Þóra Guðrún Pálsdóttir |
|
Færslur: 2012 Ágúst06.08.2012 18:10Ný reynsla Ný reynsla Þið eruð búin að lesa um það sem kom fyrir húsbóndann en hann er nú ekki einn um það að prófa eitthvað nýtt. Það varð nú samt ekki eins alvarlegt hjá mér eins og honum. Þann 11 júlí var ég að koma frá því að heimsækja hann og hugsaði mér að líta inní blómabúð á leiðinni heim. Það var nú lítið að sjá innandyra en útandyra var mikið samsafn af blómum. Þau voru nú mörg hver vesöl og vindbarin að sjá og ekki virði verðmiðans, útsalan kemur ekki til með að bjarga þeim en önnur voru nú sprækari. Ég ætlaði ekki að kaupa nein dýr blóm en mér finnst gaman að horfa á þau. Mig dreymdi um það fyrr i sumar að kaupa fáeinar stjúpur í kassa til að hafa á svölunum en af því ég frestaði framkvæmdinni þá voru allar stjúpur uppgengnar í landinu er ég ákvað mig. Samt fannst mér þó ekkert orðið áliðið sumars en það er ekki alltaf gróði að vera lengi að hugsa sig um. ,,Sá sem sífellt horfir í skýin sáir ekki." Nú ég endaði þarna með því að velja nokkrar fjólur í potti, fór svo og borgaði og ætla á eftir að ganga út um dyrnar eins og vanalega. Ég hefi aldrei séð eða tekið eftir að þessar dyr væru lokaðar. Búmm. Ég Hafði í staðinn gengið á lokaðan glervegg og kastast frá honum niður í gólfið. Það hópaðist þarna að mér fólk sem fór að bisa við að koma mér á fætur aftur. Þetta var mikið högg heyrði ég einhvern segja. Það staðfestist með því að það þaut strax upp stærðar kúla til hægri við hvirfilinn. Ég skil ekki hvernig ég fór að því að fá áverka á þennan stað en hvergi annarstaðar á líkamann. Ég man nú ekki fyrir víst hvort það var þarna eða á sjúkrahúsinu eða hvoru tveggja að ég var spurð hvort ég ætti ekki börn, sjálfsagt til að, þau gætu tekið einhverja ábyrgð. Jú sagði ég, eitt í Danmörku, eitt í Noregi og eitt á Akureyri. Ég hefði nú getað sagt að ég væri ekki alveg umkomulaus samt, þótt ættingjarnir væru ekki alveg í handraða en ég var ekki alveg viss um að ég væri nógu veik til að fara á sjúkrahús. Þetta er rosastór kúla segir einhver. Ég þreifaði og fann það og hún var rök. Einhver smá vilsa kom í hendina en ekkert blóð. Einhver viðstaddra tók á sig ábyrgð fjarverandi ættingja og hringdi á sjúkrabíl. Svo var farið að spyrja mig ýmissa skynsamlegra spurninga eins og um ártal, nafnúmer og fleira sem ég svaraði óhikað. Svo kom sjúkrabíllin. Þeir hefðu nóg að gera, hugsa ég,ef öll heimili hefðu jafnmikla þörf fyrir þjónustu þeirra eins og mitt heimili, það er svo stutt síðan þeir fóru með manninn minn á sjúkrahúsið. Það var ung stúlka á vaktinni sem tók á móti mér. Hún fór nú líka að prófa hvað ég vissi mikið um sjálfa mig og umhverfið sem ég hrærðist í. Mér fannst hún hefði viljað láta taka mynd. En nú eru röntgenfræðingar ekki á vakt eftir klukkan 4 á daginn á þessu sjúkrahúsi. Það þyrfti þá að fara til Reykjavíkur. Mér fannst nú það liggja fyrir að ég fari heim og bið um að fá lánaðan síma. Hún vildi vita í hvern ég ætli að hringja og ég segist ætla að hringja í tengdadóttur mannsins míns, sem ég og gerði. Bað hana að koma og sækja mig. Hún sagðist koma strax og stóð við það eins og vænta mátti. Það varð að samkomulagi þeirra á milli að hún tæki ábyrgð á mér yfir nóttina. Svo ég fór með henni heim. Háttaði í góðum tíma en sofnaði ekki blund. Var eitthvað svo uppveðruð þótt ég finndi ekkert til. Ég hugsa nú að Dísa hafi heldur ekkert sofið. Hún hefur ábyggilega tekið ábyrgðina alvarlega. Um morguninn bað ég hana að aka mér heim og síðan hefur þetta gengið ágætlega. Kúlan enn ekki horfin en er horfin til betri vegar. ´´ Skrifað af Þóru Pálsdóttur
Flettingar í dag: 55 Gestir í dag: 31 Flettingar í gær: 1370 Gestir í gær: 389 Samtals flettingar: 123233 Samtals gestir: 24443 Tölur uppfærðar: 21.11.2024 09:29:37 |
Eldra efni
Tenglar |
© 2024 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is