Þóra Guðrún Pálsdóttir

01.06.2007 20:26

Búferlaflutningar

Búferlaflutningar fyrirhugaðir

Ég bið blogglesendur mína afsökunar á þessum ódugnaði mínum að halda uppi sambandi til að segja einhver tíðindi. Ég ætla nú að byrja á upphafinu að tíðindum

Þannig var að Ásgrímur hafði búið hér um tvö ár þegar ég flutti suður og við giftum okkur. Hann hafði keypt neðri hæð í húsi og eldri hjón áttu efri hæðina og bjuggu uppi. Það hafði nú komið til tals hjá okkur hjónum að kaupa annað húsnæði því mig hafði langað að búa heldur á efri hæð eða uppí brekku þar sem eitthvert útsýni væri. Ég hafði nú lengst minnar ævi búið við svo fallegt útsýni bæði í Hornafirði, á Lágafelli, í Efstasundi í Reykjavík og svo í mörg ár á Akureyri    Það er nú ekkert sjálfsagður hlutur því margir eiga ekki kost á meiru en að horfa í næsta vegg eða rúmlega það.

Þegar þau hjón hér í á efri hæðinni fréttu af þessum háleitu draumum frúarinnar á neðri hæðinni leist þeim ekki á. Ásgrímur var búinn að koma sér svo rækilega innundir hjá þeim á þeim tveimur árum eða þar um, sem hann hafði búið á neðri hæðinni að nú vildu þau ekki þurfa að sjá honum á bak, vitandi ekkert hvað við tæki og fengu hann til að lofa sér einhverju í þessum efnum að því er mér skilst með því að leggja saman tvo og tvo. Ásgrímur er nú svo fram úr hófi bóngóður maður og sagði mér að hann gæti ekki yfirgefið Ólaf. Ég heyrði á öllu að þeim hefði fallið vel saman. Mér sýndust nú þá,ekki miklar líkur á að við færum nokkurn tíma úr þessu húsi þar sem mér fannst nú enn síður viðeigandi að skilja ekkjuna eina eftir ef Ólafur dæi á undan, sem mestar líkur voru til, þar sem aldursmunur þeirra var svo mikill. Hann var fæddur 1915.

Hvað um það, okkur hefur öllum fallið vel hverju við annað þessi meira en 8 ár, sem við gengum inn og út um sömu dyr eftir að ég kom. Þar kom að lokum að heilsu Ólafs hafði hrakað svo mjög að hann var ýmist heima eða á sjúkrahúsinu og stiginn upp á loftið var orðinn honum algert ofurefli. Þau ákváðu þá að leita sér að húsnæði á jarðhæð, vildu eiga sitt húsnæði en ekki fara í kaupleigu að sinni. Þau fundu sér því íbúð á jarðhæð í tveggja hæða fjölbýlishúsi, sem verið var að byggja í Innri Njarðvík, skammt þar frá sem við ásamt þeim, höfðum áður ræktað kartöflur á til heimilisnota, í þessu blessaða Nýfundnalandi Njarðvíkinga til að raða niður nýbyggingum á.

Ólafur blessaður náði því nú ekki að flytja í hið fyrirhugaða hús því hann lést 7.febrúar 2007.

Ég fékk nú meiri áhuga en áður að lesa húsnæðis auglýsingar í dagblöðunum og athuga um verðið. Þá kom nú að því að Nesbyggð, byggingarfélagið sem byggði fyrir sambýlisfólk okkar, auglýsti sölusýningu hjá sér. Fórum við þangað hjónin og leist vel á íbúðina sem sýningin fór fram í og að auki var hún uppi á hæð. Hún var óþarflega stór fyrir okkur og svo var enginn bílskúr. Ég kærði mig alls ekki um stærri íbúð en við höfum um 80 ferm en fannst alveg nauðsýnlegt að húsbóndinn fengi bílskúr og í honum afdrep eins og áður fyrir verkfæri sín, því stundum hefur hann nú þurft að dytta að einhverjum hlutum fyrir sjálfan sig, kirkjuna og aðra. Þar sem okkur hentaði ekki, það sem þarna varð séð, ætluðum við að fara en sölustjórinn gafst ekki upp.

Hann vildi nú fara með okkur niður í dalina en ég sagði það óþarfa. Ég vildi ekki fara niður í þessa holu en fann á eftir að þetta var óvirðing að segja svona. Ég átti heldur að segja að mér líkaði ekki að lenda í lægðinni. Þetta er engin smáspilda, allir dalirnir sem búið er að kortleggja byggð á. Svona bjartsýni á skilið fulla virðingu. Líka hafði mér verið sagt á fasteignasölu að þarna ættu bara vera lágar byggingar, engar háar blokkir. Fasteignasalin fór með okkur lóð af lóð sem hann ætlaði að byggja á og landslagið fór smáhækkandi. Á það benti hann ef verða mætti frúnni til freistingar að komast fáeinum fetum hærra yfir sjávarmálið. Þaðan sást nú reyndar til bílanna fara um Reykjanesbrautina. Við fórum svo heim bæði með löngun eftir að eignast heldur íbúð á hæðinni. En okkur virtist sem þessi eini maður legði sig fram við að byggja litlar íbúðir sem mögulegt væri að fá bílskúr með. Þær eru líka með sérinngangi. En það skal viðurkennt að við höfum ekki skoðað handaverk allra húsbyggenda á svæðinu.

Við gátum þó fengið eina hjá þessum sölumanni í Engjadal 4, af réttri stærð og með bílskúr undir. Hún átti að vera tilbúin 1.september. Mér fannst það dálítið sérstakt að maðurinn sagði okkur að sú íbúð hefði alltaf selst fyrst í húsunum en nú var hún ein eftir og með bílskúr. Hún var í enda, að vísu óbyggð aðeins búið að steypa skrokk neðri hæðar. Nú var annaðhvort að hrökkva eða stökkva og við ákváðum að vísu ekki þá strax en nokkru seinna að stökkva og höfnuðum þar með í næsta húsi við sambýliskonu okkar úr Hringbraut 80. Við höfum nú selt en fáum að vera hér áfram til fyrsta september.

Flettingar í dag: 34
Gestir í dag: 18
Flettingar í gær: 321
Gestir í gær: 15
Samtals flettingar: 77179
Samtals gestir: 16024
Tölur uppfærðar: 18.4.2024 15:33:56

Eldra efni

Tenglar