Þóra Guðrún Pálsdóttir |
|
Færslur: 2009 Nóvember21.11.2009 00:19Úr HornafirðiFrá æskuslóðum. Rauðaberg á Mýrum í Hornafirði var minn fæðingar og uppvaxtarstaður. Það var einnig uppvaxtarstaður móður minnar Pálínu Daníelsdóttur frá sex ára aldri. Hún fæddist árið 1884. Þegar hún var sex ára gömul andaðist faðir hennar úr lungnabólgu og móðir hennar Sigríður Skarphéðinsdóttir stóð þá ein uppi með nýju börn. Hún treysti sér ekki til að halda áfram búskap. Búið hefur eflaust verið of lítið til þess að hægt væri að borga vinnumanni eða ráðsmanni laun, þótt fengist hefði. Maður hennar hafði líka aflað heimilinu aukaviðurværis að töluverðum hluta, með því að skjóta fugla til matar. Ekki var sjálfgefið að hver sem hefði fengist væri fær um það. Útkoman varð, að leysa heimilið upp og koma börnunum fyrir, einu og einu á heimilum víðs vegar. Sum hafa nú verið talin matvinnungar sem voru orðin nýju ára eða meira. Með öðrum hefur hreppurinn þurft að gefa. Sjálf fór amma sem vinnukona til Þorgríms læknis í Borgum í Hornafirði. Hefur að líkindum haft með sér yngsta barnið Guðlaugu. Flytur svo seinna með læknisfjölskyldunni til Keflavíkur. Þegar ég var barn var ein dóttirin Jórunn búsett á Fáskrúðsfirði, önnur Hallbera á Norðfirði og bróðir þeirra Gísli mun hafa búið á ýmsum stöðum þar nærri en flytur svo til Keflavíkur. Einn bróðirinn Jón, fór að ég held til Papeyar en varð skammlífur. Þá var annar Jón, sem ég veit ekki hvert lenti til að byrja með en hann bjó seinna í Reykjavík. Hólmfríður bjó líka í Reykjavík. Guðlaug í Hafnarfirði. Veit ekki annað um Kristínu en að hún fór, um fermingu til Ameríku með sér kunnugu fólki. Giftist þar en eignaðist ekki afkomendur sjálf. Pálína móðir mín, þá sex ára, var tekin af feðginum Magnúsi og Guðnýju sem bjuggu á parti úr Rauðaberginu Þegar hún var orðin nýju ára var hún álitin orðinn matvinnungur og átti að láta á það reyna. Þá vildu þau feðgin ekki missa hana og tóku meðgjafarlaust. Mamma bar þeim vel söguna og sagði þau hefðu verið góð við sig. Þarna var ekkert ríkidæmi en ekki minntist mamma á sult. Hún var ekki með gremju út í einn eða neinn svo ég muni. Það var nú svolítið öðruvísi hljóð í einni systur hennar þegar hún minntist bernsku sinnar. Svo kemur að því að Magnúsi fóstra móður minnar þverr meir þróttur og Guðný var ekki sterkbyggð. Mamma kynnist pabba og sér fyrir sér að þörf væri að fá karlsmannsaðstoð inn í heimilið. Þau giftast en þá vantaði þau jarðnæði Guðný hélt áfram að hokra á sínum jarðarparti. Hún hafði átt tvær systur og önnur þeirra hafði eignast börn og að líkindum sat Guðný í óskiptu búi. Líklega hefur það ítt undir hana að halda sínu sér. Eftir á að hyggja var það bara gott. Rauðaberginu var skipt í fjóra parta. Eitt var Guðnýjarpartur annar partur systranna Katrínar og Kristínar. Svo var Hoffellspartur og fjórði var Hafnarnespartur. Foreldrar mínir gátu fengið Hafnarnespartinn á leigu. Hann var minnstur en þetta var alltof lítið jarðnæði. Árni bróðir pabba sem byggði litla baðstofu handa þeim, áleit samt að betra hefði verið fyrir þau að setjast að á Höfn. Mömmu fannst hún ekki geta yfirgefið fóstru sína og skilið hana eina eftir, þar sem hún skuldaði henni aðhlynningu frá því hún kom til þeirra. En mamma var líka búin að vinna þeim vel í nokkur ár, þá orðin kraftmesta manneskjan á heimilinu. Guðný bjó í húsi foreldra minn þegar ég man fyrst eftir mér. Mamma eldaði fyrir hana hennar mat en hún sat að sínu áfram. Ég man eftir henni er hún sat á rúmi sínu við rokkinn í baðstofunni og spann á sinn hljóðláta rokk. Það er víst ekki sama hver smíðar rokka. Mömmurokkur var miklu hávaðasamari. Baslið með jarðnæðið hélt áfram hjá foreldrum mínum þar til þau gátu fengið Hoffellspartinn á leigu og seinna keyptan þegar synirnir voru komnir til manns og farnir að leggja lið. Maður austan Fljóta sagði frá því í bók að á Mýrum hefði verið kotakrans. Það var nokkuð auðskilið að þegar búið var að skipta jörð upp í þrjá fjóra parta, þá mundi ekki verða auðsær stórbóndabragur á hverjum parti. Svo var nú fólkið frjósamt, allt uppí 15 börn hjá einum hjónum og allir fengu að prófa hvort þeir gætu ekki fæðst lifandi og komist til manns. Flestir gátu það en einstöku barni varð fæðingin ofraun. Elsti bróðir minn fæddist andvana. Ljósmóðirin sagði mömmu einhvern tíman að hún væri ekki vel fallin til barnsfæðinga. Hún fæddi samt fjögur lifandi börn eftir þetta. Hugsið ykkur ,,Hvílík náð yfir Ljósmóðurinni og öllu til samans." Enginn læknir á næstu grösum.
Skrifað af Þóru Pálsdóttur 15.11.2009 15:22FlugurFlugur
Ég hefi nýlega orðið vör við litlar flugur í íbúðinni hjá okkur. Veit ekki eftir hvaða leiðum þær hafa ratað til okkar en dettur helst í hug, að þær hafi tekið sér far með blómum og ákveðið að setjast að í sambýli við pottablómin og nærast á ilmi þeirra blóma sem voru að springa út. Þær hafa ekkert verið í eldhúsinu að heimta mat. Ég veit annars ekkert um hvar þær sofa eða á hverju þær nærast hjá mér. Ekkert sannfærir mig betur um að til sé skapari en einmitt svona smákvikindi eins og flugur. Hugsa sér þessa ótrúlegu flughæfni sem þær hafa. Í Íslenskri Alfræði Orðabók bls.141 er minnst á flugur. ,,Brachycera: undirættbálkur Tvívængna, með 69 þúsund teg. Oft stuttvaxnar með litla fálmara og stóra gagnsæja vængi. Lirfurnar (maðkarnir) eru í jarðvegi, vatni, taði og úrgangi eða lifa sníkjulífi á dýrum og plöntum. Margar þeirra eru munn og fótalausar." Ég sat í stofunni nýlega og var að lesa í bók, eitthvað sem mér fannst mjög spennandi, kemur þá ekki ein fluga svífandi með miklum stæl og settist með snilldarlegu jafnvægi á sömu baðsíðu og ég var að lesa. Ég trúði nú ekki að hún væri læs og gæti orðið sér úti um neinn gagnlegan fróðleik á síðunni þar sem flugan nær varla stærð eins bókstafs, svo ég reyndi að slá hana burtu en hún var nú sneggri en svo í hreyfingum að ég gæti hitt á hana. Hún kom fljótt aftur og ég endurtók minn gjörning. Ég veit að maður á ekki að vera að drepa flugur að óþörfu en það hefði tekið mig langan tíma að reyna að fanga hana og koma henni út um gluggann og þá hefði hún bara dáið úr kulda, að ég held. Ég dáist samt að þessum litlu duftkornum fyrir flughæfnina og líka fyrir hæfnina að geta séð sér farborða í lífinu og komið á legg næstu kynslóð til að viðhalda tegundinni, kynslóð eftir kynslóð, marga mannsaldra. Þessi litlu fis sem þær eru. Hver skyldi svo sem hafa getað komið slíku lífsundri til leiðar nema sá eini alvitri Skapari? Ég ólst ekki upp við það, að flugur væru hafðar sem gæludýr innan húss. Það var yfirleitt reynt að losa sig við þær með illu eða góðu. Þessi fluga vildi engan frið, hún vildi bara stríð og endurtók hvað eftir annað innrásina á mitt yfirráðasvæði til að gera það að þyrlupalli fyrir sig að setjast á. Henni virtust vera vel ljósir sínir yfirburðir yfir mig á vissum sviðum en hvort hún var vond út í mig eða hafði gaman af að stríða mér veit ég ekki og verð líklega að bíða lengi enn eftir að vita það. Það dróg enginn hvítt flagg að húni, hvorki hún eða ég. Svo stríðið hélt áfram þar til árásir hennar hættu allt í einu og ég hefi líklega lamað hana eða drepið þótt líkið fyndi ég ekki.
Skrifað af Þóru Pálsdóttur
Flettingar í dag: 55 Gestir í dag: 31 Flettingar í gær: 1370 Gestir í gær: 389 Samtals flettingar: 123233 Samtals gestir: 24443 Tölur uppfærðar: 21.11.2024 09:29:37 |
Eldra efni
Tenglar |
© 2024 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is