Þóra Guðrún Pálsdóttir

Færslur: 2008 Febrúar

12.02.2008 22:38

Vetrarveður

Sunnudagur 10.2.2008.

Ég las það á netinu að veðrið ætti að halda áfram að vera hvasst og úrkomusamt eins og verið hefur að undanförnu. Útitröppurnar hjá okkur liggja hálfar í skjóli, milli tveggja útveggja, annarsvegar okkar íbúðar og svo þeirrar næstu. Það er, efri hluti þeirra. Neðri helmingur trappanna er ekki í skjóli og á þær rignir þegar úrkoma er, en hinn helmingurinn hefur verið þurr þótt rignt hafi. Okkur brá því í brún, einn morgun er við litum út fyrir stuttu síðan og sáum að skafrenningurinn var búinn að þéttpakka snjónum í tröppurnar, frá neðanverðu og upp að útidyrum hjá okkur. Húsbóndinn þurfti því að kafa niður tröppurnar í bílskúrinn til að ná í skófluna. Svo hófst nú moksturinn. Þegar ég svo að nokkrum tíma liðnum leit á afrakstur verksins blasti við mér verkhyggni, sem ég hafði alloft orðið vitni að, fyrir meira en 40 árum á Akureyri, er ég átti heima á Sjónarhæð. Þá var það í verkahring fyrri mannsins míns að moka tröppurnar upp að Sjónarhæð, sem voru bæði breiðar og háar, sameiginlegar fyrir salinn og íbúðarhúsið. Það kyngdi oft þvílíkum snjó í brekkuna þar sem tröppurnar lágu. Þá tók hann stundum það ráð, að moka þær hálfar niður, svona svipuð sjón og nú blasti við mér, eftir þennan árafjölda, eitthvað kunnuglegt úr fortíðinni. Fyrrum voru meiri snjóþyngsli venjuleg en verið hafa í seinni tíð. Það hafa eflaust verið ófá tonn af snjó í allt, sem fyrri maðurinn minn var búinn að moka, öll árin, sem hann átti heima á Sjónarhæð, enda sagðist hann stundum ekki nenna að moka tröppurnar allar. Ég vorkenndi honum, fannst hann vera orðinn of gamall til að standa í svona púli, kominn á sjötugsaldur. Núna finnst mér fólk ekki sérlega gamalt á þeim aldri. Þetta breytist þegar maður sjálfur er orðinn eldri. Hann mun hafa verið að verða 68 ára þegar sá tími kom, að við fluttum frá Sjónarhæð í annað húsnæði 1967. Þar voru bara lágar tröppur og lítill snjómokstur, miðað við hitt, þótt við værum að vísu enn á Akureyri.

  • 1
Flettingar í dag: 55
Gestir í dag: 31
Flettingar í gær: 1370
Gestir í gær: 389
Samtals flettingar: 123233
Samtals gestir: 24443
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 09:29:37

Eldra efni

Tenglar