Þóra Guðrún Pálsdóttir

Færslur: 2008 Nóvember

05.11.2008 18:16

Ótitlað

  Í  Morgunblaðinu 2. nóvember 2008 tekur  Guðrún  Guðlaugsdóttir viðtal við Hrefnu Róbertsdóttur.  Yfirskriftin er.

 

          Framleiddu ullarvörur til útflutnings

 

Hrefna Róbertsdóttir sagnfræðingur fjallar í doktorsritgerð sinni um innréttingarnar á 18. öld og tilraunir til að koma á fót heimilisvefsmiðjum út um allt land til að framleiða vörur úr ull.  (Guðrún spyr Hrefnu)

,,Hver er niðurstaðan í ritgerð þinni um skipulag ullarvinslunnar?

 

   ,,Sú að byggja átti upp margskonar vinnslu, og gagnið af henni var talið misjafnt eftir aðstæðum; hlutfallsleg gagnsemi ef þannig má að orði komast..Stefnan var að breyta hefðbundinni ullarvinnslu, þar sem flestir spunnu, prjónuðu og ófu heima í arðmeiri sérhæfðari vörur. Prjónles hafði verið almennt ríkjandi útflutningsvara. En nú þótti gagnlegt að konur í sveitum tækju upp spunavinnu á meðan þeir sem bjuggu við ströndina, sérstaklega karlmenn í verum, áttu að prjóna þegar ekki fiskaðist. Þannig átti tími allra að nýtast sem best."

 

Mér fannst gaman að lesa allt viðtalið.  Það minnti mig á gamla tíma þegar ég var að alast upp, hvað mikil vinna lá í því að vinna fatnað á alla heimilismenn úr ullinni og gera skóna á fólkið úr skinnunum af skepnunum. Gúmmískórnir voru nú að koma til sögunnar þegar ég var krakki. Miklu held ég að hafi verið létt af húsmæðrunum við það, sér í lagi þar sem húsfreyjan var bara ein af vinnufæru kvenfólki Ég náði því nú aðeins að læra að gera sauðskinnsskó. Ég er ekki viss um að það hafi yfirleitt þótt sjálfsagt að kenna drengjum að prjóna þótt þeim dönskum og íslenskum yfirvöldum hafi fundist sjálfsagt að karmenn prjónuðu í landlegum.

 

Ekki kunni faðir minn að prjóna. Hann spann hrosshár og vann úr því, hann reið silunganet og kembdi ull fyrir móður mína en að prjóna lærði hann fyrst í elli sinni, þegar hann gat engu sinnt utanhúss. Þetta var svolítið strembið í byrjun og ég gat svo vorkennt honum þegar mamma sá ekki aðra leið en að rekja eitthvað upp. Þetta gat verið svo lúmskt þegar féll niður lykkja án þess að eftir væri tekið. Hann var auðvitað ekki lengur á besta skeiði til að læra en þetta hafðist nú samt og átti eftir að stytta honum margar stundir. Í þessu fann hann sig geta tekið einhvern þátt í að vinna heimilinu gagn, þótt það væri ekki meira en að prjóna sokka.

 

Hann bróðir minn kunni að taka lykkjuna en ég er nokkuð viss um að það hefur hann lært að sjálfs síns frumkvæði. Hann var alla ævi svo verkfús og verkhagur maður að hverju sem hann gekk. Það kom honum líka vel í ellinni. Þá fór hann að prjóna lopapeysur og gaf mér meðal annars eina útprjónaða peysu. Svo gafst hann að lokum upp á að prjóna peysur, fannst hann hafa lítið upp. Þegar ég giftist seinni manni mínum var hann að sauma krosssaumsmynd af kvöldmáltíðinni og flýtti sér að ljúka verkinu, til þess að gefa okkur það í brúðargjöf. Þá var hannbróðir minn 84 ára. Því fylgja góðar minningar að horfa á það hangandi yfir skrifborðinu.

                                                                                                                                         Það þótti fyrrum ekki nema eðlileg nýting á tímanum að konur gengju prjónandi á milli bæja en samt veit ég ekki hve algengt það var á lengri leiðum. Húsfreyjur  utan úr miðri sveit eða lengra til, komu sjaldan. Ég man eftir einni konu  úr nágrenninu sem kom einu sinni tvinnandi á snældu um leið og hún gekk. Hún hafði gaman af að hitta nágranna að máli en lét sér samt ekki verk úr hendi sleppa.  Í því var lífið fyrrum fólgið, að nota hverja stund.                                                                                                                               Í Orðskv. 12:24. Hönd hinna iðnu mun drottna, en hangandi höndin verður vinnuskyld.

  • 1
Flettingar í dag: 55
Gestir í dag: 31
Flettingar í gær: 1370
Gestir í gær: 389
Samtals flettingar: 123233
Samtals gestir: 24443
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 09:29:37

Eldra efni

Tenglar