Þóra Guðrún Pálsdóttir

12.05.2008 22:57

Bogi Péturson

                                                                                                                                                   Þegar fólk hefur náð mínum aldri verð ég þess vör að vinaflokkurinn þynnist ört.  Þetta er gangur lífsins.  Samferðamenn um langan aldur hverfa af sjónarsviði.  Nú hefur Bogi  Pétursson lokið sínum starfsdegi.  Hann var safnaðarbróðir minn um áratugi á Akureyri.  Hann var fæddur á Eskifirði þriðja febrúar 1925 en lést á sjúkrahúsi Akureyrar 17 apríl  2008 og var jarðaður frá Glerárkirkju 29 sama mánaðar.

 Það sem mér fannst einkenna Boga öðru fremur var fúsleiki hans til starfa. Ævi hans hefur verið gerð góð skil i blöðum og margir hafa minnst hans.  Ég held að ég hafi kynnst Boga fyrst sumarið 1955 er ég kom til Skjaldarvíkur til afleysinga á elliheimilinu en þar var þá starfandi hjúkrunarkona,trúsystir mín og vinkona Sóley  Jónsdóttir.  Hún notaði sitt sumarfrí til að vinna við Ástjörn.  Þegar hún kom heim þaðan fór ég austur þangað, til að vinna þar.

 Þá var verið að skipuleggja hverjir væru fáanlegir úr söfnuðinum til að vinna við heimilið yfir sumarið.  Drengirnir voru 18 minnir mig og starfsemin fór fram í gömlum hermanna bragga sem Arthuri hafði verið gefinn.  Margt var heldur frumstætt sem ekki var óeðlilegt þar sem þetta var ung starfssemi.  Ég var þarna með systur Boga sem María hét og var afar rösk og dugleg eins og Bogi og eflaust fleiri af þeim mörgu systkinum þótt ég kynntist þeim ekki á sama hátt og þessum tveimur sem  voru í Sjónarhæðarsöfnuðinum.

 Í einni minningargreininni um Boga í Morgunblaðinu stendur að hann hafi starfað í 54 ár við sumarbúðirnar, þar af í 40 ár sem forstöðumaður.  Aðalstarfsemin fór að vísu fram yfir sumarið.  Þá fórnaði hann sínu sumarfríi og varð að auki að fá sig lausan úr sinni vinnu á verksmiðjunni í viðbót.  Það var eflaust oft erfitt að safna nógu fólki til starfa, því söfnuðurinn var alltaf fámennur en alltaf  rættist úr þessu með fólki héðan og þaðan.  Ekki minnst hafa Færeyingar komið þar við sögu, svo Ástjörn hefur getað haldið áfram.

 Guð gaf honum Boga mikið úthald og ódrepandi þrautseigju bæði við þetta starf og önnur sem hann tók sér fyrir hendur, svo sem sunnudagaskólstarf og fangaheimsóknir um margra ára skeið og skátastarf.  Guð gaf honum líka umburðarlynda konu sem stóð með honum í anda í því starfi sem hann vann fyrir Drottinn þeirra beggja.  Slíkir menn, sem eru svo störfum hlaðnir í þjónustu Guðsríkis, hafa oft minni tíma afgangs fyrir sín heimili,  heldur en aðrir, en ekki hefi ég heyrt óánægju hjá henni í sambandi við það.

 Við getum þakkað Drottni fyrir að gefa þjóð okkar slíka menn, sem eru fúsir að leggja sig fram í þjónustunni, og gefa þeim burði til þess bæði andlega og líkamlega.

25.04.2008 21:25

Minning

            Jón  Benediktsson.

            Minning.

Þann 19 apríl 2008. var til moldar borinn, fyrrum sveitungi minn, Jón Unnar Benediktsson frá Viðborðsseli í Austurskaftafellssýslu. Hann var fæddur 19 september 1919 en lést á Heilbrigðisstofnun Suðausturlands á Hornafirði 12 apríl 2008.

Það var ekki langt á milli bæjanna  Viðborðssels og Rauðabergs þar sem ég ólst upp, svona hálftíma gangur eins og bæjarleiðir voru þá mældar.  Það var of langt til að við börnin lékjum okkur saman en ég var stundum send ýmissa erinda t.d. með skilaboð, eins og gekk og gerðist þá, í símalausri sveit.  Það var hægt að notast við liðléttinga til þess, ýmist á hesti eða gangandi.  Þannig mun ég fyrst hafa kynnst þessu heimilisfólki, hjónunum og börnum þeirra fjórum.  Björg var elst og Jón Unnar næstur henni.  Þá kom Þorleifur og Ragna Guðrún yngst, tveimur árum eldri en ég.  Þau báru öll með sér sama heimilisbrag.  Voru hlýleg og góð, engar hávaðamanneskjur en risu undir því sem þau sýndust og vel það, eins og mér fannst margt af þessu sveitfólki gera.

 

Þegar sá tími kom að bróðir minn byrjaði að endurbyggja húsakostinn heima, voru það einmitt þessir tveir bræður Jón og Leifur sem voru hvað oftast í því, að koma og leggja fram krafta sína þegar steypudagar voru.  Þá var steypan hrærð í tunnu og síðan handlönguð í skjólum í mótin.  Mér fundust þetta nú stundum nokkuð erfið erindi að flytja, þessar hjálparbeiðnir en alltaf varð Benedikt vel við og fús að lána drengi sína.  Öðruvísi gat þetta víst ekki gengið.  Þannig hafði það gengið áður í sveitum þessa lands.  Nágrannarnir fúsir til að leggja lið þegar liðveislu var þörf,  eins og við húsbyggingar.  Annað sem ég man vel eftir var, að slægjur voru of litlar sem tilheyrðu jarðnæðinu sem foreldrum mínum tilheyrði.  Ég held að það hafi nú yfirleitt ekki verið um afgangs engjar að ræða hjá fólki í sveitinni og ekki ljóst hvort svo yrði fyrr en undir haust.  Þá var það að Benedikt í Seli hjálpaði upp á sakirnar hjá okkur og lánaði okkur stykki í svæðunum sem svo voru kallaðar.  Þar óx störin sem er ágætt fóður.  Bróðir minn sló hana í skára með grindaljá.  Svo var hestur látinn draga skárana á þurt land til að þurrka heyið á bökkunum sem að lágu.

 

Seinna flutti svo þessi kæra fjölskylda burtu úr sveitinni og settist að á Höfn.  Þegar við vorum að fara í kaupstaðinn til að versla hélst vináttan við, því auðvitað fórum við í Sætún í leiðinni.  Þangað var gott að koma.  Sama hlýja gestrisnin eins og í Viðborðsseli.

Þar sem ég gat nú ekki farið í jarðarför Jóns heitins fannst mér við hæfi að við hjónin færum inn á Sólvang í Hafnarfirði til að heimsækja Rögnu systur hans, sem hefur dvalið þar marga áratugi.  Hún veiktist  sem barn og uppúr því fékk hún þann sjúkdóm sem hefur valdið því, að hún hefur orðið að vera í vernduðu umhverfi.  Nú er hún alveg komin í hjólastól.  Hún er þó furðu minnug og vissi vel að jarðaför bróður hennar fór fram þennan dag.  Við höfðum tekið með okkur sálmabækur og ekki vafðist það fyrir henni að halda áfram með réttri versaskiptingu í gömlu góðu sálmunum eins og ,,Á hendur fel þú honum" og fleiri.  Það sýndi að trúarlegum fræjum hafði verið sáð í hjörtu þessara systkina sem ólust upp í Viðborðsseli.  Ef engu er sáð kemur ekkert upp.

Guði séu þakkir fyrir allar góðar minningar um þessa fjölskyldu.

 

           

           

07.04.2008 20:53

Komið þið sæl!        

Nú er síðan búin að taka sér gott vetrarfrí.  Það var nú ekki tölvunni að kenna.  Hér á bæ  hefur gengið hita og hálsbólgupest með hósta og tilheyrandi og bæst ofan á gigtarverki í herðum og öxlum húsmóðurinnar svo hún hefur ekki verið í neinu skriftastuði.  Húsbóndinn hefur haldið sig í rúminu í heila viku og hefur verið í því, að laga sér hóstasaft eftir ævagamalli uppskrift sem hann geymdi í minni úr sínu fyrra lífi þegar hann þá, átti þá heima á Suðurlandi.  Í þessa hóstasaft þurfti þrjú efni, í jöfnum hlutföllum.  Ekkert þeirra var finnanlegt innanhúss, en hún vinkona okkar í næsta húsi átti þau öll og var meira en fús að koma með þau.

 Ég, aftur á móti, ákvað að snúa mér að hvítkálinu og  hvítlauknum, soðnu í mjólk. Ákvað að gefa þeirri tilraun eina viku og að henni lokinni held ég að við séum álíka kvefuð.  En okkur er nú að batna.  Ég er betri af gigtinni.  Það er e.t.v. bara af því, að ég hefi ekkert reynt á mig við húsþrif og annað álíka ónauðsýnleg sýsl, þegar svona stendur á.  Við erum bæði með ferlega ljótan hósta svona í hviðum  en fáum góðar hvíldir á  milli.  Ég held að við ættum að passa okkur gagnvart kulda svo við endum ekki hjá lækni.

 Eins og er, er ekki yfir neinu að kvarta.  Við fáum svona pestir svo sjaldan og getum þá haldið okkur inni í upphituðu húsi.  Ég hefi verið að lesa aldirnar að undanförnu.  Þar getur maður nú séð mismuninn á kjörum okkar og þeirra sem á undan okkur eru gengnir.  Mér finnst að þær ættu að vera skyldulesning á unglinga stiginu í skólum þessa lands.

06.03.2008 17:11

Góðan dag.

Góðan dag

Nú er kominn fimmti mars. Ég hefi ekki verið dugleg við að skrifa á síðuna að undanförnu. Ekki verið dugleg viðneitt. Í morgun brá svo við að ég vaknaði um hálf sex og gat ekki sofnað aftur. Var bara hress og fór því á fætur og eldaði mér hafragraut, smá slettu með tveimur sveskjum út í. Þær bæta mikið. Ég er ekkert að elda handa bóndanum. Hann kemur ekki fyrr en kl.9. Kaldur hafragrautur væri ekki lystugur. Kötturinn er líka sofandi. Hann biður ekki um hafragraut á morgnanna, heldur kóngafæðu, fisk á sinn disk. Svo verður hann að sætta sig við kattamat í sínar óétnar máltíðir dagsins. Það er frekar létt yfir, að líta út um gluggann. Nokkuð dimmur bakki í norðrinu með regnboga. Annars sést í heiðan himin milli skýjanna nær okkur.

Ég hefi annars verið að skrifa upp ferðasögu Arthurs frá 1936, sem á að birtast í hans sögu sem er að fæðast á síðunni minni smám saman, eftir því sem ég hefi dug til skrifta. Ég sendi það svo til dóttur minnar í tölvupósti og hún setur það á síðuna en til þess brestur mig alla kunnáttu. Af því stafsetningin á ferðasögunni er allt önnur en í dag, urðu villurnar margar hjá mér, og er ekki alltof viss um að hafa fundið þær allar. Ég reyndi að gera mitt besta og halda öllum setningum upprunalegum eins og þær komu frá hendi höfundar.

Jæja nú er þessi dagur að kvöldi kominn og skaflinn á svölunum hefur rýrnað það mikið að nú er hægt aðopna hurðinna og tröppurnar eru orðnar snjó og klakalausar. Sólin skein um tíma í dag og það var unun að horfa af efri hæðinni hér yfir byggðina.

12.02.2008 22:38

Vetrarveður

Sunnudagur 10.2.2008.

Ég las það á netinu að veðrið ætti að halda áfram að vera hvasst og úrkomusamt eins og verið hefur að undanförnu. Útitröppurnar hjá okkur liggja hálfar í skjóli, milli tveggja útveggja, annarsvegar okkar íbúðar og svo þeirrar næstu. Það er, efri hluti þeirra. Neðri helmingur trappanna er ekki í skjóli og á þær rignir þegar úrkoma er, en hinn helmingurinn hefur verið þurr þótt rignt hafi. Okkur brá því í brún, einn morgun er við litum út fyrir stuttu síðan og sáum að skafrenningurinn var búinn að þéttpakka snjónum í tröppurnar, frá neðanverðu og upp að útidyrum hjá okkur. Húsbóndinn þurfti því að kafa niður tröppurnar í bílskúrinn til að ná í skófluna. Svo hófst nú moksturinn. Þegar ég svo að nokkrum tíma liðnum leit á afrakstur verksins blasti við mér verkhyggni, sem ég hafði alloft orðið vitni að, fyrir meira en 40 árum á Akureyri, er ég átti heima á Sjónarhæð. Þá var það í verkahring fyrri mannsins míns að moka tröppurnar upp að Sjónarhæð, sem voru bæði breiðar og háar, sameiginlegar fyrir salinn og íbúðarhúsið. Það kyngdi oft þvílíkum snjó í brekkuna þar sem tröppurnar lágu. Þá tók hann stundum það ráð, að moka þær hálfar niður, svona svipuð sjón og nú blasti við mér, eftir þennan árafjölda, eitthvað kunnuglegt úr fortíðinni. Fyrrum voru meiri snjóþyngsli venjuleg en verið hafa í seinni tíð. Það hafa eflaust verið ófá tonn af snjó í allt, sem fyrri maðurinn minn var búinn að moka, öll árin, sem hann átti heima á Sjónarhæð, enda sagðist hann stundum ekki nenna að moka tröppurnar allar. Ég vorkenndi honum, fannst hann vera orðinn of gamall til að standa í svona púli, kominn á sjötugsaldur. Núna finnst mér fólk ekki sérlega gamalt á þeim aldri. Þetta breytist þegar maður sjálfur er orðinn eldri. Hann mun hafa verið að verða 68 ára þegar sá tími kom, að við fluttum frá Sjónarhæð í annað húsnæði 1967. Þar voru bara lágar tröppur og lítill snjómokstur, miðað við hitt, þótt við værum að vísu enn á Akureyri.

14.01.2008 23:09

Að temja kött

Tamning

Það urðu mikil viðbrigði fyrir kisu okkar að flytja hingað, eftir að hafa verið frjáls ferða sinna að mestu leyti á Hringbrautinni í Keflavík. Hún þurfti ekki einu sinni að láta opna dyrnar fyrir sér. Þegar við opnuðum glugga á stofunni eða herbergi fór hún út og inn án þess að spyrja nokkurn um leyfi. Hafði lært það áður en hún kom til okkar. Þegar hingað kom, sá ég að ekki kæmi til mála, að hún vendist á að valsa hér út og inn á sama hátt. Það myndi enda með því að hún færi í sandkassana sem ætlaðir eru fyrir börnin í húsinu að leika sér í, en ekki kettina. Hún varð því nokkuð eirðarlaus og ég hélt að hún myndi ef til vill lagast ef við gætum farið út með hana í bandi eins og hund. Ég hafði áður keypt beisli handa henni og reynt að teyma hana eftir gangstéttinni á Hringbrautinni en hún var svo hrædd við umferðina á götunni, að hún var alltaf að strekkja á bandinu til að komast heim að hverju húsi sem við fórum fram hjá og líka að reyna að komast undir bíla sem stóðu við húsin.

En í þessari innilokun sem hér tók við, þá hefur það áunnist að athyglisgáfa hennar hefir þroskast við að tileinka sér þá litlu tilbreytingu sem innilokunin býður uppá. Þegar við komum hingað gátum við ekki séð sjónvarp. Þannig leið þó nokkur tími. Þá kom að því að kapall var lagður í húsið. Við það fengum við fleiri rásir til að horfa á, heldur en við höfðum áður. Meðal annars eru á einni þeirra sýndar dýralífsmyndir. Uppáþrengja fór þá að gefa sig að henni, þó að áður hefði hún engan áhuga sýnt á sjónvarpi. Þetta var svo raunverulegt fyrir henni, að hún fór að gægjast á bak við sjónvarpið þegar dýrin hurfu af skjánum og svo stökk hún upp á sjónvarpið til að reyna að fá frekari botn í málið. Gátuna gat hún ekki leyst. Þessi ákveðna rás er nú uppáhaldið hennar. Hún nennir ekki endalaust að horfa á predikara en samt, þegar Friðrik Chram birtist einn á skjánum á Ómega, var eins og hún vænti þess að hann segði eitthvert gott orð við sig. Eiríkur Sigurbjörnsson vakti líka athygli hennar, ég held vegna þess að hann hreifði svo mikið hendurnar. Ef til vill féll henni maðurinn bara vel í geð.

Jakobsbréfi 3.7. stendur, "Allar tegundir dýra og fugla, skriðkvikindi og sjávardýr má temja og hafa mennirnir tamið." Væntanlega er þá líka hægt að temja ketti, þótt sjálfráðir séu að eðlisfari, ef maður hefir þolinmæði. Ég var orðin svo leið á vælinu í henni er hún var að biðja mig að leika við sig og láta sig elta spotta., að ég ákvað einn daginn að fara að finna beislið og fara út með hana. Ég bar hana í fanginu niður tröppurnar og áfram töluverðan spöl eftir götunni, hélt að hún yrði þá samvinnuþýðari að fylgja mér heim aftur. Þegar ég setti hana niður á götuna byrjaði sama baksið og á Hringbrautinni. Líklega hefur hún orðið svo skelkuð, að hún hefir ekki munað í hverja átt halda skyldi. Hún vildi bara fara heim að hverju húsi sem við fórum framhjá. Virtist ekki vera í nokkrum vafa um, að það væri þó betri kostur en að halda áfram þessari eyðimerkurgöngu með mér. Ég varð bara að draga hana nauðuga annað slagið sem var nú ekki líkamlega erfitt fyrir mig. Vona að það heyri ekki undir illa meðferð á dýrum. Ég hefi lært það fyrir löngu, líklega í einhverri gamalli Biblíuþýðingu eða annarri góðri bók að "Ill meðferð á skepnum beri vott um grimmt og Guðlaust hjarta."

06.01.2008 02:03

Hvassveður

HVASSVIÐRI

Um síðastliðna helgi, þ.e. fyrir viku síðan, var spáð illviðri um allt land. Minnsta kosti um Suður, Vestur og Norðurland. Viðvörun hafði gengið út frá veðurstofunni. Þegar við vöknuðum á sunnudagsmorgun, ætluðum við að fara á samkomu. Sem verða átti klukkan 11. Þá buldi svo mikill stormur og regn á húsinu sem við búum í hér í Engjadal,að mér leist nú ekki á blikuna. Ásgrímur var hvergi banginn að leggja í veðrið. Það stendur í Hebreabréfinu, frá postulanum Páli, "Hættið ekki að koma saman." Ásgrímur kom nú ekki með þá tilvitnun en ég veit að hann hefir lifað samkvæmt henni langa ævi. Það mundi því vera ábyrgðarhluti að vinna á móti svo fastmótaðri venju en stundum getur þurft að horfa á mál frá fleiri en einni hlið. Gæti það t.d. verið að grafa undan góðu siðferði í landinu, að hafa að engu opinberar aðvaranir frá veðurstofu?, sem sendar eru út landsbúum til heilla en ekki til óheilla.

Jæja, það er nú ekki eins og við séum að stefna uppá Langjökul. Þetta eru aðeins 6 kílómetrar á láglendi sem við þurfum að fara. Ég spyr þá, hvort við eigum ekki að tala við vinkonu okkar sem býr í næsta húsi og sækir sömu kirkju og við. Hann segir að ég skuli hringja. Ég spyr hvort hún ætli að fara og vilji vera með. Hún segist nú eiginlega ekki hafa ætlað að fara, en ef ég fari þá telur hún sig geta farið líka. Við kviðum báðar hálfpartin fyrir rokinu við kirkjudyrnar.

Ég er Guði svo þakklát fyrir að hann skyldi gefa okkur íbúð og bílskúr sem eru hlémegin í hvössustu áttinni sem komið hefur síðan við fluttum. Það er mikill munur. Ég var ekki búin að hafa hugsun á því að biðja Guð að haga því þannig. Í því húsi sem við mundum kaupa. Er ekki svo mikil bænamanneskja eins og margir aðrir. Guð hefir mætt þessari vöntun minni með því að gefa mé svo mikið óumbeðið. Hjá Matteusi í 6 kafla segir Jesús sjálfur, "Faðir yðar veit hvers þér þurfið, áður en þér biðjið hann." Svo kenndi hann þeim Faðirvorið. Þetta var allt viðráðanlegt.

Ferðin gekk vel hjá okkur en á einum stað á leiðinni ókum við gegnum tjörn, er hafði safnast á veginum. Það varð ekki séð langt til hve djúp hún var. Vatnið frussaðist um allan bílinn eins og við ækjum gegnum foss. Útsýnið hvarf og mér var nú í meðallagi skemmt. Útsýnið birtist þó pass lega aftur, til þess að við sæjum bílinn sem kom á móti. Allt gekk nú tíðindalaust að komast inn um kirkjudyrnar, ekkert svo mikið verra en vant er ef vind hreifir. En þegar við vorum komin inn, hefir hurðinni líklega ekki verið nógu vel lokað. Hún virtist sogast út og skall svo aftur með miklum hvelli, meiri en ég hefi áður orðið vitni að.

30.12.2007 02:54

Bíllinn.

Bíllinn

Það leið ekki langur tími þar til okkur kom vel að hafa kynnt okkur möguleika á að nota strætisvagninn. Allt í einu fannst mér þegar ég steig á bremsuna í bílnum að hún vera breytt. Ég talaði um þetta við eiginmanninn og hann hafði tekið eftir þessu sama og bjóst við að bremsuborðarnir væru orðnir ónýtir. Það var nú frekar slæmt að missa bílinn svona rétt fyrir jólin en ég vildi það nú frekar, ef hægt væri að fá gert við hann. Það fannst mér ekki skemmtileg tilhugsun að aka á urgandi bremsum. Hann hringir svo á verkstæðið, og viti menn. Hann mátti koma með hann strax en átti að kaupa varahluti á leiðinni. Hann gat svo tekið strætisvagninn heim aftur

Nú vildi til að ég þurfti að koma pakka á pósthúsið. Stakk þá maðurinn uppá að biðja kunningja okkar að hlaupa undir bagga og aka mér. Mér finnst nú alltaf skemmtilegra að vera ekki að ónáða náunga mína fram yfir það sem nauðsýn ber til, þar sem ég vissi að ég ætti að geta komist þangað með strætisvagninum, ákvað ég heldur að taka þann kostinn. Þetta gekk allt eftir áætlun. Það kom stór vagn og ég fékk sæti strax. Um leið og ég fór inn spurði ég strætisvagnsstjórann hvar best væri fyrir mig að fara út ef ég ætlaði í pósthúsið. Þetta var mjög ungur maður að sjá og virtist ókunnugur því hann sagðist ekki vera viss hvar pósthúsið væri. Ég tók það ráð að setjast og sjá hverju fram yndi. Á einni stoppistöðinni vindur ungi maðurinn sér innar eftir bílnum, til mín og segir mér, hvar best sé fyrir mig að fara út. Það fannst mér mjög vel gert af honum.

Satt að segja var þetta nú æðilangt sem ég þurfti að ganga og byrðin seig í. Allt hafðist þetta nú af að lokum. Það kom í ljós að það þurfti að fá meiri varahluti í bílinn okkar, víst innan úr Reykjavík og reyndist meiriháttar viðgerð. Gott var því að geta bjargað sér í strætisvagninum á meðan.                                 

 

10.12.2007 20:50

Strætisvagninn

Strætisvagninn

Við hjónin ákváðum einn seinnipart dags, fyrir nokkrum dögum, að kynna okkur samgöngumálin innan Reykjanesbæjar. Gott að vita hvar maður stendur ef eitthvað kæmi nú fyrir bílinn, þótt ekki væri nú annað, en að annað okkar færi á honum í lengri ferð. Gott fyrir hitt að vita hvað þá er til ráða ef það skyldi vilja hreyfa sig. Strætisvagninn hefur viðkomu á stað sem er stutt frá heimili okkar og þar er meira að segja skýli sem hægt er að setjast inní. Ég ætla að taka fram strax að það kostar ekkert fara með vagninum. Veðrið var gott.

Við fórum heldur of snemma af stað. Vorum svo fljót að skýlinu og vagninn var líka heldur seinni á ferðinni en okkur hafði verið sagt, svo biðin varð nokkur. Þetta var mjög lítill vagn og hann var stútfullur af börnum fram að dyrum. Þar sem við komum á eftir þeim inn, stóðum við auðvitað líka. Maðurinn minn náði taki á súlu fremst í vagninum og ég náði taki báðum höndum á stólbaki eða öllu heldur járnslá sem lá yfir sætisbak, annars hefði nú ekki farið vel fyrir mér með jafnvægið, því að bílstjóranum lá greinilega á, til að halda áætlun.

Hinsvegar fannst mér eins og skellt hefði verið mörgum beygjum eða torfærum á brautina hér og þar í þessu nýbyggða hverfi. Börnunum virtist nú ekkert bregðast jafnvægið, rétt eins og þau væru með sogskálar á fótunum. Hinsvegar sá ég ekkert fram fyrir bílinn og vissi því ekki hvort næsti slinkur yrði til hægri eða vinstri. Gat því ekki stillt líkamann eftir því hvor hallinn yrði heppilegri. Snilli bílstjórans fólst í því að fara á sem mestum hraða og slá hvergi af á þessum þvers og kruss brautum. Ég held að tíminn hafi rekið á eftir honum, frekar en að hann hafi verið að hugsa um að farþegarnir ættu að fá einhverja tilbreytingu í hversdagslífið og geta dáðst að því hve snjall hann væri, að halda vegi. Ég gæti best trúað að hann hafi einhvern tíma æft sig í rallakstri og kæmi það til góða. Allt horfði nú til betri vegar þegar til Keflavíkur stemmdi. Þegar þangað kom fékk ég sæti og eftir það var allt með eðlilegheitum, hvort sem það var vegna þess að ég hafði fengið sæti eða göturnar voru akstursvænlegri.

Vagninn stoppaði rétt hjá Álnabæ en þar þurftum við að versla smávegis. Það gekk fljótt og þá áttum við korter eftir þar til vagninn kæmi aftur. Maðurinn minn stakk uppá því að við færum að heimsækja vinkonu okkar. Það er örstutt sagði hann. Mér fannst það nú ekkert örstutt þegar ég hugsaði að við hefðum aðeins korter til að komast þangað og aftur á stoppstöð vagnsins. Hann aftur á móti hugsaði víst að við gætum tekið þar næsta vagn og þannig gæti þessi heimsókn komist í verk. Þannig gekk hans tillaga í uppfyllingu. Vinkona okkar vildi endilega hella uppá könnuna handa okkur. Við komum svo á tilteknum tíma aftur til að taka vagninn og hann mætti stundvíslega á þeim tíma sem vagnstjórinn hafði áður tiltekið. Þetta var miklu stærri vagn en hinn og hann fór alla leið þangað sem við eigum heima. Ég hefði nú ekki ratað út á réttum stað af því myrkur var komið og ljósin bara rugluðu mig á ókunnu svæði. Maðurinn minn er miklu ratvísari. Sannaðist þar orð prédikarans, ,,Betri eru tveir en einn".

30.11.2007 23:42

Ættingja leitað

Ég hafði nýlega frétt af bókaflokknum hans Einars  Braga  "Þá var öldin önnur"  ´Hugsaði ég þá að þar gæti ég etv. kynnst einhverju ættfólki mínu sem ég hefði ekki áður fengið tækifæri til.  Ég lét því ekki lengi dragast að fara á bókasafnið og fæ bækurnar.  Kom þá í ljós að Einar  Bragi hafði fermingarvorið sitt ráðist að Sléttaleiti til Sveins  Einarssonar og Auðbjargar Jónsdóttur frænku minnar.  Þau voru þá nýbúin að kaupa jörðina og flutt þangað.

Á bls. 79 rakst ég á þessa frásögn, ,,Þau trúðu því Auðbjörg og Sveinn, að Guð mundi hjálpa þeim til að húsa upp bæinn, þegar honum þætti mál til komið.  Ég trúði ekki á þetta, þó að smíðanáttúra væri nokkur í ætt frelsarans, en var sannfærður um, að þau gerðu það engu að síður, af eigin rammleik.  En viti menn: einn góðan veðurdag ber tré eitt mikið á Sléttaleitisfjöru.  Heilan vetur voru hjónin að fletta því með stórviðarsög.  Þegar verkinu var lokið, reyndist viðurinn nægur í grind að nýju húsi, og það reistu þau.  Varð þannig báðum að trú sinni, þeim og mér, en þeim þó meira, því eiginlega varð vantrú mín sér til skammar í aðra röndina."                

20.11.2007 10:58

HJÁLPRÆÐISHERINN

HJÁLPRÆÐISHERINN

Þann fjórða nóvember 2007 auglýsti Hjálpræðisherinn sína fyrstu samkomu á fyrrverandi hersvæði á Miðnesheiði. Hann er nú að hefja starf á þessum stað. Okkur hjónin langaði að fara og fagna nýjum liðsauka í kristilega geiranum. Við vorum svo heppin að þekkja mann sem var kunnugur á svæðinu. Hringdum í hann og spurðum hvort hann ætlaði að fara. Hann hafði nú ekki verið að hugsa um það en ef við vildum fara sagðist hann skyldi ná í okkur, sem hann svo gerði. Við tókum með okkur fyrrverandi sambýliskonu okkar af Hringbrautinni. Það er að segja. Hún og hennar maður höfðu búið á hæðinni fyrir ofan okkur. Nú búum við í næsta húsi við hana og gluggar íbúðanna vita hvor móti öðrum. Eftir nokkra leit fundum við staðinn sem þau höfðu samkomu í. Það var skemmtilegur og bjartur salur með góðum stólum. En það munu nú ekki vera framtíðarhúsakynni fyrir Hjálpræðisherinn. Töluvert af fólki týndist að meðal annarra norsk hljómsveit svo og gospelkór sem Ester er byrjuð að æfa. Það er einmitt hún og hennar maður sem komin eru til að standa fyrir þessu fyrirhuguðu starfi.

Svo voru fleiri samankomnir til að fagna komu þeirra.

Ég reiði mig víst svo mikið á það sem er hið ytra og séð verður, saknaði þess að sjá ekki fleiri í búningi hersins. Hjá mér hvílir nú tiltrúin að svo miklu leiti á búningnum. Ég á góðar minningar um fólk sem gekk í þessum búningi. En hvað veit ég um hitt sem er öðruvísi klætt? Það á bara eftir að vinna mitt traust. Nú veit ég að vísu, að ekki var kristnu fólki í frumsöfnuðum gert að skyldu að skera sig úr með sérstöku fatasniði. Eitthvað var nú Páll samt að minnast á að konur ættu að vera sómasamlega klæddar en það var nú í þá áttina, að ofhlaða ekki líkami sína gulli og gersemum. Greinilega ekki allt verið fátæklingar sem aðhylltust trúna á þeim tíma.

Eftir að samkomu lauk, sneri fólk til sinna heimkynna samkvæmt venju og við þar á meðal. Úti fyrir var dimmt og spölur þangað sem bílarnir stóðu. Þegar við erum komin svo að segja að bílnum þá stíg ég útaf einhverjum kanti og kastaðist við það aftur yfir mig og kom svo niður á bakið. Ég meiddist ekkert sem hét í bakinu en hafði tognað í vinstri ökklanum og fann sár til í honum.

Gat nú samt haltrað að bílnum með stuðningi,eftir að vera hjálpað til að standa upp, svo það var nokkuð augljóst að ég var ekki brotin. Þegar bílstjórinn hafði skilað okkur heim og var kominn heim til sín, hringdi hann og ráðlagði mér að nota hvítkál við bólgunni í fætinum. Sagðist hann oft hafa reynt það á sjálfum sér og hefði reynst það vel. Barið það fyrst með kjöthamri til að ná út safanum.

Ég hafði nú heyrt þetta fyrr með hvítkálið svo ég var alveg til með að reyna það, enda varla viðeigandi að hafna ráði, gefnu af góðum hug, fyrst ég átti hvítkálið. Ég á hrærivél með góðum hnífi. Útlit hennar að öðru leiti gefur ekki mikil fyrirheit en ég er búin að eiga hana í mörg ár og hræra í henni kökur, kjöt og fisk (með því að brytja það, kjötið og fiskinn fyrst) svo ég taldi víst að hún myndi betri en kjöthamar. Hún skilaði líka sínu fljótt og vel. Ég setti kálsaxið svo í umbúðir og lagði við fótinn og lagðist til svefns. Sjálfsagt hefi ég tekið verkjalyf einnig. Ég gat alveg sofið um nóttina. Morguninn eftir var ristin að vísu bólgin en bólgan fór aldrei undir ilina. Ég komst alveg í reimaða skó og gat gert það sem ég þurfti. Farið til Aureyrar á fimmtudeginum. Marið er samt ekki horfið ennþá, þótt tólf dagar séu liðnir, en Það er á förum.

13.11.2007 23:54

13 nóvember

Hrefna  Sæunn  Einarsdóttir.  Til hamingju með afmælisdaginn.  Það var nú með naumindum að þú fengir afmæliskveðju á netinu því það var ekki neitt netsamband í tölvunni í morgun.  Ég var svo heppin að ná í tölvufræðing í dag, svo nú er þetta komið í lag.

Ég var að sauma gardínur, ef til vill er betra að segja gluggatjöld, Afi þinn hefði nú viljað hafa almennilega íslensku á því.  Ég var orðin svo þreytt í bakinu, svo ég varð að leggja mig til að láta þreytuna líða úr áður en ég settist við tölvuna.  Nú á ég bara eftir að setja fyrir einn glugga.  Ég ætla að býða til morguns að hengja þessar upp. 
Ég er nýbúin að fara norður.  Það var verið að jarða Petreu  Konráðsdóttur ljósmóður sem var bróðurdóttir pabba þíns.  Mamma þín fór með mér í kirkjuna. Það var bara margt fólk.
Ég vona að Guð gefi þér góða heilsu til að takast á við námið svo þú náir hinu þráða marki.  Vertu Guði falin, sagði gamla fólkið í bréfum sínum þegar ég var ung, eða svo minnir mig.
Þess óska ég þér.  Þín amma Þóra.

29.10.2007 00:18

Veturinn kom í gær

 Þegar ég leit út um gluggann í morgun var jörð alhvít hér í innri Njarðvík. Nú erum við

búin að eiga heima hér í nokkrar vikur og finnst mér mjög gott að vera hérna. Hæst bera nú held ég þessi dæmafáu rólegheit sem ríkja hér. Auðvitað hafa smiðir verið að vinna hér á daginn við húsið en á kvöldin og næturnar er kyrrt eins og við værum úti í afskekktri sveit. Héðan af efri hæðinni úr okkar íbúð er víðsýnt í góðu skyggni, svo að við sjáum yfir sjóinn til fjallanna í fjarska. Ennþá eru ekki allir fluttir í þetta hús sem hér munu eiga heima i framtíðinni. Við höfum rekist á nokkra af nágrönnum okkar hér úti sem virðast vera vel að sér í góðum siðum. Kynna sig og heilsa með handabandi eins og gestir af næstu bæjum gerðu í sveitinni, þar sem ég er uppalin. Það skal tekið fram að nágrannarnir í sveitinni þurftu ekki að kynna sig. Þetta lofar auðvitað góðu og verður okkur hvatning til að breyta eins og hefja ekki stríð að þarflausu að fyrrabragði.

Hér er næstum eins og við séum í einbýli. Bílskúrar undir íbúðinni og enginn býr fyrir ofan okkur. Ég bað bónda minn um að festa klukkuna mína á útvegg svo hún spillti ekki svefnfriði annarra í húsinu. Vona ég að það gangi eftir þótt hún sé nokkuð hljómmikil. Mér finnst svo heimilislegt að hlusta á hana slá. Uppáþrenging okkar er að venjast innilokuninni. Fyrstu dagana langaði hana að bregða sér út og einu sinni fór hún út um glugga og settist á sylluna utanvið en hún lét það ógert að steypa sé niður. Hún virtist ekki eins lofthrædd eins og eigandinn mundi vera í sömu sporum. Hún bara tók þá ákvörðun að hætta ekki lífi sínu að óþörfu. Ég var ákaflega fegin þegar handriðin komu við tröppurnar hérna.

Guðný dóttir mín og maður hennar Valur komu nýlega á leið sinni til útlanda. Þau gistu hér eina nótt. Það er helst að ég sjái börnin mín er þau eiga leið um flugstöðina í Keflavík. Það er kosturinn við að búa svo nálægt millilandaflugvellinum en ekki einhversstaðar annarstaðar.

Ég hafði losað mig við gamla svefnsófann sem ég hafði notað fyrir gesti áður og ætlað að kaupa venjulegt notað rúm í staðinn í Góða hirðinum. Þegar þangað kom var ekkert rúm þar sem passaði en af því við vorum nú einu sinni komin inní Reykjavík ákvað ég að láta þetta ekki

vefjast lengur fyrir mér og keypti gestarúm í Rúmfatalagernum. Þau eru að vísu ekki nema einn og 80 á lengd. Þegar til kom, kom í ljós að það mátti ekki lengra vera í herbergið en þar með gátum við komið tveimur gestarúmum þar inn, svona fyrir eina nótt. Þannig hefi ég svo oft fundið fyrir æðri handleiðslu í lífinu.

18.10.2007 01:22

Föstudagur

Föstudagur 7. 9.

Daginn þann lögðum við af stað heim eftir að hafa gert hreint í bústaðnum og reynt að skilja vel við. Þá var sæmilegasta veður. Fyrst fórum við niður á Selfoss. Þar hittum við vin okkar Hallgrím Guðmannsson og þágum hjá honum góðgerðir. Létum kisu dúsa í búrinu sínu út í bíl á meðan. Á eftir fórum við að heimsækja Kristinn og Lilju. Kristinn er uppeldissonur Ásgríms frá 12 ára aldri. Þau tóku okkur með virktum og kisu var boðin mjólkurskál sem hún tók þó með fyrirvara en þetta hafði samt góð áhrif. Hún virtist draga það af gestrisni þessa fólks að hér þyrfti engan sérstakan vara að hafa, í viðkynningu við það. Hún er nú samt þeirrar gerðar aðhún flanar ekki í fang ókunnugra.

Eftir að hafa þegið góðgerðir og spjallað nokkra stund, héldum við af stað heim og gekk það vel. Héldum svo áfram að pakka næstu daga og undirbúa flutning.  Veðurspáin mun ekki hafa verið uppörvandi fyrir laugardaginn 14.  Þegar við vöknuðum var ausandi rigning, já hún var mikil. Ég hugsaði að það gæti létt seinnipartinn og það mætti biðja Guð að láta létta. Ásgrímur taldi að ég gæti gert það. Ég vonaði nú bara að hægt yrði að flytja þrátt fyrir allt. Það hafði hlaðist svo mikið upp af smákössum á ganginn svo erfitt yrði að koma stóru hlutunum framhjá nema að flytja kassana fyrst. Ákváðum því að reyna að flytja þá nokkra í okkar bíl því hægt er að leggja sætin niður í honum.

Helga dótturdóttir Ásgríms er nýflutt í Keflavík og hennar fjölskylda var búin að bjóða fram hjálp sína og komu þau fljótlega eftir að Ásgrímur hringdi í þau og einnig komu 2 vinir sonar þeirra. Rigningin fór nú minnkandi þótt eitthvað rigndi allan daginn. Er fram leið færðist kapp í liðið. Helga mun hafa hringt í systur sína Jensey og hún kom og hennar maður. Ekki var hætt við, fyrri en allt var útborið af hæðinni og aðeins eftir í bílskúrnum og geymslunni í kjallaranum, því að bílskúrinn í Engjadalnum var ekki tilbúinn. Þessa nótt sváfum við í nýju íbúðinni sæmilega sátt og sæl yfir framgangi mála og kötturinn líka, yfir að hafa sín venjulegu húsgögn að hnusa af og hátta við og húsbændur líka

15.10.2007 21:37

2 september

Nú er orðið langt síðan ég hefi sest við skriftir. Tíminn hefir farið í að pakka búslóð og gera hreint. Til stóð að flytja um þessi mánaðarmót. Það dregst vegna þess að íbúðin sem við ætlum að flytja í er ekki tilbúin. Við fáum að vera hér hálfan mánuð í viðbót á okkar fyrra heimili. Á morgun ætlum við að fara í sumarbústað sem Kennarar eiga austur á Flúðum og vera þar fram á föstudag. Við höfum hvorugt farið í orlofsbústað áður í okkar félögum. Við ætlum að drasla kettinum með og fórum því með hann í prufutúr í dag í bílnum Hún vældi mestallan tíman í nýja búrinu sem húsbóndinn var búinn að laga handa henni en var afskaplega ánægð þegar við vorum komin lifandi heim aftur úr þessu skelfilega ferðalagi.

Daginn eftir munum við hafa farið austur á Flúðir með kisu í farteskinu sem bar sig þolanlega, þótt ekki verði sagt að hún hafi skemmt sér konunglega. Hún heitir nú reyndar Uppáþrengja en tölvan vill ekki kannast við að það orð sé nothæft sem nafn á skepnu, heldur skal hún heita Uppáþrenging. Kennarar hafa líklega aðeins einn bústað sem leyfilegt er að vera með dýr í. Þegar við báðum um leyfi fyrir kettinum var hætt við að láta okkur fá nýjan bústað. Ég er ekki móðguð út af því, Mér finnst það bara mjög eðlilegt. Við fengum ágætan bústað umlukinn trjám svo rétt sást í heiðan himinn. Það rigndi mikið þessa daga sem við dvöldum þar en við undum rólegheitunum og hvíldumst. Kisa fékk að fara út í skóginn en ekki með mínu leyfi. Ég var búin að sjá marga fugla og var hrædd um að hún sæist ekki meir en hún var vör um sig og fylgist grannt með til að missa ekki af sínu athvarfi og aðstandendum.

Flettingar í dag: 150
Gestir í dag: 9
Flettingar í gær: 257
Gestir í gær: 20
Samtals flettingar: 79418
Samtals gestir: 16425
Tölur uppfærðar: 6.5.2024 13:37:21

Eldra efni

Tenglar