Þóra Guðrún Pálsdóttir

25.06.2008 21:52

EINDÆMIN

                   EINDÆMIN  ERU  VERST

 

Það reyndist nú ekki vera einsdæmi sú afskiptasemi um höfuðskýlur, sem um var rædd í seinasta pistli.  Í Öldinni átjándu 1761-1800 fann ég eftirfarandi.

 

                   HEIÐURS KVENFÓLK  Í  FYRMANNARÖÐ

 

1798. Varla er nokkur svo tilfinninga og þekkingarlaus, að hann í alvöru geti játað skautfalda og kvenhempur vera svo náttúrlega og snoturt löguð föt, sem laglega prýða megi vort kvenfólk.

Þegar nú hér við bætist, að klútar dúða andlit kvenna út, hylja allt ennið á þeim, sem neðarlega binda, eða mynda úr hvassan þríhyrning, sýnist sem andlitsins veglegasta sköpun verði þar við undravansköpuð - ekki að nefna þann heilsuspilli, sem harðar reyringar um höfuðið og þessi of heiti og óskynsamlegi útbúningur, virðist eftir allra lækna reglum, að orsaka, höfuðveiki, brjóstþyngsli, gáfnadeyfð, þungsinni og dofinleika og margt annað illt, ekki síst þegar hér ofan á sezt fjögurra til átta ríkisdala höttur, sem með silkjum reyrir höfuð og háls eins stíft eins og þó spelkur stæðu við.

 

Nú veit ég að margt það af fyrirfólki , sem fúst væri á. Í sameiningu með fleirum, undir eins að taka upp.hatts og danskrar húfu- og frakkabúning  (og hversdagslega fallega bláa húfu með vænum skúfi), en öldungis afleggja falda, hempur og allt kvensilfur.  Því er min þénustusamleg bón til útgefara Tíðindanna eða Gamans og alvöru, að hann í öðru hvoru þessara rita vildi bjóða á prenti heiðurskvenfólki í fyrirmannaröð að leggja saman til að taka upp fyrrtéðan búning fyrir 1. janúar 1801 . svo að hann, þá tólf eða tuttugu væru hér um samtaka orðnar, gæti til annarra upphvatingar auglýst í Tiðindunum listhafenda tölu (enn ei nöfn), sem frá nýári 1801 áforma að hefja sig yfir hleypidóma og til hins betra breyta ónáttúrlegum og afskræmandi, dýrum búningi.

28. júlí 1798

 

75081063.

 

Með samþykki hins umbeðna og auglýsingu þessa tilboðs í Gamni og alvöru fullnægir hér með herra 75081063 ósk

                            

                                      Magnús  Stephensen.

Þetta hefi ég reynt að skrifa orðrétt upp úr Átjándu öldinni(Þ.P.)

Fleiri hafa fundið nauðsýn á að ráðleggja kvenfólki í sambandi við klæðnað.

Ekki ómerkari maður en Páll postuli taldi nauðsýnlegt að gefa ráðleggingar um þá hluti ásamt mörgu öðru sem snerti samkomur frumsafnaðarins.  Hann virðist taka í sama streng og síðasti ræðumaður um að búningurinn eigi að vera sómasamlegur en ekki of dýr.

 

Hann er að skrifa Tímóteusi samstarfsmanni sínum og syni í trúnni.  1. Tím 2.8. ,, Ég vil, að karlmenn biðjist hvarvetna fyrir, með upplyftum heilögum höndum, án reiði og þrætu.  Sömuleiðis vil ég að konur skrýði sig sæmandi búningi, með blygð og hóglæti, ekki með fléttum og gulli eða perlum og skartklæðum, heldur með góðum verkum, eins og sómir konum, er Guð vilja dýrka."  Sumum kvenréttinda konum er nú lítið gefið um Pál en mér finnst hann ágætur

 

Pétur er nú á svipuðu róli og Páll.  Hann segir í fyrra bréfi sínu 3.1- ,,Eins skuluð þér, eiginkonur, vera undirgefnar eiginmönnum yðar, til þess að jafnvel þeir, sem vilja ekki hlýða orðinu, geti unnist orðalaust við hegðun kvenna sinna, þegar þeir sjá yðar grandvöru og skírlífu hegðun.  Skart yðar sé ekki  ytra skart, hárgreiðslur, gullskraut og viðhafnarbúningur, heldur sé það hinn huldi maður hjartans í óforgengilegu búningi hógværs og kyrrláts anda.  Það er dýrmætt í augum Guðs.  Þannig skreyttu sig forðum hinar helgu konur, er settu von sína til Guðs.  Þær voru eiginmönnum sínum undirgefnar, eins og Sara hlýddi Abraham og kallaði hann herra."

 

Með því að lesa um þau hjón í Gamla testamentinu Söru og Abraham þá er sagt frá þremur tilfellum sem hún hafi orðið við óskum hans en hann hafi orðið við óskum hennar tvisvar og í annað skiptið gekk Guð sjálfur í málið og sagði Abraham að hlýða konu sinni.    Að líkindum hefur  Pétur haft aðrar og meiri heimildir um ættmóðurina Söru og að þar hafi verið getið um að hún hafi kallað Abraham herra.  Þar sem Pétur var sjálfur karlmaður og líka þekkt aðra karlmenn, þá hefur hann verið í góðri stöðu til að ráðleggja konum, hvernig best væri að komast af við þá, þannig að hlutirnir færu á besta veg.

Flettingar í dag: 60
Gestir í dag: 27
Flettingar í gær: 100
Gestir í gær: 28
Samtals flettingar: 77305
Samtals gestir: 16061
Tölur uppfærðar: 19.4.2024 10:21:51

Eldra efni

Tenglar