Þóra Guðrún Pálsdóttir

03.06.2008 22:39

AFMÆLI ELÍNAR

                                                                                                                                                                                    Ferð til Siglufjarðar 16 maí 2008.

 

Föstudaginn 16 maí lögðum við hjónin af stað norður til Siglufjarðar.  Kona ein sem heitir Elín  Jónasdóttir og maðurinn minn þekkir vel, frá því að hann dvaldi á Siglufirði, átti 100 ára afmæli þann dag.  Það átti að halda upp á það daginn eftir, á laugardeginum.  Maðurinn minn og vinur hans höfðu ætlað sér að bera út kristleg rit á Blönduósi, á heimleiðinni.  Voru búnir að panta sér gistingu hjá kunningjafólki á Skagaströnd.  En þá veiktist vinur hans snögglega og gat ekki farið.  Var þá komið tækifæri fyrir mig að fara með í afmælið.  Fannst mér það viðeigandi því vissulega hafði hún tekið á móti okkur báðum í gistingu fyrir nokkrum árum.

 Veðrið var gott er við héldum af stað.  Eiginmaðurinn  settist við stýrið og sleppti því ekki fyrr en við komum uppúr Hvalfjarðargöngum.  Ég var alveg sátt við það.  Ég hefi samt orðað það við hann, hverjar afleiðingar þess verði ef  ég æfi mig aldrei við akstur.  Sjálfstraustið minkar og hæfnin um leið.  Ég hefi sama sem ekkert ekið að undanförnu.  Áður fór ég þó yfirleitt einu sinni í viku í bíl til þess að kaupa í matinn en síðan við komum hingað í Engjadalinn þá förum við alltaf saman inn í Keflavík  á margar samkomur í viku, ef taldar eru með bænasamkomur.  Þá notum við tækifærið að versla í Bónus, sem við förum alltaf framhjá hvort eð er,  enda hag okkar best borgið þar.Jæja, við erum nú komin á lygnan sjó þegar ég tek við stýri, að því leyti að það er lítil umferð.  Gat ekki verið betri tími fyrir mig að æfa mig úti á vegi.

  Sjálfstraustið vex en ég veit að ég þarf að æfa mig meira til að endurheimta öryggi.  Það gafst í þessari ferð og mun halda áfram að gefast hér heima líka ef ég verð nógu úthaldsgóð en slái mér ekki til rólegheita af því það sé svo áhyggjulaust að hafa einkabílstjóra.  Ég ók í Borgarnes og þar fengum við okkur pilsur og svala.  Svo var nú haldið áfram. Á  Laugabakka stoppuðum við en þar búa Skúli og Árný frænka fyrri mannsins míns. Þar var alltaf svo gott að koma og svo er enn.  Skúli lá nú á sjúkrahúsinu á Hvammstanga.  Mér fannst hún ekki þurfa að hafa svo mikið fyrir okkur, mig langaði aðeins að sjá þau. En hún kann víst ekki að bera lítið fram fyrir gesti.

 Þaðan liggur svo leið til Skagastrandar.  Þar taka við okkur Svandís og Élías sem búa þar.  Ásgrímur þekkir þau frá Akureyri.  Þau hafa bæði lent í slysum og eru ekki orðin jafngóð.  Mér finnst nú varla við hæfi að beiðast gistingar hjá þeim vegna þess, en þau eru svo fram úr hófi gestrisin og börnin voru ekki heima og við vorum með sængurföt með okkur svo minna yrði fyrirhaft.  Áttum við hina ágætustu vist með þeim um kvöldið.  Morguninn eftir fórum við öll í þeirra bíl til Siglufjarðar.  Við vorum komin þangað um hádegi og vildum ekki fara að hitta fólk á þeim tíma svo við fengum okkur pilsur og teygðum tímann.  Þar næst ætlaði Ásgrímur að hitta hjón sem hann þekkir en þau voru ekki heima.

 Þar næst fórum við að hitta Júlíus og Svövu  og þau voru heima.  Alltaf jafn hlý og góð þegar komið er til þeirra.  Tíminn styttist óðum og brátt er kominn tími til að fara í veisluna.  Þar kemur fjöldi fólks líklega nær hundraði manns.  Þar nutu menn ríkulegra veitinga.  Var ánægjulegt að sjá hve hress Elín var, minnisgóð og skýr.  Hún gat notið þeirra orða sem til hennar voru töluð og söngvanna sem sungnir voru.  Það voru andlegir söngvar sem ég trúi að yljað hafi hjarta hennar, því hún hefur um áratugi elskað Drottinn sinn og frelsara.  Hans vegna hefur hún um mörg ár unnið samskonar verk og  Dorkas sem sagt er frá i postulasögunni.  Sent það svo út, sem hún hefur unnið, til fátækra í fjarlægð.  
                                                                                                                                                   Við gistum svo aðra nótt hjá Svandísi og Elíasi á Skagaströnd  og áttum með þeim indæla stund um kvöldið.  Eftir morgunmat héldum við heim á leið og nú langaði mig að hitta tvær gamlar systur á Hvammstanga, bróðurdætur fyrra mannsins míns.  Þær voru þrjár systurnar  en sú yngsta þeirra varð fyrst til að kveðja þennan heim.  Ekki bjóst ég við því er ég sá hana síðast.  Mig langaði því meira að sjá þær því enginn veit hvort annað tækifæri gefst.  Þær urðu mjög glaðar að sjá okkur, rétt eins og við hefðum gert þeim stórgreiða.  Eiga heima í íbúðum aldraðra á Hvammstanga. Heimferðin gekk vel og allt er gott sem endar vel, ekki meira um það að segja.

 

 

 

 

 

 

Flettingar í dag: 61
Gestir í dag: 22
Flettingar í gær: 57
Gestir í gær: 20
Samtals flettingar: 77981
Samtals gestir: 16236
Tölur uppfærðar: 25.4.2024 10:55:39

Eldra efni

Tenglar