Þóra Guðrún Pálsdóttir

21.02.2010 23:03

Sláttur

                                                     Sláttur hefst

Þegar tún voru nægilega sprottin hófst sláttur. Þegar túnaslætti lauk var farið í hraunamýrarnar. Mér þóttu þær ekki skemmtilegt engi. Þær voru mosakenndar og þýfðar og í þeim voru rauðaleirskeldur. Í þessu heyji voru stundum grasmaðkar og líka í túninu heima. Mér fundust þeir alltaf viðbjóðslegir svona bleikir og berir á kviðnum ef þeir lágu á bakinu en ef þeir sneru bakinu upp þá voru þeir nú fallegri, dökkgrænir með gulum langröndum. Ef þeim varð eitthvað hvert við, hringuðu þeir sig í snatri. Það var þeirra fasta viðbragð ef hrífutindar rákust í þá eða álíka. Hvað þeir voru betur settir með þessa hringlegu vissi ég ekki. Þeir héldu því fyrir sig. Þeir voru ekki rándýr eins og sagt er um margfætlur í Íslenskri Alfræði orðabók bl.s.469, að þær séu flokkur liðdýra með um 2500 tegundir. ..Á Íslandi lifi fimm tegundir. Þær duttu stundum niður í  rúm til okkar þegar ég var háttuð. Baðstofan var með torfþaki en samt þiljuð að innan og einhvern vegin  álpaðist ein og ein af þessum rauðbrúnu íslensku margfætlum í gegnum einhverja rifu innan í súðinni og skelfingu lostin hrapaði hún og hafnaði í tilreiddu rúmi, sem ég var lögst fyrir í. Lagði snarlega á flótta og bar hratt yfir á sínum mörgu fótum. Það gerðist ekki á hverju kvöldi en einstöku sinnum. Mér þóttu þær ekki girnilegar hjásvæfur. Grasmaðkarnir gerðu ekki svona innrásir í einkalíf fólks. Þeir átu bara jurtir og grænmeti en drápu sér ekki til matar.Gátu að vísu stórskemmt tún ef mergðin var mikil.                                                                                                                                                                               

Eins og áður sagði leiddist mér að heyja í þessum mýrum. Skemmtilegt var þó að sitja undir einhverju hrauninu, sem nóg var af, og borða nestið. Flest hétu hraunin einhverju nafni. Mér fannst nú ekki gamanið við sláttinn hefjast fyrir alvöru fyrr en farið var á engjar austur í Dæld.  Þangað var farið ríðandi.  Það engi liggur austur undir Hornafjarðarfljótum.  Mætti þó frekar segja að það liggi austur í fljótum, því fara verður yfir ála úr þeim austur þangað. Slægjurnar í Dældinni voru hólfaðar sundur og tiltekið hverjum jarðarparti hver skák eða bakki tilheyrði. Sama bakkanum gat verið skipt í þrennt. Ég ímynda mér að það hafi verið til þess að allir gætu verið ánægðir og enginn þyrfti að kvarta yfir að hann fengi aðeins elftingu í sinn hlut, meðan annar fengi góða sneið af valllendisbakka með fjölbreyttari gróðri og sumstaðar var um stargresi að ræða. Okkur tilheyrðu Rofhólmarnir tveir og Rofabakki. Svo var Stínubakki , Austurbakki. Langhólmi og Tjarnarhólmi sem Guðnýju tilheyrði. Skákarnar skiptust á milli fleiri notenda. Lækjalandskíllinn aðskildi Holtasels og Rauðabergsengjar. Einn hólminn var svo frátekinn fyrir hrossin til beitar.Þá var farið með þau þangað og komið á einu þeirra til baka og það hælt í slægjunni til kvölds. Þá farið á því aftur yfir álinn eða Flóann til að sækja hin svo við gætum farið á þeim heim.

 

 Merkikelda var rot, sem aðskildi Viðborðs og Rauðabergsengjar.  Ekki efa ég að þetta hafi verið stórvitrir menn og réttlátir, sem mældu þessar skákir út í byrjun. Ég trúi að þeir hafi verið vel  meðvitaðir um mannlegt eðlisfar og smámunasemi. Sá gerningur hefur eflaust verið gerður mörgum kynslóum áður en ég sá ljós þessa heims og þó. Fljótin hafa nú efalaust oft verið að breyta sér og þá flætt yfir ný svæði. Ég hefi heyrt að Fljótin hafi breytt þessu svæði mikið eftir að við fluttum burtu.

Það mun hafa tíðkast að sjávar og fjallajarðir skiptust á hlunnindum. Sjávarjarðir fengju beit í fjöllum fyrir sauðfé og fjörureki kæmi í staðinn frá þeim sem ættu land að sjó. Þannig gat verið að Holtabændur fengju að reka fé í Rauðabergsfjöll og látið eftir slægjur í Dældinni í staðinn en hún var í Holtalandi.  Þó er ég ekki alveg viss hvernig þessu var háttað en hitt veit ég að Holtamenn komu í göngurnar á haustin Fyrst þegar ég man eftir var heyið flutt á reiðingshestum.  Við áttum aldrei marga hesta. Ástæðan var, að þeir átu hey og heyið var betur ávaxtað með því að fóðra á því sauðfé heldur en hross. Ullin og lömbin voru nú lengi vel það eina sem hægt var að nota til vöruskipta.

Ég heyrði hvergi að hross væru höfð á útigangi þar sem ég ólst upp. Okkar hestar voru oftast fjórir og eitt trippi í uppvexti. Fyrst er ég man, var heyið flutt á reiðingshestum austan úr Dæld og einu sinni er ég var lítil var ég sett á milli bagga á reiðinginn á Bleik, aftan við klyfberann Gráni var næstur í röðinni og taumurinn á honum var festur í klyfberann á Bleik. Þegar komið var upp á mýrina fyrir ofan Melsenda kippti Gráni svo skarplega að gjörðin eða gjarðirnar á Bleik slitnuðu og    klyfberinn, baggarnir og stelpan hrukku út í mýri. Ég mun samt ekkert hafa meitt mig og Daníel bróðir, sem teymdi lestina, tjaslaði saman gjörð og kom böggum og stelpu aftur á sinn stað. Hann var ellefu árum eldri og hefur þá verið orðinn baggafær sem kallað var. Seinna var heyið flutt á tveimur heygrindum sem voru smíðaðar ofan á öxul milli kerruhjóla. Á þessum tveimur grindum var hægt að flytja tíu bagga eða fimm hesta í ferð.

Það var ekki hægt að fara með grindurnar hina venjulegu leið  niður úr Hraunum og yfir Flóann. Fann bróðir minn þá aðra leið sem var að vísu helmingi lengri. Sú leið lá út á Flóðtanga og svo langleiðina sömu leið og Holtaselsmenn fóru austan úr Lækjalandi. Hægt var að fara með tómu kerrurnar til baka hina venjulegu leið.

Flettingar í dag: 91
Gestir í dag: 6
Flettingar í gær: 145
Gestir í gær: 17
Samtals flettingar: 75283
Samtals gestir: 15469
Tölur uppfærðar: 29.3.2024 16:54:50

Eldra efni

Tenglar