Þóra Guðrún Pálsdóttir

08.05.2006 22:46

Gídeonfundur

Gídeon fundur

Við Gídeonkonur í kvennadeild Keflavíkur, fengum bréf frá deild númer 2 í Reykjavík, þar sem þær buðu okkur á sameiginlegan fund kvennadeildanna fimmtudaginn 27 apríl 2006 sem halda átti klukkan 20.30 að heimili Rósu Magnúsdóttur í grafarholtinu í Reykjavík. Kvöldið áður hringdi kunningi okkar og bað manninn minn að fara með sig inn á landspítala morguninn eftir. Hann átti að mæta þar kl. 9. Ég hugsaði að best væri þá fyrir mig að nota ferðina og fara með. Hefði ég þá nógan tíma fyrir mig sjálfa í bænum þar til fundurinn hæfist um kvöldið. Ég ætlaði að labba niður Laugaveginn. Þegar ég kom fyrst til Reykjavíkur fyrir tugum ára þá fannst mér svo gaman að ganga niður Laugaveginn frá Háteigsveginum þar sem bróðir minn bjó. Í dag er þetta nú ekki alveg sami Laugavegur og þá, finnst mér. Veðrið var indælt en samt þegar ég var búin að vera á gangi um tíma fannst mér það vera hálfnapurt, þótt ég væri í vetrarúlpunni. Ég rak mig á að þessi fyrsti klukkutími uns búðir væru almennt opnar, var nokkuð lengi að líða, að lokum var ég orðin lúin og fannst ég þurfa að hvíla mig. Sá stóla úti fyrir búð nokkurri og sé í hendi mér að hér muni mér gefast kostur að kaupa eitthvað matarkyns og setjast svo að krásinni utan við dyrnar. Ég fer svo inn í búðina en sé enga manneskju og allt bara fullt af sælgæti. Ég ætlaði nú ekki að kaupa sælgæti svo ég fór bara út á götuna aftur. Spyr mig nú áfram eftir stað þar sem hægt er að kaupa einhverja næringu og eta hana innandyra. Mér er þá bent á að í Bernhöftsbakaríi geti maður keypt sér hressingu og notið hennar inni á staðnum. Eftir þó nokkra göngu finn ég bakaríið og kaupi mér snúð og eplasafa. Mikið var gott að setjast og mér hlýnar og ég aflýist og á eftir get ég haldið áfram fyrir kraft "fæðunnar" eins og segir í Biblíunni um einn af spámönnunum eftir að engill hafði fært honum brauð og vatn. Það urðu nú samt engir 40 dagar og 40 nætur hjá mér. Ég þurfti nú ekki á því að halda því ég var ekki á flótta enda ekki viss um að þau í Bernhöftsbakaríi séu svo langt komin í matargerðarlystinni þótt snúðurinn hafi verið óaðfinnanlegur. Það var nú engill sem

höndlaði með brauðið handa spámanninum. Gat hafa verið bakað á himni.

Ég horfi í búðargluggana en hvergi sé ég auglýstar útsölur. Þær verða ekki fyrr en í haust segir ein afgreiðsludama. Ég veit nú reyndar að aðalútsölutíminn er liðinn. Það er sá tími sem ég vildi gjarnan eiga heima nær höfuðborginni. Ég er ekki vön að kaupa í fyrstu búð sem ég kem að. Nú kem ég í búð sem mér lýst á að sé með vandaðar vörur. Þar er verið að selja úlpur sem höfðu verið á kr. 16.000 áður en eru nú á útsölu á um helmings afslætti. En ég ætla ekki að kaupa svona dýrt og eiginlega er ég orðin of lúin svo að ég nenni ekki að máta og fer út.

Nú ætla ég að stefna beint upp á Hlemm og taka strætisvagn inn í Kleppsholt eða Sund. Þegar þangað kemur er einn vagn nýfarinn þangað inneftir en annar komi fljótlega sem mér skilst að sé þó ekki jafngóður kostur en býð hans. Ég spyr vagnstjórann um leið og ég borga, hvar sé best fyrir mig að fara út. Hann tiltekur það og nú er bara að vona að hann kalli upp nöfnin á viðkomustöðunum. Til öryggis sest ég í næsta sæti fyrir aftan hann svo ég sé í kallfæri við hann. Hann virðist alveg þekkja alla viðkomustaði og týnir þá skilvíslega upp að ég held en er ekkert að pípa um hvað þeir heiti. Hann gæti verið frændi minn, þögull eins og ég get verið, þótt það liggi ekkert illa á mér, heldur liggur bara svo vel fyrir mér að þegja. Mig minnir þó að vagnstjórarnir hafi alltaf kallað upp áningarstaðina þegar ég var ung og átti um tíma heima í Kleppsholtinu. Jæja, að lokum stoppar hann á stað þar sem enginn fer út og enginn kemur inn og hinkrar aðeins svo ég hugsa að hér eigi ég að fara og af því ég sit svona nálægt bílstjóranum þá get ég látið hann staðfesta það. Þegar út kemur kannast ég ekkert við umhverfið og get ómögulega áttað mig á, í hvaða átt Sæviðarsundið sé. Þangað er þó ferðinni heitið til að heimsækja þrjár bróðurdætur mínar sem búa þar, tvær í sama húsi og sú þriðja í næsta húsi við þær. Ég held þó að ég eigi að fara yfir götu nokkra, mikla umferðaræð og þá kem ég fljótlega út á tún og finn engar gangstéttir. Fer bara áfram og sé með tímanum búðir framundan þ.á.m. Rúmfatalagerinn. Ég veit að þar hitti ég fólk sem getur sagt mér til vegar, sem verður líka raunin á því stúlka nokkur stendur þar til hliðar á gangstéttinni við að reykja. Hún getur bent mér í áttina sem ég skuli fara. Ég fæ líka stefnuna staðfesta á leiðinni hjá einstaklingum sem ég sé á leið minni. Að lokum finnst mér ég kominn þar sem ég kannist eitthvað við umhverfið. Þar sé ég nokkuð stóra byggingu að flatarmáli sem mér finnst hafi verið matvöruverslun áður fyrr en nú er greinilega hluti af henni veitingahús. Stutt frá er eitthvert hús, ekki stórt, sem ég álít að sé nærfataverslun. Glugginn er alþakinn myndum af brjóstahöldum og brókum frá ofanverðu og niðurúr þótt ofrausn sé nú að kalla þessa bleðla því nafni. Ég er ákveðin að fara þarna inn og spyrja hvar sundin séu og sem ég nú storma að dyrunum rek ég augun í auglýsingu um að enginn sé þangað velkominn undir átján ára aldri. Ég stansa snögglega. Hvaða myrkraverk skulu nú vera unnin hér um hæstan dag? Ég hefi aldrei á ævi minni farið inn um dyr með svo fráhrindandi áletrun. Ég er náttúrlega eldri en 18 ára en til er gamall málsháttur sem segir: "Tvisvar verður gamall maður barn" Ég gæti verið komin á síðara bernskuskeiðið. Ég ákveð því að fara heldur beint inn á veitingastaðinn og spyrja þar. Þar er ein stúlka við afgreiðslu og er upptekin. Mér lýst ekki á að fara að ónáða þá sem þegar eru sestir að snæðingi svo ég ætla heldur að fara út og reyna að ná tali af væntanlegum matargestum áður en þeir finna reykinn af réttunum. Loks hitti ég á mann um leið og hann kemur út úr bíl sínum. Hjá honum fæ ég að vita að ég er bara sjóðheit, rétt hjá sundinu sem ég er að leita að. Ég labba góðan spöl uns ég finn götuna og er loks komin á áfangastað. Nú hefi ég tímann fyrir mér til kvölds að spjalla við frænkurnar sem ég hitti svo sjaldan. Þær fá að vita hvert ferð minni er heitið um kvöldið og spyrja fyrir hvað Gídeonfélagið standi. Ég get sagt þeim að það gefi Nýja testamenti í barnaskóla, sjúkrahús, hótel og fl.staði. Einnig fái hjúkrunarkonur og sjúkraliðar sín eintök er þær útskrifist. Það er búið að starfa hér á landi síðan 1945. Vestur ?Íslendingur, Kristinn Guðnason, hafði ungur að árum flutt til Bandaríkjanna og kynnst samtökunum þar. Hann fékk ákafa löngun til að gjalda ættlandi sínu skuld, sem hann taldi sig vera í við það og áleit sig best geta goldið hana með því að beita sér fyrir stofnun Gídeon félaga hér á landi. Elsta systirin gefur mér afmælisblað Thorvaldsensfélagsins. Þegar ég fór að líta í það heima hjá mér sá ég að hún sýnist vera formaður fyrir því um þessar mundir. Þetta félag á mjög merka sögu og hefir starfað að góðgerðamálum í 130 ár. "Þvílíkt úthald", segi ég nú bara. Þær voru 24 sem stofnuðu félagið og eru nú 89 sem hver og ein styður félagið með virkri þátttöku. Hinar frænkur mínar starfa líka í stúku sem hefir það að markmiði að sinna góðgerðamálum á sem kyrrlátastan og hávaðaminnstan hátt. Mér fannst þetta nú bara merkilegt því þannig vildi Kristur að slík verk væru unnin.

Ein systranna og maður hennar hafði boðið systrum sínum ásamt mér í kvöldmat. Nutum við góðra rétta og samveru þar til tími var kominn fyrir mig að fara á Gídeonfundinn upp í grafarholt. Sú elsta ók mér þangað upp eftir svo ég þurfti ekki að hafa neinar áhyggjur af stefnu eða stað. Hún er innfæddur reykvíkingur. Ég held að við værum mættar frá fjórum deildum á fundinum og fengum að heyra ágrip af tilhögun á þeirra fundum hverra fyrir sig. Fundurinn var vel lukkaður og góður andi ríkjandi. Rausnarlegar veitingar í lokin. Tvær aðrar Gídeonkonur voru mættar úr Keflavíkurdeildinni og fékk ég far með annarri þeirra og hennar manni heim um kvöldið.

03.05.2006 21:02

Ferð um fornan hrepp Dóttursonur Ásgríms og kona hans sem eru búsett í Þorlákshöfn höfðu boðið okkur til veislu er halda skyldi í tilefni þess að ferma átti son þeirra, þann 14 apríl. Veislan skyldi haldin kl.sex að kvöldi. Faðirinn talaði við afa sinn í símanum og tilkynnti boðið. Jafnframt lýsti hann leiðinni er til veislustaðarins lægi. Ég stakk upp á að við færum um Grindavík austur og þá leiðina með ströndinni því ég hafði ekki farið þá leið alla áður.  Innra með mér fannst mér einhver sérstök þörf að biðja Guð um farsæla ferð. Við fórum af stað klukkan hálf þrjú í góðu gluggaveðri eins og farið er að segja nú, þegar er heldur kalt en sólin skín og heiður himinn. Heldur er nú leiðin landkostasnauð ef litið er bara á gróðurfarið til Grindavíkur og áfram. Við ökum nú samt framhjá gullkistu Grindvíkinga þar sem Svartsengi er, rétt áður en við komum í Grindavík. Mér fannst nú leiðinlegt hvað ég vissi lítið um þetta landssvæði og varð það til þess að ég sótti mér fróðleik, er við vorum aftur komin heim, í bók sem heitir Saga Grindavíkur eftir Jón Þ, Þór. Þegar ég fór að lesa komst ég að því, að bókin var alls ekki leiðinleg eins og ég hélt sumar byggðasögur vera. Hún var bara skemmtileg, þótt ég hefði haft meira gagn af henni ef ég hefði þekkt betur þau kennileiti sem vitnað er til. "Grindavíkurhreppur er sagður einna víðlendastur allra hreppa í Gullbringusýslu og meiri hluti hans fjalllendi. Það sem mér fannst fróðlegt að lesa var, að Grindavík var um aldir ein af sterkustu stoðum undir auðlegð Skálholtsstóls og þeirri menningariðju sem þar var stunduð." Hvernig mátti það verða að Grindavík gæti skipt svo miklu máli fyrir svo fjarlægan stað eins og Skálholtstól? Jú það voru hin fengsælu fiskimið. Grindavík lá að sjó, var útgerðarstaður og stóllinn gerði út skip frá Grindavík. Það er líka sagt að hann komst yfir jarðir þar á staðnum og þar með hlunnindi sem þeim fylgdu. Á bls. 175 segir svo um Hraun, að rekavon væri í betra lagi  Dómkirkjan í Skálholti ætti helming alls viðreka og Viðeyjarklaustri væri eignaður helmingur af öllum trjám er væru 6 álnir og stærri. Svo var og um söl og fjörugrös fleiri ásamt hvalreka, að það var allt til hlunninda talið á sjávarjörðum. Þá fannst mér fróðlegt að lesa um eldgosahrinuna á Reykjanesi sem hófst þrem öldum eftir landnám. Þá runnu ekki færri en sex hraun á Reykjanesskaga, þar af fjögur í Grindavíkurhreppi. Ekki að undra að útlitið sé eins og það er á leiðinni austur frá Grindavík. Helst er það Grámosinn sem hugsar með sér, ?Heyrið þið mig, hér er nú aldeilis gott undir bú." Þetta er sannarlega ein hinna virðingarverðustu jurta sem Guð hefir skapað, fyrir hvað hugrökk hún er að hefja nýtt landnám á beru og brunnu eldhrauninu. Þessi leið sem við förum er ekki malbikuð en er nú bara sæmileg. Þegar nálgast Krýsuvík fer ég að horfa eftir einhverri vík en það er enga vík að sjá. Við virðumst vera langt frá sjó. Loks nálgumst við Krýsuvíkurkirkju og brunum framhjá vegskilti til hægri, sem á stóð Krýsuvíkur- og eitthvað meira en sá ekki hvað það var og hélt það væri ef til vill vegur. Þegar ég hefi orð á þessu telur bóndi minn að það muni hafa verið vegur sem við hefðum átt að fara. En þar sem við erum að nálgast kirkjuna og hjá henni er hópur fólks þá sting ég upp á að við spyrjum þau til vegar og tekur hann vel í það, sem ég verð fegin. Mér hefir fundist maðurinn, sem er ákaflega ratvís að eðlisfari, hafi hann áður um veg farið og kannski þess vegna, stundum lítið fyrir að spyrja gest og gangandi um stefnur og staðhætti en ef til vill treyst á sína náttúrugáfu. Við stormum svo inn í kirkjuna því þetta var ekki messa, sem fólkið var að sækja og hann spyr mann einn úr hópnum til vegar sem vísar honum veginn og minn maður spyr hvort við eigum ekki að fara til baka sem hinn játar en ég þóttist skilja seinna að hann hefði álitið okkur koma úr hinni áttinni. Við ókum svo til baka og lásum á vegskiltið sem ég gat um áður að við hefðum farið hjá. Nú kom í ljós að það stóð ekki Krýsuvíkurvegur á skiltinu heldur, að mig minnir, Krýsuvíkurstapar eða því líkt. Nú verðum við aftur ráðvillt en sjáum í því, að bíll kemur á móti okkur. Spyrjum þennan segi ég og hann hefir líklega hugsað hið sama opnaði bílrúðuna og spyr manninn um leiðina. Hann segir að við skulum snúa við og aka lítið eitt lengra en kirkjan er og kæmum þá á rétta leið. Þetta gekk allt eftir. Ókum við nú áfram í þessu yndislega bjarta veðri og framhjá Herdísarvík. Þar hafði ég komið áður fyrir allmörgum árum. Svo kemur að því að við ökum framhjá Hlíðardalsskóla en þar höfðum við dvalið á Alfahelgi fyrir stuttu síðan ásamt fleirum og liðið ágæta vel. Þaðan er ekki löng leið niður í Þorlákshöfn. Þar höfðum við ákveðið að heimsækja hjón er við höfðum fyrr hitt, er við höfðum áður í Þorlákshöfn komið. Konuna hafði ég þekkt fyrir mörgum áratugum er við áttum báðar heima sem börn austur í Hornafirði. Á leiðinni að húsi þeirra ókum við framhjá skála sem Ásgrímur vildi meina að veisluna ætti að halda í um kvöldið. Dóttursonur hans hafði verið að leiðbeina honum í síma, um leiðina kvöldið áður og verið að tala um einhvern skála sem veislan átti að vera í. Við fengum hinar bestu viðtökur hjá hjónunum sem við ætluðum að heilsa uppá áður en að veislunni kæmi. Þegar klukkuna vantaði kort í sex vil ég nú gjarnan fara að leita uppi þennan blessaða skála en hjónin sem við vorum hjá álitu að ekki mundu þar fara fram nokkrar meiriháttar veislur, hringdu meira að sega að okkur áheyrandi þangað og fengu að vita að ekkert slíkt væri þar í bígerð. Hjónin álitu að í húsi nokkru ekki svo langt frá skálanum gæti einmitt verið um veisluhöld að ræða. Vorum við þá ákveðin að leita það hús uppi sem tókst vafningalítið. Þegar við sáum fjölda bíla í kring um húsið leið mér betur og áleit að allt mundi fara á besta veg. Er inn var komið reyndist þar fjöldi fólks samankominn en okkur bar ekkert kunnuglegt andlit fyrir augu. Ásgrímur tók þar mann nokkurn tali til að komast til botns í þessu fyrirbæri. Sem betur fór var þetta skýr maður og vissi allt það markverða í sínum heimabæ sem okkur reið á að vita. Hann sagði að sú veisla er við leituðum að væri haldin austur á Eyrarbakka. Þetta kom sannarlega flatt uppá okkur. Mér fannst þetta ekki líta nógu vel út ef við kæmum allt of seint miðað við boðskortið. Illa viðeigandi ef fólkið yrði langt komið að borða er við kæmum en mér fannst á bóndanum hann ekki vera eins uppnæmur, við yrðum nú ekki svo lengi að renna þetta. Þetta fór betur en áhorfðist. Fjöldi fólks var mættur og nú sáum við kunnug andlit. Við náðum aðeins að setjast áður en borðhaldið hófst. Það var allt ríkulegt og engin leið að bragða á öllum réttum. Eyrarbakki var yndislegur staður í kvöldsólinni. Ef ég væri yngri held ég að ég gæti hugsað mér að eiga þar heima. Heimferðin um malarveg, í mánaskini og stjarna, laus við alla götulýsingu gekk vel og við gátum þakkað Guði fyrir farsæl ferðalok.

09.04.2006 00:38

Ryk

Ryk Ég rakst á skrítlu í bók. Þar var barn að spyrja mömmu sína. Mamma, hvað verður eiginlega af fólki þegar það deyr? Það verður að dufti - ryki.barnið mitt. Það er skelfilegt. Það eru þá margar dauðar manneskjur undir rúminu mínu.

Í þessu sambandi dettur mér í hug að ég fékk nýlega óvenjulegt dugnaðarkast að þrífa í kringum mig. Kom sér nú heldur en ekki vel nýja fína málningartrappan úr Húsasmiðjunni. Hún er létt eins og fis. Við keyptum hana fyrir nokkru síðan og er eins og ný. Bóndinn hafði reyndar verið að vinna með hana utandyra í einhverju moldarverki svo hún hafði orðið grútskítug um fæturna og upp á leggi. Ég var búin að þvo hana og pússa og gera hana eins og nýja aftur. Svona miklum nytjahlutum er ég fús að sýna mikinn sóma.. Hún var líka nægilega há þegar ég fór að ná niður stofugardínunum þar sem kapparnir eru festir uppi við loftið. Ég ákvað að handþvo gardínurnar í baðinu og hugðist spara þann tíma sem tæki annars að losa plastkrókana úr þeim. Þorði ekki að eiga á hættu að þeir brotnuðu í þvottavélinni og skemmdu kannski vélina. Svo gæti verið að gardínurnar hefðu brunnið á laun af sólarhitanum og kæmu sjálfar í tætlum útúr vélinni. En þetta reyndist gott efni og næst mundi ég þora að setja þær í vél. Þetta fór allt vel og þær eru komnar á sinn stað aftur. Bóndinn lagaði gluggakisturnar með málningu. Ég fór ekki fram á meira. Það er ókristilegt að ofgera gömlu fólki með óhæfilegri kröfugerð. Við máluðum veggina fyrir nokkru og sér ekki á þeim.

Mikið megum við vera Guði þakklát að geta haft fótaferð og séð um okkur á þessum aldri. Því fremur dettur mér það í hug þegar ég ber mig saman við sama sem jafnöldru mína og samsveitung í æsku. Hún veiktist sem ungt barn og varð þess ekki umkomin að sjá sér farborða í lífinu. Þó er hún ríkari en margur er í dag að hún á trúna á Frelsara sinn.

Jæja, við vorum í hreingerningum og þegar kemur að eldhússkápunum þá kom í ljós að nýja fína trappan mín kom mér ekki að notum. Þegar ég var komin upp í hana þá var ég svo langt frá því að ég ná inn í skápinn. Litla trappan úr Rúmfatalagernum var of stutt til þess að ég næði úr henni. Hvað var nú til ráða? Jú, bóndinn án umhugsunar að því er virtist, hvað annað, vatt sér upp á eldhúsbekkinn sem nær líklega sporlengd fram fyrir efri skápana og náði þannig með hendinni inn í efri hornskápinn. Ó, þetta hefði ég aldrei þorað. Ég hefði getað dottið af hræðslunni einni saman aftur yfir mig niður í gólfið. Mér líður heldur ekki vel að sjá hann þarna en hann er gamall trésmiður og ýmsu vanur. Þeir fara nú ekki alltaf gætilega held ég, ef dæma skal eftir þeim slysum sem stundum fréttist af. Allir geta náttúrlega orðið fyrir slysi. Ég sem bið Guð alla jafna á hverjum morgni að varðveita okkur yfir daginn og hefi ekki haft neinar áhyggjur af því meir. Ég mundi ekki einu sinni eftir því, er ég stóð svo óvænt andspænis hættunni. Það sem fyllti hugann var, að ekki mátti maðurinn fá svima eða stíga hálft spor aftur á bak, þá gat dauðinn verið vís. Síðan hefi ég hugsað um lærisveinana á Genesaretvatninu forðum þegar bátinn fyllti allt í einu og þeir urðu hræddir. Jesús gaf í skyn að það hefðu ekki verið rétt viðbrögð. Hann sagði bara við þá, reyndar eftir að hann hafði lægt öldurnar : ,,Hví eruð þér hræddir, hafið þér enn enga trú?" Allt fór þetta nú vel hjá okkur.

Mér finnst samt að hönnuðir megi hugsa sinn gang og fasteignasalar sem selja gömlu fólki hús eða íbúðir með svona hættulegum hornskápum. Þeir ættu að taka fram í söluauglýsingum, að það sé bara fyrir klifurfugla að gera þá hreina, ekki konur um áttrætt sem aldrei hafi stundað loftfimleika. Nú get ég samt huggað mig við, að ekki eru lengur neinar dauðar manneskjur undir okkar rúmi, né ryk í okkar skápum.

 

03.04.2006 01:34

Verslunarferð.

Þriðjudagur 28 mars 2006. Það er glaða sólskin en samt óttalega kaldur stormur af hafi. Ég ætla að fara að versla því að það er ýmislegt sem mig vantar. Auðvitað fer ég ein. Bóndanum virðist leiðast svo mikið að bíða eftir mér inn í búðum. Mér leiðist líka að horfa upp á hann þjást af eirðaleysi svo þetta er beggja hagur að hann sé bara heima. Ég er búin að segja honum að búðir séu einu staðirnir þar sem gamalt fólk geti innunnið sér jafnvirði peninga, með .því bara að gefa sér tíma til að hugsa og velta fyrir sér verði. Horfa eftir hvort eitthvað sé á tilboði og svo framvegis. Á þessum vettvangi eru allir jafnir en ætli gamalt fólk að fara að bjarga sér með vinnu þá er búið að sýna okkur það með útreikningum, að það er algjör heimska. Þá lendi maður í sköttum og ekki bara venjulegum heldur líka í jaðarsköttum og þeir eru svo lúmskir. Hafi nú fólk misst rétt sinn til bóta vegna tímabundinnar vinnu getur tekið langan tíma að komast inn í kerfið aftur að ég held en hefi ekki reynt. Það er að vísu til nokkuð sem heitir að vinna svart en ekki er það nú kristilegt að gjalda ekki keisaranum það sem keisarans er. Sumum finnst reyndar líka heimska að lífeyrirssjóðir urðu til. Ég veit ekki hvað mér finnst um það en ég hefi heyrt rök því til staðfestingar að betra hefði verið geyma peningana á annann hátt. Ég fæ rúmar 5000 á mánuði úr einum líferyrissjóði. Er ein þessara gömlu húsmæðra sem hugsuðu um og ólu börnin upp inni á heimilunum en hleyptu þeim samt út til að leika sér og fara í skóla. Sumar hinna yngri öfunda okkur og finnst við hafa átt gott að geta verið heima. Er alls ekki hægt að leyfa konum að hafa valfrelsi? Ég hefi aldrei séð rökin á móti því gerð opinber. Er það eitthvað sem þolir ekki dagsbirtu?

Jæja ég var á leið í búðina. Reyndar fer ég í bíl því að þetta er svo langt að fara, að það væri ekki fyrir gamalt fólk að bera aðföngin heim. Það er bara hvasst og má segja rok þegar að búðinni kemur. Það er þá hvergi rok í bænum ef ekki þar. Þeir höfðu enda sett upp auglýsingu um daginn, þar sem fólk var beðið að skila kerrunum aftur inn í hús svo að þær fykju ekki á bíla á stæðinu. Núna eru líka örfáar kerrur úti í stæðunni, enda er nú bara þriðjudagur og þá er mun rólegra en undir helgar. Ég fæ mér kerru og fer að týna í hana það sem mig vantar, brauð og kex og svo fer ég í grænmetið en kaupi lítið. Fyrir nokkrum vikum var hægt að fá hér gullauga í lausu, svona líka ódýrt, aðeins sá svolítið á hýðinu en ágætt samt til átu en það er ekki til núna. Jæja sennilega er þetta Premíer og dálítið laskað flusið. Ég tek samt slatta í lausu af góðri stærð á 69 kr. kílóið. Ég verð forvitin að smakka það en ég veit að það jafnast ekki á við Gullauga ræktað í sandgarði eins og ég þekkti austur í Hornafirði endur fyrir löngu. En þetta er mjög gott verð og kemur vel út í okkar matarreikningi því að við borðum mikið af kartöflum eins og gert var í okkar æsku. Svo fer ég inn í kælinn til að ná í mjólk og viðbit. Þá vantar mjólk í lítersfernum, hún er bara til í stærri umbúðum. Við erum bara tvö í heimili svo mjólkin skemmist frekar ef stendur lengi í opnu íláti. Ég sé engan sem ég geti borið fram kvörtun við og fer því fram aftur. Þegar ég kem fram fyrir heyri ég einhvern hávaða úr grænmetis horninu eða hvað sem það kallast, þetta húsrými þar sem grænmeti er selt og ávextir. Einhver viðskiptavinur hefir verið að setja út á þjónustu og ungur starfsmaður getur ekki látið konuna vera á eintali við sjálfa sig og svarar henni, sem er nú líka kurteisi útaf fyrir sig. Ég heyrði nú ekki svo grannt hvað þeim bar á milli en sé í hendi mér að þarna er maður sem gæti leiðbeint mér að finna eplaedik sem mig hefur lengi vantað. Ég hugsa, með tilliti til síðustu viðburða, að hógværð henti hér best og Biblían hefir fyrir löngu sagt mér að grimmur hundur fái rifið skinn. Ég spyr því eins mjúklega eins og útlit og orðfæri duga mér til, hvort hann geti sagt mér hvar eplaedik sé að finna. Hann lýtur upp mjög góðmannlegur á svip og ber engin merki þess að hafa lent í snörpum vindstreng nýlega. ?Þarna í kryddhillunni", segir hann mjög svo ljúflega og bendir mér hvert ég skuli stefna. Þetta var nú fínt, hér eftir þarf ég aldrei lengur að ráfa frá einu söluhorni til annars að leita að þessar vöru. Það var líka svo gott að hafa hitt svona hupplegan mann. Þegar ég hefi lokið viðskiptum og út er komið tekur það vandamál við, að láta kerruna standa kyrra meðan ég opna bílinn því þótt ég reyni að fara að þeirri hlið með kerruna sem ég held að sé hlémegin þá er næstum álíka hvasst þar og stormurinn gerir sig líklegan til að rífa hurðirnar af bílnum, því þær liggi svo beint fyrir blæstri. Það er svipað með körfuna. Hún vill bara dansa um hvernig sem ég reyni að fá hana til að standa kyrra. Hún minnir á óðan hest sem vill alls ekki standa kyrr meðan knapinn reynir að koma sér í hnakkinn, þegar  stóðið hefir stokkið á undan. Eftir dálítið basl tekst þetta þó farsællega og allt kemst heilt í höfn. Húsbóndinn kemur nú fús til hjálpar þegar heim er komið, til að raða vörunum upp í hillur. Það er líka jöfnuður. Ég er búin að hafa fyrir að taka þær niður úr hillunum í búðinni.

14.03.2006 19:11

Ísak Freyr Valsson

Ég má til með að senda þér afmæliskveðju þar sem þú ert að verða 11 ára í dag. Afskaplega hafa árin liðið hratt. Þú ert orðinn svona gamall en átt vonandi mörg ár framundan, ár full af lífi leik og starfi. Þá er að biðja Guð að hjálpa sér að velja leiðina sem liggur til farsældar.

Konungur lífsins kemur hér til sala,

kveður til fylgdar börnin jarðardala.

Undan þeim fer hann , friðarmerkið ber hann,

Frelsari er hann?.

Styrki þig Guð, að velja, veginn rétta.

Viskan og náðin sveig úr rósum flétta.

Undan þér fer hann, friðarmerkið ber hann,

Frelsari er hann. Fr. Fr.

09.03.2006 18:01

Afmæli

Afmæli.

Þórdís Líney Steinunn Karlsdóttir, tengdadóttir mín í þykjustunni, átti afmæli 22 febrúar en hélt upp á það laugardaginn 25. Febrúar. Það var myndarleg veisla sem sómt hefði að segja frá í fornsagna stíl, samt mínus áfenga drykki. Það er ekki alveg vitað hvað margt var gesta umfram 100. Ávörp voru flutt og höfðu margir gott orð að segja um kynni sín við afmælisbarnið. Myndir voru sýndar úr ævi hennar og söngvar sungnir. Allir fóru ófullir heim en vel saddir samt. Allt má ég líka gott frá henni segja þau bráðum 6 ár og tvo mánuði rúma sem okkar kynni hafa varað. En því sagði ég í þykjustunni að hún er eiginkona sonar mannsins míns en sá sonur var löngu til manns kominn þegar ég gerðist stjúpa hans og um mörg ár forstöðumaður Hvítasunnukirkjunnar hér í Keflavík

Ég var búin að vera ekkja í meira en 9 ár. Við getum lesið um það í Tímóteusarbréfi hinu fyrra, hvernig páll postuli leiðbeindi Tímóteusi, sínum skilgetna syni í sameiginlegri trú, hvernig með þær skyldi fara í sambandi við ekknastyrkinn eða ekknaaðstoðina. Hann skipti ekkjunum í tvo hópa eftir aldri og heilagleika. Ekki mátti taka neina á skrá sem ekki væri orðin fullra 60 ára. Ég hefði nú alveg náð því með glans, en þetta áttu í raun og veru að vera alveg heilagar konur sem höfðu lagt stund á hvert gott verk, þvegið fætur heilagra og s.frv. Stöðugar í ákalli og bænum nótt og dag og þar brast nú mikið á hjá mér. Ég var einu sinni að vinna á Landakotsspítala og þar hefði ég getað fengið þjálfun í að fara á fætur um nætur til bæna með nunnunum. En við hinar starfsstúlkurnar þurftum ekki að mæta fyrr en kl.7. að morgni til vinnu og þar við létum við sitja.

Svo við snúum aftur að ekkjunum. Það var ekkert spaug með þær ungu. Páll gefur Tímóteusi það ráð að taka ekki við þeim. Þegar þær gerist gjálífar þá vilji þær giftast og gerast sekar um að brjóta sitt fyrra heit. Og jafnframt temji þær sér iðjuleysi, rápandi hús úr húsi, ekki einungis iðjulausar, heldur einnig málugar og hlutsamar og tala það sem ekki ber að tala. Ég vil því, segir Páll, að ungar ekkjur giftist, ali börn, og stjórni heimili og gefi mótstöðumanninum ekkert tilefni til illmælis. Ég sá að ég passaði nú ekki alskostar heldur í þennan flokk því ég hefi alltaf verið fremur heimakær og mér of sjálfbær um afþreyingu, til þess að nenna að rápa hús úr húsi. Rólegheit og kyrrð eru mitt eftirlæti. Mér finnst snjallt hjá Páli að vilja gifta ungu ekkjurnar svo þær eigi börn og tolli betur heima, til að fyrra söfnuðinn vandræðum og illu umtali. Ég var uppalin sem einbirni því að ég fæddist daginn eftir að bróðir minn varð 11 ára. Hann var orðinn fullorðinn þegar ég man eftir. Sem barni fundust mér börn heldur leiðinlegt fólk. Þegar ég kom á heimili þar sem mörg börn áttu heima, þá fannst mér það vera svo rúið allri friðsæld sem ég átti að venjast heima hjá mér en þegar ég svo eignaðist börn sjálf, þá gerbreyttist þetta og mér fundust þau bara mjög skemmtileg. Jæja, Guð sá víst að ég mundi aldrei þroskast til að verða sett í fyrri flokkinn ekknanna svo hann ákvað bara að gifta mig og þótt ég gæti ekki lengur eignast börn mundi ég samt tolla heima af því hann hafði gert mig þannig í upphafi. Ég eignaðist náttúrlega fleiri þykjustufjölskyldur í gegnum giftinguna bæði á Akranesi Selfossi og líka í Reykjavík. Ég rís auðvitað ekkert undir því hlutverki með neinum sóma en þetta fólk hefir allt tekið mér opnum örmum svo allt hefur farið farsællega. Svo á ég börn, tengdabörn og barnabörn í Danmörku, Noregi og Akureyri. Þórdís og Kristinn búa okkur næst svo við mundum leita til þeirra fyrst ef bráða vá bæri að höndum. Þau mundu bregða skjótt við ef ég þekki þau rétt, þó svo að ég hafi aldrei þvegið fætur þeirra eins og Páll segir að ekkjur ættu að geta sýnt á sínum meðmælaspjöldum. Svo vil ég að lokum óska henni Þórdísi til hamingju með að hafa náð þessum 60 árum og vona að hún eigi eftir að lifa marga góða og glaða daga við hlið manns síns og bið Guð að gefa þeim nógan þrótt til að sinna því tvöfalda starfi að sjá fyrir sér sjálf til að vera engum til byrði og sinna söfnuðinum þar að auki. Kær kveðja.

Þreytumst aldrei orðsins góða sæði að sá,

Sendum ljós sendum ljós!

Því vér trúum senn vér munum sigur fá.

Sendum ljós sendum ljós!

09.03.2006 16:21

Hornbjarg

Rís við norðrið Hornbjarg hátt,

hvasst á brún, af snævi grátt,

horfir yfir hafið blátt,

hefur alið kjarkmenn þrátt.

09.03.2006 16:14

Hornbjarg

02.03.2006 16:50

Kvennafrídagur

Nýlega var haldinn kvennafrídagur þar sem launamunur kynjanna var aðal ásteytingarefnið svo og að konur komist ekki auðveldlega að, sem æðstu forstjórar í fyrirtækjum. Launamunurinn þykir afar óréttlátur, sem hann og er, þegar um sömu afköst í sömu vinnu er að ræða. Enginn þorir að segja allt, um hvernig þetta ranglæti verður til eða blanda meðgöngu, barneignum og brjóstagjöf inn í málið.

Jón Gnarr skrifaði pistil á baksíðu Fréttablaðsins 27/10 2005. Pistill sá heitir ,,Konan mín". Hann talar um mikið misrétti og konur fái lægri laun og síður stöðuhækkun en karlar. Það hafa ekki margir mælt meiri fegurðarorð til kvenna en Jón Gnarr mælir til konu sinnar, síðan íslendingar hættu að yrkja alvöruljóð. Ég sé að það er líka hægt að segja eitthvað fallegt án þess að steypa það í stuðla. Hann gerir mikið úr henni en lítið úr sér en að lokum segir hann. "Ef okkur væri boðin stjórnunarstaða þá væri ég örugglega frekari og hefði meiri áhuga á að fá starfið og hún mundi örugglega láta mér það eftir en hún væri samt örugglega hæfari en ég". Það er þetta orð "frekari" sem ég hefi haldið að skipti þó nokkru máli með öðru.

Það er líkt með húsdýrunum og mannskepnunum að frekjan og áflogahneigðin er að öllu jöfnu meiri í karlpeningnum og þeir eru betur til erfiðis og átaka fallnir, frá náttúrunnar hendi. Þeir hafa oft meiri líkamsburði og eru vísari á básnum sínum í vinnunni því þeim verður aldrei hamlað af meðgöngu, barnsfæðingu og brjóstagjöf. meðal annars. Ég man frá æsku minni eftir tveim ungum hrútum heima sem höfðu verið bundnir á bás eða í stíu yfir veturinn en á útmánuðum minnir mig það væri, að þeir voru leystir úr prísundinni og hleypt út á tún. Þegar kýrnar voru leystar og látnar út fyrst á vorin þá ærðust þær af gleði og skvettu sér upp með halann uppí loftið, gengu nærri fram af sér með látum. Þær voru svo glaðar. En hvað haldið þið að hrútarnir hafi gert í sömu sporum. Þeir fóru í stríð. Þetta voru fallegar skepnur með feiknarleg horn. Ekki veit ég hvað þeim bar á milli eða hvor byrjaði en allt í einu voru þeir komnir í æsilegan bardaga. Þeir bökkuðu langan veg afturábak til að gera sér tilhlaup og svo tóku þeir á stökk fram á við og létu hraðann vinna með sér svo höggið yrði sem þyngst er þeir skelltu saman hornunum svo glumdi í. Þetta endurtóku þeir aftur og aftur og aftur. Enginn kom til að stilla bardagann, þeir fengu bara að rasa út og það tók langan tíma því að þeir höfðu svo mikið úthald. Undravert að augun skyldu ekki liggja út á vöngum að þessu loknu eða blæða inn á heilann í skepnunum. Þvílík listasmíð á þessum hrútshausum. Þetta voru karldýr, ærnar létu aldrei svona. Þær voru í mesta lagi með smá hnubb hver í aðra. Ég held að kvendýrin séu ekki að eðlisfari jafn árásargjörn og konur nái aldrei jafnrétti nema í félagi við karla og góðri samvinnu. Þær þurfa bara að komast í gott samband við þá. Fá þá til að leggja fram stríðsorkuna í þágu góðs málefnis en ekki alltaf að vera að agnúast út í þá eins og mér finnst oft raunin í dag. Við það verða þeir bara fúlir og inn í sig.

Auðvitað á ekki að þegja allt í hel, "Eigið engan hlut í verkum myrkursins sem ekkert gott hlýst af, heldur flettið miklu fremur ofan af þeim". Þessi ráðlegging er jafngömul Kristninni, gefin af Páli postula. Það er líka hægt að geta þess sem gott er, því menn gera marga hluti vel og sumir til fyrirmyndar góðir heimilisfeður. Fréttablöðin eru nú afleit að þessu leyti. Mér finnst þeir sem stjórna þar, ættu að hafa vigt og vega efnið í blöðin, hafa aldri meira af illu en góðu, þótt þá langi til, ef dæma skal eftir hlutföllunum í dag. Þótt þeir geti ekki sagt nema illt af einhverjum þá hljóta þeir að geta fundið annan sem er til fyrirmyndar og sagt góðu tíðindin af honum til jafnvægis. Þá mundum við, þegnar landsins, ekki fá svo einhliða og afleita mynd af þjóðfélaginu sem við búum í eins og raunin er í dag. Þá gæti orðið meira um bjartsýni yfirleitt, hver veit?

25.02.2006 01:17

Andvaka

Fyrir ekki löngu síðan varð ég andvaka.  Ég er að vinna að verkefni sem mér finnst best að byrja að vinna á kvöldin um klukkan 11og halda áfram til klukkan 2 eða rúmlega það.  Þá verður svefninn stundum móðgaður og vill alls ekki koma með mér í rúmið.  Stundum fer ég út á kvöldin og þá  verður hann líka fúll útaf því.  Það hafði ég einmitt gert umrætt kvöld, svo svefninn hafði ástæðu til að fara í tvöfalda fýlu.  Þegar ég svo lagðist á koddann fór hugurinn bara að reika.  Allt í einu kom í hugann ömmudrengurinn hann Andri Þór Valsson sem átti afmæli nýlega.  Ég hafði nú alveg munað eftir afmælisdeginum 17 febrúar og óskað drengnum til hamingju.  En þótt ég muni eftir afmælisdögum  fólks þá man ég ekki endilega hvað það er orðið margra ára gamalt.  Það er stundum orðið eldra enn ég átti von á.  Ég fór svo að rifja upp, að ég sá hann fyrst fárra mánaða, þegar foreldrar hanns komu til Íslands til að gifta sig.  Þau bjuggu í Noregi þar sem faðir hans var í framhaldsnámi.  Móðir hans kom ssvo aftur upp með börnin til Íslands, til að vera við jarðarför pabba síns en hann dó 18 september árið 1990. rétt á undan afmælinu mínu. og þá hlýtur hann núna að hafa orðið 16 ára.  Enn að ég skyldi nú ekki muna eftir að senda þér, Andri minn kveðju á bloggsíðunni sem foreldrar þínir gáfu mér og sendu hljóðlaust inn í tölvu hjá mér.  Bloggsíðan er búin að vera í algjörri hvíld lengi því hugurinn hefir verið að bjástra við annað.  Ég hefi líka oft átt í erfiðleikum með að koma skapi saman við þessa tölvu því hún hefir flókið innræti.  Ég er nú samt þakklát fyrir að mamma þín og pabbi gáfu mér gömlu Macintosh tölvuna sína.  Það var nú byrjunin hjá mér að geta hagnýtt  mér  þessa tækni.  Ég ætla að senda þér ljóð sem afi þinn orti. 

         Ég á þann vin sem aldrei brugðist hefur,

         sem alltaf stöðugt hefir reynst mér trúr,

          er hjálp og styrk í hverri raun mér gefur

         og hrifið fær mig kænni freisting úr.

                                                                     

         Hann annast  mig svo ástúðlega blíður,

          í elsku hans og náð er sál mín þyrst.

          "Ó, komið til mín allir, blítt hann býður.

            Hver betri átti vin en Jesúm Krist.

                              S.G.J.

 

   

           

11.12.2005 23:32

Hygginn maður

Hygginn maður hefir viskuna fyrir

framan sig,

en augu heimskingjans eru úti á

heimsenda...

Afglapinn getur jafnvel álitist

vitur, ef hann þegir. 

(Úr Orðskviðunum).       

03.12.2005 23:28

Guðs orð var dýrt

                  Guðs orð var dýrt á þeim tíma.                 

Árið 1274 kostaði vel skrifuð biblía í 9 bindum 600 krónur.  Það þætti æði dýrt á vorum dögum(þetta var skráð 1904), og þó sýnir upphæðin sjálf oss ekki, hversu fáir höfðu efni á að kaupa biblíu, því að dagsverkið var þá metið á tæpa 12 aura.  Verkamaður varð því að vinna 5333 daga eða um 17 ár fyrir biblíu.       Tekið úr Heimilisvininum 1-2 hefti 1904.

                         Biblíuna elska ég 

                         af því hún er guðdómleg.

                         Hún mér segir, hvað ég er,

                         helgan fjársjóð veitir mér.

                  

      

                         

                               

                            

28.11.2005 00:59

Hugarhik

Ég kenni mönnum hugarhik

og helst að sinna öngu,

Því kann margur hin þöglu svik

að þegja við öllu röngu.

Höfundur ?

25.11.2005 20:34

12 ára afmæli.

                                 Kæri Sigurd minn!

Ég óska þér ti hamingju með 12 afmælisdaginn sem var 24 nóvember.  Mér þótti mjög leiðinlegt að gleyma honum.  Ég var að vísu ekki heima í gærkvöldi en það er lítil afsökun þar sem þú átt bara eina ömmu á lífi og afarnir báðir dánir svo ekki hlaupa þeir í skarðið fyrir gleymna ömmu.  Ég sendi þér hér bænaljóð eftir íslenska afann, ofurlitla uppbót af því þú kynntist honum aldrei. Það væri gaman ef þú gætir lært að lesa það upphátt á íslensku.  Með kærri kveðju frá ömmu.

Ó, gef mér, Drottinn, ylinn elsku þinnar

að ylja þeim, er svíður lífsins frost,

að þerra votar, þrútnar tárum kinnar

á þeim, sem eiga lítinn gleði kost.

 

Ó, gefðu mér að elska auma þjáða,

sem illa líður, bera hryggð og kvöl,

að elska vilta, auðnulausa, smáða,

sem eiga við að stríða skort og böl

 

Ó, Drottinn Jesús, hugga sjálfur hrellda

og hlynn að veikum, lækna gegnum mig,

og styrk og reis á fætur marga felda,

sem fallhætt varð á skreipum lífsins stig.

                              S.G.J.

 

 

23.11.2005 23:12

Staðreynd

Sá sem breiðir yfir bresti

eflir kærleika,

en sá sem ýfir upp sök,veldur

vinaskilnaði.

Flettingar í dag: 12
Gestir í dag: 11
Flettingar í gær: 204
Gestir í gær: 21
Samtals flettingar: 79484
Samtals gestir: 16448
Tölur uppfærðar: 7.5.2024 02:55:25

Eldra efni

Tenglar