Þóra Guðrún Pálsdóttir

18.10.2006 20:32

Að kaupa nýja skó

Alveg er það nú merkilegt að af öllum þessu auglýsingum sem inn um bréfalúguna streyma eins og stórstraumsflóð, skuli maður hafa hitt á eina sem kemur manni að gagni. Það skeði þó nýlega hjá mér. Intersport í Smáralind í Kópavogi var að auglýsa skó á niðursettu verði. Ég hafði átt hvíta skó reimaða sem ég var búin að nota sem inniskó stöðugt í nærri sex ár hér á suðurlandi og ég man ekki hvað lengi á norðurlandi. Nú var komið gat á leðrið á öðrum skónum og því mál að endurnýja. Ég hafði leitað hér í Keflavík en enga fundið sem hentuðu. Nú sá ég í bæklingi mynd af hvítum skóm sem seljast áttu á 3990 á niðursettu verði. Þetta fannst mér mjög hóflegt verð og langaði að fara á staðinn. Eiginmaðurinn var fús að vera minn einkabílstjóri.

Við ætluðum að fara víðar og ég er ekki sérlega snjöll að rata í Reykjavík. Reyndar finnst mér Reykjanesbrautin leiðinleg líka síðan þeir hófu framkvæmdir við hana aftur, full af hraðatakmörkunum, sveigjum og beygjum og gulum strikum útaf vegavinnuframkvæmdunum. Mér fannst hún svo býsna þægileg meðan hún var bara hrein og bein tveggja akreina braut. Það eru nú víst fáir sem vildu hverfa aftur til þess tíma. Þetta verður sjálfsagt gott þegar framkvæmdum líkur. Alltaf mun samt stafa hætta af þeim sem sýnast leggja allt undir til þess að ná háttum á grafarbakka.

Fyrst var nú á dagskrá hjá okkur að koma við á Sólvangi í Hafnarfirði til að heimsækja gamla vinkonu mína,Rögnu Benediktsdóttir, sem þar er búin að dvelja í mörg ár en þar áður á elliheimilinu Grund í Reykjavík.

Við erum fæddar í sömu sveit og ekki meira en hálftíma gangur á milli heimila okkar.

Þegar bróðir minn Daníel var tekinn við búi heima hjá foreldrum mínum þá fór hann að byggja á jörðinni. Þá mun það enn hafa verið siður í sveitinni að nágrannarnir kæmu og tækju þátt í verkinu með þeim sem var að byggja, því ekki var hægt fyrir einn að steypa upp hússkrokkinn. Þegar allt efni hafði verið flutt heim á hestakerrum, timbur, sement ,sandur og möl og búið að slá upp mótum, þá var komið að því að hóa saman mönnum. Steypan var hrærð í tunnu sem sett hafði verið upp í statíf og síðan snúið með því að maður steig hana í hring. Þegar steypan var fullhrærð var hellt úr tunnunni á pall og mokað í skjólur sem voru handlangaðar upp til þeirra sem helltu steypunni í mótin.

Þá man ég, að ég var oft send niður að Seli til að biðja um mannhjálp en þar bjuggu foreldrar Rögnu. Satt að segja voru mér, sem barni, slíkar betliferðir lítt að skapi en bót í máli að alltaf var pabbi hennar fús til að svara kallinu og senda minnst annan sona sinna. En öðruvísi var ekki hægt að hafa þetta. Það voru flestir, ekki allir, nágrannarnir búnir að koma sér upp steinhúsi, svo ekki yrði hægt að endurgjalda þeim í sömu mynd. Þeir fengu víst ekki annað en matinn meðan á verkinu stóð. Eiginlega finnst mér ég skulda þessari fjölskyldu það frá þessum dögum að heimsækja Rögnu en fer því miður alltof sjaldan. Hún er aðeins eldri en ég en er búin að vera sjúklingur og öryrki síðan hún fékk kíghóstann þriggja ára gömul. Uppúr honum fékk hún flogaveiki sem varð viðvarandi og á seinni árum er hún búin að brotna margsinnis og líka vera skorin upp.

Hún er nú í hjólastól. Þegar ég ber líf okkar saman dettur mér oft í hug að um mig má segja: ,,Þú hlaust þín gæði meðan þú lifðir en Ragna á sama hátt sitt böl." Mun þetta verða einhvern tíma jafnað? Hún sagðist vona að það yrði tekið á móti sér er hún yfirgæfi þennan heim og ekki efa ég það. Hún ber svo einlægt traust til frelsara síns. Hún fór með sálminn ,,Ég kveiki á kertum mínum við krossins helga tré." fyrir okkur og virtist alveg ná því að fara með öll versin í réttri röð með veikburða rödd en vissu öryggi samt. Ég man aldrei eftir að hafa tárast fyrr undir predikun eða andlegu ávarpi en undir upplestri þessa veikbyggða þjáninga barns, þar sem andlegi krafturinn yfirskyggði veikleika líkamans gat ég ekki varist tárum. Ég skildi að þetta var arfurinn sem hún hlaut í veganesti úr foreldrahúsum og hafði með sér út í líf þjáninga og fárra tækifæra. Sæl eru þau börn sem hljóta slíkt veganesti. Meðan ég enn var ung að árum heima í sveitinni hafði ég heyrt að Björg systir hennar hefði kunnað 50 sálma þegar hún gekk til prestsins fyrir fermingu sína. Ég er líka viss um að Ragna kunni fleiri en þennan eina sem hún fór með fyrir okkur.

Jæja, við héldum nú af stað þaðan og komumst heilu og höldnu inn í Kópavog og í verslunina. Það voru ekki mörg pör eftir af þessum fyrirhuguðu skóm. Ég þarf eftir skógerðum ýmist 39 eða 40. Í þessu tilfelli þurfti ég nr.40 til þess að nógu rúmt væri um fótinn og viti menn, eitt par eftir af þeirri stærð. Sannarlega voru þeir mér ætlaðir og ég var ánægð með þá. Þar eftir héldum við inn í Reykjavík að heilsa upp á systur Ásgríms og mann hennar og vorum þar vel móttekin. Þá var erindum lokið og aðeins eftir að koma sér heim.

Flettingar í dag: 56
Gestir í dag: 3
Flettingar í gær: 145
Gestir í gær: 17
Samtals flettingar: 75248
Samtals gestir: 15466
Tölur uppfærðar: 29.3.2024 12:07:40

Eldra efni

Tenglar