Þóra Guðrún Pálsdóttir |
|
Færslur: 2007 Desember30.12.2007 02:54Bíllinn.Bíllinn Það leið ekki langur tími þar til okkur kom vel að hafa kynnt okkur möguleika á að nota strætisvagninn. Allt í einu fannst mér þegar ég steig á bremsuna í bílnum að hún vera breytt. Ég talaði um þetta við eiginmanninn og hann hafði tekið eftir þessu sama og bjóst við að bremsuborðarnir væru orðnir ónýtir. Það var nú frekar slæmt að missa bílinn svona rétt fyrir jólin en ég vildi það nú frekar, ef hægt væri að fá gert við hann. Það fannst mér ekki skemmtileg tilhugsun að aka á urgandi bremsum. Hann hringir svo á verkstæðið, og viti menn. Hann mátti koma með hann strax en átti að kaupa varahluti á leiðinni. Hann gat svo tekið strætisvagninn heim aftur Nú vildi til að ég þurfti að koma pakka á pósthúsið. Stakk þá maðurinn uppá að biðja kunningja okkar að hlaupa undir bagga og aka mér. Mér finnst nú alltaf skemmtilegra að vera ekki að ónáða náunga mína fram yfir það sem nauðsýn ber til, þar sem ég vissi að ég ætti að geta komist þangað með strætisvagninum, ákvað ég heldur að taka þann kostinn. Þetta gekk allt eftir áætlun. Það kom stór vagn og ég fékk sæti strax. Um leið og ég fór inn spurði ég strætisvagnsstjórann hvar best væri fyrir mig að fara út ef ég ætlaði í pósthúsið. Þetta var mjög ungur maður að sjá og virtist ókunnugur því hann sagðist ekki vera viss hvar pósthúsið væri. Ég tók það ráð að setjast og sjá hverju fram yndi. Á einni stoppistöðinni vindur ungi maðurinn sér innar eftir bílnum, til mín og segir mér, hvar best sé fyrir mig að fara út. Það fannst mér mjög vel gert af honum. Satt að segja var þetta nú æðilangt sem ég þurfti að ganga og byrðin seig í. Allt hafðist þetta nú af að lokum. Það kom í ljós að það þurfti að fá meiri varahluti í bílinn okkar, víst innan úr Reykjavík og reyndist meiriháttar viðgerð. Gott var því að geta bjargað sér í strætisvagninum á meðan.
Skrifað af Þóru Pálsdóttur 10.12.2007 20:50StrætisvagninnStrætisvagninn Við hjónin ákváðum einn seinnipart dags, fyrir nokkrum dögum, að kynna okkur samgöngumálin innan Reykjanesbæjar. Gott að vita hvar maður stendur ef eitthvað kæmi nú fyrir bílinn, þótt ekki væri nú annað, en að annað okkar færi á honum í lengri ferð. Gott fyrir hitt að vita hvað þá er til ráða ef það skyldi vilja hreyfa sig. Strætisvagninn hefur viðkomu á stað sem er stutt frá heimili okkar og þar er meira að segja skýli sem hægt er að setjast inní. Ég ætla að taka fram strax að það kostar ekkert fara með vagninum. Veðrið var gott. Við fórum heldur of snemma af stað. Vorum svo fljót að skýlinu og vagninn var líka heldur seinni á ferðinni en okkur hafði verið sagt, svo biðin varð nokkur. Þetta var mjög lítill vagn og hann var stútfullur af börnum fram að dyrum. Þar sem við komum á eftir þeim inn, stóðum við auðvitað líka. Maðurinn minn náði taki á súlu fremst í vagninum og ég náði taki báðum höndum á stólbaki eða öllu heldur járnslá sem lá yfir sætisbak, annars hefði nú ekki farið vel fyrir mér með jafnvægið, því að bílstjóranum lá greinilega á, til að halda áætlun. Hinsvegar fannst mér eins og skellt hefði verið mörgum beygjum eða torfærum á brautina hér og þar í þessu nýbyggða hverfi. Börnunum virtist nú ekkert bregðast jafnvægið, rétt eins og þau væru með sogskálar á fótunum. Hinsvegar sá ég ekkert fram fyrir bílinn og vissi því ekki hvort næsti slinkur yrði til hægri eða vinstri. Gat því ekki stillt líkamann eftir því hvor hallinn yrði heppilegri. Snilli bílstjórans fólst í því að fara á sem mestum hraða og slá hvergi af á þessum þvers og kruss brautum. Ég held að tíminn hafi rekið á eftir honum, frekar en að hann hafi verið að hugsa um að farþegarnir ættu að fá einhverja tilbreytingu í hversdagslífið og geta dáðst að því hve snjall hann væri, að halda vegi. Ég gæti best trúað að hann hafi einhvern tíma æft sig í rallakstri og kæmi það til góða. Allt horfði nú til betri vegar þegar til Keflavíkur stemmdi. Þegar þangað kom fékk ég sæti og eftir það var allt með eðlilegheitum, hvort sem það var vegna þess að ég hafði fengið sæti eða göturnar voru akstursvænlegri. Vagninn stoppaði rétt hjá Álnabæ en þar þurftum við að versla smávegis. Það gekk fljótt og þá áttum við korter eftir þar til vagninn kæmi aftur. Maðurinn minn stakk uppá því að við færum að heimsækja vinkonu okkar. Það er örstutt sagði hann. Mér fannst það nú ekkert örstutt þegar ég hugsaði að við hefðum aðeins korter til að komast þangað og aftur á stoppstöð vagnsins. Hann aftur á móti hugsaði víst að við gætum tekið þar næsta vagn og þannig gæti þessi heimsókn komist í verk. Þannig gekk hans tillaga í uppfyllingu. Vinkona okkar vildi endilega hella uppá könnuna handa okkur. Við komum svo á tilteknum tíma aftur til að taka vagninn og hann mætti stundvíslega á þeim tíma sem vagnstjórinn hafði áður tiltekið. Þetta var miklu stærri vagn en hinn og hann fór alla leið þangað sem við eigum heima. Ég hefði nú ekki ratað út á réttum stað af því myrkur var komið og ljósin bara rugluðu mig á ókunnu svæði. Maðurinn minn er miklu ratvísari. Sannaðist þar orð prédikarans, ,,Betri eru tveir en einn". Skrifað af Þóru Pálsdóttur
Flettingar í dag: 55 Gestir í dag: 31 Flettingar í gær: 1370 Gestir í gær: 389 Samtals flettingar: 123233 Samtals gestir: 24443 Tölur uppfærðar: 21.11.2024 09:29:37 |
Eldra efni
Tenglar |
© 2024 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is