Þóra Guðrún Pálsdóttir

Færslur: 2009 Mars

18.03.2009 20:07

Ömmubörnin aftur.

Eftir aða hafa skrifað síðasta pistil sá ég að ég hafði aðallega minnst á drengina.  Það var ekki vegna þess að mér fyndist neitt meira til þeirra koma.  Þeir voru bara eins og meira við hendina útfrá dagatalinu. Stúlkurnar eru þrjár. Elst af þeim er hún Hrefna Sæunn sem leggur fyrir sig læknisnám í Danmörku. Hún er íslensk og talar íslensku. Svo eru Sara og Anna sem heima eiga í Danmörku. Danskan er þeirra móðurmál. Þetta eru indælar stúlkur og ég vona að þær eigi eftir að leggja fyrir sig einhver heiðarleg störf, sem Guð hafi skapað þær til að vinna, sjálfum sér og sínu landi til farsældar, eða hvar í heiminum sem þær eiga eftir að slá sér niður til búsetu. Ég þakka Guði fyrir þau öll.

16.03.2009 00:46

Mars.

Mars15.3.2009

Elsta barnabarn mitt á afmæli í dag. Danskur drengur. Bjarni heitir hann, fæddur á Íslandi. Ég sá hann fyrir mörgum árum, þá sem ungan og fallegan mann. Hann er það nú eflaust enn. Tungumálaörðugleikar gerðu okkur ómögulegt að hafa samfélag. Ég var uppalin í afskekktri sveit á Íslandi. Þar var ekki kennd danska. Ég lærði nú samt svolítið að lesa dönsku af dönskum blöðum, sem ég fékk að láni þegar ég var orðin rígfullorðin, svo ég hefði nú getað lesið bréf á einföldu máli en ekki getað svarað þeim aftur. Ég fékk, fyrir ekki löngu síðan bréf, sem ég hafði skrifað til ömmu minnar sem bjó í Reykjavík, þegar ég var 9 ára gömul. Þá var ég komin í barnaskóla og hún var búin að senda mér skólatösku. Ég mun hafa verið einn mánuð í skóla þann vetur enn aðeins eina viku veturinn áður. Eftir þetta vorum við börnin í sveitinni annan hvern mánuð í skóla yfir veturinn, fram til fermingar.

Í gær átti annar ömmusonur afmæli. Hann heitir Ísak Freyr og er íslendingur. Hann er líka fallegur drengur eins og þeir eru nú allir fjórir. Einn er norskur og heitir Sigurd en manni finnst nú að hann sé næstum íslendingur af því mamma hans hefur verið svo dugleg að koma oft með hann til Íslands. Það er líka stutt síðan hann Andri Þór átti afmæli 17 Febrúar og Hrefna Sæunn sem ég held ég skuldi afmæliskveðju. frá því í haust. Ég vil senda ykkur öllum kveðju með bænarljóði eftir afa ykkar. Þið hafið vonandi erft eitthvað af þeirri líknarlund sem það lýsir.

276.
Ó, gef mér, Drottinn, ylinn elsku þinnar
að ylja þeim, er svíður lífsins frost.
að þerra votar, þrútnar tárum kinnar
á þeim sem, eiga lítinn gleði kost.

Ó, gefðu mér að elska auma og þjáða,
sem illa líður, bera hryggð og kvöl,
að elska villta, auðnulausa, smáða,
sem eiga við að stríða skort og böl.

Ó, Drottinn Jesús, hugga sjálfur hrellda,
og hlynn að veikum, lækna gegnum mig,
og styrk og reis á fætur marga fellda,
sem fallhætt varð á skreipum lífsins stig.

Ó, minnstu, Drottinn, manna týndra, gleymdra,
sem mein og fjötrar löngum særa og hrjá.
Ó, minnstu syndar fanga, freisting teymdra,
Til frelsis þíns og dýrðar leiddu þá.
S.G.J.



  • 1
Flettingar í dag: 55
Gestir í dag: 31
Flettingar í gær: 1370
Gestir í gær: 389
Samtals flettingar: 123233
Samtals gestir: 24443
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 09:29:37

Eldra efni

Tenglar