Þóra Guðrún Pálsdóttir

Færslur: 2007 Júlí

08.07.2007 01:44

Vestmannaeyjar

VESTMANNAEYJAR

Þann 22 júní fórum við 3 saman til Vestmannaeyja á sumarmót Hvítasunnumanna. Það vorum við hjónin og Kristinn sonur Ásgríms sem er forstöðumaður Hvítasunnusafnaðarins hér. Hann hafði nú alla ábyrgð á því að panta handa okkur flugfar og gistingu. Það má nú kannski segja að honum hafi borið siðferðileg skylda til þess gagnvart sínum föður en hann skuldaði mér nú ekkert viðvíkjandi sínu uppeldi en sýndi mér sömu umhyggju og honum. Guð var svo góður við hann að hann lét móður hans lifa svo lengi sem hann var í foreldrahúsum og langt fram yfir það. Hann var orðinn harðfullorðinn, giftur og orðinn húsbóndi á egin heimili, auk heldur forstöðumaður síns safnaðar þegar ég kom til sögu. Ég náði því aldrei að höndla vondu stjúpu hlutverkið margfræga gagnvart honum. Þetta er nú bæði gott og ekki gott. Auðvitað gott og áhyggjulaust að þurfa ekki að standa í neinum uppeldiserjum við annarra manna börn en þar sem ekkert er gert hvorki gott né illt verður heldur ekkert að þakka fyrir.

Við það að gerast kona föður hans má segja að kynni okkar hafi byrjað sem ókunnugs fólks í söfnuði, sem mætist oft í viku við messur og bænir. Ég kynnist honum þó meira en hann mér, því það er hann sem heldur ræðurnar og ég hlusta. Hann veit ekkert hvernig mér líkar ræðan því ég læt það ekkert í ljós, er of feimin til að eyða orðum að þarflausu á þennan þroskaða mann. Þetta er líka merkilegur maður, það eru ekki allir sem fá köllun til að sinna hirðisstarfi við hjörð Drottins.

Þegar ég var krakki þá sótti bróðir minn sem var 11 árum eldri en ég , íslendingasögurnar í bókasafnið. Í þeirri bókafátækt sem búið var við, þá setti maður það ekkert fyrir sig þó málið væri fornlegt. Ég held að eitthvað hafi ég innbirt af eðlisfari umræddra persóna sem þar er getið. Svo sem, að við hæfi væri að láta engin svipbrigði sjást, á hverju sem gengi. Seinna varð nú Biblían í meira uppáhaldi en Íslendingasögur.

Jæja, ferðin hófst með því að ekið var inn á Reykjavíkurflugvöll seinnipart föstudagsins 22 júní. Þar áttum við að taka flugvél til Vestmannaeyja. Kristinn sótti farmiðana handa okkur. Eftir litla stund vorum við komin í loftið og eftir svo sem 20 mínútur var vélin sest í Vestmannaeyjum. Þangað hafði ég ekki komið áður og ekki haft grænan grun um að þar væri svo fallegt og víðlent eins og reyndist vera. Á flugvellinum mættum við tveimur mönnum úr Keflavík, sem komið höfðu sjóleiðina og höfðu tekið bíl með sér. Voru þeir þar komnir til að aka okkur til náttstaðar og reyndar eitthvað um eyjuna fyrir samkomu. Klukkan 17 var bænastund í safnaðarhúsi Hvítasunnumanna. Það er mikið hús og vel við vöxt. "Gefst í gerðar spyrður," ,Það var trú manna fyrrum. Mætti það rætast sem fyrst hjá þessum hugumstóra söfnuði. Steingrímur sem verið hefur forstöðumaður ávarpaði okkur og var ánægjulegt að heyra og sjá hve snöggan kipp heilsufar hans hefur tekið í rétta átt. Kl. 8 um kvöldið var fagnaðarsamkoma. Hinrik Þorsteinsson hafði orðið og fórst það vel þótt fyrirhuguð ræða hefði víst tekið sér það bessaleyfi að stinga höfundinn af og sitja bara heima. Við fimm úr Keflavík fengum svo næturgistingu hjá Árnýju og góð rúm að sofa í.  Daginn eftir sem var laugardagur þá var samkoma klukkan 11 nutum við lofgerðar og kennslu sem Lilja Óskarsdóttir sá um. Eftir það fórum við að fá okkur eitthvað svanginn. Klukkan 14 gat maður valið um ýmislegt. Síðan fyrir jól hafði vinstri fótur minn verið mér misjafnlega erfiður og verið reynt að sprauta nokkrum sinnum í mjaðmarliðinn, með ekki nógum árangri og þar eftir var það sama uppá teningnum með vinstri axlarlið,en með það fór ég ekki til læknis. Hvorumtveggja var þó orðið betra er hér var komið sögu. Mér hefði þó ekki hentað að standa á útisamkomu. Við völdum því að fara í útsýnisferð með rútu um eyjuna og vorum hátt í 3 tíma. Þá var ég nú orðin lúin, því ég verð dálítið þreytt að sitja lengi í bíl. Þegar þessu ferðalagi lauk langaði mig ekki í annað meira en að fá leigubíl þangað sem við héldum til. Einhvernvegin misheppnaðist það og eftir að hafa setið nokkra stund áleit ég að ég hlyti að geta komist gangandi og lögðum af stað. En það reyndist mér sú erfiðasta ganga þótt hún væri ekki löng. Ég hátttaði og svaf lengi. Klukkan hálf átta var svo samkoma sem Mike og Sheila Fitzgerald töluðu á og um áhugavert efni. Þau eru ávallt svo elskuleg. Tónleikar áttu að hefjast kl.11 um kvöldið. Guð hefur gefið mér mjög takmarkaða hæfileika til að meðtaka eða framleiða hljómlyst svo ég þráði nú meira að fara í rúmið, losaði þó svefn einhvern tíma og fannst vera ljós í herberginu og var undrandi á að húsbóndinn hefði ljós.

Honum er nú frekar lítið um það og umber það frekar en aðhyllist, þegar ég er að lesa við ljós. Heima erum við búin að einangra skinið frá því með dökkri svampsessu úr bílsæti eða baki sem við klemmum á milli rúmanna. Samviskan fer nú samt að ónáða mig ef ég heyri hann hreyfa sig þegar klukkan er á tólfta tíma og að hann sé ef til vill enn vakandi. Ég færi mig þá yfir í annað herbergi ef svefninn er enn ekkert farinn að banka á dyrnar hjá mér.  Þessum umbúnaði er venjulegu fólki ekki séð fyrir á gistiheimili. Ég horfði því fram svefn og bókarlausa nótt af því ég var búin að sofa svo lengi þennan dag eftir útsýnisferðina. En móti öllum líkum sofnaði ég frekar fljótt, hefi líklega enn verið þreytt eftir áreynslu dagsins.  Hvað viðkom ljósinu sem ég þóttist sjá um nóttina skýrðist það um morguninn. Það lá spegill lágréttur í glugganum og er sólin um nóttina skein á hann varpaði hann birtunni upp á vegginn svo að þetta sýndist eins og ljós og birtu lagði um herbergið.

Það var dýrlegur morgunn að vakna og líta út um gluggann, alveg logn og glaða sólskin og þessi voldugi klettur og umhverfið svona hátt uppi. Það er nú góði kosturinn. Einhver hafði sagt í mín eyru að það rigndi mikið í Vestmannaeyjum og þá er eflaust allt annað um að litast.  Klukkan nýju átti að vera bænaganga. Ásgrímur fór í hana. Ég fór ekki. Það stendur í Biblíunni um einhvern mann að honum aukist æ þróttur á göngunni.  Það er ef til vill þannig með Ásgrím líka.  Hann er þremur árum eldri en ég svo ég ætti einnig að geta orðin sprækari til göngunnar eftir þrjú ár.

Um hálftólf fæ ég svo orðsendingu frá honum að hann vill fá mig í mat á tiltekinn stað. Hann hafði þá hitt hjón í göngunni sem buðu okkur í mat. Sannaðist þar með máltækið, ,,Sveltur sitjandi kráka en fljúgandi fær." Í ljós kom að reyndar vorum við tengdar konan og ég. Hafsteinn blessaður ók mér þangað. Hann var okkar þræll sem bíllaus komum úr Keflavík. Klukkan eitt var svo komið að mótslitum. Hafliði Kristinsson hafði þá orðið. Það var bara vel til fundið, friðarins maður að ég ætla að eðli til og mannasættir að menntunarstigi. En ég vona að það hafi nú ekkert alvarlegt komið upp í samfélagi okkar á þessu móti. Þetta var svo stutt og reyndi þar af leiðandi minna á samskiptahæfni þátttakenda.

  • 1
Flettingar í dag: 55
Gestir í dag: 31
Flettingar í gær: 1370
Gestir í gær: 389
Samtals flettingar: 123233
Samtals gestir: 24443
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 09:29:37

Eldra efni

Tenglar