Þóra Guðrún Pálsdóttir

Færslur: 2010 September

23.09.2010 23:27

Ótitlað

Nafn næstu biðstöðvar tilkynnt í hátalara

þessi fyrisögn birtist í Morgunblaðinu 11 september 2010 .

(Og áfram)Strætó bs.endurnýjar upplýsingakerfi í strætisvögnunum. Nú stendur yfir

Endurnýjun á upplýsingakerfum allra strætisvagna Strætó bs. sem mun gera fyrirtækinu

kleift að bæta þjónustu sína umtalsvert á komandi misserum. Seinna í fréttinni segir:,,  Margir eldri borgarbúar muna eflaust þá gömlu tíma þegar vagnstjórar kölluðu upp nöfn næstu biðstöðvar". Ja hvort ég man, þá var nú minni vandi að ferðast með vögnum þegar ég var ung og átti um tíma heima í Reykjavík. Ég þarf sjaldan á því að halda núna enda hefi ég ekki átt heima í Reykjavík. En í sumar vildi svo til að maðurinn minn þurfti að mæta á Gideonfundi sem halda átti í aðalstöðvum K.F.U.M og K.við Holtaveg.

Ég ákvað að nota ferðina og fara að hitta hjón sem ég hafði verið samtíða þegar ég átti heima í Kleppsholtinu fyrir um 40 árum. Maðurinn og fjölskylda mín höfðum þar áður verið samsveitungar austur í Hornafirði. En nú höfðum við lengst af haft landið á milli okkar. Ég fyrir norðan og þau fyrir sunnan. Nú var ég flutt suður en samt höfðum við aðeins einu sinni hittst. Við höfðum ætlað að heimsækja þau fyrir um ári síðan en þá vildi svo til að konan var að fara út úr húsi og beið bíll eftir henni, svo ekki varð úr heimsókn í það skipti. Nú vafðist fyrir okkur að finna götuna og ég vildi að maðurinn  minn færi til að mæta á réttum tíma á fundinn. Þegar ég svo hafði fundið húsið kom í ljós að aðeins var nú konan ein eftir en maðurinn dáinn. Þetta hafði farið framhjá okkur. Við kaupum ekki Morgunblaðið og hlustum sjaldan á dánartilkynningar.

 

Konan tók mér tveim höndum og reiddi fram góðgerðir eins og henni var eiginlegt. Við ræddum svo allengi saman en þegar ég fór frá henni ákvað ég að ganga niður Laugaveginn eins og í gamla daga þegar ég var um tíma hjá bróður mínum og mágkonu á Háteigsveginum. Mér þótti svo gaman að ganga niður Laugaveginn. Ég rölti alla leið niður á torg. Þar ákvað ég að líta inní Kolaportið. Mér finnst svo gaman að skoða gamalt dót þótt ég sé ekki að kaupa neitt. Svo var svo notalegt að setjast þar og fá sér hressingu eftir gönguna. Næst lá nú fyrir að leita að réttum strætisvagni til að fara með inn í Kleppsholt. Ég var svo heppin að vagninn sem stoppaði við torgið eftir smástund, átti leið um Langholtsveg. Ég spurði hvað farið  kostaði.

Ég hefði átt að vera betur undirbúin. Það kostar ekkert í vagninn í Reykjanesbæ.

.Ég hafði ekki krónurnar tilbúnar og flýtti mér að ná í sæti til að geta talið uppúr veskinu og var svona ljónheppin að það dugði rétt fyrir farinu. Bjóst ekki við að það félli í góða jörð að bjóða seðla, þeim sem eru alltaf að flýta sér og væri ef til vill brot á góðri hegðun hjá farþega. Ég vil ekki hugsa um skömmina, hefði ekki haft fyrir farinu en oft reyni ég, að það er fylgst með mér og séð fyrir því sem ég hefi þurft á að halda  umfram það sem mín viska hefur náð. Þá var nú eftir að koma fargjaldinu á réttan stað. Ég hefi enga æfingu í að ganga um gólf í strætisvagni á ferð og var hrædd við að missa jafnvægið. Stoppin voru svo stutt og ekki til að reiða sig á rauðu ljósin. Loks hefi ég upp hugann.Legg af stað til að skila fargjaldinu og segi vagnstjóranum að ég ætli að fara til höfuðstöðva K.F.Ú M við Holtaveg og fregna hvar sé best að fara út

  Hann kannast nú ekkert við húsnæðið sem ég er að tala um svo ég bið hann að hleypa mér út á stoppistöð næst miðju á Langholtsvegi. Ég gangi bara þaðan .Veit ekkert hvort þetta passi, þótt ég ætti heima í Kleppsholtinu um tíma fyrir meira en 40 árum. Svo þegar hann er á leiðinni upp frá Sundlaugunum dettur mér í hug að það sé nú ef til vill vissast fyrir mig að fara út á næstu stöð og ganga þaðan en villtist og  hugsa að auðveldast nái ég áttum ef ég komist uppá Kleppsveg. Varð af langur gangur. Komst þó að lokum uppá Kleppsveg og svo Langholtsveg, fann Holtaveg og komst í tæka tíð fyrir fundarlok hjá Gideon mönnum.

 

  • 1
Flettingar í dag: 55
Gestir í dag: 31
Flettingar í gær: 1370
Gestir í gær: 389
Samtals flettingar: 123233
Samtals gestir: 24443
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 09:29:37

Eldra efni

Tenglar