Þóra Guðrún Pálsdóttir

18.07.2010 23:32

Minning

                                  Minning mætrar trúsystur.

Þriðjudaginn 13 júlí fór fram jarðarför Jóhönnu Jóhannsdóttur frá Dómkirkjunni. Jóhanna var ættuð frá Akureyri dóttir Jóhanns Steinssonar smiðs, sem tók við forstöðumannsstarfi Sjónarhæðarsafnaðar eftir Arthur Gook. Kona Jóhanns hét Sigríður. Ég kynntist þessu fólki fyrir mörgum árum. Það  bar þannig til að ég kynntist Sóleyju Jónsdóttur frá Árskógssandi þegar hún var að læra hjúkrun í Reykjavík og við sóttum báðar kristið samfélag á Bræðraborgarstíg 34. Hún fór svo eftir útskrift, að vinna á elliheimilinu í Skjaldarvík við Eyjafjörð. Gegnum þau kynni réði ég mig til afleysinga smátíma í Skjaldarvík. Þar eftir fór ég austur að Ástjörn í Kelduhverfi til að vinna við sumardvalarheimili fyrir börn, sem söfnuðurinn á Sjónarhæð hafði komið á fót. Þegar þeim tíma lauk hafði ég ekki enn fengið að vita hvort ég fengi pláss í ljósmæðraskólanum um haustið. Yrði það ekki ætlaði ég að vera fyrir norðan um veturinn. En nú vantaði mig húspláss meðan ég beið eftir tilkynningu að sunnan.

Nú kom fólk frá Akureyri austur að Ástjörn til að taka við af okkar flokki, sem höfðum verið með börnin þann tíma sem við höfðum tekið að okkur. Og meðal þeirra sem komu var Jóhanna Jóhannsdóttir.

Þegar hún vissi mínar kringumstæður bauð hún mér strax að fara heim í herbergið sitt á Akureyri og dvelja þar um tíma meðan hún væri við Ástjörn. Jóhanna bjó heima hjá foreldrum sínum á Akureyri og þetta varð til þess, að ég kynntist þeirri ágætu fjölskyldu betur. Það sem ég dáðist mest að hjá þeim var, hve þau voru vel hæf í að taka á móti gestum og láta þeim líða vel hjá sér. Einhvern heyrði ég segja, að maðurinn dáist mest að þeirri dyggð hjá öðrum sem hann er sjálfur fátækastur af. Það gat alveg passað hvað mig snerti. Þessi hjón, foreldrar Jóhönnu áttu sex dætur en ég kynntist bara tveimur þeirra. Sumar þeirra voru giftar og farnar og hinar farnar eða á förum í nám á þessum tíma. Kynnin við þessar tvær héldust nógu lengi til þess að vita, að þær varðveittu vel arfinn úr foreldrahúsum hvað gestrisninni viðkom og varðveislu trúarinna allt til elliára.

 Sama hlýlega, glaða og upplyftandi andrúmsloftið mætti manni. Það var missir fyrir fámennan söfnuð að missa Jóhönnu suður og einnig hinar systur hennar sem ekki urðu lengur stoðir í söngstarfinu í hinum litla söfnuði. Hún Jóhanna hafði líka hjálpað til í barnastarfinu og á saumafundum með telpum en svona er lífið. Hún giftist góðum kristnum manni Geirlaugi Jónssyni og flutti til Reykjavíkur ári eftir að ég giftist fyrir norðan. Eftir það urðu strjálar heimsóknir vegna fjarlægðar en samt hélst samband og alltaf var jafn indælt að  koma á heimili þeirra á Grensásveginum. Guð gaf þeim tvær dætur. Ég vil senda þeim og eftirlifandi eiginmanni ásamt systrum Jóhönnu innilega samúðarkveðju.

Þakka góðum Guði fyrir að hafa fengið að kynnst svo góðri trúsystur sem Jóhanna var.

Flettingar í dag: 69
Gestir í dag: 26
Flettingar í gær: 121
Gestir í gær: 57
Samtals flettingar: 123734
Samtals gestir: 24655
Tölur uppfærðar: 23.11.2024 10:36:23

Eldra efni

Tenglar