Þóra Guðrún Pálsdóttir

15.11.2009 15:22

Flugur

                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                                            Flugur

Ég hefi nýlega orðið vör við litlar flugur í íbúðinni hjá okkur.  Veit ekki eftir hvaða leiðum þær hafa ratað til okkar en dettur helst í hug, að þær hafi tekið sér far með blómum og ákveðið að setjast að í sambýli við pottablómin og nærast á ilmi þeirra blóma sem voru að springa út. Þær hafa ekkert verið í eldhúsinu að heimta mat. Ég veit annars ekkert um hvar þær sofa eða á hverju þær nærast hjá mér. Ekkert sannfærir mig betur um að til sé skapari en einmitt svona smákvikindi eins og flugur. Hugsa sér þessa ótrúlegu flughæfni sem þær hafa. Í Íslenskri  Alfræði Orðabók bls.141 er minnst á flugur.  ,,Brachycera: undirættbálkur Tvívængna, með 69 þúsund teg. Oft stuttvaxnar með litla fálmara og stóra gagnsæja vængi. Lirfurnar (maðkarnir) eru í jarðvegi, vatni, taði og úrgangi eða lifa sníkjulífi á dýrum og plöntum. Margar þeirra eru munn og fótalausar."

Ég sat í stofunni nýlega og var að lesa í bók, eitthvað sem mér fannst mjög spennandi, kemur þá ekki ein fluga svífandi með miklum stæl og settist með snilldarlegu jafnvægi á sömu baðsíðu og ég var að lesa. Ég trúði nú ekki að hún væri læs og gæti orðið sér úti um neinn gagnlegan fróðleik á síðunni þar sem flugan nær varla stærð eins bókstafs, svo ég reyndi að slá hana burtu en hún var nú sneggri en svo í hreyfingum að ég gæti hitt á hana. Hún kom fljótt aftur og ég endurtók minn gjörning. Ég veit að maður á ekki að vera að drepa flugur að óþörfu en það hefði tekið mig langan tíma að reyna að fanga hana og koma henni út um gluggann og þá hefði hún bara dáið úr kulda, að ég held. Ég dáist samt að þessum litlu duftkornum fyrir flughæfnina og líka fyrir hæfnina að geta séð sér farborða í lífinu og komið á legg næstu kynslóð til að viðhalda tegundinni, kynslóð eftir kynslóð, marga mannsaldra. Þessi litlu fis sem þær eru. Hver skyldi svo sem hafa getað komið slíku lífsundri til leiðar nema sá eini alvitri Skapari?                                                                                                                                                                                                                     Ég ólst ekki upp við það, að flugur væru hafðar sem gæludýr innan húss. Það var yfirleitt reynt að losa sig við þær með illu eða góðu. Þessi fluga vildi engan frið, hún vildi bara stríð og endurtók hvað eftir annað innrásina á mitt  yfirráðasvæði til að gera það að þyrlupalli fyrir sig að setjast á. Henni virtust vera vel ljósir sínir yfirburðir yfir mig á vissum sviðum en hvort hún var vond út í mig eða hafði gaman af að stríða mér veit ég ekki og verð líklega að bíða lengi enn eftir að vita það. Það dróg enginn hvítt flagg að húni, hvorki hún eða ég. Svo stríðið hélt áfram þar til árásir hennar hættu allt í einu og ég hefi líklega lamað hana eða drepið þótt líkið fyndi ég ekki.

 

Flettingar í dag: 84
Gestir í dag: 5
Flettingar í gær: 145
Gestir í gær: 17
Samtals flettingar: 75276
Samtals gestir: 15468
Tölur uppfærðar: 29.3.2024 16:08:11

Eldra efni

Tenglar