Þóra Guðrún Pálsdóttir

27.05.2011 00:05

Ótitlað

                                    Fimmtudagur 26.mai 2011-05.

 

 

Það var 9.maí, sem ég lenti í slysi inn í Reykjavík sem ég sagði frá í síðustu blogg færslu. Það eru batnandi horfur með batann. Herðasvæðið og vinstri handleggur eru ekki orðin góð. Var byrjuð að fá meðferð við vinstri öxl en hún versnaði við að detta.  Vinstri handleggurinn vill ekki hjálpa þeim hægri til að lyfta leirtauinu upp í efri skápa og ekki hjálpa til að aka bílnum og alls ekki setja stefnuljósin á sem eiga alfarið að vera á hans ábyrgð. Mér er svo sem engin vorkunn með það, þar sem ég hefi einka bílstjóra í heimilinu. Læknirinn áleit að ég mundi ekki vera með beinþynningu fyrst ég brotnaði ekki. Ég sagðist vera lengi búin að taka kalk og magnecium sem hefði ef t.v. eitthvað að segja, hver veit ?

 

 

Sjúkraþjálfarinn minn er nú að reyna að semja við handlegginn og fá hann til að hætta verkfallinu með því, að liðka mig í axlarliðnum og með því að láta mig lyfta

lóðum ásamt ljósa meðferð. Vonandi tekst það á endanum. Sjálf reyni ég að gera æfingar heima sem læknir á Akureyri hafði kennt mér fyrir mörgum árum eftir að brjáluð meri stökk með mig á girðingu, með svipuðum afleiðingum fyrir öxl og handlegg. Þá sá ég hættuna fyrir en gat með engu móti stjórnað hrossinu. Það var mun óþægilegra. Núna vissi ég ekkert um hættuna fyrr en ég skall í stigann.

 

 

Nú er komið kvöld og farið að rigna. Vona að það rigni nú rösklega í öskusveitunum. Það er erfitt hjá þeim. Mikið er samt gott að hugsa um alla hjálpsemi og sjálfboðaliðastarfsemi á landinu okkar þegar áföll skella á. Við höfum sannarlega mikið að þakka fyrir. Mér finnst sjálfsagt að biðja fyrir lögreglu, hjálparsveitum og öllu sjálfboðaliðastarfi sem unnið er í landinu okkar öðrum til gagns.

 

 

Flettingar í dag: 245
Gestir í dag: 130
Flettingar í gær: 1370
Gestir í gær: 389
Samtals flettingar: 123423
Samtals gestir: 24542
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 12:10:44

Eldra efni

Tenglar