Þóra Guðrún Pálsdóttir

06.01.2008 02:03

Hvassveður

HVASSVIÐRI

Um síðastliðna helgi, þ.e. fyrir viku síðan, var spáð illviðri um allt land. Minnsta kosti um Suður, Vestur og Norðurland. Viðvörun hafði gengið út frá veðurstofunni. Þegar við vöknuðum á sunnudagsmorgun, ætluðum við að fara á samkomu. Sem verða átti klukkan 11. Þá buldi svo mikill stormur og regn á húsinu sem við búum í hér í Engjadal,að mér leist nú ekki á blikuna. Ásgrímur var hvergi banginn að leggja í veðrið. Það stendur í Hebreabréfinu, frá postulanum Páli, "Hættið ekki að koma saman." Ásgrímur kom nú ekki með þá tilvitnun en ég veit að hann hefir lifað samkvæmt henni langa ævi. Það mundi því vera ábyrgðarhluti að vinna á móti svo fastmótaðri venju en stundum getur þurft að horfa á mál frá fleiri en einni hlið. Gæti það t.d. verið að grafa undan góðu siðferði í landinu, að hafa að engu opinberar aðvaranir frá veðurstofu?, sem sendar eru út landsbúum til heilla en ekki til óheilla.

Jæja, það er nú ekki eins og við séum að stefna uppá Langjökul. Þetta eru aðeins 6 kílómetrar á láglendi sem við þurfum að fara. Ég spyr þá, hvort við eigum ekki að tala við vinkonu okkar sem býr í næsta húsi og sækir sömu kirkju og við. Hann segir að ég skuli hringja. Ég spyr hvort hún ætli að fara og vilji vera með. Hún segist nú eiginlega ekki hafa ætlað að fara, en ef ég fari þá telur hún sig geta farið líka. Við kviðum báðar hálfpartin fyrir rokinu við kirkjudyrnar.

Ég er Guði svo þakklát fyrir að hann skyldi gefa okkur íbúð og bílskúr sem eru hlémegin í hvössustu áttinni sem komið hefur síðan við fluttum. Það er mikill munur. Ég var ekki búin að hafa hugsun á því að biðja Guð að haga því þannig. Í því húsi sem við mundum kaupa. Er ekki svo mikil bænamanneskja eins og margir aðrir. Guð hefir mætt þessari vöntun minni með því að gefa mé svo mikið óumbeðið. Hjá Matteusi í 6 kafla segir Jesús sjálfur, "Faðir yðar veit hvers þér þurfið, áður en þér biðjið hann." Svo kenndi hann þeim Faðirvorið. Þetta var allt viðráðanlegt.

Ferðin gekk vel hjá okkur en á einum stað á leiðinni ókum við gegnum tjörn, er hafði safnast á veginum. Það varð ekki séð langt til hve djúp hún var. Vatnið frussaðist um allan bílinn eins og við ækjum gegnum foss. Útsýnið hvarf og mér var nú í meðallagi skemmt. Útsýnið birtist þó pass lega aftur, til þess að við sæjum bílinn sem kom á móti. Allt gekk nú tíðindalaust að komast inn um kirkjudyrnar, ekkert svo mikið verra en vant er ef vind hreifir. En þegar við vorum komin inn, hefir hurðinni líklega ekki verið nógu vel lokað. Hún virtist sogast út og skall svo aftur með miklum hvelli, meiri en ég hefi áður orðið vitni að.

Flettingar í dag: 56
Gestir í dag: 26
Flettingar í gær: 116
Gestir í gær: 47
Samtals flettingar: 77417
Samtals gestir: 16107
Tölur uppfærðar: 20.4.2024 08:57:11

Eldra efni

Tenglar