Þóra Guðrún Pálsdóttir

23.02.2012 21:55

Til Siglufjarðar

                                       Siglufjörður

 

Daginn eftir jarðarför Irene fórum við til Siglufjarðar. Ásgrím langaði auðvitað að skreppa þangað og var búinn að hugsa sér að taka bílaleigubíl en vinur hans bauðst til að fara með hann og var ég ákaflega fegin því. Fyrir mér var nú spursmál um gott veður og færi. Ég ákvað að fara líka þótt við værum hjá dóttur minni sem ég sé ekki mjög oft. Ferðin gekk mjög vel en mikill var nú snjórinn á Siglufirði og verið að ryðja götur um kvöldið. Fyrst fórum við á sjúkrahúsið að hitta Elínu sem orðin er háöldruð og Ásgrímur búinn að þekkja lengi. Viðdvölin á sjúkrahúsinu varð nú ekki löng því við fórum að hitta vinafólk okkar á eftir. Urðum að haga því ferðalagi eftir hvaða götur væri búið að ryðja. Við höfðum ekki setið lengi á þeim áningarstað þegar þurfti að færa bílinn svo ítan gæti athafnað sig í götunni. Það styttist svo í að við legðum af stað til baka.

 

Ferðin gekk nú vel til að byrja með en ekki leið á löngu þar til bíllin fór að andvarpa og endaði fljótlega með hjartastoppi, svona eins og gerist stundum hjá bílum. Bílstjóranum tókst að hnoða honum í gang og það entist nokkra metra, misjafnlega marga í hvert skipti. Það var eingöngu fyrir óþreytandi og nær óteljandi uppvakningar tilraunir Bílstjórans, að við að lokum náðum til Ólafsfjarðar og lögðum  bílnum þar við bílaverkstæði, stórlega fegin að vera þó þangað komin og setja ekki eftir á óheppilegri stað, eins og inni í göngum. Það var náttúrlega enga þjónustu að fá svo seint að kvöldi á verkstæðinu. Þá var um það að ræða að fá einhvern bíleiganda frá Akureyri til að sækja okkur. Ásgrímur talaði við vin sinn á Akureyri, sem reyndist fús til að vinna miskunnarverkið með því að koma og sækja okkur. Segja mátti að þessum degi lyki nú vel, að því leyti, að við gátum sofið um nóttina í góðu rúmi og öruggum  kringumstæðum.

 

 Morguninn eftir, sem var laugardagur, ók dóttir mín okkur út á flugvöll og gekk sú flugferð samkvæmt áætlun. Bíllin beið okkar þar sem við höfðum skilið við hann við flugvöllinn. Það er alltaf samkoma hjá okkur í Keflavík kl.11 á sunnudögum. Morguninn eftir fannst okkur við vera orðin svo mikil gamalmenni, svo við héldum áfram að sofa ögn enn, blunda ögn enn, eins og segir á einum stað í Biblíunni og þar er það talið hafa válegar afleiðingar, en þar er nú víst átt við, ef það væri gert að reglu. Svo kom nú mánudagurinn og þá styttist í næstu jarðarför.

                                   

 

 Þriðjudaginn 10 janúar átti að jarða Jón Arndal Stefánsson bróður Ásgríms. Hann fæddist í Reykjavík 7, desember 1920 en andaðist 26. desember 2011.  Jarðaförin fór fram frá Dómkirkjunni að viðstöddu fjölmenni. Veðrið var nú ekki sérlega gott um morguninn hér í Keflavík, næstum því blindbylur.  Kristinn sonur Ásgríms og kona hans ætluðu líka að fara og  við fengum að vera með þeim svo það var nú gott, þar sem þeirra bíll er stærri og stæði betur í storminum.

Auðvitað hefur Guðs varðveisla mest að segja við slíkar kringumstæður.

 

Ekki var nú hægt að aka hratt til að byrja með, vegna þess að skyggni var svo lítið, allt þar til komið var inn fyrir Kúagerði. Eftir það var sæmilegra veður til Reykjavíkur. Við komum auðvitað allt of snemma en það gerðu fleiri. Betra að ætla sér nógan tíma eins og veðrið var um morguninn. Hægt að dvelja við minningar frá liðnum samverustundum, þegar við litum inn til þeirra hjóna, Jóns og Auðar í Reykjavík er við vorum þar á ferð. Jón ólst up á Siglufirði og Akureyri  og gekk þar í Barnaskóla. Stundaði nám einn vetur í Iðnskólanum á Akureyri, Þar eftir í Bændaskólanum á Hvanneyri. Það var 1947 að hann braust í að komast til Bandaríkjanna, til Tulsa Oklahoma til að læra flugvirkjun og réðst eftir það, til Flugfélags Ísland og sinnti þar hinum margvíslegustu störfum til 1990.

 

 Það er víst óhætt að segja að þau hjón hafi lagt ást á Norðurlandið sérstaklega  Hrísey því þar hafa þau lengst af dvalið á sumrin hin síðari ár. Við höfum oftar en einu sinni heimsótt þau í Hrísey. Þar áttu þau hús og gátu boðið gestum sínum gistingu, sem við höfum þegið. Þeim virtist hvergi líða betur en í eyjunni sinni. Ótrúlegt hve Jón náði sér eftir áfall sem hann varð fyrir svo að hann þurfti að læra málið upp á nýtt. Það leyndi sér ekki að þar fór viljafastur maður og mér fannst það undravert að sjá hann geta ekið traktornum um eyjuna sína. En svo kom kallið er hann var heim kominn úr síðasta sumarleyfinu.

 Alltaf var jafn indælt að  koma til þeirra. Ekki varð þeim hjónum barna auðið en ólu upp fjögur fósturbörn. Sem betur fór eignuðust þau á þann hátt fjölskyldu, sem mun láta  sér annt um Auði í ekkjudómi hennar. Eftir athöfnina í kirkjunni var erfidrykkja á Flughótelinu. Veðrið mátti heita þokkalegt og okkur gekk vel heim.

Flettingar í dag: 60
Gestir í dag: 28
Flettingar í gær: 116
Gestir í gær: 47
Samtals flettingar: 77421
Samtals gestir: 16109
Tölur uppfærðar: 20.4.2024 09:35:11

Eldra efni

Tenglar