Þóra Guðrún Pálsdóttir

16.09.2011 20:58

Ferð frá Lágafelli í Mosfellssveit til Hornafjarðar 1951

Klukkan korter yfir 10 að morgni sjöunda júlí rann bifreið með 11 ferðalanga fulla  eftirvæntingar, frá bílaverkstæðinu á Lágafelli. Þetta verkstæði sem ég tala um var einu sinni heygeymsla í eigu Thór Jensens þegar hann rak mikið kúabú á Korpúlfssöðum. áður fyrr. Ferðalangarnir eru að leggja upp í langferð þar sem margt getur skemmtilegt skeð. Þetta eru flest Hornfirðingar. Í bílstjórasæti sat Daníel Pálsson bróðir minn. Bílinn hafði hann nýlega keyptan einhvern hertrukk sem rúmaði þennan hóp. Við hlið Daníels sat Páll Ólafsson frá Holtahólum. Í næsta sæti fyrir aftan þá sat Benedikt Sigurjónsson frá Árbæ og Sigríður Sigurðardóttir kona hans og Þóra Pálsdóttir systir Daníels. Þar fyrir aftan sátu Ragnhildur Guðmundsdóttir frá Stafafelli í Lóni, Sigríður Halldórsdóttir frá Stórabóli og Sigurjón Bjarnason frá Viðborðseli. Í aftasta sæti voru, Vilborg Bjarnadóttir frá Tjörn, Kristín Kristjánsdóttir frá Einholti og Gísli unnusti hennar.


Fyrsti áningarstaður er ákveðinn í Hvalfirði þar sem allir eru boðnir til kaffidrykkju hjá Guðríði Sæmundsdóttur frá Stórabóli. Úrkoma er töluverð á leiðinni fyrir Hvalfjörð. Saga Harðar og Helgu rifjast upp og allir eru sammála um, að Helgu hefði ekki orðið mikið um að taka 200 metrana. Í Hvalfjörðinn komum við klukkan að verða eitt og var okkur þar búin hin prýðilegasta matarveisla hjá Guðríði og hennar manni. Þar vann þá einnig Katrín systir hennar af Höfn og sáum við hana aðeins. Engir hvalir voru við bryggjuna en þá hefðum við viljað sjá.


Eftir um það bil hálfan annan klukkutíma héldum við af stað og fórum Draghálsleið. Nokkuð rigndi öðru hverju, en er upp í Svínadalinn kom fengum við þurt að mestu og gott skyggni. Héldum við sem leið liggur yfir Geldingadraga og komum suður í Skorradalinn yndislega. Ég skal nú ekkert fullyrða um hvort vísun til átta sé rétt hjá mér. Þekkti nú engin eygtamörk á þessum slóðum. Liggur vegurinn svo á kafla meðfram Skorradalsvatni, sem mun vera nokkrir kílómetrar að lengd. Svo ókum við fyrir enda vatnsins og uppá Hestháls, yfir hann og komum niður í Lundareykjadalinn fórum þvert yfir hann og áfram er haldið uns beygt er til hægri inn í Reykholtsdalinn, því heimsækja vildum við Reykholt. Þar fórum við úr bílnum. Litum Snorrastyttuna, gengum kringum skólann og komum að Snorralaug. Þaðan var svo haldið og yfir Hvítá ekki langt frá Síðumúla og næst stoppað á Lundum en þar var Ragnhildur fædd og uppalin og þar bjó nú bróðir hennar. Eftir að við höfðum haft nokkra viðdvöl þar og þegið hinar prýðilegustu góðgerðir, stigum við upp í bílinn og rendum af stað. Ákveðið var að stoppa næst í Hvammi í Norðurárdal en þar bjó systir Ragnhildar.


Ekki vildum við eyða þar miklum tíma og afþökkuðum því góðgerðir en gengum um úti og sáum kirkjuna meðan Ragnhildur heilsaði upp á fólk sitt. Veður var kyrrt og fagurt. Unglingur kom ríðandi neðan grundirnar og rak á undan sér stóran hóp kúa heim til kvöldmjalta. Áfram var svo ferðinni haldið Norðurárdalinn til enda en þá tekur við Holtavörðu heiði. Fornihvammur var síðasti bærinn, en er upp á heiðina kom lentum við í þoku dálítinn tíma. Þegar að sæluhúsinu kom fórum við út úr bílnum og litum inn í það en það var ný málað. Skammt frá var Holtavörðuvatn, Tröllakirkja og  Snjófjöll á vinstri hönd. Fyrr en varir erum við komin niður af heiðinni og Hrútafjörðurinn blasti við. Við fórum framhjá hverjum bænum  eftir öðrum. Hjá Oddstöðum er Vilborg send þangað heim með peninga til að kaupa þar mjólk. Hún kom með  peningana aftur og  einnig  mjólkina, sagðist hafa fengið á einn koss líterinn og voru allir ánægðir með það er hana sendu. Hjá Þóroddsstöðum sprakk dekk og annað á Hrútafjarðarhálsinum. og varð af því nokkur töf. Við ókum svo áfram framhjá Melstað sem er kirkjustaður og tjölduðum við Miðfjarðará hjá Laugabakka, á flötinni vestan við ána. Þá mun hafa verið lágnætti. Tókum við fram nestisskrínur okkar og fengum okkur hressingu. Þar eftir lögðumst við til svefns. Vilborg var þá í tjaldi með Gísla og Kristínu en við vorum 8 í okkar tjaldi en það mun hafa verið gamla vegavinnutjaldið. Fólkinu gekk misjafnlega að festa blund og þeir sem lengst vöktu urðu mannaferða varir og þess að bíll stoppaði stutt frá og okkur barst mannamál að eyrum. Að lokum var ekið brott og fullkomin kyrrð komst á.


                                                        Framhald

                           

Flettingar í dag: 224
Gestir í dag: 120
Flettingar í gær: 1370
Gestir í gær: 389
Samtals flettingar: 123402
Samtals gestir: 24532
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 11:27:23

Eldra efni

Tenglar