Þóra Guðrún Pálsdóttir

23.09.2010 23:27

Ótitlað

Nafn næstu biðstöðvar tilkynnt í hátalara

þessi fyrisögn birtist í Morgunblaðinu 11 september 2010 .

(Og áfram)Strætó bs.endurnýjar upplýsingakerfi í strætisvögnunum. Nú stendur yfir

Endurnýjun á upplýsingakerfum allra strætisvagna Strætó bs. sem mun gera fyrirtækinu

kleift að bæta þjónustu sína umtalsvert á komandi misserum. Seinna í fréttinni segir:,,  Margir eldri borgarbúar muna eflaust þá gömlu tíma þegar vagnstjórar kölluðu upp nöfn næstu biðstöðvar". Ja hvort ég man, þá var nú minni vandi að ferðast með vögnum þegar ég var ung og átti um tíma heima í Reykjavík. Ég þarf sjaldan á því að halda núna enda hefi ég ekki átt heima í Reykjavík. En í sumar vildi svo til að maðurinn minn þurfti að mæta á Gideonfundi sem halda átti í aðalstöðvum K.F.U.M og K.við Holtaveg.

Ég ákvað að nota ferðina og fara að hitta hjón sem ég hafði verið samtíða þegar ég átti heima í Kleppsholtinu fyrir um 40 árum. Maðurinn og fjölskylda mín höfðum þar áður verið samsveitungar austur í Hornafirði. En nú höfðum við lengst af haft landið á milli okkar. Ég fyrir norðan og þau fyrir sunnan. Nú var ég flutt suður en samt höfðum við aðeins einu sinni hittst. Við höfðum ætlað að heimsækja þau fyrir um ári síðan en þá vildi svo til að konan var að fara út úr húsi og beið bíll eftir henni, svo ekki varð úr heimsókn í það skipti. Nú vafðist fyrir okkur að finna götuna og ég vildi að maðurinn  minn færi til að mæta á réttum tíma á fundinn. Þegar ég svo hafði fundið húsið kom í ljós að aðeins var nú konan ein eftir en maðurinn dáinn. Þetta hafði farið framhjá okkur. Við kaupum ekki Morgunblaðið og hlustum sjaldan á dánartilkynningar.

 

Konan tók mér tveim höndum og reiddi fram góðgerðir eins og henni var eiginlegt. Við ræddum svo allengi saman en þegar ég fór frá henni ákvað ég að ganga niður Laugaveginn eins og í gamla daga þegar ég var um tíma hjá bróður mínum og mágkonu á Háteigsveginum. Mér þótti svo gaman að ganga niður Laugaveginn. Ég rölti alla leið niður á torg. Þar ákvað ég að líta inní Kolaportið. Mér finnst svo gaman að skoða gamalt dót þótt ég sé ekki að kaupa neitt. Svo var svo notalegt að setjast þar og fá sér hressingu eftir gönguna. Næst lá nú fyrir að leita að réttum strætisvagni til að fara með inn í Kleppsholt. Ég var svo heppin að vagninn sem stoppaði við torgið eftir smástund, átti leið um Langholtsveg. Ég spurði hvað farið  kostaði.

Ég hefði átt að vera betur undirbúin. Það kostar ekkert í vagninn í Reykjanesbæ.

.Ég hafði ekki krónurnar tilbúnar og flýtti mér að ná í sæti til að geta talið uppúr veskinu og var svona ljónheppin að það dugði rétt fyrir farinu. Bjóst ekki við að það félli í góða jörð að bjóða seðla, þeim sem eru alltaf að flýta sér og væri ef til vill brot á góðri hegðun hjá farþega. Ég vil ekki hugsa um skömmina, hefði ekki haft fyrir farinu en oft reyni ég, að það er fylgst með mér og séð fyrir því sem ég hefi þurft á að halda  umfram það sem mín viska hefur náð. Þá var nú eftir að koma fargjaldinu á réttan stað. Ég hefi enga æfingu í að ganga um gólf í strætisvagni á ferð og var hrædd við að missa jafnvægið. Stoppin voru svo stutt og ekki til að reiða sig á rauðu ljósin. Loks hefi ég upp hugann.Legg af stað til að skila fargjaldinu og segi vagnstjóranum að ég ætli að fara til höfuðstöðva K.F.Ú M við Holtaveg og fregna hvar sé best að fara út

  Hann kannast nú ekkert við húsnæðið sem ég er að tala um svo ég bið hann að hleypa mér út á stoppistöð næst miðju á Langholtsvegi. Ég gangi bara þaðan .Veit ekkert hvort þetta passi, þótt ég ætti heima í Kleppsholtinu um tíma fyrir meira en 40 árum. Svo þegar hann er á leiðinni upp frá Sundlaugunum dettur mér í hug að það sé nú ef til vill vissast fyrir mig að fara út á næstu stöð og ganga þaðan en villtist og  hugsa að auðveldast nái ég áttum ef ég komist uppá Kleppsveg. Varð af langur gangur. Komst þó að lokum uppá Kleppsveg og svo Langholtsveg, fann Holtaveg og komst í tæka tíð fyrir fundarlok hjá Gideon mönnum.

 

15.08.2010 21:19

Ótitlað

                                                                             Fráhvarf

Það er orðið nokkuð langt síðan ég hefi skrifað nokkuð á síðuna mína //thorapals,123.is/ Stafar það mest af því að dóttir mín Guðný útbjó síðu handa mér á Facebook  Ég hafði eitthvað hugsað um það áður en hætt við af ótta við að verkefnið yrði mér ofviða Það er auðvitað gaman að geta komist í samband við fjarlæga ættingja og það hefur dóttir mín eflaust verið með í huga og vonað að þetta yrði mér til ánægju, þökk sé henni fyrir það.

Mér fannst samt, er ég var komin á Facebook, að ég vera kominn í framandi heim, að sjá boðskapinn sjaldan dagsettan eða tekið fram hvaða ári eða öld hann tilheyrði. Þetta laukst þó upp fyrir mér af tilviljun. Þegar ég beindi örinni að því sem sagt var um aldur ummælanna sem reyndist mældur í mínútum. Þá um leið hvíslaði tölvan að mér leiftursnöggt dagsetningu og mínútu þeirri sem boðskapurinn hafði verið færður til bókar

18.07.2010 23:32

Minning

                                  Minning mætrar trúsystur.

Þriðjudaginn 13 júlí fór fram jarðarför Jóhönnu Jóhannsdóttur frá Dómkirkjunni. Jóhanna var ættuð frá Akureyri dóttir Jóhanns Steinssonar smiðs, sem tók við forstöðumannsstarfi Sjónarhæðarsafnaðar eftir Arthur Gook. Kona Jóhanns hét Sigríður. Ég kynntist þessu fólki fyrir mörgum árum. Það  bar þannig til að ég kynntist Sóleyju Jónsdóttur frá Árskógssandi þegar hún var að læra hjúkrun í Reykjavík og við sóttum báðar kristið samfélag á Bræðraborgarstíg 34. Hún fór svo eftir útskrift, að vinna á elliheimilinu í Skjaldarvík við Eyjafjörð. Gegnum þau kynni réði ég mig til afleysinga smátíma í Skjaldarvík. Þar eftir fór ég austur að Ástjörn í Kelduhverfi til að vinna við sumardvalarheimili fyrir börn, sem söfnuðurinn á Sjónarhæð hafði komið á fót. Þegar þeim tíma lauk hafði ég ekki enn fengið að vita hvort ég fengi pláss í ljósmæðraskólanum um haustið. Yrði það ekki ætlaði ég að vera fyrir norðan um veturinn. En nú vantaði mig húspláss meðan ég beið eftir tilkynningu að sunnan.

Nú kom fólk frá Akureyri austur að Ástjörn til að taka við af okkar flokki, sem höfðum verið með börnin þann tíma sem við höfðum tekið að okkur. Og meðal þeirra sem komu var Jóhanna Jóhannsdóttir.

Þegar hún vissi mínar kringumstæður bauð hún mér strax að fara heim í herbergið sitt á Akureyri og dvelja þar um tíma meðan hún væri við Ástjörn. Jóhanna bjó heima hjá foreldrum sínum á Akureyri og þetta varð til þess, að ég kynntist þeirri ágætu fjölskyldu betur. Það sem ég dáðist mest að hjá þeim var, hve þau voru vel hæf í að taka á móti gestum og láta þeim líða vel hjá sér. Einhvern heyrði ég segja, að maðurinn dáist mest að þeirri dyggð hjá öðrum sem hann er sjálfur fátækastur af. Það gat alveg passað hvað mig snerti. Þessi hjón, foreldrar Jóhönnu áttu sex dætur en ég kynntist bara tveimur þeirra. Sumar þeirra voru giftar og farnar og hinar farnar eða á förum í nám á þessum tíma. Kynnin við þessar tvær héldust nógu lengi til þess að vita, að þær varðveittu vel arfinn úr foreldrahúsum hvað gestrisninni viðkom og varðveislu trúarinna allt til elliára.

 Sama hlýlega, glaða og upplyftandi andrúmsloftið mætti manni. Það var missir fyrir fámennan söfnuð að missa Jóhönnu suður og einnig hinar systur hennar sem ekki urðu lengur stoðir í söngstarfinu í hinum litla söfnuði. Hún Jóhanna hafði líka hjálpað til í barnastarfinu og á saumafundum með telpum en svona er lífið. Hún giftist góðum kristnum manni Geirlaugi Jónssyni og flutti til Reykjavíkur ári eftir að ég giftist fyrir norðan. Eftir það urðu strjálar heimsóknir vegna fjarlægðar en samt hélst samband og alltaf var jafn indælt að  koma á heimili þeirra á Grensásveginum. Guð gaf þeim tvær dætur. Ég vil senda þeim og eftirlifandi eiginmanni ásamt systrum Jóhönnu innilega samúðarkveðju.

Þakka góðum Guði fyrir að hafa fengið að kynnst svo góðri trúsystur sem Jóhanna var.

24.06.2010 16:05

Lífshætta

                                                       Bjargast úr lífshættu

Elín Steingrímssen vinnur á útvarpsstöðinni Lindinni. Hún safnar bænasvörum hjá fólki. Um daginn kom hún til mín tilbúin að skrásetja eitthvað eftir mér en ég var ekki viðbúin og fannst ég ekki muna eftir neinu á stundinni og sagði henni það. Eftir á fór ég að hugsa að ég hefði þó átt að muna eftir einu atviki sem skeði þegar ég var 12 ára. Þá sótti ég barnaskóla sem haldinn var í Holtum sem eru nokkuð miðsvæðis í minni sveit á Mýrum A-Skaft. Á meðan var ég til heimilis í Stórabóli hjá Sigríði Halldórsdóttur. Það var of langt að ganga heiman að frá mér og svo var Djúpá á miðri leið. Um helgar máttum við fara heim til okkar á laugardögum þegar veður leyfði og vera fram á sunnudag. Ég hlakkaði alltaf til að fara heim. Stundum var mér fylgt og stundum var ég sótt að heiman og stundum var ég samferða Bjarna Þorleifssyni sem bjó í Holtum en hafði fjárhúsin sín fyrir ofan Djúpá

Nú átti að fylgja mér einn laugardag en mér hefur alltaf fundist leiðinlegt að láta aðra hafa mikið fyrir mér og fullyrti að ég gæti vel farið ein í svo góðu veðri og álitið var að mannheldur ís væri kominn á ána. Þegar áin var á haldi gátum við sem heima áttum á fjallabæjunum stundum farið einar heim. Svo þetta varð að ráði, mest líklega fyrir það, að minni greind var treyst. Svo brokkaði ég af stað og fór beinustu leið inn Holtalandsbakka. Segir ekki meira af ferðinni fyrr en ég kom að Djúpá. Á henni reyndist ísin ekki traustari en svo að þegar ég gekk útá brakaði í. Mér var illa við að þurfa að snúa aftur því ég var komin um helming leiðarinnar heim Ég hugsaði að ísinn gæti haldið mér það sem eftir væri eins og hann hafði gert þennan spöl frá landi sem ég var komin.

Svo stika ég áfram en er naumast komin hálfa leið yfir ána þegar ísinn brast. Vatnið tók mér í brjóst og ég varð mjög hrædd. Ég varð svo létt í vatninu og því óstöðug á fótunum. Sem betur fór var þarna lítill straumur annars hefði ég flotið undir ísinn. Ég vissi að mér þýddi ekki að hljóða eða hrópa. Enginn maður mundi heyra til mín. Ég bað sífellt til Guðs í örvæntingu minni og minntist þess nú sem ég hafði lofað þegar ég var veik af kíghóstanum að vera betur undirbúin næst ef Guð leyfði mér að lifa. Nú fannst mér eg ekki heldur undirbúin. Ég rétti handleggina uppá skörina og vóg mig upp en hún lét undan og brast og ég seig aftur niður. Ég hafði samt aldrei sleppt skólatöskunni sem var létt,fyrirferðarlítil og fáar bækur í henni. Þetta var gjöf frá ömmu minni Sigríði Skarphéðinsdóttur.

Þetta endurtók sig nokkrum sinnum að ég vóg mig upp á skörina og hún brast. Hafði ég þannig von um að geta brotist til lands en sú von brást því nú fór að dýpka svo ég treystist ekki til að brjóta lengra og sneri við til baka og vonaði að mér tækist að brjóta þá leiðina. Þar endurtók ég tilraunir mínar en þá fór á sömu leið svo að mér fannst jafnvel dýpka örar en áður þar til mér fannst ég ekki geta fótað mig lengur og sneri við í dauðans ofboði hrædd við að fljóta undir ísinn. Nú sýndust orðið litlar líkur til að ég kæmist lifandi upp úr ánni en áfram hélt ég að biðja. Ég svamlaði nú samt aftur til þeirrar áttar er vissi heim og fór að sem áður, rétti handleggina upp á skörina og spyrnti  fótum í botninn um leið og ég vóg mig upp. Vatnið lyfti undir mig og hvað lífsvon mín tendraðist þegar ég fann að skörin lét ekki lengur undan og uppá hana komst ég og ísinn hélt mér þann stutta spöl sem eftir var til lands.

Ekki var nú allt búið þótt ég væri komin uppúr. Þá var eftir dálítil kvísl af ánni sem rann norðar og á henni var ís sem ég þorði ekki út á. Þarna stóð ég nú hrædd og skjálfandi þar til ég tek eftir manni sem var að koma utan Móa austan frá Seli. Ég vissi að leið hans mundi liggja nálægt ánni þar sem ég var. Beið ég því drjúga stund. Er hann nálgaðist hrópaði ég á hann og bað hann að hjálpa mér.

Þetta var Sigurður bóndi í Holtaseli á leið heim til sín. Áttum við því samleið drjúgan spöl þar til leiðin skiptist og við héldum hvort heim til sín. Þegar ég kom heim varð ég auðvitað að fara úr öllum fötunum, en ekkert varð mér meint af volkinu enda var logn og hlýindi í veðrinu. Ég varð nú ekki margmál um það sem við hafði borið, slík voða hneisa fannst mér, að hafa ekki haft betra vit fyrir mér.

Þegar ég kom í skólann á mánudaginn var sagan af svaðilför minni komin á undan mér og er Petrína skólasystir mín fór að spyrja mig út í atburðinn, þá fékk hún litlar upplýsingar og sagði þá:,,Þú villt bara ekkert um þetta tala." Bækurnar sem voru í töskunni fóru ekkert að taka þátt með mér í að hagræða sannleikanum til að bjarga mannorði mínu og gera lítið úr atvikinu. Þeim var nokk sama enda báru þær með sér, að hafa lent í kaffæringu og litur runnið til í þeim. Þær urðu aldrei samar eftir. Það sás ekkert á mér þegar búið var að þurrka fötin. En það var hins vegar gætnari manneskja sem gekk útí  lífið eftir að þessi atburður gerðist.

02.06.2010 01:39

Ótitlað


                   Árleg ferð eldra fólks.

 

Við höfðum farið upp í Vatnaskóg á föstudegi og komið heim næsta sunnudag. Þá kom annað ferðalag til greina næsta fimmtudag sem var uppstigningardagur. Þannig var að Doris vinkona okkar í næsta húsi, ætlaði að fara í ferðalag með eldra fólkinu í Fíladelfíu í Reykjavík, sem það fer að ég held á hverju ári eftir að sérstökum vetrar samverustundum líkur. Hún var búin að láta skrifa sig  og vinkonu sína sem ekki gat farið þegar til kom. Vildi hún þá fá okkur með sér ef pláss væri laust í rútunni, sem reyndist vera. Vorum við boðin velkomin í hópinn.

 

 

Við áttum að mæta fyrir klukkan níu á fimmtudagsmorgni hjá Fíladelfíu í Rekjavík annað hvort hálf  níu eða korter fyrir, eftir því sem sá er svar gaf, hefur treyst okkur til að vakna nógu snemma, geri ég ráð fyrir. Ásgrímur á nú ekki bágt með að vakna á morgnana, Ég hefi nú líka alltaf lagt það á mig þegar á liggur, þótt ég sé ekki af náttúrunnar hendi til þess gerð. Ekki stóð á Doris. Hún bauð okkur að vera með sér í bílnum til Reykjavíkur. Við vorum að ég held rúmlega 30 í rútunni sem fór frá Fíladelfíu. Var nú haldið leiðina upp í Mosfellssveit.Þar átti ég heima um tíma fyrir margt löngu. Þegar við systkinin Daníel og ég ásamt móður okkar fluttum austan úr Hornafirði þá lá leiðin þangað sem nú er þorp við Hamrahliðina.  Þá var þar braggahverfi.

 

 

Bróðir minn Sigurbergur og annar maður Snæland Grímsson ráku þá Mosfellssveitarrútuna. Einnig ráku þeir bílaverkstæði í stóru húsi er verið hafði hlaða og súrheysgryfjur sem tilheyrðubúskapi thor Jenssen. Þeir létu brjóta glugga á súrheyis gryfjurnar og gera tvær íbúðir í enda hússins. Fengum við efri íbúðina en bílstjóri sem vann hjá þeim þá neðri með sína fjölskyldu. Bróðir minn Daníel fékk vinnu á bílaverkstæðinu til að byrja með. Seinna gerðist hann bílstjóri hjá þeim. Sigurbergur og yndislega konan hans hún Ingunn Grímsdóttir áttu dálítinn sumarbústað skammt frá verkstæðinu. Sigurbergur hafði fengið Sigjón frænda okkar úr Borgarhöfn til að smíða hann. Þau bjuggu þar yfir sumarið.

 

 

 

Einn dag varð mér gengið niður að bústað. Þá liggur mágkona mín upp við bústaðinn og virtist orðin rænulítil. Hún hafði lengi haft fótasár og hafði nú orðið fyrir því að rífa sig á fætinum á vír þarna hjá bústaðnum. Slagæð hafði rifnað og henni var að blæða út .Ég held að það hafi verið Snæland sem ók með hana á ofsahraða niður á Landspítala en það vildi svo vel til að Sigurbergur var að koma heim í þessum svifum, einhversstaðar frá og hann var að minnsta kosti kominn nógu snemma niður á spítala til að gefa konu sinni blóð því hann hafði passandi blóðflokk. Við getum sannarlega talað um farsæl endalok og skjótan bata í þessu tilfelli. Nú er löngu búið að rífa litla bústaðinn og  verkstæðishúsið og byggja önnur hús þarna. Hverfið er orðið að þorpi.og þorpið hverfur fljótt augum þegar rútan rennur hjá.     

 

 

Ferðinni er haldið áfram og upp fyrir hæðina sem Lágafellskirkja stendur á. Þá er beygt til hægri og Reykjalundur verður á vinstri hönd. Þar er svo farið upp á heiði og komið á Nesjavallaleið. Veðrið var indælt. Vegurinn sléttur en skelfilega bugðóttur og mjór. Það mun vera betra að fara með gát á þessum vegi í vetrarhálku. Við virtum fyrir okkjur Nesjavallavirkjun úr nokkurri fjarlægð og svo lá leiðin að Ljósafossi. Þar fyrir ofan hefur Eiríkur Sigurbjörnsson aðstöðu með sína kristilegu sjónvarpsstöð Ómega.  Hann tók á móti okkur með konu sinni og syni, gekk með okkur um og sýndi okkur staðinn. Eiríkur er nú svolítið sérstakur. Sem  betur fer sýnist hann ekki vita af því, alltaf góðlegur á svip og ekki líklegur til að fara með jarðýtu á næsta mann. Nú virðast Íslendingar líka vera komnir á þá skoðun að lundin hafi mest að segja þegar kjósa skal fólk í ábyrgðarstöðu. Þau á Ómega báru okkur svo veitingar, áður en lagt var í næsta áfanga sem var reyndar til Selfoss en þar beið okkar ágætis hádegisverður, kjötsúpa að hætti hússin.

 

 

 

Hvítasunnusöfnuðurinn á Selfossi er búinn að endurnýja samkomusalinn sinn ásamt sætum, mjög myndarlega og breyta íbúðinni sem var í samkomuhúsinu í matsölustað  Allt ber vitni áræðni og iðnum höndum, ásamt smekkvísi. Frá Selfossi fórum við til Hvolsvallar. Þar litum við inn á Sögusýninguna og þar er margt að skoða. Þessu næst var haldið í Fljótshlíðina og komið að Kirkjulækjarkoti. Þar tóku á móti okkur hjónin Gylfi og Kristín.Þau byrjuðu á að dekra við okkur í borðsalnum og þar eftir fór hann með okkur út í hina hlýlegu og vinalegu kirkju. Ég hafði aldrei komið í hana áður þótt ég hafi komið nokkur skipti á Kotmót. Svo sagði hann okkur frá endurfæðingu afa síns Guðna. Sá maður hefur greinilega viljað sýna trú sína í verki. Hann hóf innan  lítils tíma að byggja kirkju. Nú  gerði mikinn storm og kirkjan fauk. Þá hófst hann aftur handa og byggði kirkjuna upp annað sinn. Þá kviknaði eldur og kirkjan brann. Þá byggði hann hana upp í þriðja sinn. Geri aðrir betur! Hann stóð nú ekki einn í þessu því fjölskyldan stóð með honum bæði í trú og framkvæmdum.og synir hans voru smiðir líka.

 

 

 

 Þessi kirkja rúmar ekki stórmótin sem haldin eru síðsumars. Til þess var fengin stærðar tívolískemma úr Hveragerði og byggð upp þarna. Það er mikið hús Örkin. Einnig hefur þarna verið byggður stór skáli til að hýsa samkomugesti. Hann rúmar auðvitað ekki alla sem koma því að þeir eru orðnir svo margir. Fjöldi er þar í tjöldum yfir mótsdagana. Er við höfðum hresst okkur á veitiingum fóru þau með okkur út í Örkina til að líta augum hana bæði innan og utan ásamt umhverfinu. Þá var kominn tími til að kveðja og halda heim og bar ekkert sérstakt við á leiðinni. Við vorum komin í góðum tíma til baka og mér heyrðist fólkið almennt vera mjög ánægt yfir ferðinni. Við vorum það líka. Sérstaklega hafði ég gaman af að heyra af kirkjubyggingunni.

         Í Hebreabréfinu 13:7-8 stendur:   ,,Verið minnugir leiðtoga yðar, sem Guðs orð hafa til yðar talað. Virðið fyrir yður hvernig ævi þeirra lauk, og líkið eftir trú þeirra. Jesús Kristur er í gær og í dag hinn sami og um aldir."

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

                                     

 

24.05.2010 02:57

Ótitlað

                   Ferð í Vatnaskóg

 

Föstudaginn 7 maí 2010 lögðum við hjónin af stað á Gideonmót sem halda átti í Vatnaskógi í þetta sinn, í húsakynnum K.F.Ú M. Satt að segja hafði ég unnið svo lítið fyrir þetta félag á liðnu ári að mér fannst varla viðeigandi fyrir mig að sýna mig á þessu móti. Maðurinn minn sagði: Þú kemur bara með mér". Ég veit nú ekki hvort það stendur í lögum Gideona að konur þeirra skuli njóta einhverra hlunninda út á athafnasemi eiginmanna sinna en væri svo er hann áreiðanlega búinn að standa sig vel í að dreifa orðinu . Það varð endirinn á þessu máli að ég ákvað að drífa mig með. Við ákváðum að fara nógu snemma af stað til þess að geta komið við hjá Jóni bróður Ásgríms og Auði konu hans. Þau búa í Reykjavík .Jón hefur gengið í gegnum veikindi á undanförnum mánuðum og afturbati er á réttri leið. Þau stefndu á að fara til Hríseyjar fyrir Hvítasunnu. Þar er þeirra annað heimili og sælureitur yfir sumarið. Er við höfðum stoppað um stund og drukkið miðdagskaffið með þeim héldum við af stað uppá Kjalarnes.

 

 

Þar hinkruðum við eftir vinum okkar tveimur sem við höfðum sammælst við að verða samferða í Vatnaskóg. Það var heldur dimmt yfir og lítið hægt að gleðjast yfir útsýninu kringum Hvalfjörð en ferðin gekk vel. Mótið var sett á Föstudagskvöld. Við hjónin fengum gott herbergi í Lerkiskála og allur vðurgerningur var framúrskarandi góður og samt ódýr, fannst mér.

Sérstakur hátíðakvöldverður var framreiddur á Laugardagskvöldi eins og venja hefur verið á Gideonmótum. Það var gott bragð að því sem inn um munninn fór og einnig að því sem eyrun tóku á móti. Við gátum því alveg tileinkað okkur það sem Páll postuli ráðlagði Filippímönnum er hann sagði við þá ,,Að endingu bræður, allt sem er satt,allt sem er göfugt,rétt og hreint, allt sem er elskuvert og gott afspurnar, hvað sem er dyggð og hvað sem er lofsvert, hugfestið það," Mótið stóð til hádegis á sunnudegi og endaði með hádegisverði áður en lagt væri af stað heim. Þá var veðrið orðið ljómandi bjart og gaman að aka fyrir Hvalfjörð og heim í slíku veðri.

 

 

 

 

 

 

 

 

..    

26.04.2010 20:53

Ótitlað

                                                            Heyjað í Haukafelli

Þegar heyskap var lokið í Dældinni tók Haukafellið við, eftir að við fengum það.  Það var jörð sem komin var í eyði og bróðir minn hafði fest kaup á til að nota það með. Þannig  var hægt að fá meiri heyskap svo hægt væri að fjölga fénu. Bróðir minn Daníel Var fæddur 1915 og tók við búi af föður okkar 1938. Þá var faðir okkar 76 ára. Hann var 22 árum eldri en mamma. Og bjó þá orðið við skerta heilsu. Ég man aldrei eftir honum við heyskap í Dældinni. Hann gat ekki orðið ferðast á hestbaki vegna þess, að hann gekk með slæmt kviðslit. Hann sinnti þá heyskap heima fyrir þegar við vorum á engjum. Landareign jarðarinnar Haukafells var mest fjalllendi, töluverðu skógarkjarri og yngri björkum vaxið. Við þurftum nú aðallega á túninu að halda, sem var að vísu ekki stórt en munaði samt um. Fyrst var fremra túnið slegið þar sem þorp af tóftum minnti á þá tíð er héðan sást reykur úr strompi og ljós sást skína úr glugga á vetrarkvöldum, frá Rauðabergi séð. Einnig sást þvottur blakta á snúrum í björtu veðri. Nú var hér eitt lítið eyðibýli. Frá Haukfelli sást víða yfir sveitina. Mér finnst samt sveitin miklu fallegri utan frá sjónum séð og upp til fjallanna. Frá Haukafelli horft, ber mikið á aurunum, sem árnar úr dölunum hafa flæmst um og borið fram  á liðinni tíð. Fallegt er að horfa til Haukafells og  heiðarinnar, sem björkin prýðir, þótt enginn stórskógur sé.

Kostur var það við þessar engjar hve berjaland er nærri. Skrapp ég þá inn á hálsinn í matartímanum. Þar voru bæði bláber og krækiber, ekki samt í miklum mæli. Hundurinn Glói notaði sér það stundum líka, að skreppa inná hálsinn, þegar við vorum að slá og raka. Honum þóttu bláberin greinilega góð. Innan við hálsinn var gamla túnið sem einnig var slegið. Það var eins og djúpur hvammur og sést þaðan lítt til mannabyggða. Þar voru líka rústir því þar stóð bærinn fram til 1880. Heyrt hefi ég talað um tvennt er olli því að hann var færður fram fyrir hálsinn. Annað var, að jökullinn þótti nálgast hratt á skömmum tíma en hitt að Kolgrafardalsáin hafi tekið hann af. Sennilega voru þetta samverkandi þættir. Áin var nú samt ekki búin að brjóta allan bakkann niður, sem gamli bærinn hafði staðið á. Ég hugsa með undrun um, hvað hafi getað komið þeim, sem setti bæ þarna fyrst niður, til að velja þennan umlukta stað til aðseturs. Hvort að hann hafi sem minnst viljað sjá og vita til sinna nágranna. Ekki gott fyrir mig að giska á það, sem aldrei hafði nema gott og af góðum nágrönnum að segja. Þarna stóð bærinn fram til 1880. Fyrir framan hálsinn sást næstum yfir alla sveit og til hafs en innan við hálsinn sást enginn bær, aðeins yfir á Fláfjallsmýrina og Fláfjallið hinum megin við Kolgrafardalsána Jöklarnir eyddust mjög hratt á því tímabili sem ég átti heima á þessum slóðum og hafa eflaust haldið því áfram. Á fáum áratugum hafði jökullinn eyðst af stóru landflæmi er hann áður huldi.

Ummæli heyrði ég um það, að fyrrum hafi Haukafellsengjar verið fyrir vestan Fláfjall, þar sem jökullinn réði nú ríkjum á þessum tíma. Ekki veit ég hve sönn þau eru en í bithaga var slegið á Fláfjallsmýri og í höfðanum fyrir ofan bæinn. Svo var oft sóttur heyskapur austur í Grænukeldu í Holtalandi. Rekafjöru átti Haukafell fyrir  Borgarlandi. Borg átti aftur á móti skógarítak á Kolgrafardal, Borgarskóg í Haukafellslandi. Má af því marka að  myndarlegar hríslur hafi þá vaxið í Haukafellsheiði og Kolgrafardal eins og felst í sjálfu nafninu á dalnum. Einholt á 40 sauða göngu á Flánum vestan á Fláfjalli. Kannski er það gjöf til kirkjunnar í Einholti upphaflega.( Sjá Byggðasögu A-Skaft.) Mér varð oft hugsað til þeirra sem á liðnum tíma höfðu háð hér sína lífsbaráttu og lifað hér bæði súrt og sætt. Heyrt hafði ég að eitt sinn hefðu þrjú börn sömu hjóna veikst af barnaveiki og .verið flutt héðan í einu til greftrunar.Á okkar tíma hefur komið meiri hvíld frá farsóttum.Margur má þakka fyrir bólefnið.

15.04.2010 21:56

Ótitlað

                                                Fagur  sumardagur

Ótölulegur fjöldi grasmaðka er  komast á legg í túninu á Rauðabergi. Þeir hamast við að éta grasið sem á að vera aðalfæða mjólkurkúa heimilisins í vetur. Mjólkin er ein af aðalfæðutegundum heimilisfólksins svo þetta  horfir ekki vel fyrir fjölskyldunni ef hún vissi  hvað væri að gerast en hún veit ekki neitt um það. Átvöglin nota hvorki diska né hnífapör og ekkert glamur heyrist. og enginn veit að vetrarforði kúnna sé í hættu Skapari allrar fæðukeðjunnar og allra átvaglanna sá að við svo búið mátti ekki standa. Þótt að vinnukonustéttin á Íslandi megi heita alveg útdauð stétt, þá átti skaparinn alveg urmul af vinnukonum til að senda og stoppa veisluna hjá grasmöðkunum. Það voru kríurnar sem fengu boðsbréf í maðkaveislu. Þær urðu svo himinglaðar og þjöppuðu sér vel saman í einn ósigrandi, argandi og gargandi innrásarher. Þær voru alveg tilbúnar að taka í lurginn á hverjum sem dirfðist að valda ónæði.


Heimiliskötturinn hafði fengið sér göngutúr út á tún og upp í Grjót, sem svo voru kölluð, þar sem túnið lág næst fjallinu.

 Hann hafði fullan rétt á því. Þetta var nú hans tún því hann var jú einn af fjölskyldunni og hafði sitt heimilisfang á þessum bæ. Kríurnar höfðu ekki heimilisfesti á Rauðabergi en það var stutt fyrir þær að skreppa. Ég hugsa að þær hafi haft einhverja ömun af því, að kötturinn skyldi líka vera boðinn í veisluna. Kríur eru þannig að þær eru fljótar að hóta, öllum kvikindum á svæðinu stríði, og eins og inngróið í þær að enginn megi við margnum. Kötturinn trúi ég hafi hugsað í sínum rólegheitum, að gaman væri nú að fá nýjan kjötbita milli tannanna. Þótt það væri ekki búið að segja hann til sveitar, þá er nú alltaf skemmtilegra hjá sjálfum sér að taka og kjöt var ekki dagleg fæða. Hann gat nú líka verið snöggur og hremmdi einn óvininn sem hafði hætt sér of nálægt. Sjálfsagt hafði krían ekki komið svo nærri aðeins til að skoða upp í köttinn, heldur til að sýna honum í tvo heimana, geri ég ráð fyrir. Það óðu nú ekki fleiri ofan í hann, í það skiptið. Þetta var nóg í máltíð og vel það. Kríurnar hafa líka farið saddar og sælar úr boðinu og vetrarforða kúnna var borgið.

 

18.03.2010 19:24

Síðbúin uppfræðsla

Nú spyr einhver, hversvegna ég komi með þessar æskuminningar á síðuna. Þannig er, að þegar ég lít sjálf til baka þá minnist ég þess að foreldrar mínir sögðu mér svo lítið frá sínum uppvexti og ég spurði heldur ekki en sakna þess nú, að vita svo lítið um bernsku þeirra og æsku. Dætur mínar hafa sagt að þeim þyki skemmtilegast að lesa það sem ég skrifa frá uppvextinum. Útfrá því fór ég að hugsa að ég hafi talað of lítið við mín eigin börn um mína bernsku og ef til vill oflítið yfir höfuð. Ég  heyrði mann nýlega lýsa mælsku sumra manna með því að segja, að þeir hafi komið talandi útúr móðurkviði. Ég fylli ekki þann flokk sem á létt með munnlega frásögn. Kosturinn við tölvurnar er, að það er auðvelt að slökkva á þeim þegar lesanda finnst nóg komið. Ég ætla því að taka til þar sem ég hætti að tala um heyskapinn í Dældinni.

Þótt mér þætti gaman að heyja í Dældinni get ég ekki sagt að góður reiðvegur ætti mikinn þátt í því að gera ferðina skemmtilega. Það var heldur leiðinlegur vegur niður hraunamýrarnar, víða rauðaleirskeldur sem skiptust á við staksteinóttar melgötur. Þegar komið var niður undir Viðborðssel tók við upphleyptur vegur stuttan spöl og með brú yfir einn læk og þar é eftir fórum við yfir Selkílinn og dálitla bakkareim. Þá tók við mýri undir vatni oft milli hófskeggs og hnés sér í lagi eftir rigningar og eftir það kom Borgabakki. Hann var fljótfarinn og þá kom Flóinn. Þegar lítið var í Fljótunum voru þetta aðallega tveir álar sem við fórum yfir og næstum þurr leira á milli. Ég man hve fallegar voru brautirnar í leirunni eftir skeiðhrossin Brúnku og Létti. Áður en farið var út í álinn við Borgabakka stöðvaði ég hestinn til að leyfa hundinum Glóa að stökkva á bak fyrir aftan mig.


Eftir að ég eignaðist rauða hestinn frá Friðriki á Fornustekkum og fór að nota hann til reiðar þá afsagði hann algerlega þessa hundaflutninga.  Hann var aðeins fjögurra vetra, lítið taminn og lítið yfirvegaður en hafði verið reyndur á kappreiðum stuttu áður en hann kom til okkar. Þá var hann svo skelfing kjaftsár eftir keðjuna. Ég gerði mér í hugarlund að það hafi verið erfitt að hægja hann niður eftir sprettina á kappreiðunum og þessvegna særst svona illa. Reyndi ég því að hlífa honum með því að hafa mjög slaka keðju meðan hann var að gróa.  Er ekki frá því, að ég hafi eitthvað misst höfuðburð hans niður út á þessa miskunnsemi. Hann var nú heldur tæpur á taugum svo að þegar ég ætlaði að taka hundinn á bak var klárinn svo snöggur að víkja sér undan þannig að hundurinn hitti aldrei réttan lendingarstað og hafnaði aftur á fósturjörðinni. Þetta endaði hjá mér með fullri uppgjöf. 


Eftir það varð hundurinn að nota sínar eigin lappir yfir Flóann. Ef miklir hitadagar komu þá bráðnaði af jöklinum og þá gat vaxið mikið í fljótunum yfir daginn. Sumstaðar í Dældinni voru harðir valllendisbakkar sem mér þótti gott að raka og engir grasmaðkar. Stundum fórum við, Svanur stórfrændi minn, sem var þremur árum yngri en ég,  að vaða berfætt í flóum og lænum, í matartímanum. Þetta fannst okkur gaman þegar hlýtt var í veðri. Jökulleirinn var mjúkur í botni ræsanna. Einu sinni held ég að við höfum vaðið alla leið austur í Þjófasker. Það var spennandi. Við sáum ekki til botns í jökulvatninu, urðum bara að prófa okkur áfram. Þetta var ekki hættulegt því að við þekktum orðið umhverfið. Svanur átti heima á Eskifirði og var hjá okkur nokkur sumur. Seinna kom svo Viðar bróðir hans og var hjá okkur fleiri sumur.


Í Dældinni var ekki þegjandalegt því að oftast létu fuglarnir til sín heyra. Stundum sungu álftir á flóanum en það var lítið um þær en kríurnar görguðu og kjóarnir vældu yfir höfðum okkar af og til. Lómarnir syntu á álunum og ekki var væll þeirra minni. Sitthvað var að sjá, meðal annars fagran fjallhring. Nesjafjöllin öll og Mýrafjöllin og jöklana bláhvíta. Víða sást fólk á engjum á Holtateigum ásamt hestum og tjöldum í fjarska..  Heima á bæjunum sáust reykir líða upp í loftið. Allstaðar líf og starf  Venjulegast um klukkan nýju að kvöldi var verki lokið nema um þurrkdaga. Það var hvíld að komast á hestbak aftur ef hesturinn var góður. Einu sinni fékk ég gigt eftir að hafa rakað blautt hey. Þá varð erfitt að þurfa að nota aðra vöðva til að komast á bak heldur en ég hafði notað allan daginn við rakstur. Reyndar varð ég ekki alveg laus við gigtina fyrr en slætti lauk.                                                      

                                   

06.03.2010 11:41

Sjálfstæði

                                                                        Þefhestar

Miðvikudaginn 24 febrúar 2010 birti Fréttablaðið eftirfarandi fyrirsögn:                                                  Björgunarsveit vill þefhesta. Miklir möguleikar eru fólgnir í notkun hesta við björgunarstörf hér á landi. Geta hentað þegar þarf að fara yfir torsótt landssvæði.Talað er um að einn leitarhestahópur sé til í landinu. Framtíðar markmið sé að þjálfa þefhesta. Þetta verkaði nú á mig eins og furðufrétt eða 1.aprílgabb. En  apríl er ekki nærri kominn og þegar ég fór að lesa um almenna leit í torsóttu landslagi þá gat það nú staðist. Oft voru hestar notaðir til smölunar annarra dýra á láglendi, en ég hefi aldrei séð hesta leita eða grafa eftir einu eða neinu eins og hundar gera, nema grasi.  Sagt er í greininni, að ekki gangi að senda hvaða hest sem er til leitar. Meðal annars þurfi þeir að vera sjálfstæðir í hugsun. Einnig kemur fram að notkun hesta til leitar og björgunar sé þekkt víða um heim. Það var þetta með sjálfstæði í hugsun sem tengdi minningar mínar við hest sem ólst upp á æskuheimili mínu.

                                                                                                                                                       Hann var undan Brúnku og brúnn að lit eins og mamman. Hann var kallaður Kolbeinn.  Til hans lágu væntingar nokkrar því talið var, að reiðhestastofnar lægju að honum í báðar ættir. Hann hafði gott sköpulag og fékk gott uppeldi. Hann og félagi hans á svipuðum aldri, léku sér látlaust er þeim var hleypt út að vetri til. Svo kom sá tími að farið var að temja hann fjögra vetra gamlan. Það gekk nú áfallalaust enda folinn mannvanur öll árin fram að því. Reiðhestakostir létu þó á sér standa.  Hann kunni ekkert skeið þótt Blakkur í Árnanesi væri afi hans. Þaðan af síður var nokkurt töltspor að finna. Hann hafði aðeins til að bera hræðilega gróft brokk og ætlaði ég að kreista úr honum valhopp til þess að hann mundi nú ekki alveg liða mig sundur. Þá virtist hann aðeins hafa til að bera svo gróft stökk að ég  var líka fegin að hægja hann niður á því. Mér fannst bróðir minn ekki öfundsverður af þessum reiðhesti sínum

Konur þola svona hlussugang verr en karlmenn vegna þess, að þær hafa brjóst sem tekur í og e.t.v. minna þjálfaða vöðva. Ég ætla rétt að vona að það sé búið núna að rækta þetta grófa brokk út  úr íslensku hestakyni. Þetta er mikill galli og hentar ekki öllum. Fínt brokk er aftur á móti góður gangur til hvíldar fyrir hross frá öðrum erfiðari gangi. Kolbeinn var sá eini af okkar hrossum sem virtist halda að sér bæri að hugsa fyrir þann sem á baki sæti. Ég var að fara til bæjar sem var fjarri okkar heimili og ég  hafði  aldrei farið á honum þangað áður. Hann var ákaflega tregur, eins og hann vildi segja, ,,Viðhöfum aldrei farið þessa leið áður og ég veit ekkert hvar hún endar. Ég legg til að við förum heldur heim". Ekki það að hann yrði staður eða gengi aftur á bak, ekki heldur að hann rifi af mér tauminn með ofbeldi, en það var stöðugt þref útaf stefnunni. Hann lét mig alltaf finna gegnum taumhaldið hvert hann vildi fara. Hann vildi ekkert fara út í bláinn vitandi ekkert hvert leiðin lægi.

                                                                                                                                                             Einhverju  sinni um vetur fór bróðir minn á honum í kaupstaðarferð austur á Höfn. Fljótin voru ísi lögð. Ferðin gekk samkvæmt áætlun en er heim skyldi haldið skall á myrkur. Gerðist Kolbeinn þá þverreiður er komið var á fljótin. Bróðir minn trúði að hann hefði rétta stefnu svo það varð viðloðandi ágreiningur um málið milli þeirra. Þegar yfir var komið áttaði bróðir minn sig á því, að þeir komu ekki alveg á sama stað að landi eins og þeir höfðu farið frá út á fljótin um morguninn.

Það munaði ekki miklu en rétt skal vera rétt sýnist Kolbeinn hafa hugsað.. Hann virtist hafa svona hárnákvæmt staðsetningartæki í hausnum eða hafa hestar svona miklu skarpari sjón en maður í myrkri? Eftir nýjustu fréttum gat það verið þefskynið, að hann hafi fundið lykt úr eigin sporum frá því um morguninn. Hver veit það?,,Engum er alls varnað".

21.02.2010 23:03

Sláttur

                                                     Sláttur hefst

Þegar tún voru nægilega sprottin hófst sláttur. Þegar túnaslætti lauk var farið í hraunamýrarnar. Mér þóttu þær ekki skemmtilegt engi. Þær voru mosakenndar og þýfðar og í þeim voru rauðaleirskeldur. Í þessu heyji voru stundum grasmaðkar og líka í túninu heima. Mér fundust þeir alltaf viðbjóðslegir svona bleikir og berir á kviðnum ef þeir lágu á bakinu en ef þeir sneru bakinu upp þá voru þeir nú fallegri, dökkgrænir með gulum langröndum. Ef þeim varð eitthvað hvert við, hringuðu þeir sig í snatri. Það var þeirra fasta viðbragð ef hrífutindar rákust í þá eða álíka. Hvað þeir voru betur settir með þessa hringlegu vissi ég ekki. Þeir héldu því fyrir sig. Þeir voru ekki rándýr eins og sagt er um margfætlur í Íslenskri Alfræði orðabók bl.s.469, að þær séu flokkur liðdýra með um 2500 tegundir. ..Á Íslandi lifi fimm tegundir. Þær duttu stundum niður í  rúm til okkar þegar ég var háttuð. Baðstofan var með torfþaki en samt þiljuð að innan og einhvern vegin  álpaðist ein og ein af þessum rauðbrúnu íslensku margfætlum í gegnum einhverja rifu innan í súðinni og skelfingu lostin hrapaði hún og hafnaði í tilreiddu rúmi, sem ég var lögst fyrir í. Lagði snarlega á flótta og bar hratt yfir á sínum mörgu fótum. Það gerðist ekki á hverju kvöldi en einstöku sinnum. Mér þóttu þær ekki girnilegar hjásvæfur. Grasmaðkarnir gerðu ekki svona innrásir í einkalíf fólks. Þeir átu bara jurtir og grænmeti en drápu sér ekki til matar.Gátu að vísu stórskemmt tún ef mergðin var mikil.                                                                                                                                                                               

Eins og áður sagði leiddist mér að heyja í þessum mýrum. Skemmtilegt var þó að sitja undir einhverju hrauninu, sem nóg var af, og borða nestið. Flest hétu hraunin einhverju nafni. Mér fannst nú ekki gamanið við sláttinn hefjast fyrir alvöru fyrr en farið var á engjar austur í Dæld.  Þangað var farið ríðandi.  Það engi liggur austur undir Hornafjarðarfljótum.  Mætti þó frekar segja að það liggi austur í fljótum, því fara verður yfir ála úr þeim austur þangað. Slægjurnar í Dældinni voru hólfaðar sundur og tiltekið hverjum jarðarparti hver skák eða bakki tilheyrði. Sama bakkanum gat verið skipt í þrennt. Ég ímynda mér að það hafi verið til þess að allir gætu verið ánægðir og enginn þyrfti að kvarta yfir að hann fengi aðeins elftingu í sinn hlut, meðan annar fengi góða sneið af valllendisbakka með fjölbreyttari gróðri og sumstaðar var um stargresi að ræða. Okkur tilheyrðu Rofhólmarnir tveir og Rofabakki. Svo var Stínubakki , Austurbakki. Langhólmi og Tjarnarhólmi sem Guðnýju tilheyrði. Skákarnar skiptust á milli fleiri notenda. Lækjalandskíllinn aðskildi Holtasels og Rauðabergsengjar. Einn hólminn var svo frátekinn fyrir hrossin til beitar.Þá var farið með þau þangað og komið á einu þeirra til baka og það hælt í slægjunni til kvölds. Þá farið á því aftur yfir álinn eða Flóann til að sækja hin svo við gætum farið á þeim heim.

 

 Merkikelda var rot, sem aðskildi Viðborðs og Rauðabergsengjar.  Ekki efa ég að þetta hafi verið stórvitrir menn og réttlátir, sem mældu þessar skákir út í byrjun. Ég trúi að þeir hafi verið vel  meðvitaðir um mannlegt eðlisfar og smámunasemi. Sá gerningur hefur eflaust verið gerður mörgum kynslóum áður en ég sá ljós þessa heims og þó. Fljótin hafa nú efalaust oft verið að breyta sér og þá flætt yfir ný svæði. Ég hefi heyrt að Fljótin hafi breytt þessu svæði mikið eftir að við fluttum burtu.

Það mun hafa tíðkast að sjávar og fjallajarðir skiptust á hlunnindum. Sjávarjarðir fengju beit í fjöllum fyrir sauðfé og fjörureki kæmi í staðinn frá þeim sem ættu land að sjó. Þannig gat verið að Holtabændur fengju að reka fé í Rauðabergsfjöll og látið eftir slægjur í Dældinni í staðinn en hún var í Holtalandi.  Þó er ég ekki alveg viss hvernig þessu var háttað en hitt veit ég að Holtamenn komu í göngurnar á haustin Fyrst þegar ég man eftir var heyið flutt á reiðingshestum.  Við áttum aldrei marga hesta. Ástæðan var, að þeir átu hey og heyið var betur ávaxtað með því að fóðra á því sauðfé heldur en hross. Ullin og lömbin voru nú lengi vel það eina sem hægt var að nota til vöruskipta.

Ég heyrði hvergi að hross væru höfð á útigangi þar sem ég ólst upp. Okkar hestar voru oftast fjórir og eitt trippi í uppvexti. Fyrst er ég man, var heyið flutt á reiðingshestum austan úr Dæld og einu sinni er ég var lítil var ég sett á milli bagga á reiðinginn á Bleik, aftan við klyfberann Gráni var næstur í röðinni og taumurinn á honum var festur í klyfberann á Bleik. Þegar komið var upp á mýrina fyrir ofan Melsenda kippti Gráni svo skarplega að gjörðin eða gjarðirnar á Bleik slitnuðu og    klyfberinn, baggarnir og stelpan hrukku út í mýri. Ég mun samt ekkert hafa meitt mig og Daníel bróðir, sem teymdi lestina, tjaslaði saman gjörð og kom böggum og stelpu aftur á sinn stað. Hann var ellefu árum eldri og hefur þá verið orðinn baggafær sem kallað var. Seinna var heyið flutt á tveimur heygrindum sem voru smíðaðar ofan á öxul milli kerruhjóla. Á þessum tveimur grindum var hægt að flytja tíu bagga eða fimm hesta í ferð.

Það var ekki hægt að fara með grindurnar hina venjulegu leið  niður úr Hraunum og yfir Flóann. Fann bróðir minn þá aðra leið sem var að vísu helmingi lengri. Sú leið lá út á Flóðtanga og svo langleiðina sömu leið og Holtaselsmenn fóru austan úr Lækjalandi. Hægt var að fara með tómu kerrurnar til baka hina venjulegu leið.

24.01.2010 23:52

Gráni

Þegar Gráni var folald keypti faðir minn hann af Jóni Þórðarsyni bónda í Holtaseli og gaf fyrir hann á með lambi. Hann þótti lítill þá og var það alla tíð. Þó hafa nú ýmsir stærri hestar hrokkið undan honum ef hann hefur viljað láta þá kenna á valdi sínu. Þegar hann var trippi þótti hann ódæll og vann það sér til óhelgis að vilja hlaupast út að Hólmi og sjúga þar folaldsmeri í algeru heimildarleysi. Hann var þá settur í haft sem ekki var algengt með trippi. Það var hinsvegar algengt að hefta hross sem nota þurfti, því lítið var um girðingar þegar ég man fyrst eftir, nema kringum túnin. Pabbi vann hnappheldurnar sem notaðar voru til að hefta hrossin með og fleira úr hrosshárinu til dæmis reipi til að binda heybaggana með. Hann vann líka hrosshár fyrir aðra. Ekki var hægt að vinna hrosshárið annarstaðar en í þessari litlu baðstofu okkar. Það komust fyrir þrjú fullorðinsrúm og einn beddi því hlerinn yfir stigaopinu var aftan við eitt rúmið. Milli rúmanna komst fyrir lítið borð. Niðri var eldhús og búr. Ég man að mömmu þótti mikil óþrif fylgja hrosshársvinnunni.


Ég sé það núna að hjá því hefði mátt komast að miklu leyti ef hrosshárið hefði verið þvegið fyrst eins og ullin en það var ekki siður. Svo að sögunni sé snúið að Grána aftur, þá má bæta við, að hann bar litla virðingu fyrir girðingum ef hann hélt að hann hefði það betra innan þeirra. Gráni varð enginn gæðingur. Hann bar sig ekki vel og fór því ekki fallega undir manni og mér fannst hann framlágur er á bak var komið. Gangur hans var brokk og stökk og hvorugt til að hrópa húrra fyrir en hann var alltaf fús til allrar þjónustu eins og ekkert væri sjálfsagðara en að leggja sig allanfram. Með tímanum gerðist hann húsbóndi á sínu  heimili og stóð í því að passa Brúnku sína sem hann var hafður með í stíu á veturna. Þegar vorið var komið og náttúran öll fór að lifna við, vildi Brúnka fara að skreppa á aðra bæi til að lyfta sér upp og hitta skemmtileg hross. Gráni var nú tregur til að skrifa uppá leyfi handa henni til þess. Einu sinni varð  ég vitni að því. Þá var  Brúnka komin niður á aura í átt til Holtasels. Hann hafði víst verið eitthvað annars hugar. Allt í einu verður honum ljóst hvað í býgerð sé hjá merinni. Hann leggur þá af stað og nær henni líklega miðja vega milli bæja og kemur með hana rekandi á undan sér heim aftur.


Einu sinni þegar ég var smástelpa, var ég á ferð á Grána um jarðföllin en um þau liggur leið milli Haukafells og Rauðabergs. Það mun hafa verið eftir rigningu og hlaupið vatn undir jarðveginn og kviksyndi myndast. Dúaði þá jarðvegurinn eins og stigið sé á Gúmmíbelg. Ég hafði ekki lent í því áður en í þessu tilfelli hefðum við þurft að fara allmiklu ofar en hin venjulega leið lá. Hvorugt okkar Grána hafði víst afgangsvisku í kollinum til að ímynda okkur að svona gæti farið á venjulegu götunum. Hann var alltaf svo óragur þegar maður sat á baki hans. Það getur bæði verið kostur og ókostur því að þeim hrossum er hægt að beita á hvaða foræði sem er. Þarna lenti hann niður og sökk uppundir kvið. Hann ætlað nú fljótlega að brjótast upúr en sökk alltaf jafnharðan niður aftur. Varð ég nú alveg dauðhrædd um að hann mundi sökkva alveg eða bilast alvarlega í þessum miklu umbrotum Ég fór af baki og tók beislið út úr honum og hvatti hann vel með því. Hér var um lífið að tefla að hann kæmist á fast land sem fyrst. því mér fannst hann vera að linast í umbrotunum. Að lokum tókst honum að brjótast uppúr og á fast land. Varð ég þá fegnari en frá megi segja að sjá hann ganga óhaltan.


Gráni og Brúnka voru mikið notuð til dráttar og bæði saman drógu þau herfi þegar farið var að rækta kartöflur og rækta tún. Brúnka hafði til að verða fúl í skapi ef upphaf verks fór ekki rétt af stöfnum að hennar dómi. Ég held að hún hafi orðið vond útaf því, að Gráni legðist ekki jafnsnemma í aktaugarar eins og hún, sem gat hafa stafað af því, að hún var stærra hross og hafi staðið aðeins framar honum þegar verk hófst. Hvað sem það var, þá sýndi hún það greinilega að hún ætlaði ekki að fara að draga tveggja hesta æki. Hún hristi sig og  aktygin með og gekk aftur á bak. En þegar hún varð ánægð með upphafið gekk allt vel og bæði gerðu sitt besta. Þau drógu líka allt byggingarefni heim þegar að því kom að endurnýja húsakost yfir menn og skepnur.

18.01.2010 23:25

Mildir vetrardagar.

Það rigndi nokkuð í gær fyrripartinn 16 janúar enn svo varð indælisveður. Ég hafði ákveðið að fara til Grindavíkur. Átti erindi á tvo staði. Hún Rósa, gömul skólasystir mín úr Ljósmæðraskóla hafði orðið 80 ára nýlega. Fyrir tilviljun hafði ég frétt af því, og þótti vænt um það, því sjálf fylgdist ég ekki með. Ákvað nú að fara og óska henni til hamingju. Hún var semsé búin að ganga á undan með góðu eftirdæmi þegar ég átti afmæli.  Það er alltaf léttara að ganga í annarra slóð. Ég ferðast nú oftast með einkabílstjóra eins og forsetinn og maðurinn minn tekur það sem sjálfsagðan hlut og spyr ekki einu sinni að því hvort hann þurfi nokkuð að koma með. Sem betur fór kom nú ekkert alvarlegt uppá hjá okkur eins og hjá forsetanum og hans ferðafélaga, þarna rétt fyrir Indlandsferðina. Höfðum heldur ekki um svo stórt mál að véla, dagana á undan,eins og þeir.


Við hittum Rósu heima og vorum strax drifin að kaffiborði. Maður hennar hafði nýlega gengist undir aðgerð á sjúkrahúsi og var ekki kominn heim. Við höfum nú ekki verið mjög duglegar við að heimsækja hvor aðra, þótt ekki sé langt að fara. Hefði ég sennilega fremur átt að hafa frumkvæði þar sem ég hefði átt auðveldara með það.  Samt fer nú vel á með okkur þegar við hittumst. Við stoppuðum nú ekki lengi hjá Rósu því báðar þurftum við líka að nota daginn í annað. Ég hafði nýlega frétt að ég ætti frænku í Grindavík og ætlaði að heimsækja hana. Það vildi svo til, að hún bjá ásamt sínum manni örskammt frá Rósu. Þar var mér heilsað eins og nánum ættingja sem auðvitað var. Hún heitir Þóra og er dótturdóttir Hallberu sem var systir móður minnar. Sonur þeirra hjóna býr skammt þar frá og annar inn í Hafnarfirði. Sá var nú staddur úti á Haiti með Rústabjörgunarsveitinni íslensku.

Mikið finnst mér virðingarvert að svo margir gefa sér tíma til að vera í þessum björgunarsveitum okkar hér á landi og eru alltaf tilbúnir að veita hjálp þegar háski steðjar að, sem æði oft vill nú verða. Mér finnst þessar Björgunarsveitir og Lögreglan ætti að vera stöðugt í bænum okkar. Hver mundi vilja vera í landi þar sem engin regla ríkti á neinu og sérhver fengi að gera það sem honum gott þætti. Þetta eru hjá hvorum tveggja hættuleg störf. Ég  var auðvitað upp með mér að heyra að ég ætti frænda þarna úti. Það munu nú ekki hafa verið neitt auðleyst eða hættulaus verkefni sem biðu þeirra þar. Við sátum og spjölluðum áfram um liðinn tíma og líðandi. Drukkum aftur kaffi og ákváðum að hafa samband. Lögðum svo af stað heim í indælu veðri.

12.01.2010 22:44

Janúar 2010

Guð er mikill

 Það segir í Ritningunni um Guð: ,,Að sjálfur er hann fyrri en allt og allt á tilveru sína í honum,, Jesús sagði við saddúkeana sem ekki gátu trúað upprisunni frá dauðum og lögðu fyrir hann snúnar spurningar ef upprisan væri hugsuð til enda.  ,,En Jesús svaraði þeim:,,Þér villist, því að þér þekkið ekki ritningarnar né mátt Guðs. Mt. 22: 29. Vandi nokkurra við að trúa á yfirnáttúrlega hluti, held ég sé, að þeir hugsa um Guð eins og hann væri aðeins lítið eitt stærri og máttugri en venjulegur maður.  Það gerist margt í veröldinni sem hefði einhvern tíman verið kallað yfirnáttúrlegt. Hvað með skilaboðin sem tölvan flytur á örskotsstundu, heimsálfa á milli. Þú hefur varla tíma til að snúa þér við áður en þau  eru komin á leiðarenda. Fjöldi fólks trúir að þetta sé hægt og hagar sér samkvæmt því, þótt það geti ekki trúað að Guð sé til, sem lagt hefur þessa möguleika í sköpun sína.

 Ég dæmi þetta fólk ekki fyrir trúleysi, því ekki er trúin allra, segir Páll. Hann gat nú trútt um talað. Hann trúði ekki á Jesúm Krist til að byrja með. Við getum ekki séð Guð eða þreifað á honum. Ég hefi ekki séð eða þreifað á rafmagninu sem flýtur eftir línunum frá raforkustöðvunum en ég hefi séð hvað hægt er að framkvæma með því. Það getur lýst upp heilar borgir og þorp svo unun er á að líta þegar skyggja fer. Þannig hefur Guð lýst upp líf margra sem höfðu klúðrað því og sátu í myrkri og skugga dauðans. Þeir hafa risið upp úr myrkrinu fyrir mátt Guðs og sumir þeirra tekið að lýsa öðrum, til að höndla heilbrigt líf og lagt mikið á sig við það.

Þeir á vantrú.is segjast vera á móti öllum yfirnáttúrlegum hindurvitnum og þar á meðal Guði almáttugum og Jesú Kristi. Kalla það kynjasögur og kerlingabækur.  Við eigum margar þjóðsögur til af kynjaverum til lands og sjávar, en það vekur athygli mína  að mér finnst þeir beita sér allra mest móti Jesú Kristi, en forynjur, drauga, afturgöngur og uppvakninga  láta þeir nokkurn vegin sleppa við ávirðingar. Maður gæti haldið að þeim fyndist hann eitthvað fjarskyldari og sér um sefa. Mætti því taka hann fyrir eins og gerist í skólum stundum. Fram kemur í riti þeirra að helst megi jafna Jesú Kristi við Hitler hvað mannvonsku  snertir. Ég hefi samt aldrei heyrt að Hitler hafi arfleitt óvini sína að einu eða neinu. sem þeim mætti að gagni verða, en það gerði Jesús og er bókfært hjá Matteusi 12:32.
,,Hverjum sem mælir gegn mannsyninum, verður það fyrirgefið, en þeim sem mælir gegn heilögum anda, verður ekki fyrirgefið, hvorki í þessum heimi né í hinum komanda"

Fyrst Jesús er svona góður við þá, að fyrirgefa þeim fyrirfram, sem ráðast á hann með tungu sinni, þá verðum við bara að hugsa vel til þeirra líka, svo við fáum ekki Jesú upp á móti okkur. Vonum  að hann eigi eftir að ganga í veg fyrir þá, eins og Sál frá Tarsus forðum. Guð hefur eflaust gefið þeim góða hæfileika líka  eins og honum til að reka sitt erindi, þegar þeir hafa flett sinni blaðsíðu við.

01.01.2010 22:37

Áramót

Kæru vinir sem lítið stundum á síðuna.

Ég vil byrja á að þakka fyrir allar góðar óskir og kveðjur á árinu 2009. Þegar ég kom út í gærmorgun þá var veðrið svo yndislegt hérna í Innri Njarðvík, alveg stillilogn, sem er nú fremur sjaldgæft. Mér fannst bara hlýtt þó að mælirinn væri undir núllinu. Það var sama yndislega veðrið í dag. Hérna sem við búum er svo fallegt útsýni yfir svæðið nýbyggða næst okkur og yfir sjóin hér úr Innri Njarðvík séð. Við búum á efri hæð í tveggja hæða húsi með 20 íbúðum. (Vona að það sé rétt tala hjá mér). Hefi ekki komið í þær allar. Svæðið næst okkur er mikið til byggt einnar hæðar einbýlishúsum svo við sjáum yfir þau og til sjávar og fjalla þegar gott skyggni er.

Við fórum á samkomu klukkan hálf fimm í gær, í Hvítasunnukirkjunni í Keflavík

Það er viðeigandi að koma saman og  hlusta á uppörvandi orð inn í framtíðina ásamt því að þakka  Drottni allar góðar gjafir á liðnu ári og fela sig honum á komandi tíma. Líka til að biðja fyrir þeim sem þjást og líða. Einnig fyrir þeim sem hátt eru settir og með völdin fara í þessu landi, að þeim mætti veitast viska og náð á þessum erfiðu tímum. Það munu eflaust margir trúaðir hafa gert. Ekki minnst mun  Forsetinn okkar þurfa á visku að halda þegar til hans kasta kemur. Ég lýk svo þessum línum. Með kærri kveðju ásamt Post. 27.   

Guð er enn hinn sami í dag. Þ.P.

Flettingar í dag: 154
Gestir í dag: 13
Flettingar í gær: 257
Gestir í gær: 20
Samtals flettingar: 79422
Samtals gestir: 16429
Tölur uppfærðar: 6.5.2024 16:08:21

Eldra efni

Tenglar