Þóra Guðrún Pálsdóttir

13.07.2011 12:18

Ferð norður

                                                Ferð norður í land

Fimmtudaginn 30 júní seinni partinn lögðum við þrjú af stað til Akureyrar Kristinn Ásgrímsson, Ásgrímur faðir hans og ég. Við höfðum talað um það hjónin að fara í ágúst norður en nú hafði andlát Jóhanns Pálssonar borið að og ætluðu þeir feðgar að fljúga norður í jarðarförina og koma samdægurs aftur en þá reyndust öll sæti  uppgengin. Niðurstaðan varð að við skyldum þá fara öll í okkar litla jeppling og Kristinn æki norður daginn fyrir en flygi svo suður sama dag strax eftir jarðarförina, því þá voru nóg sæti laus í flugi  en fyrirhuguð var vinnuferð austur í Kirkjulækjarkot, sem hann ætlaði að taka þátt í. Þetta var því ávinningur að Kristinn æki þó aðra leiðina, svo ég ákvað að fara líka. Sjálf hefi ég ekki getað ekið síðan ég slasaðist í öxlinni. Nú er hún smámsaman að lagast.

Það er nú ekki annað frá þessu ferðalagi að segja en að ferðin gekk vel og auðvitað eru það góð tíðindi útaf fyrir sig. Veðrið var gott. Ég tók með mér bók sem heitir:Gamla hugljúfa sveit, eftir Þorstein Geirsson. Af mönnum og málefnum í Austurskaftafellssýslu. Ég lét þá feðga alveg um samræður. Ég las bókina og komst að því, að ég var minna þreytt að lesa bókina heldur en að virða fyrir mér umhverfið úr bílnum á hraðferð. Er nálgast tók norðurland eystra lagði ég samt bókina til hliðar. Við náðum til Akureyrar í góðum tíma til að fá nógan svefn.

Daginn eftir fór svo jarðarförin fram frá Hvítasunnukirkjunni á Akureyri,

Jóhann hafði verið þar forstöðumaður í áratugi. Þar á eftir unnu þau hjón í Hlaðgerðarkoti.

Ásgrímur maðurinn minn og hann höfðu þekkst frá æskuárum. Ég hafði líka kynnst þeim hjónum Huldu Sigurbjörnsdóttur og Jóhanni eftir að ég kom til Akureyrar og

Þau kynni voru góð. Minnist ég sameiginlegra samkoma Fíladelfíu, Hjálpræðishersins og Sjónarhæðar sem haldnar voru öðru hverju um tíma frá 1951. Fengu þeir þá Nýja bíó um páska fyrir samkomur sínar. Fannst mér gegnum það samstarf og aðra viðkynningu að Jóhann muni hafa umgengist aðra trúarsöfnuði af tillitssemi. Það segir nokkuð um manninn, því allt vill nú lagið hafa þegar fólk með mismunandi áherslur ákveður að ganga að einu verki. Mér fannst það sem viðeigandi framhald af samstarfi fyrri ára að húsakynni Hersins voru nú lánuð undir erfidrykkjuna.

Veðurspáin fyrir Laugardaginn var góð. Ákváðum við því, að nota hann til að fara í Hrísey til að heimsækja Jón bróður Ásgríms og Auði konu hans. Þau hjón búa í Hrísey á sumrin. Við nutum þess að aka út á Árskógssand í ágætu veðri og taka ferjuna til Hríseyjar. Hún er aðeins korter yfir til eyjunnar. Jón var mættur á traktornum að taka á móti okkur og aka okkur heim. Það er gaman að ferðast í traktor endrum og sinnum en ekki mjög langt. Þetta var svona mátulegt. Þau hjón tóku okkur fjarska vel og vildu endilega hafa okkur lengur en eina nótt en við höfðum nú ekki gert ráð fyrir að vinna okkur sveitfesti þar, þó eyjan sé yndisleg.

 Á sunnudagsmorgun tókum við ferjuna fyrir hádegi og vorum komin til Akureyrar um 12. Eftir hádegi fórum við að hitta vinkonu okkar Irene Gook sem dvelur á elli heimilinu á Akureyri. Hún hafði nýlega dottið inná snyrtingu og meitt sig en sem betur fer hafði hún nýlega verið búinn að fá öryggishnapp um únliðinn svo hún gat fljótt fengið hjálp. Við stoppuðum dálítinn tíma hjá henni. Hún er alltaf ánægð og þakklát, segir alla vera svo góða við sig. Á eftir fórum við til Guðrúnar systur Ásgríms. Hún býr i sinni íbúð við Víðilund. Seinna litum við inn til Eiðs og Helgu sem eru búin að vera miklir vinir okkar til margra ára. Reyndar áttum við eftir að líta inn hjá fleirum en varð ekki af í þetta sinn.

Daginn eftir kvöddum við dóttur mína og hennar heimili og héldum til Siglufjarðar. Hannes, fóstursonur Ásgríms frá 12 ára aldri, átti þar íbúð sem hann hafði leyft okkur að nota eins og við vildum. Veðrið var gott og hjón sem við þekktum á Siglufirði, buðu okkur í kaffi. Ég fann mig ekki vel fríska svo að Ásgrímur fór einn. Daginn eftir var ég heldur ekki vel hress, Borðaði þó kjötsúpu sem Ásgrímur keypti í fiskbúðinni og tók heim með sér. Hún var góð og vel úti látin annars hélt ég mig mest í bólinu. Seinna um kvöldið ókum við upp að kirkjugarði og Ásgrímur leitaði að leiðum ættmenna sinna,

Mér fannst samt erfitt að ganga um þann garð. Efast um að annar brattari kirkjugarður finnist á landinu. Vinaleg staðsetning. Liggur í faðmi fjallsins að ofan og fast að byggðinni að neðan. Þar er nú skammt milli bústaða lifenda og dauðra. Nú er garðurinn orðinn fullnýttur og farið að jarða annarsstaðar. Þótt vel færi um okkur á Siglufirði og í boði væri að vera þar lengur fannst mér, að best mundi að herða sig upp og halda áfram ferðinni. Það var líka kominn tími hjá Ásgrími að sinna ákveðnu verki sem hann og annar maður eru vanir að sjá um fyrir A.B.C. Við vorum heppin með veðrið er við lögðum af stað á miðvikudag.

Fórum um klukkan 2 frá Júlíusi og Svövu, hjónum sem við þekkjum. Á leiðinni stoppuðum við í Brekkukoti í Óslandshlíð en þar hafði Sigurlaug fyrri kona Ásgríms dvalið part af bernsku sinni. Hann átti þarna heimboð þegar hann ætti leið um. Er við höfðum  Þegið góðgerðir þar, héldum við ferðinni áfram en henni var heitið að Laugabakka í Miðfirði. Þar býr frænka Sæmundar fyrri mannsins míns. Hún var búin að bjóða okkur að koma og gista ef við værum á ferðinni. Hún er orðin ekkja en dætur hennar búa skammt frá.

Hún bauð okkur uppá  kjötsúpu og áttum við þar góða gistingu. Fórum ekki á fætur fyrr en um klukkan 10 og borðuðum morgunmat. Ekki að tala um að sleppa okkur fyrr en við hefðum borðað hádegismat líka. Ég var nú hressari og  við fórum þaðan í yndislegu veðri. Stoppuðum í Borgarnesi og fengum okkur ís. Reyndum að hringja í Hörð á Akranesi en enginn ansaði svo hann var sjálfsagt ekki heima. Við fórum því ekki þangað en héldum áfram heim með viðkomu heima hjá Hannesi til að skila lyklunum.

Vorum komin hingað í Njarðvíkina um sex leitið. Það er stundum þannig með eldra fólk að þreytan kemur eftirá. Við reyndum það ekki sýst Ásgrímur. Það reyndi á hann að aka. Ég hefi ekki getað það síðan ég slasaðist í öxlinni. Þetta lagast smámsaman vona ég, En við erum Guði þakklát fyrir varðveislu og ánægð með túrinn öllum þakklát sem juku ánægju okkar í ferðinni en þetta er nú gott í bili.

 

Flettingar í dag: 29
Gestir í dag: 15
Flettingar í gær: 116
Gestir í gær: 47
Samtals flettingar: 77390
Samtals gestir: 16096
Tölur uppfærðar: 20.4.2024 05:55:06

Eldra efni

Tenglar