Þóra Guðrún Pálsdóttir

01.10.2011 00:28

Ferð til Hornafjarðar 3.hluti

                                    Ferð til Hornafjarðar framh.3.
 
  Svo rennur upp 10. júlí 1951 Við klæðumst og þvoum okkur úr Fnjóská, borðum morgunmat og tökum okkur upp klukkan hálf tíu. Kaupfélag Svalbarðseyrar hafði útibú við brúna á Fnjóská. Þar keyptum við okkur appelsínur. Þá héldum við um Ljósavatnsskarð. Förum framhjá Hálsi sem er kirkjustaður. Brátt höfum við Ljósavatn á hægri hönd og erum stödd við Goðafoss í Skjálfandafljót klukkan hálf 11. Loft er þykkt en allgott skyggni. Þetta er fallegur foss en ekki feiknarlegur og ljótur eins og Dettifoss. Nú héldum við yfir í Reykjadalinn, þar er Laugaskóli. Svo er komið upp á Laxárdalsheiði, Þar er allstórt vatn á vinstri hönd sem heitir Másvatn( Það gæti heitið Máfsvatn, Hitt gæti verið prentvilla hjá mér eða á kortinu. Svo komum við í Mývatnssveitina um klukkan 12 minnir mig, við vera hjá Skútustöðum. Þar er ljómandi fallegt. Við ókum fram með vatninu allt til Reykjahlíðar en Skútustaðir eru sunnanmegin vatns en Reykjahlíð norðanmegin vatns. Kristín og Gísli voru þar boðin í mat af manni sem ók framúr okkur á Laxárdalsheiði. Við hin ókum afsíðis frá staðnum og borðuðum úti undir beru lofti eins og okkar var vani. Svo sóttum við Gísla og Kristínu og héldum upp frá Reykjahlíð, gegnum Námaskarð og austur örævin í átt til Grímsstaða. Sólskin var ekki en skyggni allgott svo við sáum til Herðubreiðar og tókum af henni myndir.
 
Klukkan hálf fjögur vorum við komin að Jökulsá. Þar fóru allir útúr bílnum og teknar voru myndir af hinni nýju voldugu brú. Sumir gengu yfir hana til að mæla lengd hennar með skrefum sínum en hvort þeim bar öllum saman er annað mál. Ekki er langt frá brúnni heim að Grímsstöðum á Fjöllum en þaðan liggur leiðin til Víðidals og er það löng leið milli þessara bæja. Frá Víðidal fórum við í Möðrudal og keyptum okkur þar kaffi. Mig minnir að klukkan væri þá um 6. Jón í Möðrudal hélt uppi gleðskap fyrir okkur. Talaði margt og söng hátt, ástavísur fyrir ógiftu piltana og sló með bók í höfuð þeirra til frekari áherslu. Benni sagði að hann mundi betri söngvari en Haukur Mortens og samsinnti Jón það. Að lokum sýndi hann okkur kirkjuna sem hann hafði sjálfur byggt. Það var gaman að koma þarna. Eftir það fórum við af stað og ókum lengi, lengi yfir sandauðnir og fjalllendi, allt niður í Jökuldal. Nú fór hugurinn að snúast um mat og hvíld og hugðum gott til að kaupa okkur mjólk á einhverjum sveitabænum, fyrst við vorum komin miður í byggð. Við áttum eftir að komast að raun um það, að á því kvöldi voru seint hýstar kýr á Jökuldal.
 
Á einum bænum var meira að segja látinn í ljós efi um að þær yrðu hýstar það kvöld, vegna annríkis við rúning sauðfjár. Á Hauksstöðum var síðasta tilraun gerð til að fá mjólk keypta en ekki voru kýr þar komnar í hús. Mjólkina getum  við fengið og hana nóga ef bíða viljum og tjaldstæði er okkur vísað á í námunda. En með því að við álitum að tognað gæti á biðtímanum, þá vísum við öllum mjólkurþorsta á bug og sættum okkur við algjört tómthúsfæði þetta kvöld. Við ókum svo þar til við fundum tjaldstæði er okkur leist á, í námunda við yndislegar blágresis brekkur. Ég er annars ekki alltof hrifin af landslaginu þarna. Jökulsáin öskugrá og óreið setur auðvitað sérstakan blæ á þennan dal, bæði í sjón og raun. Bæirnir standa sitt hvoru megin ár og sumir tiltölulega stutt hverjir frá öðrum en bæjarlækurinn (áin) gerir bilið breitt á milli og leiðina langa. Dagurinn næsti 11 júlí varð okkur hagstæður hvað veðurfar snertir, því það er bjart og fagurt. Ég man ekki hvað klukkan var er við tókum okkur upp en þá eigum við stutta leið ófarna að brúnni á Jökulsá. Hróarstunga verður á vinstri hönd en Fellin til hægri. Það styttist óðum að Lagarfljótsbrú. Fljótið er breytt og brúin því löng. Fagurt þótti mér á Fljótsdalshéraði og lögurinn þess stóra prýði. Á Egilsstöðum var verslunarstaður.
 
Þar keyptum við okkur gosdrykki, appelsínur og annað matarkyns. Daníel þurfti að fá gert við bílinn og fékk að vita, að verkstæði sé á bæ talsvert fjær. Þar sem hann býst við að viðgerðin taki nokkurn tíma, talaði hann um að skila okkur fyrst í Hallormsstað sem er 30 kílómetra frá Egilsstöðum en frá því er þó horfið er við höfðum ekið fram að Tunguhaga á Völlum, Þá lýst okkur best á að nota tímann til að sjóða mat og borða hann, meðan gert væri við bílinn. Tunguhagi stendur á bökkum Grímsár. Bárum við nú pjönkur okkar niður í brekkuna við ána og er þaðan til mynd af Sigríði Halldórs og Palla, þar sem þau eru að sjóða kartöflur á prímusnum í réttarskýli nokkru við ána. Búið var að skilja mjólkina í Tunguhaga, því eins og allir vissu var mjólk skilin á morgnanna og kvöldin í sveitum annars á nóttinni ef seint var háttað eins og á Jökuldalnum. Það þurfti því að blanda mjólkina aftur sem við báðum um í Tunguhaga og sú blöndun var ósvikin hvað rjómanum viðkom.

Sólskin var og góður þurrkur á nýslegna töðuna á túninu. Þá lá nú við að mann langaði að taka á hrífu, en við vorum eins og kaupstaðarbúar í sumarfríi og sumir af ferðalöngunum óðu berfættir í Grímsá sér til hressingar og tilbreytni. Er viðgerð var lokið á bilnum ókum við yfir brúna á Grímsá og komum á vegamót. Lék  þá nokkur vafi á hvor leiðin væri sú rétta en aðra hvora urðum við að fara. Er við höfðum ekið nokkurn spöl sannfærðumst við um að við værum á rangri leið og snerum til baka og fórum hina leiðina er lá til norðurs, en um Vallanes er beygt til suðvesturs og ekið meðfram Lagarfljóti til Hallormsstaðar. Það er fögur sjón á slíkum degi að  horfa yfir löginn yfir í Fellin. Við dvöldum æðilengi á Hallormsstað. 

Þar týndum við Ragnhildi og leituðum hennar með hrópum og köllum um skóginn og fundum hana eftir nokkra leit. Við fengum að sjá gróðrarstöðina og sýnumst lítil á myndum sem teknar voru af okkur framan undir trjánum því trén eru svo há. Þar sáum við tré,sem okkur var sagt að væri þá hæsta tré á Íslandi. Áður en við yfirgæfum Hallormsstað fengum við okkur kaffi á hótelinu en kaffisalan er rekin í Húsmæðraskólanum á sumrin. Þá var (Lóa þae)Vilborg komin á kunnugar slóðir því hún hafði áður sótt þangað menntun sína í matargerð og vefnaði og sjálfsagt mörgu fleiru. Þetta voru hinar þörfustu stofnanir, húsmæðraskólarnir. Við risum frá borðum södd og sæl og stigum upp í bílinn, barst þá að eyrum okkar Bjölluhljómur og fengum við brátt skýringu á honum. Kýrnar fikruðu sig niður skógi vaxna hæð og frá þeim barst hljómurinn. Er þetta eflaust gert svo auðveldara sé að finna þær í skóginum. Nú voru þær að koma heim því komið var að kvöldi.

Við ókum svo sömu leið til baka þar til yfir brúna á Grímsá var komið. Nú er Skriðdalurinn fram undan. Við förum yfir Gilsá og framhjá Litla og stóra Sandfelli. Þar sem ég sé hesta á þessari leið gef ég þeim nánar gætur því mér finnst að á þessum slóðum kunni að mega vænta að sjá brúnan hest sem ég þekki en ekki mundi ég hvað bærinn hét sem hann var seldur til. Seinna fékk ég að vita að þetta var rétt hjá mér og þetta voru hans heimahagar. Ég kynntist seinna bóndanum frá þeim bæ og dóttur hans og vann með henni nær heilann vetur. Hún átaldi mig fyrir að hafa farið fram hjá og bauð mér heim og þeim sem með mér kynnu að verða á ferðalagi öðru sinni. Þetta var útúrdúr. Arnhólsstaðir heitir samkomustaðurinn að ég held og er skammt frá Þingmúla. Enn er óákveðið hvort við förum yfir Breiðdalsheiði þetta kvöld en er nær dró heiðinni verður það ofan á. Um það leyti skrifuðu einhverjir í dagbækur sínar. ,, Allur harðfiskur búinn". Það var vani okkar að vera öðru hverju eitthvað að nasla á leiðinni. Sigurjón sá um loftræstinguna í bílnum og hlaut af því viðurnefnið Rúðumeistari.

Brátt lítum við af hárri heiðarbrún og horfum yfir Breiðdalinn. Vatn er á heiðinni sem heitir Heiðarvatn. Mál er að hátta er niður af heiðinni er komið. Þá verður þó fyrst að fá sér einhverja næringu. Við Benni röltum langan veg eftir vatni í kaffi en fáum enga sérstaka viðurkenningu fyrir þann vatnsburð, þótt okkur finnist við eiga það skilið. Ekki tími ég að skríða strax niður í poka minn þegar gengið hafði verið frá eftir matinn, Kýs heldur að reika um brekkurnar og njóta hinnar íslensku sveitanáttúru, fegurðar blágresis og annarra blóma er vitna um hinn mikla Skapara með skrúða sínum. Veðrið helst gott þessa nótt og einnig daginn eftir, sem er 12 júlí. Þá þurftum við líka á sérlega góðu veðri að halda. Þá er fyrst ekið eftir Breiðdalnumí  og mörg eru hliðin sem þarf að opna og loka. Palli frá Holtahólum stendur sig vel í því, bæði að opna og loka. Ekki dugir að skilja opin hlið eftir sig. Í Heydölum tökum við bensín. Þar var verið að byggja íbúðarhús að okkur sýndist. Svo förum við framhjá Eyjum, Skjöldólfsstöðum og Ási og út fyrir Streytishorn.

Skammt frá Fagrahvammi á Berufjarðarströnd tökum við tíma til að matast. Þar fóru Benni og Daníel heim til að fá mjólk, sem þeir fengu gefins og vel úti látna. Líka fregnuðu þeir um veginn fyrir Berufjörð og fengu ekki uppörvandi fréttir af honum.  Samið var við Hjálmar bónda um flutning á dóti okkar yfir fjörðinn svo bíllinn yrði sem léttastur og líka fengum við lánaðar skóflur og önnur vegagerðarverkfæri. Lóa, sem gekk altaf undir því nafni, þó hún héti Vilborg, hafði við orð að fylgja dótinu eftir yfir fjörðinn en Hjálmar sagði okkur að við skyldum vara okkur á því að verða eftir. Þá kæmi ef til vill einhversstaðar í ritgerð, að allur óþarfi hafi verið skilinn eftir.

Við komum snöggvast að Berufirði og var sagt að kaffi væri alveg til, svo að við drukkum það. Þar bjó þá Nanna Guðmundsdóttir sem var kennari minn þegar ég var 9 ára, og þau systkin bjuggu þar fleiri. Svo var haldið áfram og farið yfir Berufjarðará og þá er komið í Selnes. Þar var nýbýli sem heitir Lindarbrekka. Byggingarnar voru fallegar en mér fannst umhverfið voðalega grýtt. Berunessbóndinn leiðbeindi okkur og gekk allt vel yfir Fossána. Eftir það fór vegurinn að versna fyrir alvöru og þurfti að gera miklar vegabætur svo hægt vari að koma  bílnum áfram. Að lokum voru piltarnir orðnir svo þyrstir og slæptir að þeir sendu okkur fram að Urðarteygi til að reyna að fá keypt kaffi, sem  við svo skyldum færa þeim. Við leggjum svo af stað og héldu víst allir að Urðarteigur væri nær en raun varð á. Við gengum lengi,lengi og óðum berfættar yfir á sem á vegi okkar varð. Við vorum alltaf að gá eftir bænum. Loks sáum við kýr á beit og hugðum að nú mundi skammt til mannabyggða en það reyndist langur vegur enn.

Dreifðum við okkur nú svo við sæjum sem viðast yfir og loks sáum við  bæinn þar sem hann stóð niður við sjóinn. Mann sáum við standa að slætti á túninu. Lagði hann frá sér orfið og gekk til bæjar og inn þegar kvennaskarann dreif að. Er við kvöddum dyra kom út unglingsstúlka falleg og bauð okkur í bæinn. Sögðum við okkar farir ekki sléttar og bárum upp erindið, hvort kaffi mundi falt handa vegagerðarmönnum og var það auðsótt. Grennsluðumst við eftir hve langt mundi til Djúpavogs og hvort það mundi bílfær vegur. Fengum við að vita að þangað mundi vera tveggja tíma gangur og ekki allur bílfær en hægt væri að fara á Trillu. Ákváðu þá Sigríður halldórs, Ragnhildur og Lóa að fá Trillu með sig út að Framnesi en við hinar fórum aftur inn eftir með kaffið þegar það var tilbúið og við sjálfar búnar að drekka kaffi og spenvolga mjólk því það var komið kvöld og nýbúið að mjólka. Eldhúsgluggarnir í Urðarteygi voru nýmálaðir og vöruðum við okkur ekki á því þar sem við settumst við gluggana svo olíuflaskan gekk á milli okkar til að þrífa af okkur málninguna. Ein af okkur hafði stutt báðum höndum í gluggakistuna til að horfa út um gluggann. Eg vona að það hafi einhver málning verið eftir til að bæta  hylja fingraförin og bæta skaðann.

Við hinar flýttum okkur  nú með kaffið til piltanna og urðum ekki lítið hissa er við sáum hve vel þeim hafði gengið í vegagerðinni á meðan við vorum í sendiferðinni. Fegnir urðu þeir kaffinu og eftir það mjakaðist hópurinn með bílinn hægt og hægt. Sumstaðar þurfti að hlaða kannt svo hægt væri að koma bílnum áfram en seint og um síðir erum  við komin á ruddan veg og erum þá fegin að setjast inn í bílinn, þótt ekki sé hægt að aka hart því vegurinn var mjög hólóttur. Nú stefnum við til Djúpavogs en viljum  þó hafa tal af fólkinu í Framnesi svo að ferðafélagar okkar, sem þar eru, viti um ferðir okkar. Þar sem við erum ókunnug er farið heim að bæ einum sem við höldum að geti verið Framnes og fólk vakið af værum blundi. Þetta reyndist þá vera Teygarhorn. Næst hittum við á réttan bæ og voru samferðakonur okkar gengnar til náða ásamt öðru fólki þar.

Eftir stutta stund erum við á Djúpavogi og höfum þá verið um 12 tíma úr Berufirði en þar vorum við að mig minnir klukkan hálf fjögur. Nú þurftum við að vekja upp kaupfélagsstjórann því hann geymdi lykla að húsi því, sem geymdi dót okkar. Við spurðum hann eftir tjaldstæði og vísaði hann okkur  á tún nokkurt rétt hjá. Ekkert fundum við vatn í kaffi þá enda vatnsskortur í þorpinu um þetta leyti. Háttum við svo en ekki verður svefntími langur. Við vöknum í glaða sólskini. Það er Föstudagur. Daníel byrjar á því að leita að vatni í kaffi og fær það. Svo fórum við að koma okkur af stað og veitti ekki af, því kona nokkur kom og fór að breiða drílur á túninu við tjaldið og henni fannst víst við ekki eiga að vera þarna. Sagði hún að það ætti að slá túnið aftur. Páll hélt nú að það myndi nú mega slá það aftur, þótt við hefðum tjaldað þar. Hún hefur ef til vill haldið að við ætluðum að vera fram yfir haustréttir. Það má líka draga í efa, að kaupfélagsstjórinn hafi haft nokkra heimild til, að leyfa okkur að setjast þarna að um nóttina.

Áður en við yfirgáfum Djúpavog skrapp ég snöggvast heim til Friðbjargar frænku minnar en það gafst ekki langur tími, því framundan var langt ferðalag. Við ókum  svo inn að Framnesi, til að taka samferðakonur okkar. Þar var okkur boðið uppá skyr og þáðum við það. Klukkan mun hafa verið um 12 þegar við fórum frá Framnesi. Nú ókum við inn fyrir Hamarsfjörð og þá kom Álftafjörðurinn. Við stoppuðum aðeins á hlaðinu á Geithellum og Einar bauð okkur upp á kaffi. Ég hugsaði að ekki vantaði gestrisnina á þeim bæ. Við vildum ekki tefja og héldum áfram og allt að Starmýri. Þar verður alllangt stopp,því nú þarf bíllinn viðgerðar við svo að við getum treyst honum yfir Lónsheiði. Ásta dóttir Guðlaugs á Starmýri bar okkur hinar myndarlegustu veitingar. Ekki man  ég hvað klukkan var, þegar við fórum frá Starmýri en þá var að koma úrfelli og fengum við þoku og rigningu nokkra  yfir Lónsheiði en betra er við komum niður í Lónið. Á Stafafelli bíður okkar kvöldverður og setjumst þar öll til borðs nema Lóa. Hún fór heim til systur sinnar á Brekku. Einnig þar hafði verið hafður viðbúnaður til að taka á móti okkur en við gátum auðvitað ekki borðað á báðum bæjunum. 

Við kveðjum nú Ragnhildi húsfreyju, þar sem hún er komin heim til sín, og þökkum góða samfylgd því hún hefur reynst okkur ágætur ferðafélagi. Er við höfðum þakkað fyrir okkur og kvatt á Stafafelli komum við að Brekku. Sighvatur ætlaði að leiðbeina okkur yfir Jökulsá. Á Brekku er lagt að okkur að taka lífinu með ró og sofa af næstu nótt. Við vildum nú heldur ná lengra á þessu kvöldi. Sighvatur lagði þá á hest sinn og reið á undan okkur til árinnar. Einnig kom stór bíll frá vegagerðinni á móti okkur og ók á undan yfir. Allt gekk vel. Á almannaskarði biðu okkar, Gumundur frá Viðborðsseli, bróðir Sigurjóns,sem var með okkur, einnig Arnór og Einar frá Árbæ  bræður Benedíkts, sem var með okkur. Okkur þótti vænt um að sjá Mýramenn. Við ókum svo niður Almannaskarð og komum í Nesjasveitina sem alltaf er falleg. Nú ríkti þar ró og friður sumarnæturinnar. Í Austurfljótunum var nokkurt skólp en okkur gekk vel og Mýrabílarnir óku á undan. Þeir vissu hvar leiðin lá yfir hvert ræsi. Suðurfljótunum man ég vart eftir, þau hafa víst verið mjög vatnslítil þá. Þá vorum við komin á Mýrarnar. Sigurjón kveður okkur hjá Viðborðsseli því þá er hann kominn heim.

Næst stoppum við, við hliðið á Tjörn til að skila Lóu. Þá kom Benedikt bróðir hennar hlaupandi niður að hliði til okkar og bauð  okkur systkinin velkomin þar að vera. Ekki hægt að hugsa sér betri móttökur. Man ég óljóst eftir hlöðnu borði í eldhúsinu. En nú vorum við orðin syfjuð og gott var að hátta niður í dúnmjúkt rúm með drifhvítum sængum eftir alla útileguna.

Öll eigum við víst ánægjulegar endurminningar úr þessari ferð sem okkur var gefið að vera þátttakendur í á sumrinu 1951. Lokið við ferðasöguna 21 apríl 1952.
                                                                                                Þ.G.P.

22.09.2011 19:33

Ferð til Hornafjarðar

                                    Ferð til Hornafjarðar. Framh.2.

Morguninn eftir var yndislegt veður. Eftir þvott og snyrtingu og hitt og annað sýsl var morgunverður tilreiddur. Daníel fór heim að Laugabakka til að fá lofti dælt í dekkin og tók þetta allt nokkurn tíma svo við fórum ekki snemma af stað. Allir voru ánægðir og fengust ekki um tímann. Skammt var út á Hvammstanga en þangað fórum við samt ekki heldur héldum áfram austur. Í Víðidalinn komum við, og brátt erum við á þeim slóðum þar sem mörg staðanöfn eru kunn þeim, sem lesið hafa Horfna góðhesta eftir Ásgeir frá Gottorp. Það mun hafa verið nálægt Brekku í Þingi, sem við fórum útúr bílnum og þar var tekin mynd, þar sem mörg okkar raða sér í kringum landakortið. Við vorum með gömlu herforingjakortin og þau dugðu okkur býsna vel. Þarna blöstu Þingeyrar á móti okkur, Þingeyrasandur og Hópið og Húnafjörður fyrir utan. Á Blönduósi erum við klukkan 11 en dveljum þar stutt. Næst látum við Refasveitina á vinstri hönd og leiðin liggur um Langadalinn en eftir honum rennur Blanda.


Og satt er það langur er hann. Skammt frá Holtastöðum í Langadal lítum við sveitabýli sem vekur sérstaka athygli okkar vegna snyrtimennsku er lýsir sér í allri umgengni þar. Þetta var Geitaskarð. Þar bjó Þorbjörn Björnsson sem margir könnuðust við. Þar litum við fallegra hlið heldur en við sáum við nokkurn annan bæ á alli ferðinni. Þarna máttum við til með að fara út og taka myndir. Þá var líka ákjósanlegt myndatökuveður. Þegar ég er að skrifa þessa sögu er ég að hugsa hvort þetta verði einhver skáldsaga hjá mér þegar ég skrifa staðarlýsingar eða þvíumlíkt. Þá fór ég svo mikið eftir kortunum góðu þegar ég skrifaði þetta fyrir mörgum árum. Nú eru þau ekki lengur innan handar. Jæja, áfram var ferðinni haldið þennan fallega dal á enda og gaman að líta niður í hann er við komum upp á heiðina fyrir ofan Bólstaðarhlíð klukkan hálf þrjú. Þaðan sáum við fram í Svartárdalinn. Ef til vill ætti ég heldur að segja inn í dalinn. Ekki veit ég hver er málvenja á þessum slóðum.


Fyrr en varir erum við komin yfir sýslumörkin og Skagafjörðurinn  blasir við okkur af Vatnskarðinu, víður og fagur. Mér fannst þó mest til um eyjarnar þrjár sem blöstu við, Drangey, Málmey og Þórðarhöfði. Við erum komin að Víðimýri og þar sem ákveðið var að heimsækja Hóla í þessari ferð beygjum við til vinstri út á Sauðárkrók. Sæmundarhlíðin er á vinstri hönd og nú förum við framhjá ýmsum þekktum bæjum svo sem Glaumbæ og Reynistað. Frá Sauðárkrók höldum við í austur og förum fyrst yfir vestari Héraðsvötn þar sem þau falla í skagafjörðinn. Svo komum við í Hegranesið sem er innan í Héraðsvötnum eða þau renna sitthvorumegin við nesið. Við vissum um einn Hornfirðing sem byggi þar, Ólaf Eiríksson bróður  Einars á Hvalnesi í Lóni. Töldum við okkur sjá á bæinn hans. Við fórum svo yfir austari Héraðsvötn. Þar var hliðvörður í kofa sínum og kona hjá.

Fannst okkur þá lífið ekki eins tómlegt fyrir hann og ella hefði verið ef  einn byggi. Nú ókum við eftir Viðvíkursveitinni og áfram áleiðis til Hóla.


Skammt frá Hólum stönsuðum við og  tókum fram nestisskrínur okkar og nutum þess vel að fá matarbita. Heim að Hólum héldum við svo og stönsuðum þar um það bil tvo tíma. Faðir skólstjórans fylgdi okkur um staðinn og fræddi okkur um gamalt og nýtt. Nutum við því ólíkt betur en ella, þess er séð varð. Við fórum upp í turn þann er reistur hefur verið til minningar um þá Hólafeðga Jón Arason og syni hans. Kirkjuna skoðuðum við og gamlan sveitabæ sem þar er til sýnis. Fjósið komum við í og ein kýrin var að bera. Áður en við fórum frá Hólum keyptum við okkur kaffi er okkur var borið af stúlku í þjóðbúningi. Frá Hólum fórum við klukkan 11 mínútur yfir 8. og héldum sömu leið til baka að vegamótunum austan Héraðsvatna.

Þar beygjum við til suðurs. Hofstaðir eru á vinstri hönd. Þá minnist ég Þrastar, hins fagra og góða hests sem búnaðarblaðið Freyr birti einu sinni forsíðumynd af. Hann var frá Hofstöðum í Skagafirði. Nú ókum við eftir Blönduhlíðinni.


Þarna var mjög þéttbýlt. Flugumýri er næsti kirkjustaður sem við förum hjá. Þá Miklibær og loks Silfrastaðir. Þá var klukkan hálf 11 að kvöldi, skyggni allgott að öðru en þoku ofan til í fjöllum. Þarna fórum við útúr bílnum og Sigga Sigurðar fór að leika sér við kálfana sem voru á beit í girðingu ofan við þjóðveginn. Þeir voru til með að taka gamni og jafnvel að láta verða úr því grátt gaman, því allt í einu leit út fyrir að fólska væri hlaupin í stærsta tarfinn, svo að hann myndi ráðast á hana. Palli Ólafs var tilbúinn að koma henni til hjálpar en þess þurfti þó ekki. 


Vegurinn beygði nú meira til austurs og norðausturs. Við ókum eftir Norðurárdalnum sem er þröngur og fátt um bæi. Á þessum slóðum munum við hafa ekið fram á menn sem voru að reka stóð á fjall. Við vorum  komin upp á Öxnadalsheiði og förum yfir sýslumörkin milli Skagafjarðar og Eyjafjarðar. Brátt sjáum við Bakkasel og erum komin niður í Öxnadal. Þá fórum við að huga að tjaldstæði og er við höfðum fundið það, er tjöldum slegið og matur upp tekinn. Vatn höfðum við úr ánni er rennur eftir miðjum  dalnum. Þessa nótt sofa þær í bílnum, Sigríður og Ragnhildur og allar nætur aðrar, sem eftir voru ferðar.

Þessa nótt var veður heldur kaldara en nóttina áður, þó ekki teljandi kalt.


Morguninn 9 júlí rennur upp. Byrjað er að hita morgunkaffi og sjóða kartöflur. Vilborg sauð egg sem hún hafði varðveitt óbrotin alla leið úr Reykjavík. Klukkan er að ganga 11 þegar lagt var af stað. Við fórum framhjá Hrauni og þá er sungið, ,,Þar sem háir hólar hálfan dalinn fylla." Við fórum framhjá Bakka, Steinsstöðum og Bægisá og sjáum til Möðruvalla í Hörgárdal. Eftir stutta stund erum við á Akureyri.

Sólin skein og hópurinn dreifðist. Daníel fór að athuga um möguleika að fá gert við bílinn. Sigríður og Ragnhildur fóru að heimsækja konu úr Lóni. Palli stakk af inní bíl sem við mættum. Við hin förum að sjá okkur um og fórum að skoða Akureyrarkirkju, sem er tignarlegt hús og stílhreint. Við mæltum okkur mót allt fólkið, kl. 2 hjá Hótel KE.A. En er að þeim tíma leið fengum við að vita að ekki fengist gert við bílinn fyrr en klukkan 5. Leist okkur þá að nota tímann til að skreppa fram í Eyjafjörð. Grösugt er og búsældarlegt í Eyjafirði.


Við komum heim að Grund og fengum lánaða kirkjulyklana og skoðuðum kirkjuna eins og okkur sýndist. Fagurt er á Grund og mikið fyrir það, sem mannshöndin hefur gert til að prýða þann stað. Frá Grund fórum við fram að Saurbæ og skoðuðum torfkirkjuna. Þaðan fórum við til Akureyrar aftur. Daníel fór með bílinn á verkstæði en við fórum að sjá Lystigarðinn, sem er mjög fagur. Þura frá Garði vann í honum við að hirða hann. Þar var tekin mynd af hópnum. Maður nokkur kom þar og gaf sig á tal við okkur og vildi vita hvort við værum einar á báti hvað hjúskaparmál snerti og ráðlagði okkur að afla okkur félaga í ferðinni. Varð Kristín fyrir svörum og sýndi honum sinn kærasta. Virtist manninum verða tómlega við og gaf sig ekki að henni frekar. Þegar við höfðum séð garðinn dreifðist hópurinn. Sumir fóru í sundlaugina. Ég fór með Sigríði og Ragnhildi í húsið sem þær höfðu farið í fyrr um daginn og drukkum þar kaffi. 


Um klukkan hálf átta var bíllinn tilbúinn. Þá var haldið af stað og ekið upp á Vaðlaheiði. Vegurinn liggur í mörgum hlykkjum yfir hana. Fagurt var að horfa yfir Akureyri og Eyjafjörð. Við héldum svo niður í Fnjóskárdalinn og keyptum mjólk í Nesi, sem er rétt niður við Fnjóská og tjölduðum svo í Vaglaskógi. Gengum um skóginn í kvöldkyrrðinni og nutum þeirra unaðslegu áhrifa er ilmur trjáa og niður Fjóskár veitti, áður en lagst var til svefns.

16.09.2011 20:58

Ferð frá Lágafelli í Mosfellssveit til Hornafjarðar 1951

Klukkan korter yfir 10 að morgni sjöunda júlí rann bifreið með 11 ferðalanga fulla  eftirvæntingar, frá bílaverkstæðinu á Lágafelli. Þetta verkstæði sem ég tala um var einu sinni heygeymsla í eigu Thór Jensens þegar hann rak mikið kúabú á Korpúlfssöðum. áður fyrr. Ferðalangarnir eru að leggja upp í langferð þar sem margt getur skemmtilegt skeð. Þetta eru flest Hornfirðingar. Í bílstjórasæti sat Daníel Pálsson bróðir minn. Bílinn hafði hann nýlega keyptan einhvern hertrukk sem rúmaði þennan hóp. Við hlið Daníels sat Páll Ólafsson frá Holtahólum. Í næsta sæti fyrir aftan þá sat Benedikt Sigurjónsson frá Árbæ og Sigríður Sigurðardóttir kona hans og Þóra Pálsdóttir systir Daníels. Þar fyrir aftan sátu Ragnhildur Guðmundsdóttir frá Stafafelli í Lóni, Sigríður Halldórsdóttir frá Stórabóli og Sigurjón Bjarnason frá Viðborðseli. Í aftasta sæti voru, Vilborg Bjarnadóttir frá Tjörn, Kristín Kristjánsdóttir frá Einholti og Gísli unnusti hennar.


Fyrsti áningarstaður er ákveðinn í Hvalfirði þar sem allir eru boðnir til kaffidrykkju hjá Guðríði Sæmundsdóttur frá Stórabóli. Úrkoma er töluverð á leiðinni fyrir Hvalfjörð. Saga Harðar og Helgu rifjast upp og allir eru sammála um, að Helgu hefði ekki orðið mikið um að taka 200 metrana. Í Hvalfjörðinn komum við klukkan að verða eitt og var okkur þar búin hin prýðilegasta matarveisla hjá Guðríði og hennar manni. Þar vann þá einnig Katrín systir hennar af Höfn og sáum við hana aðeins. Engir hvalir voru við bryggjuna en þá hefðum við viljað sjá.


Eftir um það bil hálfan annan klukkutíma héldum við af stað og fórum Draghálsleið. Nokkuð rigndi öðru hverju, en er upp í Svínadalinn kom fengum við þurt að mestu og gott skyggni. Héldum við sem leið liggur yfir Geldingadraga og komum suður í Skorradalinn yndislega. Ég skal nú ekkert fullyrða um hvort vísun til átta sé rétt hjá mér. Þekkti nú engin eygtamörk á þessum slóðum. Liggur vegurinn svo á kafla meðfram Skorradalsvatni, sem mun vera nokkrir kílómetrar að lengd. Svo ókum við fyrir enda vatnsins og uppá Hestháls, yfir hann og komum niður í Lundareykjadalinn fórum þvert yfir hann og áfram er haldið uns beygt er til hægri inn í Reykholtsdalinn, því heimsækja vildum við Reykholt. Þar fórum við úr bílnum. Litum Snorrastyttuna, gengum kringum skólann og komum að Snorralaug. Þaðan var svo haldið og yfir Hvítá ekki langt frá Síðumúla og næst stoppað á Lundum en þar var Ragnhildur fædd og uppalin og þar bjó nú bróðir hennar. Eftir að við höfðum haft nokkra viðdvöl þar og þegið hinar prýðilegustu góðgerðir, stigum við upp í bílinn og rendum af stað. Ákveðið var að stoppa næst í Hvammi í Norðurárdal en þar bjó systir Ragnhildar.


Ekki vildum við eyða þar miklum tíma og afþökkuðum því góðgerðir en gengum um úti og sáum kirkjuna meðan Ragnhildur heilsaði upp á fólk sitt. Veður var kyrrt og fagurt. Unglingur kom ríðandi neðan grundirnar og rak á undan sér stóran hóp kúa heim til kvöldmjalta. Áfram var svo ferðinni haldið Norðurárdalinn til enda en þá tekur við Holtavörðu heiði. Fornihvammur var síðasti bærinn, en er upp á heiðina kom lentum við í þoku dálítinn tíma. Þegar að sæluhúsinu kom fórum við út úr bílnum og litum inn í það en það var ný málað. Skammt frá var Holtavörðuvatn, Tröllakirkja og  Snjófjöll á vinstri hönd. Fyrr en varir erum við komin niður af heiðinni og Hrútafjörðurinn blasti við. Við fórum framhjá hverjum bænum  eftir öðrum. Hjá Oddstöðum er Vilborg send þangað heim með peninga til að kaupa þar mjólk. Hún kom með  peningana aftur og  einnig  mjólkina, sagðist hafa fengið á einn koss líterinn og voru allir ánægðir með það er hana sendu. Hjá Þóroddsstöðum sprakk dekk og annað á Hrútafjarðarhálsinum. og varð af því nokkur töf. Við ókum svo áfram framhjá Melstað sem er kirkjustaður og tjölduðum við Miðfjarðará hjá Laugabakka, á flötinni vestan við ána. Þá mun hafa verið lágnætti. Tókum við fram nestisskrínur okkar og fengum okkur hressingu. Þar eftir lögðumst við til svefns. Vilborg var þá í tjaldi með Gísla og Kristínu en við vorum 8 í okkar tjaldi en það mun hafa verið gamla vegavinnutjaldið. Fólkinu gekk misjafnlega að festa blund og þeir sem lengst vöktu urðu mannaferða varir og þess að bíll stoppaði stutt frá og okkur barst mannamál að eyrum. Að lokum var ekið brott og fullkomin kyrrð komst á.


                                                        Framhald

                           

28.08.2011 21:43

Ferð í Grafarvog

                             Ferð í Grafarvog 20 ágúst 2011

                   

Þá lögðum við hjónin af stað að heimsækja Jensey Skúladóttur og Guðmund Sigurdórsson mann hennar. Til frekari skýringar þá er Jensey dóttir Heklu sem nú er látin en hún var fósturdóttir Ásgríms og Sigurlaugar fyrri konu hans. Þau systkin börn Heklu kalla Ásgrím afa sinn.

Fyrst hringdi nú  Ásgrímur til að vita hvort þau hjón yrðu heima. Guðmundur sagði að Jensey yrði heima eftir klukkan 4 en þá færi hann í vinnu. Við ákváðum þá að fara og hitta Jensey. Rétt á eftir hringdi Trausti bróðir Jenseyjar sem á heima stutt frá henni var staddur þar. Hann  bauð okkur að koma fyrst til sín. Dóttir sín ætti afmæli. Leiðinni var lýst fyrir Ásgrími og hann er nú svo snjall og minnugur að rata. Þetta er okkur þó  ókunnugt svæði.

Veðrið var alveg yndislegt allan daginn.  Skýjafar mikið um himininn hér milli Reykjanesbæjar og Reykjavíkur. Þótt ekki væri svo mikið að sjá á jörð niðri annað en hinn fjarlæga fjallahring þá var tilbreytnin þeim mun meiri er til himins var horft

eins og svo oft hér á Suðurnesjum. Ferðin gekk mjög vel og tafalaust þar til komið var að þessum blessaða Berjarima. Þá tók dálítinn tíma að finna rétta númerið. Þegar þangað kom stóð yfir stórveisla og margt úr fjölskyldunni saman komið. Systkinin 4.Trausti, Helga, Jensey og Ásgrímur yngri svo og þeirra makar sem gift eru og börn þeirra og minnsta kosti eitt barnabarn. Einnig auðvitað úr frændgarði móður afmælisbarnsins. Mikið mannvænlegur hópur öll börnin hennar Heklu og þeirra afkomendur. Svo var Hörður seinni maður Heklu einnig staddur þarna.

Trausti fór svo með okkur  og sýndi okkur allt húsið og garðinn sem þau hafa verið svo dugleg við að breyta og laga og gróðursetja nýtt í. Ákaflega vinalegur köttur var í einu herberginu uppi á lofti sem varð auðvitað til að gera mótökurnar enn hlýlegri fyrir svona kattavin eins og mig. Á eftir fórum við heim til Jenseyjar með henni og skoðuðum þeirra hýbýli sem líka eru prýðileg og staðsett við Básbryggju. Sem virðist mjög skemmtilegur staður. Við stoppuðum þar svo dálitla stund að spjalla og svo kom nú tíminn til að halda heim. Það gekk allt vel á leiðinni og við urðum ótrúlega lítið þreytt eftir þetta ferðalag

13.07.2011 12:18

Ferð norður

                                                Ferð norður í land

Fimmtudaginn 30 júní seinni partinn lögðum við þrjú af stað til Akureyrar Kristinn Ásgrímsson, Ásgrímur faðir hans og ég. Við höfðum talað um það hjónin að fara í ágúst norður en nú hafði andlát Jóhanns Pálssonar borið að og ætluðu þeir feðgar að fljúga norður í jarðarförina og koma samdægurs aftur en þá reyndust öll sæti  uppgengin. Niðurstaðan varð að við skyldum þá fara öll í okkar litla jeppling og Kristinn æki norður daginn fyrir en flygi svo suður sama dag strax eftir jarðarförina, því þá voru nóg sæti laus í flugi  en fyrirhuguð var vinnuferð austur í Kirkjulækjarkot, sem hann ætlaði að taka þátt í. Þetta var því ávinningur að Kristinn æki þó aðra leiðina, svo ég ákvað að fara líka. Sjálf hefi ég ekki getað ekið síðan ég slasaðist í öxlinni. Nú er hún smámsaman að lagast.

Það er nú ekki annað frá þessu ferðalagi að segja en að ferðin gekk vel og auðvitað eru það góð tíðindi útaf fyrir sig. Veðrið var gott. Ég tók með mér bók sem heitir:Gamla hugljúfa sveit, eftir Þorstein Geirsson. Af mönnum og málefnum í Austurskaftafellssýslu. Ég lét þá feðga alveg um samræður. Ég las bókina og komst að því, að ég var minna þreytt að lesa bókina heldur en að virða fyrir mér umhverfið úr bílnum á hraðferð. Er nálgast tók norðurland eystra lagði ég samt bókina til hliðar. Við náðum til Akureyrar í góðum tíma til að fá nógan svefn.

Daginn eftir fór svo jarðarförin fram frá Hvítasunnukirkjunni á Akureyri,

Jóhann hafði verið þar forstöðumaður í áratugi. Þar á eftir unnu þau hjón í Hlaðgerðarkoti.

Ásgrímur maðurinn minn og hann höfðu þekkst frá æskuárum. Ég hafði líka kynnst þeim hjónum Huldu Sigurbjörnsdóttur og Jóhanni eftir að ég kom til Akureyrar og

Þau kynni voru góð. Minnist ég sameiginlegra samkoma Fíladelfíu, Hjálpræðishersins og Sjónarhæðar sem haldnar voru öðru hverju um tíma frá 1951. Fengu þeir þá Nýja bíó um páska fyrir samkomur sínar. Fannst mér gegnum það samstarf og aðra viðkynningu að Jóhann muni hafa umgengist aðra trúarsöfnuði af tillitssemi. Það segir nokkuð um manninn, því allt vill nú lagið hafa þegar fólk með mismunandi áherslur ákveður að ganga að einu verki. Mér fannst það sem viðeigandi framhald af samstarfi fyrri ára að húsakynni Hersins voru nú lánuð undir erfidrykkjuna.

Veðurspáin fyrir Laugardaginn var góð. Ákváðum við því, að nota hann til að fara í Hrísey til að heimsækja Jón bróður Ásgríms og Auði konu hans. Þau hjón búa í Hrísey á sumrin. Við nutum þess að aka út á Árskógssand í ágætu veðri og taka ferjuna til Hríseyjar. Hún er aðeins korter yfir til eyjunnar. Jón var mættur á traktornum að taka á móti okkur og aka okkur heim. Það er gaman að ferðast í traktor endrum og sinnum en ekki mjög langt. Þetta var svona mátulegt. Þau hjón tóku okkur fjarska vel og vildu endilega hafa okkur lengur en eina nótt en við höfðum nú ekki gert ráð fyrir að vinna okkur sveitfesti þar, þó eyjan sé yndisleg.

 Á sunnudagsmorgun tókum við ferjuna fyrir hádegi og vorum komin til Akureyrar um 12. Eftir hádegi fórum við að hitta vinkonu okkar Irene Gook sem dvelur á elli heimilinu á Akureyri. Hún hafði nýlega dottið inná snyrtingu og meitt sig en sem betur fer hafði hún nýlega verið búinn að fá öryggishnapp um únliðinn svo hún gat fljótt fengið hjálp. Við stoppuðum dálítinn tíma hjá henni. Hún er alltaf ánægð og þakklát, segir alla vera svo góða við sig. Á eftir fórum við til Guðrúnar systur Ásgríms. Hún býr i sinni íbúð við Víðilund. Seinna litum við inn til Eiðs og Helgu sem eru búin að vera miklir vinir okkar til margra ára. Reyndar áttum við eftir að líta inn hjá fleirum en varð ekki af í þetta sinn.

Daginn eftir kvöddum við dóttur mína og hennar heimili og héldum til Siglufjarðar. Hannes, fóstursonur Ásgríms frá 12 ára aldri, átti þar íbúð sem hann hafði leyft okkur að nota eins og við vildum. Veðrið var gott og hjón sem við þekktum á Siglufirði, buðu okkur í kaffi. Ég fann mig ekki vel fríska svo að Ásgrímur fór einn. Daginn eftir var ég heldur ekki vel hress, Borðaði þó kjötsúpu sem Ásgrímur keypti í fiskbúðinni og tók heim með sér. Hún var góð og vel úti látin annars hélt ég mig mest í bólinu. Seinna um kvöldið ókum við upp að kirkjugarði og Ásgrímur leitaði að leiðum ættmenna sinna,

Mér fannst samt erfitt að ganga um þann garð. Efast um að annar brattari kirkjugarður finnist á landinu. Vinaleg staðsetning. Liggur í faðmi fjallsins að ofan og fast að byggðinni að neðan. Þar er nú skammt milli bústaða lifenda og dauðra. Nú er garðurinn orðinn fullnýttur og farið að jarða annarsstaðar. Þótt vel færi um okkur á Siglufirði og í boði væri að vera þar lengur fannst mér, að best mundi að herða sig upp og halda áfram ferðinni. Það var líka kominn tími hjá Ásgrími að sinna ákveðnu verki sem hann og annar maður eru vanir að sjá um fyrir A.B.C. Við vorum heppin með veðrið er við lögðum af stað á miðvikudag.

Fórum um klukkan 2 frá Júlíusi og Svövu, hjónum sem við þekkjum. Á leiðinni stoppuðum við í Brekkukoti í Óslandshlíð en þar hafði Sigurlaug fyrri kona Ásgríms dvalið part af bernsku sinni. Hann átti þarna heimboð þegar hann ætti leið um. Er við höfðum  Þegið góðgerðir þar, héldum við ferðinni áfram en henni var heitið að Laugabakka í Miðfirði. Þar býr frænka Sæmundar fyrri mannsins míns. Hún var búin að bjóða okkur að koma og gista ef við værum á ferðinni. Hún er orðin ekkja en dætur hennar búa skammt frá.

Hún bauð okkur uppá  kjötsúpu og áttum við þar góða gistingu. Fórum ekki á fætur fyrr en um klukkan 10 og borðuðum morgunmat. Ekki að tala um að sleppa okkur fyrr en við hefðum borðað hádegismat líka. Ég var nú hressari og  við fórum þaðan í yndislegu veðri. Stoppuðum í Borgarnesi og fengum okkur ís. Reyndum að hringja í Hörð á Akranesi en enginn ansaði svo hann var sjálfsagt ekki heima. Við fórum því ekki þangað en héldum áfram heim með viðkomu heima hjá Hannesi til að skila lyklunum.

Vorum komin hingað í Njarðvíkina um sex leitið. Það er stundum þannig með eldra fólk að þreytan kemur eftirá. Við reyndum það ekki sýst Ásgrímur. Það reyndi á hann að aka. Ég hefi ekki getað það síðan ég slasaðist í öxlinni. Þetta lagast smámsaman vona ég, En við erum Guði þakklát fyrir varðveislu og ánægð með túrinn öllum þakklát sem juku ánægju okkar í ferðinni en þetta er nú gott í bili.

 

04.06.2011 18:11

Hryllingur

.                                               Hryllingsmynd                                                                

 

Það var 31 maí 2011, sem við fengum að horfa á mynd í sjónvarpinu  af meðferð sláturdýra, sem flutt höfðu verið frá Ástralíu til Indónesíu og áttu að enda  líf sitt í sláturhúsi þar. Við horfðum á þetta stutta myndskeið og það gekk alveg fram af okkur og fleirum. Að horfa á dýrin bundin niður, liggandi á hliðinni, bundin á streng og verið að draga þau fram og aftur þannig og ekki nóg með það, heldur var líka verið að sparka  í höfuð dýrs sem engin ráð hafði til varnar. Sannarlega er þörf á því, að þeir sem eiga dýr sem þeir vilja selja þangað í sláturhús fylgist með því hvað bíður þeirra er þangað kemur.

                                                                                

 Það stendur í Biblíunni  "Hinn réttláti er nærgætinn um þörf skepna sinna en hjarta óguðlegra er hart. Orðskv 12,10". Sannarlega er þarna þörf á dýravinum. Ég skil svo sem ekkert í að sólin skuli skína á fólk sem fer svona hræðilega illa með dýr. Hvað er eiginlega að þessum mönnum? Hefur þessari aðferð verið haldið við gegnum margar kynslóðir öld eftir öld?  Þarna er þörf á rannsóknarblaðamennsku. Við sáum nú ekki hvað þessi pintingaforleikur dauðans stæði lengi yfir eða hvernig aflífunin sjálf fór fram. Trúað gæti ég að það hafi nú ekki gefið hinu eftir, sem sýnt var.

Við sem þjóð meðal þjóða, höfum ef til vill  ekki efni á að segja margt  Við erum alltaf að drepa litlar manneskjur fyrir fæðingu eins og flestar aðrar þjóðir gera sem   við berum okkur helst saman við í okkar upplýsta heimi, Förgunin fer ekki fram í hundraðatali, heldur í mörgum hundrum þúsunda ef ekki gott betur, víðsvegar um  heiminn. Til hvers? Jú, til þess meðal annars að litlu manneskjurnar éti okkur ekki út á gaddinn.  Þær þurfa mikið til sín í mat, menntun og klæðnaði. Það er kreppa. Það var það víst líka þegar lögin, sem leyfa þetta, komust í gegnum þingið á sínum tíma. Ég man að ég las eða heyrði að því loknu, að það hefði. vantað peninga til að hafa þetta öðruvísi  en gert var.

 

 Á þeim tíma sem ég og mínir jafnaldrar fæddumst, var líka lítið um peninga hjá mörgum en helgi lífsins var í hærra gildi þá. Getum við ekki haft það eins í dag og var fyrir lagasetninguna. Leift þeim að lifa, sem í dag eru á válista, og vera svo tilbúin að lifa eða deyja með þeim eins og forverar okkar gerðu gegnum söguna, þegar eldgos, harðindi og farsóttir hrundu hallærum af stað.  Það dóu nú aldrei allir og óvæntir hvalrekar á fjörum urðu stundum hinum hungruðu til saðnings. En hvað verður um helgi lífsins í hugum fólksins ef svo heldur sem horfir? Er hún einskisvirði að halda í? Hún mun hrapa ef ekki verður snúið við. Ég ímynda mér að eftir um 50 ár að óbreyttu, munu einnig aðrir en þeir ófæddu verða metnir hvort verðugir séu, að fá lífspassann lengur.

27.05.2011 00:05

Ótitlað

                                    Fimmtudagur 26.mai 2011-05.

 

 

Það var 9.maí, sem ég lenti í slysi inn í Reykjavík sem ég sagði frá í síðustu blogg færslu. Það eru batnandi horfur með batann. Herðasvæðið og vinstri handleggur eru ekki orðin góð. Var byrjuð að fá meðferð við vinstri öxl en hún versnaði við að detta.  Vinstri handleggurinn vill ekki hjálpa þeim hægri til að lyfta leirtauinu upp í efri skápa og ekki hjálpa til að aka bílnum og alls ekki setja stefnuljósin á sem eiga alfarið að vera á hans ábyrgð. Mér er svo sem engin vorkunn með það, þar sem ég hefi einka bílstjóra í heimilinu. Læknirinn áleit að ég mundi ekki vera með beinþynningu fyrst ég brotnaði ekki. Ég sagðist vera lengi búin að taka kalk og magnecium sem hefði ef t.v. eitthvað að segja, hver veit ?

 

 

Sjúkraþjálfarinn minn er nú að reyna að semja við handlegginn og fá hann til að hætta verkfallinu með því, að liðka mig í axlarliðnum og með því að láta mig lyfta

lóðum ásamt ljósa meðferð. Vonandi tekst það á endanum. Sjálf reyni ég að gera æfingar heima sem læknir á Akureyri hafði kennt mér fyrir mörgum árum eftir að brjáluð meri stökk með mig á girðingu, með svipuðum afleiðingum fyrir öxl og handlegg. Þá sá ég hættuna fyrir en gat með engu móti stjórnað hrossinu. Það var mun óþægilegra. Núna vissi ég ekkert um hættuna fyrr en ég skall í stigann.

 

 

Nú er komið kvöld og farið að rigna. Vona að það rigni nú rösklega í öskusveitunum. Það er erfitt hjá þeim. Mikið er samt gott að hugsa um alla hjálpsemi og sjálfboðaliðastarfsemi á landinu okkar þegar áföll skella á. Við höfum sannarlega mikið að þakka fyrir. Mér finnst sjálfsagt að biðja fyrir lögreglu, hjálparsveitum og öllu sjálfboðaliðastarfi sem unnið er í landinu okkar öðrum til gagns.

 

 

16.05.2011 01:01

Ótitlað

                                    Minnisverð tíðindi.

 

Fyrir viku síðan var ég á ferð inní Reykjavík og á leið niður breiðan stiga í stóru húsi ásamt mörgu fleira fólki. Ég er vön að halda mér með hægri hendi í handrið þar sem það gefst og  eins gerði ég í þetta sinn, til að skapa mér öryggi, þótt ég hafi aldrei dottið í stiga áður svo ég muni. Ég veit að það getur orðið gömlu fólki örlagaríkt að detta, hvað þá í steyptum stiga. Líklega var ég komin lengra en niður í miðjan stiga þegar ég féll niður til vinstri í tröppurnar.  Það sýna bláir og gulir flekkir á vinstri hlið. Söfnuðust að mér indælar stúlkur sem náðu í bréfþurkur og stoppuðu blóðrennsli úr sári á vinstra fæti, sem þær sögðu að þyrfti að sauma.  Einhver hafði hringt á sjúkrabíl og kom þá maður fljótlega á Bifhjóli að ég held.  Hann beið svo með okkur þó nokkra stund eftir sjúkrabílnum sem ók mér til Borgarspítala. Maðurinn minn sem hafði nú ekki verið langt í burtu kom á eftir í okkar bíl.

 

Við biðum svo þó nokkuð því þar var svo mikið að gera. Alltaf mest á mánudögum

Ég var svo sem ekkert illa haldin en hafði þó versnað í vinstri öxl sem ég var lengi búin að finna sársauka i við vissar  hreyfingar. Ég var nýlega byrjuð að fara í meðferð á heilsuræktarstöð út af því. Það var tekin mynd sem sýndi engin merki um beinbrot. Svo kom ungur læknir og saumaði sárið. Með það var ég útskrifuð ásamt verkjatöflum og spá um myndarlegt glóðarauga í fyllingu tímans, sem stóð sannarlega undir nafni. Ég er Guði þakklát að það snerti þó ekki augað sjálft en það kom stór og mikill dökkfjólublár rammi utan um augað, sem náði niður á kinn og uppá enni. ,, Maðurinn minn benti mér á að ég gæti sett upp sólgleraugu."

 

21.04.2011 01:06

BESTI VINUR

                                     

                                                Úr Hörpustrengjum.

                  

          Besti vinur á jörð er Jesús, jafnan þegar mætir sorg og neyð.

          Hann fær þerrað heitust tár , hann fær læknað dýpstu sár.

                   Besti vinur á jörð er Jesús.

 

          Kór:  :,: Minn einasti vin er Jesús:,: leita ég hans hjálpar hér.

          Hann mig ber á örmum sér. Besti vinur á jörð er Jesús.

 

     2.  Ó hvað Guðs son er góður vinur!  Gegnum tár mér skín hans friðarsól.

          Í hans skauti ég mig fól. Ó það blessað friðarskjól!

                   Besti vinur á jörð er Jesús.

 

     3.  Þótt ég dvelji í dimmum skugga. Dynji Jórdans bylgjur kringum mig,

          Hug minn enginn ótti slær af því Drottinn minn er nær.                                                     Besti vinur á jörð er Jesús.

 

     4.  Nær í ljóssalinn loks vér komum, lítum vér hans náðarauglit bjart.

          Sætt vér honum syngjum prís, sælir Guðs í Paradís.

                    Besti vinurinn vor er Jesús.       

                                                          Peter  Bilhorn - Sbj.Sv.

 

         

           Þú sem þetta lest, ef til vill hefur þessi dagur verið einn af

          erfiðustu dögum lífs þíns. Mundu þá:

 

          Vertu skjótur til sátta við andstæðing þinn, meðan þú ert enn á veginum með

          Honum Matt 5:25.

 

          Sælir eru miskunnsamir því að þeim mun miskunnað verða Matt 5:7.

 

                                                                                                                                                     

 

                  

13.04.2011 22:11

Góðir hestar

                                                                Skemmtiferð

Það hafði verið ráðgerð skemmtiferð af Mýrum til Suðursveitar og ætluðum við systkinin frá Rauðabergi og Elías sem líka átti heima þar að verða þátttakendur í þeirri ferð. Ekki var fastákveðið hverjir ætluðu að fara en við bjuggumst við, að það yrðu bæði stúlkur og piltar.

Við ætluðum að verða samferða þeim sem færu frá Holtaseli og fórum þangað fyrst og hittum þar Inga bróður Elíasar. Við töldum víst að hann ætlaði að fara en þegar til kom var hann ákveðinn að vera heima en sneri sér að mér og spurði hvort hann ætti að hafa hestaskipti við mig.

          

 Ég varð bara alveg steinhissa og efaðist sjálfsagt um að honum væri alvara. Við þekktumst ekki svo mikið. Mér hafði nú einhvern veginn skilist að hann liti heldur niður á Stjarna minn sem reiðhest og hver kærir sig um það, að litið sé niður á reiðhestinn manns. Það er nóg að finna það sjálfur að hann er enginn skörungur og ekki nógu ferðmikill á neinum gangi til þess að geta fylgt atgerfishestum eftir. En Yngi rétti mér bara beislið sem hann var vanur að nota við Rauð sinn og svo mátti ég taka hann og skilja Stjarna minn eftir í haganum hjá Holtaselshrossunum, þar til við kæmum aftur.

     

 Rauður var stór og myndarlegur hestur og ekki minnkaði hann er komið var á bak, háreistur og ferðmikill á töltinu. Þegar við komum út að Holtum komst ég að því að engar stúlkur ætluðu að fara þaðan og ég yrði eina stúlkan í ferðinni. Mér fannst þetta nú leiðinlegt að það voru aðeins karlmenn sem ætluðu að fara frá Holtum en ég gat nú ekki farið að hætta við ferðina út af því, sér í lagi þegar ég var búin að fá Þennan dásamlega hest sem bar mig inn í sérveröld þar sem aðrir hlutir urðu léttvægir í samanburði.

 

Hann kveinkað sér ekki á grjótinu hesturinn sá og ég held að hann hefði getað borið mig landshluta á milli án þess að sýns þreytumerki  Hann virtist sameina svo þrek og aðra gæðingskosti. Margt er gleymt frá þessu ferðalagi en Rauður gleymist ekki. Aðeins einu sinni mörgum árum síðar kynntist ég jafningja hans. Þó voru þeir ólíkir um sumt því sá Rauður var skeiðhestur en Ynga-Rauður var fjórgangshestur.

Þegar við bróðir minn Daníel ásamt móður okkar fluttum úr Hornafirði, settumst við að um tíma í Mosfellssveit í hverfinu undir Hamrahlíðinni. Þar kynntumst við hjónum Sigríði Aradóttur og Jóni Hallssyni. Þau áttu einn son. og voru að vestan og fluttu svo vestur að Þorbergsstöðum í Dalasýslu. Þá talaðist svo til að ég færi þangað til þeirra og yrði hjá þeim part úr sumrinu. Jón hafði yndi af hestum og vildi endilega að ég fengi að prófa Rauð sinn sem kominn var um tvítugt.

Svo kom nú tækifærið er við vorum á ferðalagi ásamt fleira fólki. Allir voru ríðandi. Ég er búin að gleyma núna á hvaða degi það var en tel að það hafi verið á sunnudegi því aðra daga var fólkið upptekið við hin árstíðabundnu sveitastörf. Þessi Rauður var nú naumast eins háreystur eins og Ynga Rauður en fór þó vel undir manni. Hann virtist búa yfir feykilegum flýti og orku á skeiði.
                                                                                                                Það var rétt eins og hann vildi segja. ,,þú skalt bara njóta ferðarinnar. Um götuna og ferðahraðann sé ég sjálfur. Heiður okkar legg ég ekki í annarra hendur og að sveigja mig til hægri eða vinstri er vita þýðingarlaust"
Það besta var, að ég hefði alls ekki viljað hafa hann öðru vísi en hann var. Ég var alveg ásátt með að hann réði fyrir okkur báðum og götunni.Yndi mitt af þessu ferðalagi hefði aðeins verið hálft ef ég hefði getað sagt Rauð fyrir um ferð og hraða.

      Það var þó eitt sem ég var hugsandi útaf. Hvort Jóni fyndist ég ekki ríða alltof hart á tvítugum hestinum? Nú en hann þekkti hestinn og lánaði mér hann samt. Hann vissi eflaust hvers vænta mátti af Rauð sínum í samreið og vitað líka að honum hætti ekki til að hlaupa upp eða vera með einhverjar óvænta uppákomur.

11.03.2011 19:19

PASSÍUSÁLMAR

Passíusálmar voru lesnir á þessum tíma vetrar á því heimili, þar sem ég ólst upp. Faðir minn las sálmana og einnig Vigfúsar hugvekjur sem pössuðu við efni sálmanna, ein hugvekja við hvern sálm. Ég man ekki svo mikið eftir þessu en þó man ég eftir að hafa legið upp í rúmi tilbúin undir svefninn, því lesið var á kvöldin og enn í dag get ég stundum haldið áfram með setningar ef ég heyri fyrripart lesinn. Þetta voru bestu skilyrði hjá mér að hlusta og mér fannst Jesús hafa verið góður. Að auki fékk ég tilfinningu fyrir rími og stuðlum. Það er svo miklu léttara að læra og muna það, sem þannig er tilreitt, annars eins og vanti matarlím í búðing, setningar loða ekki saman í minninu. Ég læt hér koma 6 vers úr fyrsta sálmi.

 

                                    1.Sálmur

Um herranns Kristi útgang í grasgarðinn.

                        Með himnalag


1. Upp  mín sál og allt mitt geð,

    upp mitt hjarta og rómur með.

    Hugur og tunga hjálpi til,

    Herrans pínu ég minnast vil.


2. Sankti Páll skipar skyldu þá:

    Skulum vér allir jörðu á

    kunngjöra þá kvöl og dapran deyð,

    sem Drottinn fyrir oss auma leið.


3. Ljúfan Jesúm til lausnar mér

    langaði víst að deyja hér,

    mig skyldi og lyst´ að minnast þess

    mínum Drottni til þakklætis.


4.  Innra mig loksins angrið sker,

    æ, hvað er lítil rækt í mér.

    Jesús er kvalinn í minn stað,

   of sjaldan hefi ég minnst á það.


5.  Sál mín skoðum þá sætu fórn

    sem hefur oss við Guð Drottinn vorn

    fordæmda aftur forlíkað,

    fögnuður er að hugsa um það.


6.  Hvað stillir betur hjartans böl

     En heilög Drottins pín´og kvöl?

     Hvað heftir framar hneyksli og synd

     en Herrans Jesú blóðug mynd. 

                                   
(Úr útgáfu 1947 eftir handriti höf.)

04.02.2011 16:51

Skúffur

                                                                    

                                      Skúffur (framh)

Ég fékk svo far með þessu fólki, sem ég gat um og lét sleppa mér í nágrenni Hallgrímskirkju og rölti svo niður Skólavörðustíg og niður á Óðinsgötu þar sem mágur minn og kona hans búa. Mér fannst orðið svo langt síðan ég hafði séð þau. Þau búa reyndar í Hrísey á sumrin. Eftir að hafa stoppað þar smátíma og þegið góðgerðir ákvað ég að rölta eitthvað um á Laugavegi að líta í búðir. Þá var komið élja og leiðindaveður og ég ákvað að leita að strætisvagni sem færi inní Kleppsholt.

Ég komst inn í einn sem talinn var líklegur. Þá sagði bílstjórinn um leið og ég rétti fram fargjaldið 350 krónur,,Ætlarðu ekki að kaupa kort? Það er svo miklu ódýrara.

Þetta var vingjarnlegur maður og söm var hans gerð þótt ég keypti ekki kort. Hann benti mér líka á annan vagn sem mér hentaði betur að taka og lét mig hafa skiptimiða. Ferðin gekk vel og ég rataði alveg úr vagninum og heim til bróðurdóttur minnar og manns hennar en hjá þeim gisti ég um nóttina.

Morguninn eftir var sæmilegt veður og bróðurdóttir mín ætlaði að fara með mér í búðir og aðstoða mig en fyrst langaði mig að líta inn til einnar frænku minnar sem ég hafði ekki hitt svo lengi. Bróðurdóttir mín fylgdi mér þá fyrst til hennar og kom með mér. Hún sá ábyggilega ekki eftir því, því að þetta var alveg yndisleg frænka. Við sátum hjá henni dágóða stund og þágum góðgerðir. Svo var nú stefnan tekin þaðan og á Verðlistann því þar taldi frænka mín best að byrja.

Ég vildi nú fyrst líta á kjóla en það var nú eitthvað lítið um þá en aftur fullt af drögtum. Frænka mín vildi nú fara í fleiri búðir en létum þó taka frá fyrir okkur dragt og sögðumst koma aftur fljótlega ef við ætluðum að kaupa hana. Ég man nú ekki lengur í hvað  margar búðir við fórum. Frænka mín var svo skotfljót að skjótast á milli á bílnum sínum. Á einum stað sá ég kjól sem mér fannst fallegur

en sá að hann gat ekki gengið við öll sömu tækifæri eins og dragtin.

 Það er auðvitað verðmunur sagði frænka en ég hugsaði að dætur mínar yrðu ánægðari að sjá mig í dragtinni svo ég ákvað að taka hana og fórum aftur þangað. Afgreiðslukonan kom nú með blússu sem henni fannst passa vel við dragtina en mér fannst það óþarfi en frænka mín vildi endilega gefa mér hana ef hún passaði sem hún og gerði. Þá var nú aðalerindinu lokið og ég ákvað að fara heim með rútu

Í staðinn fyrir að fara að láta bóndann sækja mig í myrkri. Hann reyndar sér mjög vel til að lesa í hálfrökkri og ekki vefst fyrir honum að rata. Maðurinn hennar frænku minnar ók mér svo á Umferðamiðstöðina en þaðan gekk rútan.

                                                                                                                                                                                                                                 

 

30.01.2011 00:15

Skúffur

                                      Skúffur eru góðar geymslur

Það er orðið langt síðan ég hefi haft mig upp í að skrifa nokkuð á síðuna. Driftin í lágmarki því giktin hefur bara viljað eiga mig ein og sagt að ég eigi bara að liggja í rúminu því við það hverfi bakverkurinn, sem hann og gerir en hann er ekkert fluttur að heiman. Ég hefi nú samt getað eldað matinn og reynt að fara með rykmoppu yfir gólfin og það er í lagi fyrir mig að setja í bíl. Hefi vonað að þetta fari að batna.

Nú hefi ég þó komið einhverju í verk sem lengi hefur dregist. Þannig var að dóttir mín sendi mér eitt sinn peninga í jólagjöf með tilmælum um að ég keypti mér   eitthvað fallegt. Ég sá nú ekkert á þeim tíma sem mig langaði í svo ég stakk umslaginu niður í skúffu og þar fékk það að liggja æði lengi

Um þessar mundir hefur gamla fólkið í landinu almennt komist að því, að hvergi sé fé þess betur borgið en einmitt niður í skúffu eða undir koddanum eins og fólk gerði áður fyrr. Peningar geta nefnilega smitast af sjúkdómi sem gengur í bönkunum og er einhverskonar uppdráttarsýki og þess vegna er gömlu fólki ráðlagt að varast bankana.  Þetta kom líka vel út hjá mér því að seint og síðarmeir sá ég fallega rauða úlpu létta og sæmilega hlýja sem smellpassaði. Ég var svo mörg ár búin að eiga svarta sem var farin að láta ásjá. Nú var tíminn kominn að nota gjöfina og hana gat ég keypt mér hér í Keflavík. Fékk afgang og lét í skúffuna.

Svo komu fleiri jól og fleiri gjafir bættust við í skúffuna. Ég gerði nú ráð fyrir að gefendurnir vildu nú heldur að ég keypti eitthvað eigulegt utan á mig fyrir peningana svo þeir gætu séð að þeim hefði verið vel.varið. Ég var nú helst að hugsa um kjól en hafði ekki fundið neinn hér í nágrenninu, sem mér þótti henta. Þá var bara að drífa sig í höfuðstaðinn. Þá langaði mig líka að heimsækja kunningja mína um leið sem mér finnst ég sjá alltof sjaldan. Nú frétti ég allt í einu að kunningjafólk ætlaði í bæinn og ég gat fengið far. Ég hringdi í bróðurdóttur mína og bað um gistingu og maðurinn minn sagði að ég skyldi bara hringja þegar ég ætlaði heim.(framh.)

a

06.12.2010 22:14

Skólaganga

Skólagangan hófst hjá mér þegar ég var átta ára og þá undir skólalok að vori. Þessi fræðsla stóð í eina viku að mig minnir. Mig minnir ég vera þá til húsa hjá Sæmundi og Guðrúnu sem bjuggu í Stórabóli. Þetta var fljótt að líða og ég man ekki eftir neinu er festist í mínu minni. Næsta vetur var kennsla í Viðborðsseli fyrir okkur börnin fyrir ofan Djúpá. Þá sá Nanna Guðmundsdóttir úr Berufirði um kennsluna. Ég held að ég hafi nú ekki fengið nema mánaðarkennslu af því ég hafi fengið kíghóstann á þeim vetri. Ég man þó að Nanna kenndi okkur stelpunum útsaum og ég saumaði í puntuhandklæði sem ég átti lengi. Um vorið fór hún með okkur í útsýnisferð uppá Rauðabergsfjall og það reyndist okkur minnisverður atburður. Fórum upp Landamótsgjótu og vestur eftir fjallinu og komum niður hjá Staffelli að mig minnir, allavega komum við Hálsdalsmegin niður.


Næsta vetur var okkur kennt í Holtum bæði af fjallabæjum og  austurmýrum ásamt Einholti  Hólmi og Brunnhól. Mér og Petrínu Steinadóttur á Viðborði var komið fyrir hjá Magnúsi Hallsyni og Guðrúnu Benediktsdóttur er bjuggu í upphúsum í Holtum.  Þau gerðu nú vel að taka okkur tvær til veru. Skólinn stóð þó ekki nema annan hvern mánuð. Hinn mánuðinn áttum við að lesa skólbækur heima. Þetta heimili var rólegt og samanstóð af  húsbændum og dóttur þeirra Álfheiði sem var heimasæta. Á heimilinu var líka Álfheiður móðir húsfreyjunnar. Hún var alveg blind en síprjónandi í höndunum. Ég hugsa að það hefði verið leitun að léttlyndari manneskju en Álfheiður var, þrátt fyrir aldur og sjónleysi. Hjá þeim var líka Hjalti frændi húsfreyju en ég man samt ekki eftir honum á heimilinu svo ég hugsa að hann hafi frekar verið að sumrinu.


Kennarinn hét Hróðmar Sigurðsson frá Reyðará í Lóni. Hann hafði áhuga á að við lærðum fleira en hann gat kennt okkur og fékk stúlku Jonnu í Digurholti til að kenna okkur söng. Hún átti orgel og hafði lært að spila. Svo við löbbuðum einn daginn til hennar inn að Digurholti. Þá kom nokkuð í ljós, sem ég hafði fram að þeim tíma ekki haft neinar áhyggjur af. Ég var semsé laglaus.

Þetta var ekki skemmtilegt og að hlusta á kennarana ræða þetta.  Jonna sagði ,,Já hún heyrir það alveg þegar hún fer útaf." Ég er nú ekki viss um að svo hafi verið. Mér kann að hafa fundist öruggara að láta sem minnst á það reyna. Það virtist alveg vanta í mig þessa móttakara, sem fólk hefur til að  taka á móti mismunandi tónum og geyma þá í höfðinu. Textinn getur setið eftir en tónarnir fljúga burt. Stundum finnst mér í dag, ég geta fylgst með röddum kvenna sem eru á mínu raddsviði.


Þetta hefur nú ekki komið svo mikið að sök síðan ég giftist því mennirnir mínir hafa verið blessaðir með svo sterkri rödd að til mín hefur ekki heyrst þótt ég raulaði með. En svo ég snúi mér aftur að heimilinu sem ég dvaldi á þá var oft sungið á kvöldin og þrátt fyrir fötlun mína á þessu sviði tók ég þátt og Álfheiður yngri sagði undir vorið, að ég hefði mikið lagast en hvort hún sagði það aðeins af góðum hug, til að styrkja sjáfsmynd mína veit ég ekki. En það var annað sem ég lærði. Undir lok skólans um vorið skyldi haldin samkoma og áttum við nemendurnir að taka þátt í henni. Ég átti að lesa upp kvæðið Burnirótina og Magnús húsbóndinn á heimilinu ákvað að leiðbeina mér við að lesa kvæðið. Hann lét mig lesa það svo oft og vel og leiðrétti mig og hvatti til betri árangurs þar til hann var ánægður með útkomuna og ég fékk hrós fyrir eftir samkomuna.


Ég held að einum skólbróður mínum hafi þótt fullmikið í hrósið lagt og sagði að ég læsi ekkert betur en þau hin nema kvæði. Það var alveg rétt hjá honum. Ef til vill hefði ég líka lesið vel annað efni ef ég hefði haft Magnús að kennara þegar ég lærði lestur. Þetta var gott og hlýlegt heimili hjá Magnúsi og Guðrúnu. Að næstu nágrönnum höfðum við Bjarna Þorleifsson og Lússíu konu hans ásamt þeirra börnum.  Þau elstu, Þóra og Guðmundur voru á líku reki og við Petrína. Mig minnir að þeirra bær væri nefndur Austurhús. Allt var nú gott milli þessara bæja og enginn nágrannakrytur en það gegndi öðru máli með hanana á bæjunum. Þá höfðu flest heimili hænur til að verpa eggjum sem voru virkilega blessuð uppbót á fábreitt mataræði hjá fólki í sveitum á þessum tímum. Sjálfsagt þótti að hafa einn hana með, enda hópurinn ekki svipur hjá sjón ef hanann vantaði. Hann færði hópinn i æðra veldi með tignarlegu gali sínu, virðulegu látbragði og litadýrð landnámskynsins.


Nú hittust tveir þessara hópa í Holtum eitt sinn milli bæjanna tveggja og sló þegar í bardaga milli leiðtoganna. Ég horfði í fyrsta sinn á hanaat og aldrei síðan. Þetta var blóðug orusta  og heiftin mikil og ég horfði lengi í forundrun á aðfarirnar sem tóku þó að lokum enda eins og aðrar styrjaldir hafa gert. Ég vissi ekki til að þeim slægi saman aftur.  Þeir hafa ef til vill sæst á það eftir orustuna hvar landamerkin skyldu framvegis liggja milli heimila þeirra, þótt enginn sýnilegur múr væri reistur. Minningin um þessa orustu hefur lifað með mér æ síðan greinilegri en flestar aðrar minningar, rétt eins og minningin um bardagann milli hrútanna tveggja heima hjá mér, sem hleypt var af básum að vori til eftir innistöðu yfir veturinn. Þeir börðust hart en það flaut þó ekki blóð eins og þarna.

13.11.2010 17:35

Ótitlað

                                                Munnmök.  

Föstudaginn 22 október 2010 birtist í Fréttablaðinu þáttur undir nafninu Á rúmstokknum.

Eftir Siggu Dögg kynfræðing þar sem hún er að veita ungri stúlku svar við tveimur spurningum. Það er seinni spurningin, sem ég vil ræða ögn um. Spurningin hljóðar svo.

,, ? Ég er búin að vera í föstu sambandi í rúm tvö ár og við erum mjög hamingjusöm.  Það er reyndar eitt sem böggar mig pínulítið og það er að kærasti minn er stanslaust að biðja um munnmök, sem er svo sem allt í lagi, nema mér finnst bara bæði frekar vond lykt og bragð af vininum og langar þessvegna ekkert sérstaklega mikið til að veita honum það sem hann biður um.

Er ekki dónalegt af mér að nefna þetta við hann, ég vil nefnilega ekki að hann verði sár, og er ekki eitthvað hægt að gera til að bæta stöðuna?" Svo fær hún svör frá kynfræðingnum en ég ætla ekki að skrifa þau..Þau er hægt að lesa í Fréttablaðinu

           

Það er greinilegt að stúlkan er í vanda og leitar hjálpar. Mér þótti nú líklegast að munnmök þýddu að skiptast á kossum  en var ekki alveg viss. Nú sá ég að þetta var tóm tjara hjá mér. Orðið þýddi hér vægast sagt, mjög ógeðslega athöfn. Hvernig hefur svona ófögnuður komist inní  sambönd unga fólksins?. Það er sjálfsagt auðvelt að kúga stúlkur sem melludólgar hafa stolið og hneppt í kynlífsþrældóm, til svona athafna en hver  getur álitið þetta eðlilegt form á samlífi fólks, sem ætlar jafnvel að eyða ævinni saman? Spurning hvort þau eigi nokkurn tíma eftir að geta borið virðingu hvort fyrir öðru. Virðing stuðlar að velsæld í öllum mannlegum samskiptum. Þótt stúlkan láti sig hafa þetta núna meðan hún er svo ung og óframfærin og hrifin af stráknum. Hvað verður þegar hún með hækkandi aldri, eflist að andlegu þreki og sjálfstæði og verður meira hundleið á þessari niðurlægingu? Er þetta e.tv .nútímaleg getnaðarvörn af því að önnur reynist of umhendis fyrir strákana?  Það er auðvitað mikið mál að sitja uppi með óvelkomið barn  þegar allir eru uppteknir við nám og störf, íþróttir og leiki. Enginn hefur tíma aflögu, nema sá nýkomni. Hann gæti verið með leyfi uppá 100 ár og þarf engan veginn að verða sístur í sinni ætt.

 

Nú berast þau tíðindi að eyrum að Íslendingar setji met, meðal nágrannaþjóða, í nýsmitun kynsjúkdóma. Ég gæti trúað að margt fólk eigi eftir að iðrast þess síðar meir að hafa tekið þátt í áhættusömu líferni, sem leiddi til þess, að konan varð ófrjó fyrir lífstíð. Þá sannast það að:,, Því brosað var fram á bráðfleygri stund, sem burt þvær ei áragrátur." Það er nú ekkert lítið sem sum hjón og fleiri  vilja á sig leggja til að fá kjörbörn úr fjarlægum heimsálfum til að bæta úr barnleysi sínu. Vilja jafnvel taka að sér sjúk börn heldur en að fá engin. Það er Guðs gjöf að geta eignast afkvæmi og fólk ætti að varðveita heilbrigði sitt þess vegna m.a. Fyrir áratugum  sýndist það manndómsmerki að vera með tóbakspípu eða vindil milli varanna. Sumir þeirra eru horfnir yfir landamærin fyrir tímann og aðrir bundnir við öndunarvélar. Reyktóbakið sjálft komið út í kuldann, sem sýnir að það er hægt að hefja áróður á ýmsum sviðum með árangri, ef málsmetandi menn taka sig saman. Unglingar þarfnast verðugra fyrirmynda, sem þora að láta sér upphátt um munn fara orð eins og  bindindi og sjálfstjórn í kynferðismálum.

          

Flettingar í dag: 62
Gestir í dag: 17
Flettingar í gær: 204
Gestir í gær: 21
Samtals flettingar: 79534
Samtals gestir: 16454
Tölur uppfærðar: 7.5.2024 04:10:32

Eldra efni

Tenglar