Þóra Guðrún Pálsdóttir

31.07.2006 12:17

Ferðalag norður

Þann 19 júní kom dóttursonur minn Sigurd að nafni, frá Noregi, í heimsókn. Hann er orðin 12 ára gamall og var einn á ferðinni núna og í fyrra líka. Honum finnst svo gaman á Íslandi, aðallega á Akureyri því að dóttir mín sem þar býr á son á líku reki og þeim fellur svo vel saman. Hann var nú einmitt á leið þangað og þar sem hann átti pantað flug norður daginn eftir, þá ókum við honum þann dag inná Reykjavíkur flugvöll. Við vorum tímanlega á ferðinni eins og mér finnst alltaf best. Drengurinn byrjaði á að sýna skilríki sín þegar á völlinn kom. Mamma hans hafði borgað fyrir hann fram og til baka til og frá Íslandi, líka norður og suður, svo að þetta gekk nú allt fljótt. Eftir það settumst við í sæti við gluggann og biðum. Þangað komu líka konur tvær og í ljós kom að önnur þeirra hafði átt heima í næstu götu þegar ég átti heima á Akureyri. Hún fór strax að hæla tengdasyni mínum, hafði eitthvað .þurft til hans að leita sem læknis og dásamaði hann mikillega sem góðan mann. ,,Mér finnst það líka". Sagði ég bara. Svo var nú kallað út í vélina og allir þustu upp og einnig ég. Einhvernvegin fannst mér ég ætti bara að fylgja drengnum út fyrir dyrnar til að kveðja hann þar. Flugvéin var þar skammt fyrir utan, því þegar komið er úr asanum á Keflavíkur velli í rólegheitin á Reykjavíkurflugvelli er eins og maður sé komin út í sveit þar sem stigið var út fyrir dyrnar og gesturinn kvaddur á hlaðinu. Stúlkan sem stóð við dyrnar og tók á móti ferðaspjöldum farþeganna stoppaði mig í því, að fara að taka upp kveðjusiði forfeðra minna í sveitinni og hleypti mér ekki út á hlaðið, svo ég sneri þá aftur til baka og komst úr fortíðinni inn í nútíðina. Héldum við svo aftur á leið heim með viðkomu hjá mágkonu minni í Kópavogi.

Það var svo þann 25. Á sunnudegi í sama mánuði, að næstu gestir komu frá útlöndum. Í það sinn voru það sonur minn úr Danmörku og konan hans hún Birta sem er dönsk. Vinur hans íslenskur, hafði boðið þeim í hestaferðalag á norðurlandi. Þau gátu aðeins sofið eina nótt hjá okkur því þau þurftu að komast norður daginn eftir. Þau höfðu verið að hugsa um að taka sér bílaleigubíl en af því ég átti hálft um hálft erindi norður líka, fannst mér tilvalið að þau fengju okkar bíl lánaðan og ég fengi að fljóta með þeim. Ásgrímur ætlaði að fara annað og ég vissi að hann gat farið með vini sínum þangað svo hann þurfti ekki bílinn. Svo ég fór með þeim daginn eftir í góðu veðri en sólarlitlu sem er betra ferðaveður í bíl heldur en sterkt sólskin. Það var ánægjulegt að koma að Vinaminni og sjá hvað garðurinn þeirra er orðinn fallegur og allt á uppleið innan og utanhúss. Við gistum svo öll þrjú í Stekkjargerði en Sigurd frá Noregi var þar fyrir.

Ég fékk náttstað í herbergi sem dóttir mín notar fyrir vinnuherbergi og kettirnir nota til samvista við hana og hvíla sig í rúminu. Þau heita Birta og Máni. Þetta eru Síamskettir. Birta kom fyrst á heimilið og mér fannst hún ógn mjó og rengluleg í vexti sem unglingur, ekki nærri eins falleg og íslensku kettirnir. Svo óx hún nú uppúr þessu unglingsgervi og varð þolanleg. Hún hafði strax fallegan haus og skírlegt upplit. Svo var nú annar kettlingur fenginn, sjálfsagt til að vera Birtu til skemmtunar þegar heimilisfólkið væri við nám og störf sín utanhúss en hann var og er daufeygður. Samt voru augu hans alls ekki lítil, bara svona þokuleg og sljóleg. Mér hafði ekki fyrr verið ljóst hvað í þeim orðum fólst sem sögð eru um Leu í Biblíunni. Hún var sögð daufeygð. Ég hafði ekki getað séð hvaða óskaplegur útlitsgalli það væri, sem nægði til þess að hún væri alla tíð fyrirlitin af eiginmanninu, fyrst hún var ekki sögð blind. Hún gat líka eignast fullt af börnum sem þótti nú mikill kostur þá. Þegar ég sá Mána þá laukst upp fyrir mér að það er mikill útlitsgalli að vera daufeygður. Ég var ekkert viss um að hann hefði fulla greind eða fulla sjón en mér var sagt að hann hefði sjón. Ég held að eigendur Mána hafi alveg eins mikið uppáhald á honum eins og Birtu og það þurfi alls ekki að kaupa þau með einhverju nammi til að vera góð við hann eins og aumingja Lea þurfti með sinn eiganda. Tengdasonur minn hefur veg kattarins upp með því að segja "Hann er góður við alla." Ég held honum finnist kötturinn eigi skilið meiri virðingu en ég hefi í té látið.

Auðvitað er engin kurteisi að vera að hafa orð á, þótt maður sjái einhver lýti á dýrum þess fólks sem maður dvelur hjá sem gestur. Ég verð að játa að Máni er góður við mig, því hann vill gjarnan lofa mér að deila rúmi með sér. Birta kemur ekki nálægt meðan ég bý í herberginu. Hún er það sem mamma mín kallaði "tyrtuleg" um mig, þegar ég var krakki og var ekki nógu huppleg við ókunnugt fólk Orðabókin gefur þá skýringu meðal annarra um orðið tyrtuleg, að það sé skepna sem vill ekki aðhyllast menn. Við kynningu kemur í ljós að Mána er ýmislegt gefið fram yfir það að vera þægilegur í umgengni við náunga sína. Ég hefi oft séð kött opna hurð með loppunni sé hurðin ekki alveg að stöfum svo að hann kemur klónni á milli en ég hefi ekki heyrt áður um kött sem stökkvi upp á hurðarhúninn til þess að opna eins og maður opnar hurð. Það gerir Máni. Þetta tekst stundum og stundum ekki en nógu oft til þess, að hann leggur ekki árar í bát. Einn daginn sá ég það til hans að honum var efst í huga að stökkva út um gluggann á herberginu okkar og niður á hellulagða stéttina þar sem garðstólarnir og borðið eru. Þetta fannst mér nú býsna djarft því þetta er meira en einnar hæðar hús þótt kjallarinn sé nálægt meter í jörð, en þetta vex honum ekki í augum þegar engir aukahlutir eru á stéttinni sem hamla för. Ég furða mig á því að hann skuli ekki heldur fara gegnum stofuna og út úr henni er stigi niður á stéttina. Honum finnst ef til vill galli við þá leið, að þurfa að fara gegnum tvennar dyr, sem eru ýmist opnar eða lokaðar svo þetta sé einfaldara að láta sig bara dúndra niður á stéttina. Ég held þau séu búin að sanna það þessi kattahjú að þau séu ekki neinir sérstakir innikettir svo sem mér skildist þau ættu að vera þegar þau voru keypt.

Flettingar í dag: 15
Gestir í dag: 10
Flettingar í gær: 74
Gestir í gær: 17
Samtals flettingar: 77797
Samtals gestir: 16183
Tölur uppfærðar: 23.4.2024 10:14:11

Eldra efni

Tenglar