Þóra Guðrún Pálsdóttir |
|
16.03.2009 00:46Mars.Mars15.3.2009 Skrifað af Þóru Pálsdóttur 27.02.2009 21:45ALFAAlfahelgi
Margar kirkjur hér á landi hafa notfært sér Alfanámskeiðin í kirkjustarfinu. Hvítasunnukirkjan í Keflavík er núna með eitt slíkt námskeið í gangi. Venja er á slíku námskeiði að fara eina helgi burt úr bænum til dvalar á einhverjum rólegum stað. Við sem vorum þátttakendur lögðum af stað frá kirkjunni kl. 15 mínútur yfir sjö á föstudagskvöld þegar við höfðum borðað kvöldmat. Farð var á einkabílum, en þegar við hjónin komum að kirkjunni á tilsettum tíma voru þeir síðustu, svo að segja, að renna úr hlaði. Segið svo að Íslendingar geti ekki verið stundvísir.
Við þurftum ekki að taka neinn farþega og fórum bara tvö í okkar bíl og ókum sem leið liggur inn í Hafnarfjörð, gegnum hann og upp hjá Vífilsstöðum, fram með Vífilsstaðavatni og uppá einhverja hæð, svo fram með hesthúsum og þar eftir inn í nýlega íbúðabyggð. Þetta höfum við oft farið en nú var komið myrkur og naut ekki lengur eðlilegrar birtu heldur aðeins þeirra ljósa sem menn hafa skapað og geta aðeins rofið ríki myrkursins að takmörkuðu leyti. Það var líka að auki mikil þoka og rigning.
Þegar búið er að fara með mig nokkra hringi og beygjur við slíkar aðstæður missi ég allt áttaskin og á allt undir ratvísi mannsins míns hvort ég komist nokkru sinni á leiðarenda. Hann hafði oft farið part af leiðinni áður en aðeins einu sinni alla leið, þangað sem ferðinni er heitið. Áfangastaðurinn heitir Kríunes og stendur nálægt Elliðavatni. Eitthvað fór hann nú afvega þegar hann var rétt að ná markinu. Við okkur blasti skilti sem á stóð Kríu. Það gæti verið þáttur í ratleik ef fólk væri hugmyndaríkt og mætti verðlauna. Það hafði nú ekkert verið minnst á neinn ratleik áður en við lögðum af stað. svo hann var nú ekkert að láta Þetta brotna skilti trufla sig. Hann hélt bara áfram og lendum þá í því að menn koma á hestum einn og einn með hund með sér. Þá ákveður minn maður að snúa til baka. Við erum nú ekki aldeilis að fara að gista í hesthúsi. Nú þurftum við að komast í nágrenni við skiltið aftur. Ekki vildi Ásgrímur samt treysta alveg á þennan gátufulla vegvísi. Hann fór heim að einu húsi, það er fullt af þeim hér allt í kring, og spurði þar til vegar.
Við vorum þá skammt frá hótelinu og blessunarlega nær komin á áfangastað. Þar fengum við að vita að fleiri hefðu átt í erfiðleikum með að finna slotið. Við höfðum þarna kvöldvöku á tilskyldum tíma og þar eftir var gengið til rekkju. Við hjónin fengum rosasvítu með stóru rúmi sem minnti mig á rúm sem ég trúi að ég hafi séð á einhverri sýningu út í Danmörku og þar titlað sem drottningarrúm. Nafn hennar er gleymt. Ég trúi nú ekki að þetta hafi verið það sama rúm en eflaust einhver merkismannshvíla.
Það var með fjórum sterkum stólpum sem tengdir voru saman upp undir lofti. Hin önnur húsgögn virtust einnig til aldurs komin og til þess fallin að bera virðingu fyrir. Þessu fylgdi stærðarinnar nuddpottur, ætlaður tveimur í einu sýndist mér. Það komu menn að kenna okkur á pottinn en mér sýndist hann mundi vera fær um meira en okkur var sýnt. Ég hefði aldrei þorað að hætta á að skrúfa frá skökkum krana á svo tæknivæddum potti en Ásgrímur er óhræddari við að fikta í hlutum eins og karlmenn eru. Hann fór í sturtu og naut alls viðurgernings þarna alveg í botn og gladdist eins og barn yfir útsýninu frá slotinu.
Við fengum rúmgóðan sal fyrir samkomurnar. Þarna voru yfir tuttugu manns samankomin. Það höfðu ekki allir getað komið austur, sem voru á Alfa. Næsta dag áttum við að mæta í morgunmat kl. 9. Svo tók lofgerðarstundin við í hálftíma og kennslan þar á eftir. Hún stóð með matarhléum yfir laugardaginn allt til kvölds, að einum tíma undanskyldum. Hátíðarkvöldverður var kl.7. Þar eftir kvöldvaka og tjáning. Þetta var góð samvera, sem gott verður að minnast fyrir þá, sem hafa óskert minni. Vonandi lekur nú ekki allt út hjá okkur þessum eldri heldur.
Tvær stúlkur sem ekki gátu komið á föstudagskvöld voru sóttar á laugardagsmorgun. Eftir morgunmat á sunnudaginn var haldið heim því ljúka átti samverunni með samkomu í Hvítasunnukirkjunni kl.11. Þegar við lögðum af stað heim í dagsbirtunni um morguninn, sá ég best, að það er varla ætlandi dauðlegum manni að rata allar þessar beygjur og króka í náttmyrkri. En allt fór vel. Guði séu þakkir fyrir góðar stundir.
Skrifað af Þóru Pálsdóttur 17.02.2009 19:09LeikfélagarVitneskja fengin um málvenju.
Það leið ekki á löngu eftir ég skrifaði síðasta pistil að ég hitti konu sem gat sagt mér hver málvenja væri um það, ef farið væri úr Innri-Njarðvík til Keflavíkur. Við fórum að heimsækja eldri konu, frænku mannsins míns. Hún hafði búið um margra ára skeið í Innri-Njarðvík. Hún sagði mér að það hefði heitið að fara út í Keflavík frá þeim. Þá veit ég það og ætla því aldrei að fara inní Keflavík aftur nema ef ég kæmi utan úr Garði. ________________
Ég geri ráð fyrir að yngra skyldfólkið mitt vilji helst heyra sögur úr sveitinni þegar ég var að alast upp, svo ég ætla að týna eitthvað til.
Leikfélagar.
Ég fæddist á Rauðabergi í Austur-Skaftafellssýslu og ólst þar upp. Ég var yngst þriggja systkina sem upp komust og ellefu árum yngri en bróðir minn sem var næstur mér. Hafði ég lítið af leikfélögum að segja, þeim er á tveimur fótum ganga. Hundurinn, kötturinn og kálfarnir urðu mínir leikfélagar. Þeirra greindastur og skemmtilegastur var hundurinn. Glói hét hann og var fæddur á Viðborði. Mjallhvítur var hann á belginn ofulítið hrokkinn, með greindarleg augu og lítið eitt lafandi eyru, sem gáfu honum mildan svip, af því að þau stóðu ekki beint upp. Þetta var nú kátur hvolpur og við lékum okkur og ærsluðumst alla daga. Ég hafði band og hélt í annan endann en Glói tók í hinn og svo hófst reiptogið og veitti ýmsum betur, því honum jukust ört kraftar er hann stækkaði. Ég held að við höfum orðið álíka sterk á tímabyli.
Glói urraði og rykkti í reipið sitt til hverrar hliðar og við komumst bæði í vígamóð. Þannig stóðu leikar eitt sinn er Guðjón á Viðborði bar að garði. Þá lá bandið yfir vegg sem hafði verið hlaðinn kringum kálgarð og var Glói að reyna að draga mig yfir vegginn. Færðist hann allur í aukana er hann sá sinn sigur nálgast en Guðjón hvatti mig til að vera nú sterk og hefi ég þá efalaust tekið á því sem ég átti til. Ég hafði gaman af að henda ýmsum hlutum, sem ég vissi að mundu fljóta, í vatn og atti svo Glóa til að sækja þá sem hann oftast gerði og kom svo með þá sigri hrósandi og kátur. Seinna þegar bróðir minn skaut ýmsa sundfugla synti Glói eftir þeim og kom með þá til lands. Hann var líka mjög flinkur í boltaleik. Lét ég hann óspart iðka þá list að grípa hluti sem mér þóttu tiltækilegir. Stökk hann þá oft hátt í loft upp er hann tók á móti. Sá ljóður var á ráði hans að hann sóttist eftir að stela af fjárstofni mínum sem voru kindarhorn og ég geymdi í byrgi nálægt bænum. Bar hann þau út á víðan vang og nagaði. Þoldi ég honum það illa.
Glói hafði ekki sterka fætur. Þegar hann varð eldri þoldi hann illa fjallgöngurnar, lá þá á eftir og sleikti sína sáru gangþófa. Þegar hann gerðist gamall og ellimóður var ungur hvolpur fenginn á heimilið er taka skyldi við starfi hans, er hann væri orðinn til þess nýtur. Hann var hvítur og svartflekkóttur með uppreist eyru og hlaut nafnið Kári. Nú bar svo við þegar þessi unglingur var kominn á heimilið að hann varð hinum gamla og góða leikfélaga mínum hinn mesti þyrnir í augum. Aldrei vissi ég þó til að hann reyndi að bola honum burtu, en hann forðaðist hann og lét sem hann sæi hann ekki. Kári lét sem hann yrði ekki þykkjunnar var og vildi stöðugt reyna að leika sér við hann og liggja hjá honum á næturnar. Glói flúði þá sitt gamla bæli alveg og þegar Kári vildi fá hann í leik með sér stóð hann bara eins og staur, horfði út í bláinn og virtist sannarlega búa yfir mikilli sorg. Ef til vill speglaðist í augum hans sársauki þess, sem finnur að hann er af öðrum álitinn ófær um að gegna starfi sínu sem hann er þó búinn að stunda alla æfi.
Fór þessu nú fram um hríð en þó lauk því svo að léttlyndi og lífsglaði hvolpurinn vann hylli gamla hundsins Kári var alltaf tilbúinn að hlaupa fyrir kindur ef með þurfti og ég held bara að Glóa hafi fundist vænt um að hann tæki af sér ómakið og allt í einu sá ég að hann fór að sleikja af hvolpinum leirsletturnar þegar hann kom úr einni sendiferðinni. Eftir þetta fóru þeir að éta úr sama dalli, leika sér saman og sofa í sama bæli Vera alltaf saman nema þegar Kári þurfti, í þágu heimilisins, að hlaupa smásprett við skepnur. Glói var feginn að losna við snúningana. Hann tók því betur á móti þessum fóstursyni sínum þegar hann kom aftur og sleikti leirsletturnar af fótum hans. Það gerði hann oft. Kári virtist kunna því mjög vel enda sjálfur latur að þrífa sig. Allra daga koma kvöld og gamli leikfélaginn minn kvaddi sitt líf. Ég var ekki heima og vissi ekki neitt fyrr en ég kom aftur. Þá var búið að grafa hann. Það var í rauninni gott úr því sem vera varð. Skrifað af Þóru Pálsdóttur 01.02.2009 00:34Ótitlað8. janúar 09 2009-01.
Fimmtudaginn hinn 8. janúar 09 fórum við hjónakornin inn í Reykjavík. Ég ætti nú sjálfsagt að fullyrða, sem minnst um hvað sé inn og hvað sé út, hér á Suðurnesjum. Þegar við förum til Keflavíkur héðan úr Innri Njarðvík segi ég líka að ég sé að fara inn í Keflavík þótt það sé alveg í öfuga átt við Reykjavíkurleiðina. Mig vantar að finna einhvern gamalgróinn Innri Njarðvíking. Hann gæti sagt mér hver málvenjan væri hér.
Við ætluðum að vera við jarðarför konu sem við þekktum. Hún átti að vera kl. 1, frá bænhúsinu í Fossvogi. Við vorum svo snemma á ferðinni að við notuðum tímann á undan til að fara í heyrnar og talmeinastöð, því Ásgrímur er farinn að hugsa um að fá sér heyrnartæki. Þessi stöð er til húsa í sjálfstæðishúsinu og þegar þangað var komið var greinilega fundur þar, svo mikið var af bílum í kring. Þegar inn var komið sást inn í stóran sal fullan af fólki, mest karlmenn, með alvöruþrungin andlit eins og við á, á þessum tímum. Konurnar hafa ef til vill verið heima að þvo upp ílátin eftir hádegismatinn.
Heyrnarstöðin var á þriðju eða fjórðu hæð og þar þurftum við ekki að bíða lengi. Ásgrímur fékk viðtalstíma á þriðjudag í næstu viku. Fórum við svo aftur í Fossvoginn og vorum við kveðjuathöfnina, sem var látlaus og viðkunnanleg. Þessi kona var einu ári yngri en ég svo mér kom í hug, að þegar komið er á minn aldur, þá verður að sannmæli sem stendur í ljóðinu. Man ekki fyrir víst eftir hvern það er ,, Mínir vinir fara fjöld, feigðin þessa heimtar köld. Ég kem á eftir, kannski í kvöld, með klofinn hjálm og rofinn skjöld." Þessi kona átti skjöld trúarinnar sem talað er um í Efesus bréfinu 6.16. Ég trúi að hún hafi haldið honum órofnum allt til enda. Hins sama vænti ég mér til handa þegar að mér kemur.
Á eftir fórum við aftur niður í miðbæinn og fórum í búðir. Ásgrímur gerði góða verslun þá loks er hann lét verða af því að endurnýja eitthvað fatakyns handa sér. Ég aftur á móti fann ekki það sem ég leitaði að, en fékk aftur á móti góð ráð að taka með mér heim, sem ekki kostuðu neitt. Svo héldum við heim í rigningunni. Satt að segja vorum við bæði dauðþreytt og hölluðum okkur upp í rúm þegar heim var komið.
Skrifað af Þóru Pálsdóttur 05.11.2008 18:16ÓtitlaðÍ Morgunblaðinu 2. nóvember 2008 tekur Guðrún Guðlaugsdóttir viðtal við Hrefnu Róbertsdóttur. Yfirskriftin er.
Framleiddu ullarvörur til útflutnings
Hrefna Róbertsdóttir sagnfræðingur fjallar í doktorsritgerð sinni um innréttingarnar á 18. öld og tilraunir til að koma á fót heimilisvefsmiðjum út um allt land til að framleiða vörur úr ull. (Guðrún spyr Hrefnu) ,,Hver er niðurstaðan í ritgerð þinni um skipulag ullarvinslunnar?
,,Sú að byggja átti upp margskonar vinnslu, og gagnið af henni var talið misjafnt eftir aðstæðum; hlutfallsleg gagnsemi ef þannig má að orði komast..Stefnan var að breyta hefðbundinni ullarvinnslu, þar sem flestir spunnu, prjónuðu og ófu heima í arðmeiri sérhæfðari vörur. Prjónles hafði verið almennt ríkjandi útflutningsvara. En nú þótti gagnlegt að konur í sveitum tækju upp spunavinnu á meðan þeir sem bjuggu við ströndina, sérstaklega karlmenn í verum, áttu að prjóna þegar ekki fiskaðist. Þannig átti tími allra að nýtast sem best."
Mér fannst gaman að lesa allt viðtalið. Það minnti mig á gamla tíma þegar ég var að alast upp, hvað mikil vinna lá í því að vinna fatnað á alla heimilismenn úr ullinni og gera skóna á fólkið úr skinnunum af skepnunum. Gúmmískórnir voru nú að koma til sögunnar þegar ég var krakki. Miklu held ég að hafi verið létt af húsmæðrunum við það, sér í lagi þar sem húsfreyjan var bara ein af vinnufæru kvenfólki Ég náði því nú aðeins að læra að gera sauðskinnsskó. Ég er ekki viss um að það hafi yfirleitt þótt sjálfsagt að kenna drengjum að prjóna þótt þeim dönskum og íslenskum yfirvöldum hafi fundist sjálfsagt að karmenn prjónuðu í landlegum.
Ekki kunni faðir minn að prjóna. Hann spann hrosshár og vann úr því, hann reið silunganet og kembdi ull fyrir móður mína en að prjóna lærði hann fyrst í elli sinni, þegar hann gat engu sinnt utanhúss. Þetta var svolítið strembið í byrjun og ég gat svo vorkennt honum þegar mamma sá ekki aðra leið en að rekja eitthvað upp. Þetta gat verið svo lúmskt þegar féll niður lykkja án þess að eftir væri tekið. Hann var auðvitað ekki lengur á besta skeiði til að læra en þetta hafðist nú samt og átti eftir að stytta honum margar stundir. Í þessu fann hann sig geta tekið einhvern þátt í að vinna heimilinu gagn, þótt það væri ekki meira en að prjóna sokka.
Hann bróðir minn kunni að taka lykkjuna en ég er nokkuð viss um að það hefur hann lært að sjálfs síns frumkvæði. Hann var alla ævi svo verkfús og verkhagur maður að hverju sem hann gekk. Það kom honum líka vel í ellinni. Þá fór hann að prjóna lopapeysur og gaf mér meðal annars eina útprjónaða peysu. Svo gafst hann að lokum upp á að prjóna peysur, fannst hann hafa lítið upp. Þegar ég giftist seinni manni mínum var hann að sauma krosssaumsmynd af kvöldmáltíðinni og flýtti sér að ljúka verkinu, til þess að gefa okkur það í brúðargjöf. Þá var hannbróðir minn 84 ára. Því fylgja góðar minningar að horfa á það hangandi yfir skrifborðinu. Það þótti fyrrum ekki nema eðlileg nýting á tímanum að konur gengju prjónandi á milli bæja en samt veit ég ekki hve algengt það var á lengri leiðum. Húsfreyjur utan úr miðri sveit eða lengra til, komu sjaldan. Ég man eftir einni konu úr nágrenninu sem kom einu sinni tvinnandi á snældu um leið og hún gekk. Hún hafði gaman af að hitta nágranna að máli en lét sér samt ekki verk úr hendi sleppa. Í því var lífið fyrrum fólgið, að nota hverja stund. Í Orðskv. 12:24. Hönd hinna iðnu mun drottna, en hangandi höndin verður vinnuskyld. Skrifað af Þóru Pálsdóttur 15.10.2008 10:52VATNASKÓGURFöstudaginn 19 september 2008 lögðum við hjónin af stað upp í Vatnaskóg. Þar átti að halda landsmót Gideonfélaganna þetta árið, 19-21 september. Þoka var og rigningarsúld er við lögðum af stað. Við ákváðum að koma við í leiðinni hjá systur Ásgríms Jenseyju,sem býr í Reykjavík. Sonur hennar og kona hans voru stödd hjá henni er við komum þangað og var hann búinn að baka vöfflur handa okkur öllum. Guðrún systir hennar sem býr á Akureyri var líka stödd hjá henni. Eftir að hafa drukkið miðdagskaffi þar og spjallað um hríð, kvöddum við og héldum ferðinni áfram. Við fórum ekki göngin heldur Hvalfjörðinn eins og í gamla daga og fannst mér það skemmtilegt þótt þoka væri. Það sem mér fannst skemmtilegast var að það var svo lítil umferð. Það var eins og að vera komin út í sveitir fyrir sextíu árum eða svo. Aðeins fáum bílum mættum við og enginn sem færi fram úr að ég muni. Þetta reyndist fljótfarnara en við gerðum ráð fyrir, svo að við biðum drjúgan tíma áður en sá kom sem úthlutaði herbergjum en okkur var boðið upp á kaffi og að bíða í borðsalnum og þáðum við það . Það var orðið langt síðan ég kom fyrst í Vatnaskóg. Þannig var, að þegar ég var innan ið fermingu þá urðu ábúendaskipti á jörð í nágrenni við okkur austur í Hornafirði og þangað flutti fólk úr Reykjavík. Þetta var fimm manna fjölskylda og þar á meðal stúlka jafngömul mér. Við vorum því saman í skóla og urðum vinkonur, báðar af fjallabæjunum sem svo voru nefndir. Við áttum líka stundum samleið um helgar. Þá máttum við fara heim eftir kennslu á föstudögum, annars urðum við að búa nærri skólanum á meðan hann stóð yfir. Við urðum að vera komnar til baka á sunnudagskvöld. Ég man nú ekki eftir að við ættum í neinu harki í skólanum, utan einhverrar smástríðni einu sinni. Man ekki fyrir víst hvort það var verið að finna uppnefni á alla í hópnum og einhver af skólafélögunum fann upp að við dömurnar af fjallabæjunum gætum heitið Lappalengja og Innskeif. Við vorum nú báðar háar til hnésins. Það voru svo sem dæmi fyrir því áður í Íslandssögunni að slíkt þætti tiltökumál, samanb. Hallgerði langbrók húsfreyju á Hlíðarenda. Ég heyrði þessi nöfn aldrei aftur notuð á okkur, ekki heldur að neinir aðrir væru uppnefndur, en samt hefi ég aldrei gleymt því, líklega af því að þetta var svolítið fyndið og ekki alveg meinlaust. Þegar við fórum heim til okkar um helgar fengum við stundum að verða samferða Bjarna Þorleyfssyni sem hafði fjárhúsin sín fyrir ofan Djúpá og þurfti því að fara yfir ána til að hirða um féð á hverjum degi á veturna. Hélt hann þá á okkur yfir ána því hún mun sjaldan hafa verið væð á lágstigvélum. Eftir það vorum við fullfærar að koma okkur hver heim til sín. Svo leið nú tíminn og vinkona mín flutti aftur til Reykjavíkur áður en hún fermdist. Hún komst fljótt í kynni við K.F.Ú.M.og K. því systir hennar var komin í það félag. Hún fékk þarna þann neista sem kveikti trúna í hjarta hennar, eða lífgaði hana. Hún skrifaði mér um þetta sem gerðist hjá henni. Ég skrifaði henni aftur og fagnaði því sem hún hafði eignast en fannst ég gæti ekki sagt það sama um mig. Það átti þó eftir að gerast nokkru seinna og var það eftir að ég hafði lesið hvetjandi grein í kristilegu blaði sem barst á heimili mítt. Þá ákvað ég að leita í Biblíuna sjálfa, sem var til vegna þess að bróður mínum hafði verið gefin hún í fermingargjöf. Það sannaðist á mér að, sá finnur sem leitar. Seinna sendi þessi vinkona mín mér Biblíu í skinnbandi og gyllta í sniðum. Hana á ég enn. Mér þykir þó betra núorðið að nota Biblíu með stærra letri og neðanmálstilvitnunum. Vegna kunningsskapar við þessa vinkonu og fjölskyldu hennar lá leið mín nokkru seinna í Vatnaskóg á kristilegt sumarmót með þeim, er ég var gestur í Reykjavík. Það voru yndislegir dagar á þessum fagra stað. Sama er að segja um þetta mót, sem við vorum nú stödd á og haldið svona mörgum áratugum seinna. Það var um leið aðalfundur Gídeonfélagsins á Íslandi þar sem kosið var í stjórn og fleira tekið fyrir ásamt því að hlusta á uppbyggilega fyrirlestra. Konurnar voru nú að rýmka sinn starfsvettvang. Það kemur vonandi eitthvað gott útúr því. Á laugardagskvöldið var okkur búinn hátíðakvöldverður. Það rigndi allan tíman eitthvað og líka á heimleiðinni. Við héldum heim á leið, eftir að hafa borðað hádegismat á sunnudaginn og fórum aftur Hvalfjörðinn til baka. Ferðin endaði farsællega. Skrifað af Þóru Pálsdóttur 06.09.2008 22:44ÓnytjuorðÓnytjuorð
Fimmtudaginn 4.sept 2008 birtist eftirfarandi í 24stundum ,,Auglýsingin braut ekki siðareglur SÍA Í góðu lagi að nota Orðið ,,HELVÍTIS"
Foreldrar eru eflaust lítt hrifnir af að börn þeirra syngi nú hástöfum ,,skítt með helvítis kerfið" í hvert skipti sem auglýsingahlé er gert á dagskrá sjónvarpsstöðvanna.Kæra vegna þessa barst nýlega til siðanefndar Sambands íslenskra auglýsingastofa en henni var vísað frá..(Þannig er upphaf greinarinnar.) Þetta orð í eignarfalli eitt og sér, rifið innan úr miðri setningu, gefur ekki mikla hugmynd um alvöru málsins og virðist eitt og sér næsta merkingalaust. Alvaran liggur í þeim orðum sem sett eru fyrir framan það eða aftan og mynda setningu. Þá kemur í ljós að það er verið að formæla einhverju, í þessu tilfelli kerfinu, en hvaða kerfi?. Ég fletti upp á orðinu kerfi?. Það getur þýtt margt Það getur þýtt stjórnkerfi og þá sé átt við lög og reglur, sem við hrærumst í. Þótt við séum ekki ánægð með allar lagasetningar á landi okkar, þá gæti okkur brugðið í brún, ef við yrðum einhvern dag að skipta við aðra þjóð á landi, lögum og lífskjörum. Þá mundum við, ef til vill, komast að raun um, að kerfið heima var eitthvað sem við hefðum getað þakkað fyrir. Páll postuli var að skrifa Tímóteusi um ýmsar reglur sem gilda ættu í söfnuðum sem voru að komast á legg. "1.Tím 2.1. Fyrst af öllu áminni ég um að bera fram ákall, bænir, fyrirbænir og þakkargjörðir fyrir öllum mönnum, fyrir konungum og öllum þeim, sem hátt eru settir, til þess að vér fáum lifað friðsamlegu og rólegu lífi, í allri guðhræðslu og siðprýði. Þetta er gott og þóknanlegt fyrir frelsara vorum Guði, sem vill að allir menn verði hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum." Þetta er gott ráð handa öllum þeim, sem finnst kerfið sér erfitt eða þingmennirnir.Mér hefur alltaf fundist leiðinlegt hvað þeir, sem eru í minnihluta eða utan ríkisstjórnar,í það og það skiptið, virðast alltaf þurfa að niðurlægja þá sem eru í stjórn, og tala illa um þá. Ekki aðeins það, heldur finnst þeim þeir ekki standa sína vakt ef þeir létu það ógert. Að ég tali nú ekki um ósköpin ef einhverjir ætla að fara að bölva kerfinu kerfisbundið. Mér mundi finnast það miklu betri aðferð, sem Páll bendir á. Skrifað af Þóru Pálsdóttur 20.08.2008 21:34ÓtitlaðFerð norður í land
Þann tuttugasta og fimmta júlí á föstudegi lögðum við hjónakornin af stað norður til Siglufjarðar. Sama dag fóru líka norður, nokkrir úr Hvítasunnukirkjunni hér í Keflavík og úr Kærleikanum, sem hefur haft samkomur hér á laugardögum undanfarna mánuði. Þau fóru í rútu en við fórum á okkar bíl því við ætluðum á eftir til Akureyrar. Við fórum á undan hinum um morguninn því hugmyndin var að koma við hjá systur Ásgríms sem býr á Blönduósi. Veðrið var ljómandi gott og ferðin gekk vel. Við stoppuðum til að fá okkur pilsur í Borgarnesi. Mér finnst svo gott að stoppa oft, hættir annars til að stirna í líkamanum við langsetur milli landshorna í bíl. Það virðist nú skipta mestu fyrir minn mann að komast á sem stystum tíma á áfangastað. Það skal honum sagt til málsbóta að hann lét þetta eftir mér með pilsurnar í Borgarnesi, þótt hann væri sjálfsagt ekki sjálfur svangur.
Við þáðum svo kaffi og meiriháttar veitingar hjá Sigurlaugu á Blönduósi. Þaðan var svo ferðinni haldið áfram til Siglufjarðar í yndislegu veðri. Það var meiningin að koma það snemma til Siglufjarðar til að geta hitt Elínu Jónasdóttur á undan samkomunni. Svo þurftum við að koma okkur fyrir á gistiheimilinu. Það var búið að auglýsa Gospel samkomu í Siglufjarðarkirkju um kvöldið. Þau úr kærleikanum eru ötul í sönglistinni og gospel tónleikar virðast hafa náð vissum vinsældum svo ætla mætti að söngelsku fólki finnst léttara að sækja svoleiðis samkomu heldur en beinar vakningarsamkomur, þar sem fólki er ráðlagt að taka sinnaskiftum og bera ávöxt samboðin iðruninni. Menn hafa misjafnt snið á boðun sinni. Við vitum ekki hvað Siglfirðingar hugsuðu, því ,,blint er í annars brjóst að geta", en flestir létu sig engu varða undir hvaða formerkjum gestir þeirra væru komnir.
Daginn eftir var svo haldin útisamkoma á torginu og voru þá heldur fleiri áheyrendur, komandi og farandi. Einhvern heyrði ég tala um að Aðventistar hefðu verið með Gospel samkomu í kirkjunni kvöldið áður. Einhvern tíma áttu Aðventistar sér kirkju á Siglufirði. Eftir að samkomunni á torginu lauk, lögðum við hjónin af stað til Akureyrar. Sú ferð gekk vel. Dóttir mín hafði boðið okkur að dvelja í húsinu þeirra ásamt köttunum, meðan fjölskyldan skryppi til útlanda í tvær vikur. Kettirnir heita Máni og Birta og eru töluverðir boltar, stærri heldur en Uppáþrengja okkar var. Ásgrímur ruglar stundum nöfnum þessara katta og kallar hann Dagbjart, sem er vel við hæfi, hann er svo bjartur á skrokkinn. Hún er eldri og hefur verið brjóstvörn síns heimilis lengi. Nú er hann aftur á móti orðinn köttur með markmið, að taka við hlutverkinu af frúnni, að slást við nágranna sína. Grimmur hundur fær rifið skinn, stendur einhversstaðar. Það fékk Dagbjartur að reyna og svo hafði farið illt í sárið en bólgukúfurinn á skrokknum var í rénun er við komum. Hann átti að fá seinustu sprautuna daginn eftir og Valur gaf honum hana áður en þau fóru. Þetta fór allt vel og ég þurfti ekkert að eltast við dýralækni hans vegna. Aldrei man ég eftir að kettirnir yrðu lasnir þar sem ég ólst upp, enda langt til næstu bæja, svo að þeir fóru ekki svo langt til að berjast um sitt yfirráðasvæði. Sannaðist þar með máltækið ,,Fáir lofa einbýli sem vert er".
Við notuðum tímann til að heimsækja góða kunningja meðan á dvölinni stóð. Þó áttum við einhverja eftir þegar við fórum heim. Á miðvikudag fórum við í unaðslegu veðri út í Hrísey að hitta jón bróður Ásgríms og Auði konu hans, sem búa þar á sumrin. Þau höfðu boðið okkur í hádegismat, svo við tókum ferjuna sem fer frá Árskógssandi um hálf tólf að mig minnir. Hún gengur allan daginn með stuttum hléum. Jón kom niður á bryggju á dráttarvélinni til að sækja okkur. Við fengum uppstoppuð tveggja manna sæti aftan á faratækinu. Eiginlega fannst mér göturnar svo mjóar, að mér leið ekki vel þegar vélarnar voru að mætast, að því er mér fannst, á mikilli ferð. En vélstjórarnir þekktu göturnar í sínum heimabæ betur en ég. Við höfðum þar góða viðdvöl en undir kvöld héldum við heim á leið.
Við rendum fram í fjörð. Þar hafði Ásgrímur dvalið sem unglingur. Einn morgun stakk hann upp á því að við skryppum austur að Ástjörn í Axarfirði. Það er nú góður spölur þangað og ég þurfti að hugsa mig um. "Letinginn segir, ljón er úti fyrir ég kinni að varða drepinn á götunni". Þar sen engin ljón eru á Íslandi þá var ekki hægt að hafa það sér til afsökunar og af stað héldum við. Barnastarfinu við Ástjörn var nýlokið og unglingavikan ekki byrjuð. Árni, sem verið hefur í forsvari fyrir þessu starfi um nokkurra ára skeið, hafði því betri tíma til að sýna okkur staðinn og það uppbyggingarstarf sem unnið hefur verið, með góðum stuðningi trúbræðranna í Færeyjum en þeir eru margir þar, sem standa á sama grundvelli og Arthur Gook gerði, sem stofnaði sumarbúðirnar.
Ég dáist að Árna og því verki sem unnið hefur verið þarna í gegnum árin. Við drukkum svo kaffi með honum. Aðrir, sem enn voru eftir af starfsfólkinu fyrir austan, voru önnum kafnir við að þrífa húsin og viðra sængur úti á þaki í sólskininu. Svo brunuðum við þar eftir til baka. Við fórum á tvær samkomur í Hvítasunnukirkjunni á Akureyri. Eftir aðra þeirra þágum við heimboð hjá Jóni og Jarþrúði og einnig þágum við heimboð hjá Þóri Páli og hans konu. Heima hjá Helgu og Eiði vorum við tvisvar. Við heimsóttum líka Jóhann Pálsson einnig Eivor og Pálínu Jónsdóttur. Fórum á tvær útisamkomur, sem eru haldnar sameiginlega af fólki úr þremur trúflokkum, Hjálpræðishernum K.F.Ú.M.og K. og Hvítasunnusöfnuðinum. Útisamkomurnar eru haldnar við torgið, á fimmtudögum.
Á föstudeginum 8.8.2008. bauð Írene Gook okkur í kaffi í bókasafns húsinu. Ég valdi mér ostaköku því ég hefi miklar mætur á henni. Á eftir fórum við yfir í Vaðlaheiði og hún með okkur, til að virða Akureyri fyrir okkur þaðan, í hinu fegursta veðri. Írene varð 99 ára 11 ágúst 2008. Fólkið kom heim úr útlandinu sunnudaginn 10 ágúst og Birta varð himinglöð og neri sér upp við þau. Svo kom hún til mín á eftir og neri sé upp við mig eins og hún vildi segja, ,,Þú ert nú líka nokkuð góð. Við lögðum af stað heim morguninn þann ellefta ágúst á mánudegi, með viðkomu á Akranesi hjá Heklu fósturdóttur Ásgríms. Þá var ég nú fegin kaffinu. Þótt við hefðum að vísu fengið okkur pilsur í skála fyrir ofan Blönduós. Það hafði verið yndislegt veður allan tímann í ferðinni.
Skrifað af Þóru Pálsdóttur 15.08.2008 13:10ÓtitlaðTilkynning
Nú nýlega tók ég eftir því, að undir síðustu ferðasögu Arthurs Gook hér á síðunni stóð orðið endir. Nú hafa sumir ef tilvill haldið að þar með væri sögunni í heild lokið með heldur snubbóttum hætti. Þetta kom til af því, að ég var að senda dóttur minni efnið með viðhengi svo hún gæti sett það á síðuna mína eins og hún hefur áður gert með þessa sögu. Af því ég kann svo ósköp lítið á tölvu og það var langt síðan ég hafði sent bréf með viðhengi var ég hrædd um að það kæmist ekki allt til skila. Setti því þetta orð endir undir, taldi mér trú um að ef hún gæti sagt mér að þetta orð hefði skilað sér þá mundi sagan öll hafa ratað rétta leið. Þetta tókst en gleymdist að má orðið endir út. Það er svo sannarlega kominn tími til að halda eitthvað áfram með söguna. Sagt var í gamla daga ef eitthvað gekk vonum verr, að það væri ekki einleikið. Sama finnst mér um hvernig gengið hefur með seinnihluta sögunnar miðað við þann fyrri. Skrifað af Þóru Pálsdóttur 09.07.2008 22:12SÓLIN FER AÐ SETJASTSólarlag
Þann 30 júní 2008 skrifaði ég pistil beint á heimasíðuna en þegar því var lokið og ég opnaði til að líta á afrekið þá var ekkert að sjá. Aðeins óskrifað blað. Ég átti nokkrar setningar á blaði, því mér finnst alltaf best að byrja með penna í hönd. Kemur þá upphafið hér. Klukkan er að ganga 12 og enn er sólin á lofti og varpar geislum sínum á hliðar og stafna þeirra húsa sem að henni snúa. Það er mjög fögur sjón þegar hún er að hverfa niður fyrir sjóndeildarhringinn og einnig er hún kemur upp aftur,ef maður nennir að vaka eftir því.
Það er búið að vera sífellt sólskin hér í svo marga daga, með yfir 30 stiga hita á svölunum. Samt finnst mér afarsjaldan alveg logn hér. Í gær fórum við upp á flugvöll til að taka á móti dóttursyni mínum frá Noregi. Hann var á leið norður til Akureyrar eins og hann er vanur á sumrin. Honum þykir svo gott að vera með frændfólkinu þar. Þeir ná svo vel saman og eru á líkum aldri yngri dóttursonur minn þar. Ég held að Þetta sé í fyrsta sinn sem hann kemur einn. Mamma hans var nýbúin að koma ásamt fleirum bókasafnsfræðingum frá Noregi. Þær héldu einhverja ráðstefnu í Reykjavík og voru farnar út aftur. Við skiluðum honum svo inn á Reykjavíkurflugvöll seinna um daginn.
Við vorum svo snemma á ferðinni að við gátum litið inn í Kolaportið á markaðinn þar. Ég kann svo vel við mig innan um svona gamalt dót. Nú er líka hægt að setjast þarna við borð og fá sér einhverja næringu. Ég keypti fyrsta flokks harðfisk handa mínum manni, svo að honum skyldi ekki leiðast eins mikið þarna í verslunarumhverfinu. Hann langaði ekkert í ís eins og við frændi minn fengum okkur. Ég spurði dótturson minn hvort hann hefði komið á svipaðan stað í Noregi. Nei, sagði hann, það er allt dýrt í Noregi. Mér fannst það líka þegar ég hafði komið þar áður fyrr og haft meiri tíma til að athuga verð, að betra væri að láta innkaup eiga sig. Við fórum svo með Sigurð okkar í tæka tíð á flugvöllinn og biðum þar til kallað var út í flugvél til Akureyrar og við héldum þá heim á leið. Skrifað af Þóru Pálsdóttur 25.06.2008 21:52EINDÆMINEINDÆMIN ERU VERST
Það reyndist nú ekki vera einsdæmi sú afskiptasemi um höfuðskýlur, sem um var rædd í seinasta pistli. Í Öldinni átjándu 1761-1800 fann ég eftirfarandi.
HEIÐURS KVENFÓLK Í FYRMANNARÖÐ
1798. Varla er nokkur svo tilfinninga og þekkingarlaus, að hann í alvöru geti játað skautfalda og kvenhempur vera svo náttúrlega og snoturt löguð föt, sem laglega prýða megi vort kvenfólk. Þegar nú hér við bætist, að klútar dúða andlit kvenna út, hylja allt ennið á þeim, sem neðarlega binda, eða mynda úr hvassan þríhyrning, sýnist sem andlitsins veglegasta sköpun verði þar við undravansköpuð - ekki að nefna þann heilsuspilli, sem harðar reyringar um höfuðið og þessi of heiti og óskynsamlegi útbúningur, virðist eftir allra lækna reglum, að orsaka, höfuðveiki, brjóstþyngsli, gáfnadeyfð, þungsinni og dofinleika og margt annað illt, ekki síst þegar hér ofan á sezt fjögurra til átta ríkisdala höttur, sem með silkjum reyrir höfuð og háls eins stíft eins og þó spelkur stæðu við.
Nú veit ég að margt það af fyrirfólki , sem fúst væri á. Í sameiningu með fleirum, undir eins að taka upp.hatts og danskrar húfu- og frakkabúning (og hversdagslega fallega bláa húfu með vænum skúfi), en öldungis afleggja falda, hempur og allt kvensilfur. Því er min þénustusamleg bón til útgefara Tíðindanna eða Gamans og alvöru, að hann í öðru hvoru þessara rita vildi bjóða á prenti heiðurskvenfólki í fyrirmannaröð að leggja saman til að taka upp fyrrtéðan búning fyrir 1. janúar 1801 . svo að hann, þá tólf eða tuttugu væru hér um samtaka orðnar, gæti til annarra upphvatingar auglýst í Tiðindunum listhafenda tölu (enn ei nöfn), sem frá nýári 1801 áforma að hefja sig yfir hleypidóma og til hins betra breyta ónáttúrlegum og afskræmandi, dýrum búningi. 28. júlí 1798
75081063.
Með samþykki hins umbeðna og auglýsingu þessa tilboðs í Gamni og alvöru fullnægir hér með herra 75081063 ósk
Magnús Stephensen. Þetta hefi ég reynt að skrifa orðrétt upp úr Átjándu öldinni(Þ.P.) Fleiri hafa fundið nauðsýn á að ráðleggja kvenfólki í sambandi við klæðnað. Ekki ómerkari maður en Páll postuli taldi nauðsýnlegt að gefa ráðleggingar um þá hluti ásamt mörgu öðru sem snerti samkomur frumsafnaðarins. Hann virðist taka í sama streng og síðasti ræðumaður um að búningurinn eigi að vera sómasamlegur en ekki of dýr.
Hann er að skrifa Tímóteusi samstarfsmanni sínum og syni í trúnni. 1. Tím 2.8. ,, Ég vil, að karlmenn biðjist hvarvetna fyrir, með upplyftum heilögum höndum, án reiði og þrætu. Sömuleiðis vil ég að konur skrýði sig sæmandi búningi, með blygð og hóglæti, ekki með fléttum og gulli eða perlum og skartklæðum, heldur með góðum verkum, eins og sómir konum, er Guð vilja dýrka." Sumum kvenréttinda konum er nú lítið gefið um Pál en mér finnst hann ágætur
Pétur er nú á svipuðu róli og Páll. Hann segir í fyrra bréfi sínu 3.1- ,,Eins skuluð þér, eiginkonur, vera undirgefnar eiginmönnum yðar, til þess að jafnvel þeir, sem vilja ekki hlýða orðinu, geti unnist orðalaust við hegðun kvenna sinna, þegar þeir sjá yðar grandvöru og skírlífu hegðun. Skart yðar sé ekki ytra skart, hárgreiðslur, gullskraut og viðhafnarbúningur, heldur sé það hinn huldi maður hjartans í óforgengilegu búningi hógværs og kyrrláts anda. Það er dýrmætt í augum Guðs. Þannig skreyttu sig forðum hinar helgu konur, er settu von sína til Guðs. Þær voru eiginmönnum sínum undirgefnar, eins og Sara hlýddi Abraham og kallaði hann herra."
Með því að lesa um þau hjón í Gamla testamentinu Söru og Abraham þá er sagt frá þremur tilfellum sem hún hafi orðið við óskum hans en hann hafi orðið við óskum hennar tvisvar og í annað skiptið gekk Guð sjálfur í málið og sagði Abraham að hlýða konu sinni. Að líkindum hefur Pétur haft aðrar og meiri heimildir um ættmóðurina Söru og að þar hafi verið getið um að hún hafi kallað Abraham herra. Þar sem Pétur var sjálfur karlmaður og líka þekkt aðra karlmenn, þá hefur hann verið í góðri stöðu til að ráðleggja konum, hvernig best væri að komast af við þá, þannig að hlutirnir færu á besta veg. Skrifað af Þóru Pálsdóttur 21.06.2008 00:17Ótitlað
Það er með mörgu móti hægt að koma sér upp óvinum. Ég heyrði Í útvarpinu um daginn, eða sjónvarpinu, að Frakkar séu stórreiðir út í skýluburð kvenna og vilji alls ekki að konur noti þann búnað til þess að skýla sér með. Það eru nú ekki svo margir áratugir síðan að klútar og sjöl tilheyrðu ígangsklæðum kvenna hér á landi. Ég man ekki betur en að frænkur mínar væru með ljósar léreftsskýlur úti á túni við heyþurk þegar ég var unglingur. Að vetrinum dugðu nú ekki annað en þykkari sjöl eða klútar. Þetta var svona og enginn stökk upp á nef sér útaf því. Ef til vill er þetta upphlaup á okkar tíma runnið frá rótum kvenna og þær fengið karlmenn í lið með sér. Það verður sjálfsagt naumast sagt að skýlan geri nokkra konu fallegri en þær um það. Einhverntíma stóð þessi setning í íslensku ljóði: ,,Fegurð hrífur hugann meir ef hulin er". Ef útlendar konur langar til að varðveita venju frá heimahögum sínum þá finnst mér nú nær að reyna að venja þær af að umskera dætur sínar, heldur en að vera að æsa sig út af því, sem þær bera á höfðinu, sér að skaðlausu. Sumir vilja meina að skýlan eða slæðan sé trúartákn þessara kvenna en af hverju geta hinir aðrir ekki borið trúartákn sín eða merkt sig öðruvísi ef þeir eiga enga trú og allir svo unað við sitt? Guð bauð Ísraelsmönnum svo í þriðju Mósebók 19 k. ,,Ef útlendur maður býr hjá þér í landi yðar, þá skuluð þér ekki sýna honum ójöfnuð. Útlendan mann, sem hjá yður býr, skuluð þér svo með fara sem innborinn mann meðal yðar, og þú skalt elska hann eins og sjálfan þig, því að þér voruð útlendingar í Egyptalandi. Ég er Drottinn, Guð yðar."
Skrifað af Þóru Pálsdóttur 14.06.2008 23:23ÓtitlaðUPPÁÞRENGJA KVÖDD
Hún býður ekki lengur góðan dag á morgnanna með eins atkvæðis mjálmi sínu, og við sjáum bæði eftir henni því hún var skemmtileg. Ég finn nú til léttis aðra röndina því mér fannst hún binda mig, frá því að geta farið að heiman hvert sem væri og hvenær sem væri. Það hefur margur þurft að kaupa frelsið dýru verði. Hún var farin að leyfa sér hluti sem enginn skyldi leyfa sér, þar sem hann er heimilisfastur. Hún var farin að pissa ítrekað í gestarúmið þótt að hún hefði hreinan sand í kassa sínum. Ég skildi það þannig að nú ættum við ekki að hafa kött lengur. Var orðin á nálum með að þetta færi í nýja dýnuna, hjá henni. Ég var líka búin að fara með sængina í hreinsun og láta aðra sæng í rúmið, sem ég gæti þvegið í þvottavélinni. Það sýndi sig líka að eigi veitti af þeirri fyrirhyggju. Ullarteppið mitt góða sem breitt var yfir rúmið hefur ítrekað farið í þvottavélina. Ég elska íslenska ull. Ég klemmdi teppið úti á svölum eftir þvottinn, til að fá nú virkilega gott útiloft í það. Morguninn eftir hrekkur Ásgrímur upp við endurtekið bank en veit fyrst ekki hvaðan það kemur. Enginn sjáanlegur við útidyrnar. Að lokum skilst honum það vera frá svölunum og mikið rétt. Þar stendur þá einn pólverjanna sem eru að vinna hér í byggingunum. Nú eru þeir byrjaðir að slípa svalirnar hjá fólkinu í þessu húsi og þá leggur mökkinn af steinrykinu yfir nágrennið. Það var þá af umhyggju fyrir teppinu sem hann var að banka. Svona umhyggjusemi um annarra hag ætti maður að meta að verðleikum. Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður það skuluð þér og þeim gjöra. Skrifað af Þóru Pálsdóttur 03.06.2008 22:39AFMÆLI ELÍNARFerð til Siglufjarðar 16 maí 2008.
Föstudaginn 16 maí lögðum við hjónin af stað norður til Siglufjarðar. Kona ein sem heitir Elín Jónasdóttir og maðurinn minn þekkir vel, frá því að hann dvaldi á Siglufirði, átti 100 ára afmæli þann dag. Það átti að halda upp á það daginn eftir, á laugardeginum. Maðurinn minn og vinur hans höfðu ætlað sér að bera út kristleg rit á Blönduósi, á heimleiðinni. Voru búnir að panta sér gistingu hjá kunningjafólki á Skagaströnd. En þá veiktist vinur hans snögglega og gat ekki farið. Var þá komið tækifæri fyrir mig að fara með í afmælið. Fannst mér það viðeigandi því vissulega hafði hún tekið á móti okkur báðum í gistingu fyrir nokkrum árum. Veðrið var gott er við héldum af stað. Eiginmaðurinn settist við stýrið og sleppti því ekki fyrr en við komum uppúr Hvalfjarðargöngum. Ég var alveg sátt við það. Ég hefi samt orðað það við hann, hverjar afleiðingar þess verði ef ég æfi mig aldrei við akstur. Sjálfstraustið minkar og hæfnin um leið. Ég hefi sama sem ekkert ekið að undanförnu. Áður fór ég þó yfirleitt einu sinni í viku í bíl til þess að kaupa í matinn en síðan við komum hingað í Engjadalinn þá förum við alltaf saman inn í Keflavík á margar samkomur í viku, ef taldar eru með bænasamkomur. Þá notum við tækifærið að versla í Bónus, sem við förum alltaf framhjá hvort eð er, enda hag okkar best borgið þar.Jæja, við erum nú komin á lygnan sjó þegar ég tek við stýri, að því leyti að það er lítil umferð. Gat ekki verið betri tími fyrir mig að æfa mig úti á vegi. Sjálfstraustið vex en ég veit að ég þarf að æfa mig meira til að endurheimta öryggi. Það gafst í þessari ferð og mun halda áfram að gefast hér heima líka ef ég verð nógu úthaldsgóð en slái mér ekki til rólegheita af því það sé svo áhyggjulaust að hafa einkabílstjóra. Ég ók í Borgarnes og þar fengum við okkur pilsur og svala. Svo var nú haldið áfram. Á Laugabakka stoppuðum við en þar búa Skúli og Árný frænka fyrri mannsins míns. Þar var alltaf svo gott að koma og svo er enn. Skúli lá nú á sjúkrahúsinu á Hvammstanga. Mér fannst hún ekki þurfa að hafa svo mikið fyrir okkur, mig langaði aðeins að sjá þau. En hún kann víst ekki að bera lítið fram fyrir gesti. Þaðan liggur svo leið til Skagastrandar. Þar taka við okkur Svandís og Élías sem búa þar. Ásgrímur þekkir þau frá Akureyri. Þau hafa bæði lent í slysum og eru ekki orðin jafngóð. Mér finnst nú varla við hæfi að beiðast gistingar hjá þeim vegna þess, en þau eru svo fram úr hófi gestrisin og börnin voru ekki heima og við vorum með sængurföt með okkur svo minna yrði fyrirhaft. Áttum við hina ágætustu vist með þeim um kvöldið. Morguninn eftir fórum við öll í þeirra bíl til Siglufjarðar. Við vorum komin þangað um hádegi og vildum ekki fara að hitta fólk á þeim tíma svo við fengum okkur pilsur og teygðum tímann. Þar næst ætlaði Ásgrímur að hitta hjón sem hann þekkir en þau voru ekki heima. Þar næst fórum við að hitta Júlíus og Svövu og þau voru heima. Alltaf jafn hlý og góð þegar komið er til þeirra. Tíminn styttist óðum og brátt er kominn tími til að fara í veisluna. Þar kemur fjöldi fólks líklega nær hundraði manns. Þar nutu menn ríkulegra veitinga. Var ánægjulegt að sjá hve hress Elín var, minnisgóð og skýr. Hún gat notið þeirra orða sem til hennar voru töluð og söngvanna sem sungnir voru. Það voru andlegir söngvar sem ég trúi að yljað hafi hjarta hennar, því hún hefur um áratugi elskað Drottinn sinn og frelsara. Hans vegna hefur hún um mörg ár unnið samskonar verk og Dorkas sem sagt er frá i postulasögunni. Sent það svo út, sem hún hefur unnið, til fátækra í fjarlægð.
Skrifað af Þóru Pálsdóttur 21.05.2008 22:20NOREGSFERÐFerðalag Að undanförnu er ég búin að ferðast heilmikið. Við fengum heimboð frá Önnu dóttur minni í Noregi, í því tilefni að þriðja maí ætluðu þau á Briskivegi 3 að halda veislu fyrir son sinn, eins og fleira fólk gerir fyrir börn sín sem komast á fermingaraldur, og bjóða bæði fjarlægum og nálægum ættingjum. Það varð útkoman að ég færi þangað með Guðnýju dóttur minni og sá hún um að kaupa farseðlana á netinu. Ég hafði ekki komið til Noregs í tæp sex ár. Þessi dóttir mín sem býr þar hefur nú alltaf verið svo dugleg að koma í heimsókn, yfirleitt tvisvar á ári meðan á námi hennar í Bókasafnsfræðum stóð, og mjög oft eftir það, svo mér fannst nú tími endurgjalds væri kominn. Nú skeði það, að Guðný mín lendir á sjúkrahúsi á Akureyri með brjósklos og fer í aðgerð, svo mér sýndist nú ólíklegt að úr ferðalagi yrði hjá henni. Þá var spurning hvort ég treystist til að fara ein. Mér hafði nú ekki dottið það í hug, en þegar svona var komið sýndist mér ekki annað fært en að halda áfram með það. Nú vissi ég að Bogi Pétursson á Akureyri var dáinn og sýndist mér viðeigandi að ég sýndi þann virðingarvott að fylgja honum til grafar. Guðný mín pantaði farseðil á netinu og ég fór norður með flugvél daginn áður en átti að jarða. Ásgrímur ók mér inn á Reykjavíkur flugvöllinn.
Þegar til Akureyrar kom var ég sótt á flugvöllinn af Eiði Stefánssyni, því Guðný gat ekki ekið bíl, þótt hún væri komin heim úr aðgerðinni og farin að gera hitt og þetta. Ég stoppaði svo nokkra stund hjá þeim hjónum Eiði og Helgu. Sú fjölskylda var alltaf með okkar bestu vinum. Svo skilaði hann mér í Stekkjargerði 7. Daginn eftir fór jarðarförin fram frá Glerárkirkju að fjölmenni viðstöddu. Erfi var drukkið í Brekkuskóla. Ég sá og gat heilsað ýmsum kunningjum. Svaf svo aðra nótt í Stekkjargerð. Daginn eftir kom Eiður og ók mér út á flugvöll. Það var kominn 30 apríl, miðvikudagur.
Daginn eftir, sem var fimmtudagur, gat ég verið heima hjá mér en föstudaginn 2. maí átti ég pantað far til Noregs með morgunflugi. Veðrið var dásamlegt. Hún Þórdís Karlsdóttir tengdadóttir mín í þykjustunni (veit ekki hvort eitthvert sérheiti er til yfir það þegar kona er gift stjúpsyni manns.) Jæja, hún var búin að skrá mig inn daginn áður svo ég þurfti ekki að fara eins snemma til að standa í biðröð. Þetta gekk allt vel og flugið líka. Ég tryggði mér það að mega verða samferða konu einni úr flugvélinni þangað inn sem töskurnar yrðu afhentar. Þegar við erum að ganga útúr flugvélinni koma ósköp elskulegar flugfreyjur til mín og bjóða mér hjólastól því gangarnir séu langir. Ég þekki hjólastóla af nokkra ára viðkynningu, meðan móðir mín og fyrri maðurinn lifðu en er naumast viðbúin því á nokkrum sekúndum að endurnýja kynnin með öfugum formerkjum. Mér hefur aldrei verið boðið þetta áður. Hér er nú að hrökkva eða stökkva og ég vel stólinn. Þær eru líka hvetjandi þessar elskulegu konur. Annar farþegi er líka fluttur í stól. Það er rétt, þetta eru langir gangar. Þegar við komumst á leiðarenda þá er að finna út á hvaða bandi töskurnar frá Akureyri snúist. Ég sé ekki betur en að þau séu fimm þessi bönd. Þetta hefst með tíð og tíma og þá kemst ég fljótlega inn í biðsal móttakenda. Þar bíður Anna mín til að taka á móti mér. Það er líklega um klukkutíma akstur þangað sem hún á heima. Ég hefi nú nokkrum sinnum komið til þeirra áður. Sonur minn er líka kominn frá Danmörku með dætur sínar tvær, Söru og Önnu 16og13 ára, fallegar stúlkur. Sumt norska ættfólkið er líka komi og annað á leiðinni. Einhverjir koma alla leið frá Budu en aðrir norðan úr Þrændalögum. Tengdasonur minn norski á hvorki föður né móður á lífi og Sigurður á aðeins eina ömmu og engan afa á lífi en náið frændfólk er samt komið til boðsins, sem fer fram í ráðhúsi bæjar í nágrenninu. Tengdasonur minn hefur útvegað sínu fólki gistingu þar á hótelinu en við gistum heima hjá þeim. Mér þótti mikið til koma að sjá fólkið í norsku þjóðbúningunum. Þeir eru virkilega fallegir og það vakti mér öryggi að sjá, að það heldur þó enn í nytsamar hefðir genginna kynslóða að þessu leiti. Það sýnir að það tilheyri þjóð og jafnvel sérstöku héraði lands. Það á ættjörð. Ég sakna þess að nú heyrist svo lítið í dag talað um ættjarðar ást og ef það er, þá undir allt öðrum formerkjum en áður. Ég skildi nú lítið af því sem fram fór við athöfnina sem höfð var um morguninn því hún fór fram á norsku. Eftir hádegi voru svo myndarlegar veitingar fram bornar. Matur og seinna kaffi og kökur. Nokkrir fluttu ávörp og drengurinn sjálfur þakkaði foreldrum sínum fyrir uppeldi sitt. Svo leið nú þessi dagur. Daginn eftir var enn gott veður. Mér datt í hug að fara á smá göngutúr ein því ég hefi komið hér áður og kynnst umhverfinu. Á að geta ratað þá leið sem þá var gengin niður brekkuna í verslunina. Nú er verslunin komin mun nær, líklega önnur verslun. Ég taldi mig örugga um að finna Briskivegen aftur þegar ég kæmi til baka en það reyndist ekki svo. Hvorki kunni ég að spyrja til vegar á norsku eða ensku. Ég hafði verið smátíma úr vetri í þýsku, fyrir mörgum árum en ekkert haldið henni við. Nú sem ég sé mann einn vera að bjástra við hús líklega sitt, í námunda við mig, kemur fram á varir mínar þessi orðblanda á þýsku. ,,Kannst dú mir sagt hvar Briskeveginn er?? Maðurinn skilur þetta á stundinni og leiðbeinir mér með bendingum hvert halda skuli. Með það fer ég. Maðurinn hefur víst fengið eftirþanka um að hann hafi ekki vísað þessum vegvillta sauði nógu skilmerkilega á rétta leið, því hann kom seinna hlaupandi á eftir mér til að útskíra betur. Staðurinn reyndist þá rétt í nágrenninu. Anna mín var fegin að ég var komin. Næsti dagur var heimferðadagur. Þá var ofurlítil súld. Dóttir mín ók mér nú aftur á flugvöllinn og leiðbeindi mér eftir því sem í hennar valdi stóð og varð svo að vona að allt færi vel. Hún hafði sagt mér að gangurinn væri langur sem ég þyrfti að ganga. En að lokum þótti mér ég vera komin alla leið. Þar sátu þrjár persónur, ein hjón eða hjónaleysi (hver veit það?) og ein ung stúlka vel útlítandi og fallega klædd. Svona til öryggis langar mig til að spyrja eitthvert þeirra hvort þau séu ekki að fara til Íslands. Valdi ég nú stúlkuna sem reyndar svarað mér ekki á íslensku en afburða alúðlega samt. Eitthvað hefur hún misskilið mig því nokkru seinna stendur hún upp, bendir hún mér að koma en hitt fólkið situr sem fastast. Maðurinn á móti okkur fylgist með og spyr hvort við séum eitthvað að villast.en ég ætlaði ekkert með henni þótt ég stæði upp. Ég reyni að segja henni að ég sé að fara til Íslands en hún var víst að fara til Frakklands. Eftir þetta lá nú allt ljóst fyrir mér. Stuttu seinna var ég komin um borð í íslenska flugvél. Allt gekk vel á leiðinni. Þegar út úr flugvelinni kemur er eitthvert spursmál um, hver hafi pantað hjólstól og ég er spurð en ég neita því. Það var satt, ég hafði ekki gert það. Það hvarflaði að mér seinna að ef til vill hafi einhver mér velviljaður lagt drögur fyrir stólinn, einhver sem vildi að ég kæmist sem áreynslu og áhyggju minnst innan flugstöðvabygginganna. En nú er ég líka komin heim og nú get ég gert mig skiljanlega á móðurmáli mínu ef eitthvað fer úrskeiðis. Svo ég vil heldur ganga. Ég missti nú einhvern veginn af þeim hópi sem ég ætlaði að verða samferða og er ég kom gegnum dyrnar sýnist mér hann stefna í öfuga átt við það sem mér finnst passa. Ég ákveð þá að fara mína leið og lengi mátti ég ganga. Ég fer framhjá mörgum borðum sem mér fannst fólki væri ætlað að sitja við til að hafa samskipti við farþega. En seinna sagði mér einhver að svo myndi vera þegar fólk væri að fara frá Íslandi en ekki öfugt. Loksins kem ég að borði þar sem sitja tvær persónur og önnur er karlmaður með eitthvert glæsilegt höfuðfat, sem ég álít sýna að sá sem það beri sé í hárri stöðu og hljóti að vera vel fær um að segja fólki til vegar á þessum stað. Það reyndist rétt og mikið var ég fegin. Ég hefði ef t.v. átt að þiggja stólinn. En tölta mátti ég alla leiðina til baka og meira til. Þar fann ég töskuna og nú ætlaði ég að fara út úr byggingunni og hringja í manninn minn. Þá er hann allt í einu þar kominn og innan stundar erum við heima.
Skrifað af Þóru Pálsdóttur Flettingar í dag: 213 Gestir í dag: 114 Flettingar í gær: 1370 Gestir í gær: 389 Samtals flettingar: 123391 Samtals gestir: 24526 Tölur uppfærðar: 21.11.2024 10:34:45 |
Eldra efni
Tenglar |
© 2024 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is