Þóra Guðrún Pálsdóttir

09.05.2009 00:09

Ótitlað

                                    Danmerkurferð 2009

 

Sonur minn Jóhannes Páll býr í Danmörku. Hann á þrjú börn. Bjarna sem er elstur fæddur 1981. Söru sem verður 17 ára 2 október og Önnu sem verður 14 27,okt. Hún átti að fermast þann þriðja mai. Af því að ég sé þetta fólk svo sjaldan langaði mig til að fara til þeirra við þetta tækifæri. Þegar Guðný mín heyrði það bauðst hún strax til að  koma með mér þótt ég  vissi að hún hafði ekki ætlað sér að fara. Pantaði hún farseðla í skyndi á netinu.  Anna dóttir mín ásamt manni og syni ætlaði líka að koma frá Noregi yfir til Danmerkur.  Guðný kom svo sídegis fimmtudag 30 apríl hingað til Keflavíkur, hafði komið með flugvél frá Akureyri til Reykjavíkur og með rútu þaðan til okkar.  Snemma morguninn eftir, sem var 1. mai, ók Ásgrímur okkur upp á flugvöll í grenjandi roki og rigningu. Allt gekk þó eftir áætlun með flugið þótt hvasst væri.  Við komum í góðu veðri til Danmerkur. Guðný virtist vita   hvernig best væri að haga sér með tilliti til strætisvagna og vagn tókum við til Hrefnu dóttur hennar þar sem hún býr með kærasta sínum.  Fórum svo allar út að ganga í góða veðrinu og borðuðum að lokum góðan kvöldmat hjá þeim.  Hjá þeim sváfum við svo í stofunni um nóttina.

 

Við vöknuðum snemma kl.7 að dönskum tíma,( kl.5 að íslenskum) til að ná lestinni til Jótlands.  Hrefna kom með okkur þangað og tók fartölvuna sína með því hún var áhyggjufull yfir að vera ekki búin að fá ritgerð frá einhverjum yfirlesara. Þetta var eitthvert merkisplagg sem átti að skila í lok þriggja ára námstímabyls í læknisfræðinni.  Það var nú nettenging í lestinni svo hún gat haft auga með hvort eitthvað ræki á fjörurnar. Þessu átti hún sem sé að skila á mánudag. Við vorum á leiðinni til Jótlands í ágætu veðri og Palli kom og sótti okkur til Vejle og fór með okkur heim til sín og drukkum þar eftirmiðdagskaffi.  Þau voru þá komin þangað Anna, eiginmaður og sonur.  Við borðum þar svo öll um kvöldið. Hrefna gat komist á netið hjá Palla og fengið að vita að ritgerðin var komin í hennar hendur.  Anna Kell Einar og Sigurd gistu hjá Palla en hann ók okkur að litlu húsi sem hann hafði útvegað handa okkur. Það var fullkomið íbúðarhús svo það var rúmt um okkur.  Skrítið hvað það var dimmt á næturnar þarna.

 

Palli kom svo um morguninn og sótti okkur í morgunmat.  Svo fórum við öll til kirkjunnar og þá var að byrja að rigna en kl.11 fór athöfnin þar fram.  Þar eftir var ekið þangað sem veislan var haldin og þá var komin mikil rigning.  Það voru víst um 65 gestir.  Þetta var mikil matarveisla og ætla ég ekki að telja réttina því ég vissi um fáa hvað þeir hétu.  Veislan var sú lengsta sem ég hefi setið,7 tíma segir Guðný.  Það voru ræður og sitthvað til skemmtunar inní millum.  Hefði staðið lengur ef ekki hefði rignt.  Þá hefðu verið útileikir og endað með að grilla pilsur.  En ég veit þó samt hvernig Danir halda veislur.  Allir dagar eiga kvöld og eins var með þennan. Við þurftum að vakna kl.7 að dönskum tíma daginn eftir.  Palli ók okkur til Veile um 45 mínútna leið.  Þar kvöddum við hann og tókum lestina til Kaupmannahafnar.  Það var um þriggja tíma ferðalag í glaða sólskini. Vissulega fagurt land og vel hirt sem við höfðum séð af Danmörku.  Lestin stoppaði rétt við flugvöllinn.  Þar fórum við Guðný úr lestinni.  Hrefna hélt til síns heima.  Við biðum þar um tvo tíma.  Ég hafði lagt allt mitt traust mannlega talað á Guðnýju

hvað viðvék ferðalaginu og hún reis vel undir því. Það eina sem ég var hrædd við í ferðalaginu voru rúllustigarnir í þessum stóru flughöfnum, að ég mundi stíga á samskeytin sem reyndar kom nú lítillega fyrir einu sinni en ég datt nú ekki.  Á einum stað þar sem líka var hægt að ganga niður eðlilegan stiga á eigin fótum bauð Guðný mér upp á það sem ég þáði allshugar fegin.  Í því varð einum manni það á að stíga smávegis á samskeytin og sýndist mér honum verða við svipað og mér.  Hann datt nú ekki heldur sem betur fór.  Við komum svo heilu og höldnu til Keflavíkur á eðlilegum tíma og Ásgrímur var kominn til að taka á móti okkur en Guðný fór með rútu til Reykjavíkur og ætlaði að fljúga heim þaðan.

Flettingar í dag: 122
Gestir í dag: 49
Flettingar í gær: 57
Gestir í gær: 20
Samtals flettingar: 78042
Samtals gestir: 16263
Tölur uppfærðar: 25.4.2024 23:00:55

Eldra efni

Tenglar