Þóra Guðrún Pálsdóttir |
|
Færslur: 2008 Janúar14.01.2008 23:09Að temja köttTamning Það urðu mikil viðbrigði fyrir kisu okkar að flytja hingað, eftir að hafa verið frjáls ferða sinna að mestu leyti á Hringbrautinni í Keflavík. Hún þurfti ekki einu sinni að láta opna dyrnar fyrir sér. Þegar við opnuðum glugga á stofunni eða herbergi fór hún út og inn án þess að spyrja nokkurn um leyfi. Hafði lært það áður en hún kom til okkar. Þegar hingað kom, sá ég að ekki kæmi til mála, að hún vendist á að valsa hér út og inn á sama hátt. Það myndi enda með því að hún færi í sandkassana sem ætlaðir eru fyrir börnin í húsinu að leika sér í, en ekki kettina. Hún varð því nokkuð eirðarlaus og ég hélt að hún myndi ef til vill lagast ef við gætum farið út með hana í bandi eins og hund. Ég hafði áður keypt beisli handa henni og reynt að teyma hana eftir gangstéttinni á Hringbrautinni en hún var svo hrædd við umferðina á götunni, að hún var alltaf að strekkja á bandinu til að komast heim að hverju húsi sem við fórum fram hjá og líka að reyna að komast undir bíla sem stóðu við húsin. En í þessari innilokun sem hér tók við, þá hefur það áunnist að athyglisgáfa hennar hefir þroskast við að tileinka sér þá litlu tilbreytingu sem innilokunin býður uppá. Þegar við komum hingað gátum við ekki séð sjónvarp. Þannig leið þó nokkur tími. Þá kom að því að kapall var lagður í húsið. Við það fengum við fleiri rásir til að horfa á, heldur en við höfðum áður. Meðal annars eru á einni þeirra sýndar dýralífsmyndir. Uppáþrengja fór þá að gefa sig að henni, þó að áður hefði hún engan áhuga sýnt á sjónvarpi. Þetta var svo raunverulegt fyrir henni, að hún fór að gægjast á bak við sjónvarpið þegar dýrin hurfu af skjánum og svo stökk hún upp á sjónvarpið til að reyna að fá frekari botn í málið. Gátuna gat hún ekki leyst. Þessi ákveðna rás er nú uppáhaldið hennar. Hún nennir ekki endalaust að horfa á predikara en samt, þegar Friðrik Chram birtist einn á skjánum á Ómega, var eins og hún vænti þess að hann segði eitthvert gott orð við sig. Eiríkur Sigurbjörnsson vakti líka athygli hennar, ég held vegna þess að hann hreifði svo mikið hendurnar. Ef til vill féll henni maðurinn bara vel í geð. Jakobsbréfi 3.7. stendur, "Allar tegundir dýra og fugla, skriðkvikindi og sjávardýr má temja og hafa mennirnir tamið." Væntanlega er þá líka hægt að temja ketti, þótt sjálfráðir séu að eðlisfari, ef maður hefir þolinmæði. Ég var orðin svo leið á vælinu í henni er hún var að biðja mig að leika við sig og láta sig elta spotta., að ég ákvað einn daginn að fara að finna beislið og fara út með hana. Ég bar hana í fanginu niður tröppurnar og áfram töluverðan spöl eftir götunni, hélt að hún yrði þá samvinnuþýðari að fylgja mér heim aftur. Þegar ég setti hana niður á götuna byrjaði sama baksið og á Hringbrautinni. Líklega hefur hún orðið svo skelkuð, að hún hefir ekki munað í hverja átt halda skyldi. Hún vildi bara fara heim að hverju húsi sem við fórum framhjá. Virtist ekki vera í nokkrum vafa um, að það væri þó betri kostur en að halda áfram þessari eyðimerkurgöngu með mér. Ég varð bara að draga hana nauðuga annað slagið sem var nú ekki líkamlega erfitt fyrir mig. Vona að það heyri ekki undir illa meðferð á dýrum. Ég hefi lært það fyrir löngu, líklega í einhverri gamalli Biblíuþýðingu eða annarri góðri bók að "Ill meðferð á skepnum beri vott um grimmt og Guðlaust hjarta." Skrifað af Þóru Pálsdóttur 06.01.2008 02:03HvassveðurHVASSVIÐRI Um síðastliðna helgi, þ.e. fyrir viku síðan, var spáð illviðri um allt land. Minnsta kosti um Suður, Vestur og Norðurland. Viðvörun hafði gengið út frá veðurstofunni. Þegar við vöknuðum á sunnudagsmorgun, ætluðum við að fara á samkomu. Sem verða átti klukkan 11. Þá buldi svo mikill stormur og regn á húsinu sem við búum í hér í Engjadal,að mér leist nú ekki á blikuna. Ásgrímur var hvergi banginn að leggja í veðrið. Það stendur í Hebreabréfinu, frá postulanum Páli, "Hættið ekki að koma saman." Ásgrímur kom nú ekki með þá tilvitnun en ég veit að hann hefir lifað samkvæmt henni langa ævi. Það mundi því vera ábyrgðarhluti að vinna á móti svo fastmótaðri venju en stundum getur þurft að horfa á mál frá fleiri en einni hlið. Gæti það t.d. verið að grafa undan góðu siðferði í landinu, að hafa að engu opinberar aðvaranir frá veðurstofu?, sem sendar eru út landsbúum til heilla en ekki til óheilla. Jæja, það er nú ekki eins og við séum að stefna uppá Langjökul. Þetta eru aðeins 6 kílómetrar á láglendi sem við þurfum að fara. Ég spyr þá, hvort við eigum ekki að tala við vinkonu okkar sem býr í næsta húsi og sækir sömu kirkju og við. Hann segir að ég skuli hringja. Ég spyr hvort hún ætli að fara og vilji vera með. Hún segist nú eiginlega ekki hafa ætlað að fara, en ef ég fari þá telur hún sig geta farið líka. Við kviðum báðar hálfpartin fyrir rokinu við kirkjudyrnar. Ég er Guði svo þakklát fyrir að hann skyldi gefa okkur íbúð og bílskúr sem eru hlémegin í hvössustu áttinni sem komið hefur síðan við fluttum. Það er mikill munur. Ég var ekki búin að hafa hugsun á því að biðja Guð að haga því þannig. Í því húsi sem við mundum kaupa. Er ekki svo mikil bænamanneskja eins og margir aðrir. Guð hefir mætt þessari vöntun minni með því að gefa mé svo mikið óumbeðið. Hjá Matteusi í 6 kafla segir Jesús sjálfur, "Faðir yðar veit hvers þér þurfið, áður en þér biðjið hann." Svo kenndi hann þeim Faðirvorið. Þetta var allt viðráðanlegt. Ferðin gekk vel hjá okkur en á einum stað á leiðinni ókum við gegnum tjörn, er hafði safnast á veginum. Það varð ekki séð langt til hve djúp hún var. Vatnið frussaðist um allan bílinn eins og við ækjum gegnum foss. Útsýnið hvarf og mér var nú í meðallagi skemmt. Útsýnið birtist þó pass lega aftur, til þess að við sæjum bílinn sem kom á móti. Allt gekk nú tíðindalaust að komast inn um kirkjudyrnar, ekkert svo mikið verra en vant er ef vind hreifir. En þegar við vorum komin inn, hefir hurðinni líklega ekki verið nógu vel lokað. Hún virtist sogast út og skall svo aftur með miklum hvelli, meiri en ég hefi áður orðið vitni að. Skrifað af Þóru Pálsdóttur
Flettingar í dag: 55 Gestir í dag: 31 Flettingar í gær: 1370 Gestir í gær: 389 Samtals flettingar: 123233 Samtals gestir: 24443 Tölur uppfærðar: 21.11.2024 09:29:37 |
Eldra efni
Tenglar |
© 2024 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is