt er hann aftur kominn heim, mittisblautur. Það sem gerðist var, að Prestfitarállinn var þá svona djúpur og þá fór Bleikur að taka dýfur og þessvegna blotnaði Sigurbergur svona mikið. Hann sá þá að það þýddi ekki að halda áfram og ætla að flytja vörur heim á klárnum. Þær hefðu rennblotnað. Daníel bróðir var gamall orðinn og löngu fluttur af Mýrum er ég tók þessar frásögur hjá honum. Hann sagði ,,Já, ég á þessi afsöl ennþá bæði, sem vörðuðu kaupin á Hoffellspartinum og líka Hafnarnespartinum".  Þetta sagði bróðir minn sem sýnir mér hve þetta jarðnæði varð dýrmætt þeim sem lengi höfðu lotið að litlu í þeim efnum. Hann var ellefu árum eldri en ég og var því reynslunni ríkari. Þ.P.

21.11.2009 00:19

Úr Hornafirði

                                    Frá æskuslóðum.

Rauðaberg á Mýrum í Hornafirði var minn fæðingar og uppvaxtarstaður. Það var einnig uppvaxtarstaður móður minnar Pálínu Daníelsdóttur frá sex ára aldri. Hún fæddist árið 1884. Þegar hún var sex ára gömul andaðist faðir hennar úr lungnabólgu og móðir hennar Sigríður Skarphéðinsdóttir stóð þá ein uppi með nýju börn. Hún treysti sér ekki til að halda áfram búskap. Búið hefur eflaust verið of lítið til þess að hægt væri að borga vinnumanni eða ráðsmanni laun, þótt fengist hefði. Maður hennar hafði líka aflað  heimilinu aukaviðurværis að töluverðum hluta, með því að skjóta fugla til matar. Ekki var sjálfgefið að hver sem hefði fengist væri fær um það. Útkoman varð, að leysa heimilið upp og koma börnunum fyrir, einu og einu á heimilum víðs vegar. Sum hafa nú verið talin matvinnungar sem voru orðin nýju ára eða meira. Með öðrum hefur hreppurinn þurft að gefa. Sjálf fór amma sem vinnukona til Þorgríms læknis í Borgum í Hornafirði. Hefur að líkindum haft með sér yngsta barnið Guðlaugu. Flytur svo seinna með læknisfjölskyldunni til Keflavíkur.


 Þegar ég var barn var ein dóttirin Jórunn búsett á Fáskrúðsfirði, önnur Hallbera  á Norðfirði og bróðir þeirra Gísli mun hafa búið á ýmsum stöðum þar nærri en flytur svo til Keflavíkur. Einn bróðirinn Jón, fór að ég held til Papeyar en varð skammlífur. Þá var annar Jón, sem ég veit ekki hvert lenti til að byrja með en hann bjó seinna í Reykjavík. Hólmfríður bjó líka í Reykjavík. Guðlaug í Hafnarfirði. Veit ekki annað um Kristínu en að hún fór, um fermingu til Ameríku með sér kunnugu fólki. Giftist þar en eignaðist ekki  afkomendur sjálf. Pálína móðir mín, þá sex ára, var tekin af feðginum Magnúsi og Guðnýju sem bjuggu á parti úr Rauðaberginu Þegar hún var orðin nýju ára var hún álitin orðinn matvinnungur og  átti að láta á það reyna. Þá vildu þau feðgin ekki missa hana og tóku meðgjafarlaust. Mamma bar þeim vel söguna og sagði þau hefðu verið góð við sig. Þarna var ekkert ríkidæmi en ekki minntist mamma á sult. Hún var ekki með gremju út í einn eða neinn svo ég muni. Það var nú svolítið öðruvísi hljóð í einni systur hennar þegar hún minntist bernsku sinnar.


Svo kemur að því að Magnúsi fóstra móður minnar þverr meir þróttur og Guðný var ekki sterkbyggð. Mamma kynnist pabba og  sér fyrir sér að þörf væri að fá karlsmannsaðstoð inn í heimilið. Þau giftast en þá vantaði þau jarðnæði Guðný hélt áfram að hokra á sínum jarðarparti. Hún hafði átt tvær systur og önnur þeirra hafði eignast börn og að líkindum sat Guðný í óskiptu búi. Líklega hefur það ítt undir hana að halda sínu sér. Eftir á að hyggja var það bara gott. Rauðaberginu var skipt í fjóra parta. Eitt var Guðnýjarpartur annar partur systranna Katrínar og Kristínar. Svo var Hoffellspartur og fjórði var Hafnarnespartur. Foreldrar mínir gátu fengið Hafnarnespartinn á leigu. Hann var minnstur en þetta var alltof lítið jarðnæði. Árni bróðir pabba sem byggði litla baðstofu handa þeim, áleit samt að betra hefði verið fyrir þau að setjast að á Höfn. Mömmu fannst hún ekki geta yfirgefið fóstru sína og skilið hana eina eftir, þar sem hún skuldaði henni aðhlynningu frá því hún kom til þeirra. En mamma var líka búin að vinna þeim vel í nokkur ár, þá orðin kraftmesta manneskjan á heimilinu. Guðný bjó í húsi foreldra minn þegar ég man fyrst eftir mér.


Mamma eldaði fyrir hana hennar mat en hún sat að sínu áfram. Ég man eftir henni er hún sat á rúmi sínu við rokkinn í baðstofunni og spann á sinn hljóðláta rokk. Það er víst ekki sama hver smíðar rokka. Mömmurokkur var miklu hávaðasamari. Baslið með jarðnæðið hélt áfram hjá foreldrum mínum þar til þau gátu fengið Hoffellspartinn á leigu og seinna keyptan þegar synirnir voru komnir til manns og farnir að leggja lið. Maður austan Fljóta sagði frá því í bók að á Mýrum hefði verið kotakrans. Það var nokkuð auðskilið að þegar búið var að skipta jörð upp í þrjá fjóra parta, þá mundi ekki verða auðsær stórbóndabragur á hverjum parti. Svo var nú fólkið frjósamt, allt uppí 15 börn hjá einum hjónum og allir fengu að prófa hvort þeir gætu ekki fæðst lifandi og komist til manns. Flestir gátu það en einstöku barni varð fæðingin ofraun. Elsti bróðir minn fæddist andvana. Ljósmóðirin sagði mömmu einhvern tíman að hún væri ekki vel fallin til barnsfæðinga. Hún fæddi samt fjögur lifandi börn eftir þetta. Hugsið ykkur ,,Hvílík náð yfir Ljósmóðurinni og öllu til samans." Enginn læknir á næstu grösum.

 

  

  

15.11.2009 15:22

Flugur

                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                            Flugur

Ég hefi nýlega orðið vör við litlar flugur í íbúðinni hjá okkur.  Veit ekki eftir hvaða leiðum þær hafa ratað til okkar en dettur helst í hug, að þær hafi tekið sér far með blómum og ákveðið að setjast að í sambýli við pottablómin og nærast á ilmi þeirra blóma sem voru að springa út. Þær hafa ekkert verið í eldhúsinu að heimta mat. Ég veit annars ekkert um hvar þær sofa eða á hverju þær nærast hjá mér. Ekkert sannfærir mig betur um að til sé skapari en einmitt svona smákvikindi eins og flugur. Hugsa sér þessa ótrúlegu flughæfni sem þær hafa. Í Íslenskri  Alfræði Orðabók bls.141 er minnst á flugur.  ,,Brachycera: undirættbálkur Tvívængna, með 69 þúsund teg. Oft stuttvaxnar með litla fálmara og stóra gagnsæja vængi. Lirfurnar (maðkarnir) eru í jarðvegi, vatni, taði og úrgangi eða lifa sníkjulífi á dýrum og plöntum. Margar þeirra eru munn og fótalausar."

Ég sat í stofunni nýlega og var að lesa í bók, eitthvað sem mér fannst mjög spennandi, kemur þá ekki ein fluga svífandi með miklum stæl og settist með snilldarlegu jafnvægi á sömu baðsíðu og ég var að lesa. Ég trúði nú ekki að hún væri læs og gæti orðið sér úti um neinn gagnlegan fróðleik á síðunni þar sem flugan nær varla stærð eins bókstafs, svo ég reyndi að slá hana burtu en hún var nú sneggri en svo í hreyfingum að ég gæti hitt á hana. Hún kom fljótt aftur og ég endurtók minn gjörning. Ég veit að maður á ekki að vera að drepa flugur að óþörfu en það hefði tekið mig langan tíma að reyna að fanga hana og koma henni út um gluggann og þá hefði hún bara dáið úr kulda, að ég held. Ég dáist samt að þessum litlu duftkornum fyrir flughæfnina og líka fyrir hæfnina að geta séð sér farborða í lífinu og komið á legg næstu kynslóð til að viðhalda tegundinni, kynslóð eftir kynslóð, marga mannsaldra. Þessi litlu fis sem þær eru. Hver skyldi svo sem hafa getað komið slíku lífsundri til leiðar nema sá eini alvitri Skapari?                                                                                                                                                                                                                     Ég ólst ekki upp við það, að flugur væru hafðar sem gæludýr innan húss. Það var yfirleitt reynt að losa sig við þær með illu eða góðu. Þessi fluga vildi engan frið, hún vildi bara stríð og endurtók hvað eftir annað innrásina á mitt  yfirráðasvæði til að gera það að þyrlupalli fyrir sig að setjast á. Henni virtust vera vel ljósir sínir yfirburðir yfir mig á vissum sviðum en hvort hún var vond út í mig eða hafði gaman af að stríða mér veit ég ekki og verð líklega að bíða lengi enn eftir að vita það. Það dróg enginn hvítt flagg að húni, hvorki hún eða ég. Svo stríðið hélt áfram þar til árásir hennar hættu allt í einu og ég hefi líklega lamað hana eða drepið þótt líkið fyndi ég ekki.

 

19.10.2009 20:13

Fíngerð sjöl

Þar sem ég hefi nú loksins hætt við það verkefni sem ég er lengi búin að dunda mér við, að tína saman mola úr ævi Arthurs Gook. þá ákvað ég að snúa mér að smá handavinnu og reyna að rifja upp að taka lykkjuna. Ég hafði keypt mér barnavettlinga út í Hrísey í sumar, sem mér hafði litist mjög vel á. Þeir báru vitni um vandað handbragð sem kann að liggja í ættum á þessum slóðum. Kona ættuð úr Svarfaðardal hafði fyrir mörgum árum gefið mér prjónað sjal, unnið úr íslenskri ull. Ég hefi nú ekki oft skreytt mig með því en hefi alltaf vitað að ég á gersemi. Einhvern tíman

hafði ég heyrt eða séð, að þá þættu sjöl vel unnin úr íslenskri ull þegar hægt væri að smeygja þeim gegnum giftingarhring. Gætið að, þetta var ekki eingirni sem sjalið var prjónað úr, heldur tvinnað band. Ég prófaði sjálf og mikið rétt, mér tókst að smeygja því inn í og draga það gegnum hringinn. Þetta er svo sannarlega handbragð sem hægt er að bera virðingu fyrir.

Jæja, vettlingarnir náðu nú ekki fyrirmyndinni hjá mér en þetta kæmi nú aftur ef ég legði mig niður við það. Það þarf auðvitað að passa uppá að prjónastærðin hæfi garninu og svo f.r.v.

Það ætti nú að auka áhugann hjá mér að eiginmaðurinn er líka sestur í stól með prjóna. Hann hefur nú verið að minnast á það að undanförnu að sig langaði til að læra að prjóna. ,,Enginn er of gamall gott að læra". Svo ég náði í þrefaldan lopa og tvinningasnældu sem Jón sjúkrahúsráðsmaður á Akureyri hafði smíðað handa mér fyrir margt löngu og ber hún því snilldar handbraði hans vitni. Þær voru svo góðar vinkonur Sólveig dóttir þeirra hjóna og Anna dóttir mín. Það er auðveldara fyrir óvana að prjóna úr tvinnuðum lopa, þá klofna lykkjurnar síður. Ég valdi svo prjóna nr.5. Til að hlífa nemandanum við því sem erfiðara var, fitjaði ég upp á einn prjón til að byrja með.

Þá gat nemandinn tekið við og spreytt sig á garðaprjóni. Tilraunin heppnaðist vel þegar horft er á hendur okkar og bornar saman, hvað hans eru miklu stærri og þykkri en mínar. Ég var sjálf hrædd um að helst mundi handstærðin hefta námið en þetta gekk framar björtustu vonum.

Svo við eigum ef til vill eftir að setja saman prjónandi og hlusta á útvarpið. Ég hugsa nú ekki svo hátt að við næðum þeirri leikni að geta prjónað og horft um leið á sjónvarp, minnsta kosti ekki ef um rósaprjón yrði að ræða.

23.09.2009 17:29

Nýtt nafn

Einhverju sinni kom til orðræðu milli mín og vinkonu minnar um mannanöfn.  Það kom í ljós að henni þótti illa við hæfi að ég bæri Þórsheiti, sem var heiðinn guð. Ég þóttist skilja að hún mundi helst vilja að ég fengi mér nýtt nafn. Ég skil vinkonu mína. Hún vill að guðrækni mín sé hrein og flekklaus í öllum greinum en ekki hundheiðin í aðra röndina. Það er nú samt meira en að segja það, fyrir gamalt fólk að fara að skifta um nafn. Helst hefur maður heyrt um að sumir kjósi þann kost, sem vilji hylja fortíð sína, beri  hún ekki vitni um vandað líferni. Nú er þess að gæta að langt er síðan Þórs tilbeiðsla lagðist af í þessu landi og margar kynslóðir hafa fæðst og til grafar gengið án þess að skera sig úr, með óhöpp eða lánleysi að ég held, þótt þær bæru Þórsnafnið, enda sjálfsagt verið gefið það gegnum tíðina til að heiðra föður og móður og viðhalda þeirra minningu sem borið höfðu eða báru nafnið, frekar en það væri gert vegna guðsins, sem ekki var lengur löglegur eða í tísku  Nú kann að verða breyting á, þar sem búið er að stofna félag sem kennt er við Æsi hina fornu. Svo getur þó farið, að eins og til varð nafnkristni svo kölluð, meðal hinna kristnu, sem hlýtur litla virðinu hinna strang trúuðu, þannig verði líka til nafnheiðni meðal hinna heiðnu, sem láti sig litlu varða tilbeiðsluna þótt nöfnin þeirra séu skráð í ásatrúarsöfnuði.

Í bókinni Íslensk Þjóðmenning V. Bls.14.er sagt frá mesta helgistað goðanna. Hann er hjá mjög heilögum brunni.,,Þangað fara þau dag hvern um brúna Bifröst til að eiga dómstað sinn. Allir ríða guðirnir til dómstaðarins á ágætis hestum sínum nema Þór sem gengur og veður ár þær er verða á leið hans". Ég sé þetta fyrir mér í huganum að þeir hinir guðirnir séu komnir í taglhvarf á hestum sínum í einhverri þessara áa og nafni veður í geirvörtur, sjálfsagt á kúskinnsskóm og árbotninn grýttur. Spurningin hjá mér er: Af hverju kipptu þeir félagar hans honum ekki upp á hnakknefið hjá sér, þar sem þeir voru á ágætis hestum? Það er ekki merkileg dróg sem ekki er mannbær fyrir tvo í viðlögum. Skaftfellingar mundu ekki hafa gert þetta svona, heldur rennt hrossi undir þann hestlausa yfir árnar. Við leyfðum hundinum alltaf að stökkva uppá hestlendina fyrir aftan okkur þegar að fljótunum kom, í stað þess að láta hann vaða. Lesi maður lengra í bókinni, stendur samt að Þór hafi verið mikið dýrkaður á Norðurlöndum á síðustu öldum norrænnar trúar. En ég er að hugsa um alla þessa endalausu göngu Þórs, dag eftir dag og alltaf að vaða árnar.

Þeirra Ásbrú var greinilega enginn þurrbali eins og sú á Reykjanesinu við hliðina á okkur.

 

 En hvað mig snertir, og til að finna ástæðu fyrir að þurfa ekki að skifta um nafn, þá get ég hugsað mér, að Þór hafi verið algengt mannsnafn í upphafi, en svo hafi einhver með því nafni  tekið sig fram um eitthvað umfram aðra og verið tekinn í guðatölu, lífs eða liðinn en ekki þar með fengið neinn einkarétt á nafninu sem slíku.. Það sem skiptir mestu máli er, að sá sem ber nafn, hvaða nafn sem er, auki virðingu fyrir því, í augum sinna samferðamanna en sverti það ekki.

10.09.2009 22:50

Stórt afmæli

Þann 10 ágúst að morgni lögðum við hjónin af stað norður til Akureyrar. Veðrið var gott og ég byrjaði að aka inn að Hafnarfirði. Þar tók hann við og ók áfram þar til komið var í gegnum hvalfjarðargöng. Þá tók ég við og ók til Borgarnes. Þar sem ég var ekkert orðin svöng þá gat ég vel hugsað mér að halda lengra áður en við settumst að snæðingi.  Hann vill nú yfirleitt stoppa sem minnst á ferðalögum. Okkur hafði verið boðið í mat á  sunnudeginum og mér fannst nú skemmtilegra að þiggja það, en var búin að taka kjúkling út úr frysti til að hafa í sunnudagsmat og ákvað að við gætum þá bara borðað hann á leiðinni norður, á mánudeginum.  Það vildi nú bara þannig til þegar Ásgrímur sat við stírið og ég sá einhvern líklegan áningarstað þá var hann á örskotsstundu orðinn svo langt að baki að ekki tók því að snúa við. Ég fann svo sem ekkert til svengdar svo ég lét þetta gott heita. Svona gekk þetta en þegar norður yfir Holtavörðuheiði kom var komin rigning og dimm þoka á parti. Þá var engin leið að hugsa um að borða úti. Það er auðvitað vandræðalaust að fá sér bita inní bílnum en fyrst við vorum nú komin þetta langt, þá hugsaði ég að best væri að komast í Staðarskála. Ásgrímur heldur að hann sé ekki lengur til, nýji skálinn muni heita N1. Það finnst mér alveg fráleitt að vinsæll áningastaður heiti ekki einhverju almennilegu nafni sem vísi til einhvers kennileitis í umhverfi  eða sögulegra atburða.

Mér finnst álíka slæmt þegar verið er að skifta um nöfn á sögufrægum stöðum eins og einhver ætlaði að kaupa Þingeyrar og þætti nauðsýn að breyta nafni til að hafa það nógu stutt og kæmi helst hug, Sporður, Speni eða Rófa. Ætli Húnvetningum þætti það í lagi? Sem betur fór blasti nú nafnið Staðarskáli við mér þegar að skálanum var komið. Við ákváðum að fá okkur pylsur eins og við vorum áður vön, því mér fannst að ekki væri viðeigandi að vera með sjálfsþurftarbúskap og setjast að nesti, úr því við vorum komin inn í þessi rúmu húsakynni, í samanburði við gamla skálann. Veðrið var nú orðið miklu betra og bjartara aftur. Er við höfðum etið eina pylsu hvort og hvílt okkur á meðan var kominn tími til að halda áfram. Næsti áfangi var til Hvammstanga að heilsa upp á tvær gamlar konur er búa þar í íbúðum fyrir eldra fólk. Þær eru bróðurdætur fyrri mannsins míns. Gamalt fólk er oft svo þakklátt, aðeins fyrir smá innlit, rétt eins og öðrum fyndist  að fá stórgjöf. Ég var nú ekkert að bjóða mig fram að aka þangað því Ásgrímur yrði eflaust fljótari að finna húsið. Hann hefur miklu betra sjónminni heldur en ég. Við höfum held ég aðeins einu sinni komið til þeirra systra áður á þennan stað. Báðar eru fyrrverandi húsmæður á sveitabæjum í Húnaþingi. Þegar við fórum þaðan og út á vegamótin tók ég við að aka og ók til Blönduóss. Þar á Ásgrímur systur búsetta en hún hafði farið suður og var alveg nýkomin heim. Við gátum spjallað smástund við hana og son hennar sem hafði ekið henni norður. Þar næst tók Ásgrímur við stýri og skilaði okkur til Akureyrar.

Veðrið var unaðslegt.  Trjágróðurinn á Akureyri og umhverfi verður mikilfenglegri með hverju ári. Við ákváðum að líta inn til vina okkar í Lögbergsgötu 1. Við báðum um leyfi til að fá að drekka kakóið sem ég hafði lagað og tekið með um morguninn, til að vernda okkur fyrir uppþornun á leiðinni norður. Þau leyfðu það með eftirtölum, voru víst ekki vön að gestir kæmu með vistir með sér og svona fáránlega beiðni. Helga sagðist eiga nógar kökur og sótti þær og við vorum líka með kökur. Kakóið var enn vel heitt og við fengum þar með tækifæri að hitta hjónin og hafa samfélag áður en  þau færu í Skagafjörð morguninn eftir.

Að þessari heimsókn lokinni settumst við svo upp hjá dóttur minni og fjölskyldu og urðum hvíldinni fegin um kvölið. Tengdasonurinn er eðalgóður kokkur og ræktar grænmeti í eldhúsglugganum í tæru blávatni, í einhverjum ljósalampa sem kona hans var að selja í búðinni að ég held. Með þessu drýgir hann matinn. þegar ættingjarnir hrúgast óvænt að úr öllum áttum. Velviljað fólk mundi kalla þetta kryddjurtir. Það var gaman að hitta þau og heimasætan var líka heima í sumarfríi frá náminu í Danmörku. Kötturinn Máni var vingjarnlegur eins og hann á vanda til en Birta var þurr á manninn eins og hún vildi segja:,,Ég þekki þig ekki." Þau eru höfð í þvottahúsinu á næturnar og þegar ég kom upp stigann, sem liggur að þvottahúsinu, morguninn eftir, þá hefur það líklega rifjast upp fyrir  henni að ég kom upp þennan stiga í fyrra og gaf þeim morgunmat. Hún var þvílíkt vinsamleg og neri sér upp við mig og heilsaði mörgum sinnum upphátt. Dóttir mín hafði gefið þeim áður en hún fór í vinnu svo þau voru búin að fá sinn morgunmat núna.

Daginn eftir um miðjan dag, var svo afmælisveisla Irene haldin í Dvalarheimilinu Hlíð og var vel mætt, meðal annarra var systir hennar frá Englandi þar komin ásamt fylgdarmanneskju. Viðtöl fóru fram við afmælisbarnið og gat hún tekið þátt í því sem fram fór og gengið um. Ræður voru fluttar og söngvar sungnir og nógar veitingar. Fjöldi afkomenda var til staðar, fleiri ættliðir. Hún var nú samt ekki blóðmóðir þeirra heldur hafði fengið þrjú börn í einu í brúðargjöf um leið og hún giftist. Þau hefðu varla getað reynst henni betur þótt þau hefðu verið af henni fædd, eða þá hún þeim, þótt hún hefði borið þau undir brjóstum. Irene hefur nú nokkrum sinnum veikst mikið á seinni árum en alltaf skriðið saman aftur og komist á fætur. Hún er ekki kvartsár manneskja eða gefin fyrir að bera sig illa. Segist ekki mega kvarta er hún horfi á þá sem yngri eru en samt verr á sig komnir. Hún er Guði þakklát.

Daginn eftir fórum við út í Hrísey að hitta Jón bróður. Ásgríms og Auði konu hans. Þau búa þar á sumrum. og unna greinilega eyjunni. Ekki þurftum við lengi að bíða eftir ferjunni og ekki tekur langan tíma að sigla yfir. Jón var mættur með dráttarvélina og við fengum sæti fyrir aftan ekilinn og nú var bara að halda sér. Golan var nú fremur köld.

Við fengum góðan viðurgerning og létt spjall hjá þeim hjónum og tíminn leið fljótt. Óðar en varði var kominn tími til að kveðja og halda til lands.

Næsta morgun á fimmtudegi fór Ásgrímur að heimsækja vin sinn en seinna þann dag  vorum við boðin í kaffi til trúsystkina á Akureyri. Föstudagsmorgun fórum við fram í fjörð. Mikið var nú Eyjafjörðurinn fagur í morgunsólinni. Við fórum heim að Núpufelli og hittum jafnöldru mína Ingibjörgu heima. Við stoppuðum nokkra stund hjá henni. Fórum svo aftur yfir brúna og ókum dálítið lengra fram en snerum eftir það til baka. Ég hefði viljað líta inn til Ingiborgar á Árbakka en kunni ekki við það þar sem við fórum þar framhjá kl.12. á hádegi. Einu sinni litum við inn á Sjónarhæð, því ég hafði ekki náð að heilsa allri fjölskyldunni í afmælisveislunni. Mikið höfðu trén þar í brekkunni stækkað síðan ég fór frá Akureyri. Við litum einu sinni inn til Jóhanns Pálssonar og einnig til Jarþrúðar og Jóns Sveinssonar.

Það var svo á laugardagsmorgun sem við lögðum af stað suður. Dóttir mín vildi láta okkur hafa nesti en þar sem við höfðum ekkert smakkað á nesti á norðurleiðinni vildi ég ekkert eiga við það. Lögðum svo af stað í góðu veðri og gekk allt snurðulaust lengi vel. Þegar í Langadalinn var komið hafði stórum trukk verið lagt þvert yfir veginn og okkur boðið að fara hjáleið. Er við fregnuðum eftir hvort orðið hefði slys fengum við að vita, að slysið hefði orðið daginn áður og nú væri verið að flytja bílinn burtu. Við hlýddum því sem sjálfsagt var og fórum hjáleiðina þar til við komum að skilti sem benti á leiðina yfir Kjöl. Eigum við að fara yfir Kjöl ?, spyr Ásgrímur. Já, Já, segi ég og held að þetta sé gaman fyrir hann, því að hann hefur aldrei farið það áður. Ég hafði farið þessa leið með bróður mínum og konu hans, fyrir löngu síðan, svo við tókum stefnuna til heiða. Veðrið var gott og segir nú lítið af ferðum okkar fyrr en við sjáum skála, þó nokkurn spöl burtu, til hægri við veginn og álitum að þar mundi einhverja hressingu að fá.  Við hættum þó við að fara þangað og héldum það vera í lagi að halda lengra áður en við færum að byggja upp líkamann með mat.

Ásgrímur var annað slagið að dást að hvað vegurinn væri góður þar til við komum til Hveravalla. Þá tók nú verra við, eintóm urð og grjót og alls ekki fyrir litla og létta Jepplinga. Á endanum sáum við nú skilti sem benti á Gíslaskála og nú mundi stutt í hressingu hugsa ég. Svolítið fannst okkur skrítið hvað skálinn var staðsettur fjarri alfaraleið en tókum þó stefnuna þangað, líklega 1- 2 kílómetra. Við skálann sáum við allmarga bíla og hóp fólks. Einnig nokkur hross í girðingu. Okkur var seinna sagt að þetta muni hafa verið hestafólk. Við lögðum nú bílnum og ég tók litla handtösku með fjármunum til að geta borgað fyrir einhverja lífsnæringu. Við fengum þá að vita að þessi hópur hefði fengið skálann á leigu í heila viku og skálavörðurinn hefði farið kvöldið áður.

Auðvitað var ekkert við því að segja en þar sem ég vissi nú ekkert um vegalengdir til næsta áningarstaðar, áleit ég skynsamlegt að fá leyfi til að fara á snyrtingu. Ein vingjarnleg kona veitti mér fúslega leyfi og ekkert meira með það. Við ókum svo burt og komust fljótlega á þennan hræðilega vonda veg aftur. Það var þó að sömu leyti meira afslappandi að aka þennan veg heldur en fjölfarnari vegi í byggð  Það var ekki hægt að aka nema löturhægt og enginn var að æða framúr og fáum að mæta. Það var ekki yfir neinu að kvarta nema hristingnum. Við ókum nú æðilengi enn og þá verður mér allt í einu ljóst að ég er ekki með handtöskuna. Hún hafði orðið eftir í Gíslaskála. Ásgrímur spurði hvort við ættum að snúa við til að sækja töskuna. Ekki gat ég hugsað mér það, þennan vonda veg. Við gætum hugsanlega hringt í skálann þegar við kæmum til byggða. Við ókum enn um stund um öræfi. Þá hringir farsíminn. Spurt var hvort ég hefði ekki saknað einhvers. Ég  játaði því auðvitað og bað konuna að geyma töskuna. Glöð var ég að heyra að Guð hafði  látið engla sína í mannsmynd  bæta úr vitglöpum mínum. Spurði ég hana hvenær þau kæmu til byggða og hvar þau ættu heima. Hún sagði þau eiga heima í Biskupstungum og kæmu seinni partinn daginn eftir.

Þetta voru góðar fréttir fyrir mig, að þau ætluðu að koma niður sunnan megin fjalla en ekki norðan megin. Ég spurði hvort hún kannaðist við Ellu í Miðfelli og játti hún því. (Hún er systir Ásgríms) Ég sagði  að við værum að fara þangað og þar með var tenging komin sem leiddi til þess, að ég fékk töskuna senda með afkomanda Ellu til Hafnarfjarðar og gátum við seinna sótt hana þangað.  Af okkur er það að segja, að þegar við vorum komin að Gullfossi og ætluðum að fara þar inn vildi Ásgrímur fyrst hringja í Elínu systur sína og sagði hún okkur að koma í kaffi, hún væri ein heima. Vildi hann þá að við færum strax til Miðfells sem við og gerðum og þáðum kaffi hjá henni. Ég saknaði ökuskírteinisins af því ég hefði viljað hvíla manninn minn svolítið. En er svo mikill bókstafsþræll að ég vildi ekki aka þegar ég vissi að ég var ekki lengur með ökuskírteinið innan seilingar eins og ætlast er til lögum samkvæmt. Ef  ég hefði verið stöðvuð og beðin að sýna ökuskírteini, þá hefði það ekki hljómað trúverðuglega að segja ,,Það er norður á Kili". Ég lét því bóndann um að koma okkur heim sem hann gerði með sóma. Við komum aðeins við hjá Lilju og Kristni sem var fóstursonur Ásgríms um nokkurra ára skeið. Þau búa á Selfossi. Eftir smáspjall lögðum við af stað heim og gekk allt vel.Þegar heim var komið hringdi ég til dóttur minnar fyrir norðan og lét hana vita að við værum komin heim. Við fórum Kjöl, sagði ég.  ,,Ha, ég trúi þessu ekki!" segir hún "og matarlaus", bætti hún við, minnug þess að ég vildi ekki þiggja nestið um morguninn. Hún og systir hennar höfðu þá farið suður Kjöl fyrir eitthvað um ári síðan og ekki fundið neinn hressingarskála á leiðinni yfir hálendið.

 

                                                           

 

                                                                             

25.08.2009 10:58

Ótitlað


Jarðarför.

Fimmtudaginn 30 júlí 2009 fórum við hjónin upp á Akranes til að vera við jarðarför Heklu Gestsdóttur fósturdóttur Ásgríms. Hún hafði um tíma
barist við sjúkdóm sem lagt hefur marga landsmenn að velli. Við höfðum nú ekki kynnst mikið því við hittumst ekki svo oft þar sem við bjuggum ekki svo nálægt hvor annari. Hún var alltaf hlý og elskuleg þegar fundum bar saman eins og allt hennar fólk, eiginmaður og afkomendur. Enginn veit fyrirfram hvað okkur er útmælt af dögum. Hún hlaut rúmlega 6o ár. Sumir fá meira og sumir minna. Hún lifði það að koma upp fimm manvænlegum börnum. Það sem mér finnst einkenna þau er hve þau eru dugleg í námi og starfi og barnabörnin lofa góðu. Jarðarförin fór fram frá Akraneskirkju að mörgum viðstöddum og að henni lokinni var þeim öllum boðið til erfidrykkju í Vinaminni.
------------------

Ferð á Kotmót.

Föstudaginn 31júlí að morgni lögðum við af stað austur í Fljótshlíð til að vera þann dag á Sumarmóti Hvítasunnumanna sem var það sextugasta í röðinni frá upphafi. Fólk úr Hvítasunnukirkjunni í Keflavík átti að sjá um tónlistina á föstudeginum og þar sem Ásgrímur er þátttakandi hér heima í tónlistinni í Hvítasunnukirkjunni þá bar honum að mæta þarna með sitt mandólín. Við byrjuðum ferð okkar á að sækja vin okkar Hafstein sem fékk far með okkur. Ég settist við stírið inn að Hafnarfirði því mér finnst nú skömm að reyna ekki að hvíla manninn minn spotta og spotta á langferðum þótt það hafi nú verið næstum orðin regla að hann æki alltaf þegar skemmra væri farið. Það er svo sem áhyggjulítið að láta aðra aka sér en reynir meira á ef maður vill svo breyta til aftur eftir að hafa hvílt sig of lengi.

Þessi kafli inn að Hafnarfirði er auðveldur af því ég er búin að aka hann nokkrum sinnum að undanförnu. Ásgrímur tók svo við og ók austur fyrir Selfoss. Þá tók ég við og ók til Hvolsvallar. Þar fórum við inn í skála og fengum okkur pylsur. Þegar því var lokið vildi Hafsteinn nú koma að einhverjum notum og ók að Kirkjulækjarkoti. Veðrið var með eindæmum gott. Við biðum þar eftir samkomunni í þessu líka glaða sólskini og hita og var múgur manns þar samankominn og sýndist mér lítið vanta á að skemman yrði full. Þó var mótið rétt að byrja. Við vorum aðeins á þeirri einu samkomu. Okkur fannst best að vera ekki allt of seint á ferðinni heim vegna
umferðarinnar sem við álitum að mundi aukast þar sem mesta ferðahelgi ársins var að hefjast. Hafsteinn tók svo stóran hlut í akstrinum á heimleiðinni að mér fannst ég geta alveg sleppt allri þátttöku með góðri samvisku. Mikill var bílastraumurinn á móti en lítill á eftir. Mig hefði ekki langað að vera í lestinni sem var á austurleið. Ég er ekki hrifin af að hafa svo stutt milli bíla. Allt gekk vel og gott var að geta háttað í sitt eigið rúm að kvöldi eftir langan dag þann 29 júlí 2009.
----------------------

Skroppið til Reykjavíkur.
Við héldum nú kyrru fyrir daginn eftir að við komum að austan en annan ágúst 09 sem var Sunnudagur, fórum við inná Reykjavíkurvöll að sækja Önnu mína og Sigurd. Mér finnst nú gott að geta lengt svolítið samveruna með þeim með því að flytja þau og sækja inní Reykjavík. Sigurd finnst auðvitað skemmtilegast að komast sem fyrst til Akureyra og vera sem lengst með frænda sínum og félaga þar. Þau geta auðvitað bjargað sér með rútunni til Reykjavíkur og til baka og hafa gert. Þau gistu svo hjá okkur þá nóttina en snemma morguns daginn eftir fórum við með þau hérna upp á Keflavíkurvöll. Þaðan flugu þau heim til sín.
----------------------








25.08.2009 10:26

Ferðalög

20.07.2009 21:56

                                                Góðir  gestir

Það er 18 júlí 09. Það er sólskin og hiti, búnir að vera margir slíkir dagar í sumar. Anna mín kom í gærkvöldi frá Noregi ásamt syni sínum Sigurd. Þau gistu hjá okkur í nótt og vöknuðu víst á undan okkur því klukkan í Noregi er tveimur tímum á undan okkar klukku. Eftir hádegisverð fórum við að skoða Stekkjarkot og á eftir fórum við að sjá skipið Íslending í hans veglegu húsakynnum. Þetta  er nú allmerkileg sýning og tekur æðilangan tíma að lesa allt sem stendur skráð uppá veggjum á efri hæðinni. Það var nú þannig fyrir nokkrum árum að ég var hætt að sækjast eftir að fara á sýningar af þeirri ástæðu að ég fór svo fljótt að finna til í fótunum af að standa svo lengi næstum því í sömu sporum. Ég get gengið miklu lengra mér að meinalausu en ég get ekki staðið kyrr jafnlengi án þess líkaminn kvarti. Eins og það getur þó verið gaman að fara á sýningar.

 Það leið nú ekki á löngu eftir að ég var komin upp á loftið og búin að standa við að lesa upp fyrir mig það sem skrifað stendur þar á veggjum en ég fór að finna fyrir örmögnunartilfinningu í fótunum og fór að horfa í hvert skot þarna eftir stóli til að setjast í til að jafna mig. Ég þoli miklu betur að ganga en að standa svona mikið til kyrr. Það var hvergi stól að sjá. Ég var nú orðin svo uppgefin að ég ákvað bara að fara niður og út í bíl og bíða þar eftir fólkinu mínu og fékk því bíllyklana í hendur. Svo rölti ég niður stigann og hvað haldið þið. Þar stóðu þá nokkrir stólar í hvirfingu og biðu þess að einhverjir örþreyttir safngestir hlömmuðu sér niður í þá. Svona líka virkilega góðir stólar. Það er meira en hægt er að segja um aðbúðina í sumum verslunum þótt stórar séu.

 Ég er stundum búin að mæna þar eftir sæti og myndi gera mér að góðu þótt það væri bara lítill kollur. Mér finnst að hönnuðir slíkra húsakynna ættu að sjá um slíka hluti með sóma. Það geta nú ekki allir komið á upprennandi æskunnar fótum eða þá hjólastólum. Svo er nú líka það, sem víða hefur vantað, gott aðgengi fyrir hjólastóla. Ef fólk hefur ekki reynt erfiðleikana á eigin  skinni þá vill nú oft vanta, að sérþarfirnar séu teknar með. Ég varð nú

hálfhissa á að sjá svona marga stóla samankomna eins og þarna og minntist á það við afgreiðslumanninn að mér fyndist einn þeirra mætti nú vera uppi á loftinu en það var víst eitthvað í veginum með það, honum óviðráðanlegt.

Svo kom nú að  því að allir voru búnir að horfa nægju sína á þetta fræga skip og þá lá leiðin til Reykjavíkur. Þó að leiðin sjálf gegnum hraunið sé nú ekkert sérlega hrífandi þá er sjóndeildarhringurinn svo víður og skýjamyndanir svo töfrandi fallegar og margbreytilegar ef himininn er á annað borð nógu léttskýjaður. Hann er aldrei með sömu sýningar í annari ferð eða þriðju. Við ákváðum að stoppa í Hafnarfirði og fá okkur ís og var það mjög endurnærandi í hitanum. Borðuðum við ísinn þar í rólegeitum og héldum svo inn í Reykjavík. Anna og Sigurd áttu að mæta á flugvellinum kl.5. Þau voru á leið til Akureyrar. Við hjónakornin héldum svo til baka aftur út á Reykjanesið.

06.07.2009 21:42

Ótitlað

                   Æskuheimili.

Tvíbýli var á Rauðabergi og bjuggu foreldrar mínir á öðrum bænum en tvær systur á hinum.  Þær hétu Kristín og Katrín og voru Erlendsdætur, Móðir þeirra hét Þorbjörg var Benediktsdóttir. Hún var afasystir mín. Ég man mjög lítið eftir henni en hjá systrunum var ég eins og annar heimagangur.

Vel áttu við mig vetrarkvöldin löngu þegar búið var að kveikja á hengilampanum og rokkþytur og kambagnýr fyllti litlu baðstofuna. Mamma spann og Guðný fóstra hennar spann en Guðnýjarrokkur var miklu hljóðlátari. Ég sat þá t.d. við að prjóna íleppa með fallegum röndum. Faðir minn hafði það fyrir sið að lesa passíusálmana á föstunni ásamt viðeigandi hugvekjum. Vigfúsarhugvekjur minnir mig þær heita. Ég man að ég var oft háttuð áður og fannst ágætt að hlusta þar sem svo vel fór um mig eins og uppí rúmi. Þessir lestrar vöktu góðar hugsanir þannig að mér þótti vænt um Krist sem um var lesið.

                             Prestar húsvitja.

Ég mun hafa verið um sjö ára aldur þegar ég lærði að lesa, auðvitað heima. Áður en það varð gerðist það að bróðir minn Daníel fékk Þúsund og eina nótt lánaða og las kafla og kafla upphátt.  Mér fannst hann bróðir minn óskemmtilega latur við það og hugsaði með mér að ég þyrft nú endilega að fara að læra að lesa sjálf, svo ég þyrfti nú ekki að eiga það undir annarra duttlungum hvort ég fengi notið þeirrar skemmtunar er bækur gættu veitt.

Einu sinni eftir að ég var farin að læra að lesa kom prestur í húsvitjun. Minnir mig að það væri síra Jón Pétursson á Kálfafesstað og varð ég að stauta fyrir hann. Náði ég þá í Konstönsu en svo hét bókin er ég hafði lært að lesa í. Kom það sér nú vel að ég valdi hana því eflaust kunni ég nú eitthvað orðið í  henni.

Seinna kom annar prestur, síra Eiríkur Helgason í Bjarnanesi. Þá kom ég því ekki við að sækja Konstönsu því þessi náði sér í nýkomið dagblað og reif það upp handa mér til að lesa. Mig minnir hann segja að það væri þá víst að ég væri ekki búin að lesa það áður. Gamalt fólk minntist þess með ánægju þegar prestar hefðu komið á ári hverju í þessar vissu heimsóknir. Það getur maður vel skilið að þær hafi verið öllum til ánægju nema þá helst börnum sem voru ekki orðin fluglæs.

                                           Umhverfið       

Ég átti lítinn sleða og þegar snjór var kominn og sleðafæri fór ég með hann inn á Ekru, sem kölluð var því undarlega nafni, því lítið tún var þar. Eða graslendi. Þetta var í jaðri á Rauðabergstúninu. Ég renndi mér þar niður smábrekku á sleðanum. Ein tóft stóð þar. Kristín frænka sagði mér frá hjónum sem hefðu reist sér þar bústað og búið við mikla fátækt. Það fékk á mig að heyra að konan hefði haft yngsta soninn sinn á brjósti í sex ár en þegar hún var sjálf orðin gömul og hrum og önnur börn hennar dáin. Þá vissi hún víst varla hvort þessi sonur hennar var lífs eða liðinn.

Kristín frænka mín var stundum að byggja þarna grjótgarðspart í hjáverkum sínum, milli skriðunnar og  túnsins síns,  þetta land tilheyrði þeim systrum.  Garðurinn var einfaldur. Pabbi minn hlóð líka grjótgarðspart milli túnsins og skriðunnar þeim megin sem hans tún var.

Sá garður var tvöfaldur. Einhvern tíman líklega eftir miklar rigningar eða þrumuveður hrundu stór björg  ofan frá fjallsbrún niður skriðurnar með ofboðslegum hávaða og rufu að mig minnir 3 skörð í vegginn sem pabbi hafði byggt. Mér stóð nú í aðra röndina stuggur af að búa svo nálægt fjallinu. Ég hafði gaman af að ræða við Kristínu.. Hún sagði mér frá liðinni tíð og minntist atburða úr æsku og líka ýmissa þjóðsagna. Þær systur áttu íslenskan hund gulskrámóttan að lit. Hann hét Frakkur og bar nafn með réttu. Hann var hávær eins og flestir af því kyni. En fallegur hefur hann verið eins og flestir íslenskir hundar, áður en hann var svo feitur og gamall. Hann fékk að verða ellidauður eins og manneskja sem ekkert dauðaslys hendir eða drepsótt.

 

03.06.2009 21:26

Hross handa börnum

Löngum hafa hrossin verið miklir vinir mínir og snemma komst ég uppá að sækja þau og sendast á þeim.  Þau voru svo spök í haga og þjál í meðförum að mestu klaufar gátu náð þeim og sótt þau. Einhver fyrsta útreiðin mín sem ég man eftir var kirkjuferð okkar mömmu eitt sinn um vor. Það voru helst fermingarnar sem drógu fólk af stað til kirkjunnar og þær voru á vorin. Þá var líka hægt að fara ríðandi og við vorum nú frekar afskekt. Veit ég ekki hvort heldur var, að prestinum fyndist það algjör óþarfí að messa mjög oft eða fólkið hafi verið búið að sýna svo lítin áhuga á  að sækja messur að hann hafi þessvegna ákveðið að leggja ekki þyngri  byrðar á lýðinn en hann fyndi sig geta risið undir. Eiginlega man ég lítið úr þessari kirkjuferð nema mig minnir við verða samferða Holtaselsfólkinu og einnig Dagbjarti og Petrúnu frá Heinabergi einhvern hluta leiðarinnar. Ég man þó hvað Lilja gamla sem ég sat á var þýð og skeiðaði hart, að því er mér fannst. Eitthvað rámar mig í að Dagbjartur hafi verið á eftirtektarverðum hesti.

 

Ég mun hafa verið á sjötta ári þegar ég var send austur að Viðborði. Sá bær er um klukkutíma gang frá Rauðabergi. Ég var send með rúgbrauð til að fá það bakað í rafmagnsofni því að þar var lítil heimarafstöð. Mér þótti mikið til koma að vera álitin fær til þessarar ferðar. Ég fór fyrst til hrossanna til að sækja mér hest. Sá ég þá stjörnótt folald hjá Lilju. Auðvita fannst mér Stjarni litli undurfagur en ekki veit ég hvort okkar Bleiks var hrifnara.Ég lagði nú beisli  við Bleik. Það var myndarlegur hestur á velli og mjög kviðmikill. Höfðu sumir að spotti og sögðu hann fylfullan. Mér þótti undur gaman að koma að Viðborði og hitta telpurnar þar, Ingu og Hlíf, sem voru á líku reki og ég. Ég sagði nú tíðindin af foaldinu, Þá sagði bóndinn, að þar hefði ég verið heppin, því ég sé eigandi að foaldinu, þar sem ég hefði séð það á undan öðrum. Ekki veit ég nú hvort ég trúði því en þessi ferð tókst vel hjá okkur  Bleik og hann skilaði okkur með sóma heim aftur.

 

Einu sinni kom ég á honum að Seli. Þá mun það hafa verið Björg sem spurði mig að því er ég var að fara á bak, hvort hann væri latur. Ekki hefur hann nú verið það sagði ég og tók upp þykkjuna fyrir klárinn. Sannleikurinn var auðviðað sá að hefði hann verið bráðviljugur, þá hefði hann ekki verið sá barnahestur sem hann var. Hefði hann verið letingi þá hefði hann ekki heldur verið heppilegur. Hann hafði eitt sinn verið lánaður í læknisvitjun og orðið innkulsa. Eftir það sótti á hann svo hræðileg mæði. Ég man hvað ég kenndi í brjósti um hann er ég reið honum í samreið heim af engjum. T.d. frá Seli og uppá Melsenda, sem var upphleyptur vegarspotti en ekki langur. Hve hann var þá skelfilega mæðinn er þangað kom, því ekki vildi hann nú dragast aftur úr hinum hestunum.

 

Bleikur var eiginlega giftur rauðri hryssu sem hét Lilja. Hann var hræddur um hana fyrir öðrum klárhestum. Ókunnuga hesta rak hann burtu og hræddi þá. Þótt hann væri í hafti og svona slæmur fyrir brjósti þá setti hann það ekki fyrir sig. Lilja eignaðist nokkur folöld sem Bleikur unni mikið þótt hann væri bara fósturfaðir. Ég man eftir Brúnku, Létti og Stjarna. Bróðir minn fékk Brúnku, hún var undan Blakk frá Árnanesi og hafði fengið 1 verðlaun á  hrossasýningu. Þá held ég að það hafi aðeins átt við útlitið. Það var ekki verið að keppa í hæfileikum á fyrstu hrossasýningunum. Pabbi gaf mömmu Létti Hann var undan Bráni frá Árnanesi. Mér er minnisstætt hve hann lék sér mikið sem folald. Þó varð hann ekki bráðviljugur en gangurinn varð tölt og skeið og ekkert út á það að setja. Hann var seldur þegar ég var 12 ára. Hann átti að fara eitthvað austur á land og ég var send með hann út að Stórabóli. Hann hefur sennilega átt að fara með póstinum. Ég skilaði honum þar með tárin í augum. Vildi alls ekki koma inn þótt mér væri það boðið.

 

 Yngstur af systkinunum var Stjarni. Faðir hans var bráðviljugur foli á næsta bæ. Lilja var orðin gömul og átti ekki að verða fylfull. En Guð vildi gleðja litla stelpu með því að gefa henni folald. Sjálfsagt hefur engan folatoll þurft að greiða því folinn hafði ekkert leyfi til að fylja hryssuna. Stjarni var dökkrauður með stóra skástjörnu í enni og grátt fax og tagl.


Stjarni litli var óþægur við mig sitt fyrsta sumar. Nennti oft ekkert að fylgjast með mömmu sinni. Það kom sér illa þegar þurfti að nota hana á engjarnar. Þar fyrir utan var hann oftast þægur og hrekklaus og mjög þýðgengur þegar að tamningu kom. Aðalgangur hans var tölt en hann var helst til stuttstígur og drógst því aftur úr ferðmeiri hestum.

 

Mér fannst það leiðinlegt. Hann bar höfuð hátt en ganaði nokkuð og náði því ekki fyrsta flokks höfuðburði. Hann var alltaf ljúfur í skapi og ferðafús. Gat verið útsjónarsamur fyrir sjálfan sig. Ég fór stundum á honum niður að Holtaseli og meðan ég stoppaði þar smeygði ég taumnum upp á tréhæl sem hafði verið rekinn niður í grasi gróinn garðvegg. Þannig urðu hestarnir að gera sér að góðu að bíða eftir knapa sínum á meðan hann þáði kaffi og kökur í eldhúsinu. Stjarni fann upp það þjóðráð að draga hælinn upp með tönnunum og beita sjálfum sér í túnið á meðan. Allir vissu á þeim árum að það tilheyrði ekki mannasiðum að beita hrossum í tún náunga síns. Taðan var ætluð mjólkurkúnum á veturna.

 

                                      

 

 

09.05.2009 00:09

Ótitlað

                                    Danmerkurferð 2009

 

Sonur minn Jóhannes Páll býr í Danmörku. Hann á þrjú börn. Bjarna sem er elstur fæddur 1981. Söru sem verður 17 ára 2 október og Önnu sem verður 14 27,okt. Hún átti að fermast þann þriðja mai. Af því að ég sé þetta fólk svo sjaldan langaði mig til að fara til þeirra við þetta tækifæri. Þegar Guðný mín heyrði það bauðst hún strax til að  koma með mér þótt ég  vissi að hún hafði ekki ætlað sér að fara. Pantaði hún farseðla í skyndi á netinu.  Anna dóttir mín ásamt manni og syni ætlaði líka að koma frá Noregi yfir til Danmerkur.  Guðný kom svo sídegis fimmtudag 30 apríl hingað til Keflavíkur, hafði komið með flugvél frá Akureyri til Reykjavíkur og með rútu þaðan til okkar.  Snemma morguninn eftir, sem var 1. mai, ók Ásgrímur okkur upp á flugvöll í grenjandi roki og rigningu. Allt gekk þó eftir áætlun með flugið þótt hvasst væri.  Við komum í góðu veðri til Danmerkur. Guðný virtist vita   hvernig best væri að haga sér með tilliti til strætisvagna og vagn tókum við til Hrefnu dóttur hennar þar sem hún býr með kærasta sínum.  Fórum svo allar út að ganga í góða veðrinu og borðuðum að lokum góðan kvöldmat hjá þeim.  Hjá þeim sváfum við svo í stofunni um nóttina.

 

Við vöknuðum snemma kl.7 að dönskum tíma,( kl.5 að íslenskum) til að ná lestinni til Jótlands.  Hrefna kom með okkur þangað og tók fartölvuna sína með því hún var áhyggjufull yfir að vera ekki búin að fá ritgerð frá einhverjum yfirlesara. Þetta var eitthvert merkisplagg sem átti að skila í lok þriggja ára námstímabyls í læknisfræðinni.  Það var nú nettenging í lestinni svo hún gat haft auga með hvort eitthvað ræki á fjörurnar. Þessu átti hún sem sé að skila á mánudag. Við vorum á leiðinni til Jótlands í ágætu veðri og Palli kom og sótti okkur til Vejle og fór með okkur heim til sín og drukkum þar eftirmiðdagskaffi.  Þau voru þá komin þangað Anna, eiginmaður og sonur.  Við borðum þar svo öll um kvöldið. Hrefna gat komist á netið hjá Palla og fengið að vita að ritgerðin var komin í hennar hendur.  Anna Kell Einar og Sigurd gistu hjá Palla en hann ók okkur að litlu húsi sem hann hafði útvegað handa okkur. Það var fullkomið íbúðarhús svo það var rúmt um okkur.  Skrítið hvað það var dimmt á næturnar þarna.

 

Palli kom svo um morguninn og sótti okkur í morgunmat.  Svo fórum við öll til kirkjunnar og þá var að byrja að rigna en kl.11 fór athöfnin þar fram.  Þar eftir var ekið þangað sem veislan var haldin og þá var komin mikil rigning.  Það voru víst um 65 gestir.  Þetta var mikil matarveisla og ætla ég ekki að telja réttina því ég vissi um fáa hvað þeir hétu.  Veislan var sú lengsta sem ég hefi setið,7 tíma segir Guðný.  Það voru ræður og sitthvað til skemmtunar inní millum.  Hefði staðið lengur ef ekki hefði rignt.  Þá hefðu verið útileikir og endað með að grilla pilsur.  En ég veit þó samt hvernig Danir halda veislur.  Allir dagar eiga kvöld og eins var með þennan. Við þurftum að vakna kl.7 að dönskum tíma daginn eftir.  Palli ók okkur til Veile um 45 mínútna leið.  Þar kvöddum við hann og tókum lestina til Kaupmannahafnar.  Það var um þriggja tíma ferðalag í glaða sólskini. Vissulega fagurt land og vel hirt sem við höfðum séð af Danmörku.  Lestin stoppaði rétt við flugvöllinn.  Þar fórum við Guðný úr lestinni.  Hrefna hélt til síns heima.  Við biðum þar um tvo tíma.  Ég hafði lagt allt mitt traust mannlega talað á Guðnýju

hvað viðvék ferðalaginu og hún reis vel undir því. Það eina sem ég var hrædd við í ferðalaginu voru rúllustigarnir í þessum stóru flughöfnum, að ég mundi stíga á samskeytin sem reyndar kom nú lítillega fyrir einu sinni en ég datt nú ekki.  Á einum stað þar sem líka var hægt að ganga niður eðlilegan stiga á eigin fótum bauð Guðný mér upp á það sem ég þáði allshugar fegin.  Í því varð einum manni það á að stíga smávegis á samskeytin og sýndist mér honum verða við svipað og mér.  Hann datt nú ekki heldur sem betur fór.  Við komum svo heilu og höldnu til Keflavíkur á eðlilegum tíma og Ásgrímur var kominn til að taka á móti okkur en Guðný fór með rútu til Reykjavíkur og ætlaði að fljúga heim þaðan.

29.04.2009 15:14

Ótitlað

                        Dagur eftir kosninganótt.

 

Dagurinn hófst hjá mér við það að maðurinn minn opnaði útvarpið fyrir fréttum.  Jæja hugsaði ég.  Þá er klukkan orðin 8. Ég þarf ekki að mæta hjá sjúkraþjálfara fyrr en klukkan 9. Þá þarf ég ekki fram úr strax en svo lít ég á klukkuna og sé að hún er aðeins 7. Skrítinn fréttatími hugsa ég. Ég hélt að hann væri ekki fyrr en      kl.8. Ég er ekki vön að vakna svona snemma. Annars var þetta kosninganótt, verið að telja atkvæði, og ýmsir hafa ekki getað sofið af æsingi en aðrir af gleði yfir unnum sigrum.  Jóhanna og Steingrímur eru svo sæl yfir sínu fyrra hjónandi að nú vilja þau endilega endurnýja það. Þau þurfa hvorki  að spyrja kóng né prest. Þau fengu svo mikið fylgi að þau geta alveg ráðið þessu sjálf. Þetta er nú samt frekar snúið fyrir Steingrím sem hefur eflaust fengið mörg atkvæði út á sitt fussum svei við Evrópubandalaginu.

 

 Ég sat heima á kjördegi, vissi ekki alveg hvort Steingrími væri treystandi, en Jóhanna, sem þekkir hann betur en ég, er vongóð um að geta leitt hann með lægni sína leið, ekki mína.  Ef þetta tekst hjá henni og verður til farsældar, þá finnst mér að ætti að ráða Jóhönnu sem yfirhjónabands ráðgjafa í þessu landi  til að tala á milli alvöruhjóna, sem lent hafa í óyfirstíganlegri kreppu, því þar þarf svo sannarlega á afburðafólki að halda, sem fengið hafi góða æfingu á Alþyngi við að yfirtala fólk. Skilnaðartíðnin er fyrir löngu orðin svo óheyrilega há í þessu landi.

,,Verði ríki sjálfu sér sundurþykkt, fær það ríki ekki staðist, og verði heimili sjálfu sér sundurþykkt fær það heimili ekki staðist".Matt 3.24.

 

Annars er nú meira hvað fólk ætlast til mikils af þessum ráðherrum, ríkisstjórn og þingmönnum, því finnst þeir aldrei vera að gera nokkurn skapaðan hlut

Ég er svo viss um að þeir hafa oft verið kúgaþreyttir að kvöldi og ef til vill ekki getað sofnað fyrr en undir morgun af áhyggjum af þjóðarhag. Það kann nú að þurfa meira enn eitt lárétt pennastrik til að bjarga öllum heimilum í landinu. Fólk vill bara hafa kjörna  menn og konur, sem mæta erfiðleikum með því að segja, hókus pókus og þá séu þeir úr sögunni. Páll postuli segir að við eigum að biðja fyrir þeim sem hátt eru settir til þess að við fáum lifað friðsamlegu og rólegu lífi í guðsótta og siðprýði. Þetta er gott og þóknanlegt Guði, frelsara vorum, sem vill að allir menn verði hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum.

 

 

 

 

 

 

14.04.2009 23:33

KÁLFARNIR

                                    KÁLFARNIR.

 

Þetta verður pistill fyrir náttúruunnendur því hann gerist í sveitinni.  Ég hefi áður sagt   

Frá því að kálfarnir hafi verið leikfélagar mínir.  Það var oft gaman seinnipart vetrar þegar jörð var þíð, þá mátti ég láta út kálfana til að lofa þeim að leika sér.  Þeir voru nú ekki sérlega taumliðugir út úr fjósinu í fyrsta sinn.  Innan þessara veggja höfðu þeir fæðst og dvalið fram að þessu.  Þótt allt gengi nú fyrir sig fram að dyrum, varð þeim gjarnan flennt við er þeir sáu sólina í fyrsta sinn og annað fleira nýstárlegt.  Það var samt tilvinnandi að leggja það á sig að toga þá úr dyrunum þótt að seinlega gengi, til þess að horfa á þá leika sér.  Hvað þeir gátu hlaupið.  Þeir voru miskátir.  Ég man sérstaklega eftir einum.  Hann var hvít og svartflekkóttur.  Mér fannst hann svo fallegur og skemmtilegur enda lét ég hann oft út.  Mér fannst hann þyrfti nú að bera eitthvert merkisnafn og fann uppá því að kalla hann Churchill í höfuðið á forsætisráðherra Bretlands.

 

Tveir aðrir bolakálfar fæddust þennan vetur og hefur það verið óvenjulegt, því venjulega voru bara tvær kýr mjólkandi.  Næsti kálfur sem fæddist var svartur og þessvegna fékk hann nafnið Hitler.  Sá þriðji var rauður og hann kallaði ég því Stalinn.  Ég hefði nú ekki úthlutað sakleysingjunum þessum nöfnum seinna meir. Stalinn lifði skamma hríð en hinum var leyft að lifa til haustsins.  Það var sjálfsagt skynsamlegt að þeir yrðu ekki gamlir því fyrrum var sagt að ,,fjórðungi brygði til fósturs og fjórðungi til nafns".  Hefðu kálfarnir hlotið fjórðung eðlis síns frá árásargjörnum  nöfnum sínum þá hefðu þeir ekki orðið auðveldir með hækkandi aldri.  Sá kálfur var einu sinni til, sem ég hafði illan bifur á.  Það var fyrir tíma hinna þriggja og ég var þá lítill bógur sjálf. Er hann var nýskroppinn út úr móður sinni baulaði hann og  röddin ekki fögur. þótti það kynlegt .  Hann mun hafa fæðst um vetur. Ég man ekki hvað snemma um vorið hann fór að ota að mér skalla sínum.                                                                                                                                                                                                                                                         Einu sinni er ég var að reka kýrnar á haga og var komin með þær niður úr tröðunum, þá réðist hann á mig. Það vildi mér til happs að ég var nærri bænum þótt ekki sæist heimanað.  Móðir mín eða bróðir heyrði í mér hljóðin því ég grenjaði af öllum kröftum.  Bróðir minn kom hlaupandi mér til bjargar, þar sem kussi var að hnoða mig á vellinum.  Ekki held ég að ég hafi meiðst neitt alvarlega en vera má að þetta atvik hafi orðið til þess, að mér var seinna ekkert um að vera é ferð nálægt girðingunni þar sem þarfanaut sveitarinnar var geymt á sumrin en vegurinn utan úr sveitinni til míns heimils lá meðfram girðingunni að hluta.  Þá voru menn fullir áhuga um að bæta bústofn sinn og fengu naut langt að, frá þeim sem voru lengra komnir í kynbótunum.  Þetta var líka liður í góðu skipulagi því það losaði bændur við að þurfa sjálfir að ala upp kálf til að vera sjálfbærir í þessum efnum.

 

  Nautið var heljar mikill rumur, rauðbröndóttur að lit, sem fylgdist fast með umferð gesta og gangandi í nálægð við sig og sagði ljótt er hann sá mann nálgast. Ekki aðeins það, heldur fylgdi manni eftir sítuðandi sínmegin girðingarinnar, svo lengi sem leiðir gátu legið saman.  Þá var gott að finna sig á hestbaki og geta treyst því, að hrossið hlypi hraðar en nautið ef girðingin léti undan.  Sem betur fór trúði boli víst ekki að hann gæti brotist út.  Ég sá hann aldrei gera alvarlega tilraun til þess.  Honum hefur eflaust leiðst að hanga aleinn innan þessarar girðingar enda myndaði hann götu með rölti sínu meðfram henni.

 

 

                                                      

18.03.2009 20:07

Ömmubörnin aftur.

Eftir aða hafa skrifað síðasta pistil sá ég að ég hafði aðallega minnst á drengina.  Það var ekki vegna þess að mér fyndist neitt meira til þeirra koma.  Þeir voru bara eins og meira við hendina útfrá dagatalinu. Stúlkurnar eru þrjár. Elst af þeim er hún Hrefna Sæunn sem leggur fyrir sig læknisnám í Danmörku. Hún er íslensk og talar íslensku. Svo eru Sara og Anna sem heima eiga í Danmörku. Danskan er þeirra móðurmál. Þetta eru indælar stúlkur og ég vona að þær eigi eftir að leggja fyrir sig einhver heiðarleg störf, sem Guð hafi skapað þær til að vinna, sjálfum sér og sínu landi til farsældar, eða hvar í heiminum sem þær eiga eftir að slá sér niður til búsetu. Ég þakka Guði fyrir þau öll.

Flettingar í dag: 62
Gestir í dag: 17
Flettingar í gær: 204
Gestir í gær: 21
Samtals flettingar: 79534
Samtals gestir: 16454
Tölur uppfærðar: 7.5.2024 04:10:32

Eldra efni

Tenglar