Þóra Guðrún Pálsdóttir

14.09.2012 22:39

Hvað er að frétta

                             Hvað er að frétta?

 

Það er helst að frétta að Ásgrímur útskrifaðist af sjúkrahúsinu og kom heim mánudaginn þrítugasta júlí. Hann fer í sjúkraþjálfun tvisvar í viku, þriðjudaga og fimmtudaga klukkan 12. Af því ég þarf að bíða eftir honum þá datt mér í hug að fá að gera eitthvað á meðan hann er í boltaleik við sjúkraþjálfarann til að styrkja jafnvægið, þá fæ ég að ganga á bretti sem á stendur: Bannað að hlaupa á þessu bretti". Ég passa því að stilla það á ekki of mikinn hraða svo ég skemmi nú ekkert í tækjasalnum, annars veit ég ekkert af hverju þetta bann er sett á þetta eina bretti. Ég er nú ekki meira en fimm sex mínútur á brettinu og fer þá í fleiri tæki. Þessi hálftími líður nú fljótt og á eftir förum við heim og þá er að leggja í stigann upp á aðra hæð. Hann er frekar ógnandi fyrir þá sem ekki hafa gott jafnvægi eða hættir til svima. Þetta hefur gengið slysalaust hér heima en húsbóndinn varð nú samt fyrir því 1. september að hrasa í lágum stiga í öðru húsi en slapp furðulega vel miðað  við að stakkurinn hans skarst sundur yfir vinstra herðablaði og hann fékk rauða rönd þvert yfir bakið sem blæddi þó ekki úr. Hann hefur ekki haft nein óþægindi af þessu. Neðri vörin sprakk og þurfti að sauma einhver spor en það var svo lystilega gert að enginn tekur lengur eftir því. Það má því segja um slysin hjá okkur báðum að þau hafi frekar verið sýndarslys en veruleika. Samt orðið til þess  að mér finnst ekki svo eftirsóknarvert að búa í húsi með útitröppum lengur. Breyting gæti þýtt að fórna fögru útsýni en ávinna annað í staðinn.

 

En svo ég snúi nú að öðru þá sá ég auglýsta dagsferð eldri borgara á Suðurnesjum. Ég fékk áhuga fyrir þessari ferð. Það átti að sækja um far fyrir þriðja september en ferðin skyldi farinn þann 6. Ég renndi upp að skrifstofu SBk fyrir hádeigi þann 1.Sept. Það fór eins og mig grunaði, að skrifstofan var lokuð. Ég var orðin of sein. Ég ákvað samt að prófa á mánudag, sem ég og gerði. Þá var allt upp pantað en ég var sett á biðlista. Svo hringdi konan í mig sama dag og sagði ég gæti fengið pláss. Þetta var ákveðið og greitt samstundis. Ég mætti svo á Nesvelli þann 6. September. Við brunuðum svo af stað þaðan í gríðar stórri rútu og héldum sem leið lá í átt til Reykjavíkur. Beygt var við ákveðin gatnamót þar sem leiðin lá til Bessastaða og sá vegur valinn, því hér var höfðingjadjarft fólk á ferð sem heimsækja vildi æðsta mann þjóðarinnar. Hann sýndi okkur þann heiður að vera heima en frúna sáum við ekki. Hún hefur ef til vill verið í útlöndum að mæta í hans stað þar sem viðeigandi hefði verið að hann mætti. Þetta er getgáta.

 

 

Þegar til Bessastaða kom var okkur fyrst skipt í tvo hópa þar sem annar átti að skoða kirkjuna á meðan hinn hópurinn skoðaði kjallara hússins. Svo var skipt aftur svo enginn gat sagt að hann hefði farið nokkurs á mis. Eftir það fór svo aðal móttökuathöfnin fram í stórum sal þar sem forsetinn heilsaði okkur öllum með handabandi og bauð okkur velkomin. Það fannst á að honum þótti við ætla okkur lítinn tíma því margt væri að sjá og skoða. Hann drap á ýmislegt úr sögu þessa merka staðar og að lokum var okkur boðið uppá kaffi og köku. Þá vorum við þegar orðin á eftir áætlun. Næst lá fyrir að koma sér til Reykjavíkur og skoða Alþingi og Landnámsgarðinn. Þar var sami háttur hafður að hópurinn skipti sér og sumir fóru í Alþingi og aðrir í Landnámsgarðinn. Það var nú bara gaman að koma í Alþingishúsið fannst mér. Allt var svo fágað og friðsælt. Engir þar til að kasta milli sín fjöreggi þjóðarinnar, Ég á við sjálfstæði þessa lands. Það var sem sé sumarfrí. Það hæfir ekki að varpa  rýrð á þá þjónustuna sem þar fer fram, miklu heldur eigum við að biðja fyrir þeim sem þar starfa, að Guð snúi verkum þeirra til góðs fyrir land og lýð. Ekki vantar þá nú eljuna suma hverja að minnsta kosti.

 

 

Svo lá nú leið okkar þangað sem við áttum að fá súpu. Einhvern vegin kom það svo fyrir mínar sjónir að við hefðum átt að vera fyrr á ferðinni. Það var komið svo margt fólk. En þetta hafði nú allt góðan endi og við fengum ágæta súpu og gátum valið á milli tveggja tegunda. Við áttum að skoða Sjóminjasafnið en ég kom mér nú hjá því. Það er langt síðan mér fannst ég verða svo þreytt í fótum við að ganga um og skoða söfn og standa kyrr við að lesa áletranir o.s frv. Leið okkar lá nú líka að Vesturgötu 7, Félagsmiðstöð eldri borgara þar sem við fengum kaffi og kræsingar. Svo áttum við eftir að fara aftur niður að höfn og þeir sem vildu eða treystu sér gátu farðið um borð til að skoða eitthvert skip. Ég fór nú ekki og það voru fleiri sem ekki lögðu í það. Fyrir bragðið veit ég ekki hvað skipið hét. Þetta var full dagskrá hjá okkur þótt einhverju væri sleppt. Heimferðin gekk ljómandi vel og við vorum svo heppin með veðrið. Ég var svo næstum fyrirfram viss um að Guð mundi gefa gamla fólkinu gott veður. Bestu þakkir fyrir samveruna. Þóra Pálsdóttir.

 

Flettingar í dag: 213
Gestir í dag: 114
Flettingar í gær: 1370
Gestir í gær: 389
Samtals flettingar: 123391
Samtals gestir: 24526
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 10:34:45

Eldra efni

Tenglar