Þóra Guðrún Pálsdóttir |
|
16.05.2011 01:01Ótitlað Minnisverð tíðindi. Fyrir viku síðan var ég á ferð inní Reykjavík og á leið niður breiðan stiga í stóru húsi ásamt mörgu fleira fólki. Ég er vön að halda mér með hægri hendi í handrið þar sem það gefst og eins gerði ég í þetta sinn, til að skapa mér öryggi, þótt ég hafi aldrei dottið í stiga áður svo ég muni. Ég veit að það getur orðið gömlu fólki örlagaríkt að detta, hvað þá í steyptum stiga. Líklega var ég komin lengra en niður í miðjan stiga þegar ég féll niður til vinstri í tröppurnar. Það sýna bláir og gulir flekkir á vinstri hlið. Söfnuðust að mér indælar stúlkur sem náðu í bréfþurkur og stoppuðu blóðrennsli úr sári á vinstra fæti, sem þær sögðu að þyrfti að sauma. Einhver hafði hringt á sjúkrabíl og kom þá maður fljótlega á Bifhjóli að ég held. Hann beið svo með okkur þó nokkra stund eftir sjúkrabílnum sem ók mér til Borgarspítala. Maðurinn minn sem hafði nú ekki verið langt í burtu kom á eftir í okkar bíl. Við biðum svo þó nokkuð því þar var svo mikið að gera. Alltaf mest á mánudögum Ég var svo sem ekkert illa haldin en hafði þó versnað í vinstri öxl sem ég var lengi búin að finna sársauka i við vissar hreyfingar. Ég var nýlega byrjuð að fara í meðferð á heilsuræktarstöð út af því. Það var tekin mynd sem sýndi engin merki um beinbrot. Svo kom ungur læknir og saumaði sárið. Með það var ég útskrifuð ásamt verkjatöflum og spá um myndarlegt glóðarauga í fyllingu tímans, sem stóð sannarlega undir nafni. Ég er Guði þakklát að það snerti þó ekki augað sjálft en það kom stór og mikill dökkfjólublár rammi utan um augað, sem náði niður á kinn og uppá enni. ,, Maðurinn minn benti mér á að ég gæti sett upp sólgleraugu." Skrifað af Þóru Pálsdóttur Flettingar í dag: 233 Gestir í dag: 124 Flettingar í gær: 1370 Gestir í gær: 389 Samtals flettingar: 123411 Samtals gestir: 24536 Tölur uppfærðar: 21.11.2024 11:49:25 |
Eldra efni
Tenglar |
© 2024 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is