Þóra Guðrún Pálsdóttir |
|
24.06.2010 16:05LífshættaBjargast úr lífshættu Elín Steingrímssen vinnur á útvarpsstöðinni Lindinni. Hún safnar bænasvörum hjá fólki. Um daginn kom hún til mín tilbúin að skrásetja eitthvað eftir mér en ég var ekki viðbúin og fannst ég ekki muna eftir neinu á stundinni og sagði henni það. Eftir á fór ég að hugsa að ég hefði þó átt að muna eftir einu atviki sem skeði þegar ég var 12 ára. Þá sótti ég barnaskóla sem haldinn var í Holtum sem eru nokkuð miðsvæðis í minni sveit á Mýrum A-Skaft. Á meðan var ég til heimilis í Stórabóli hjá Sigríði Halldórsdóttur. Það var of langt að ganga heiman að frá mér og svo var Djúpá á miðri leið. Um helgar máttum við fara heim til okkar á laugardögum þegar veður leyfði og vera fram á sunnudag. Ég hlakkaði alltaf til að fara heim. Stundum var mér fylgt og stundum var ég sótt að heiman og stundum var ég samferða Bjarna Þorleifssyni sem bjó í Holtum en hafði fjárhúsin sín fyrir ofan Djúpá Nú átti að fylgja mér einn laugardag en mér hefur alltaf fundist leiðinlegt að láta aðra hafa mikið fyrir mér og fullyrti að ég gæti vel farið ein í svo góðu veðri og álitið var að mannheldur ís væri kominn á ána. Þegar áin var á haldi gátum við sem heima áttum á fjallabæjunum stundum farið einar heim. Svo þetta varð að ráði, mest líklega fyrir það, að minni greind var treyst. Svo brokkaði ég af stað og fór beinustu leið inn Holtalandsbakka. Segir ekki meira af ferðinni fyrr en ég kom að Djúpá. Á henni reyndist ísin ekki traustari en svo að þegar ég gekk útá brakaði í. Mér var illa við að þurfa að snúa aftur því ég var komin um helming leiðarinnar heim Ég hugsaði að ísinn gæti haldið mér það sem eftir væri eins og hann hafði gert þennan spöl frá landi sem ég var komin. Svo stika ég áfram en er naumast komin hálfa leið yfir ána þegar ísinn brast. Vatnið tók mér í brjóst og ég varð mjög hrædd. Ég varð svo létt í vatninu og því óstöðug á fótunum. Sem betur fór var þarna lítill straumur annars hefði ég flotið undir ísinn. Ég vissi að mér þýddi ekki að hljóða eða hrópa. Enginn maður mundi heyra til mín. Ég bað sífellt til Guðs í örvæntingu minni og minntist þess nú sem ég hafði lofað þegar ég var veik af kíghóstanum að vera betur undirbúin næst ef Guð leyfði mér að lifa. Nú fannst mér eg ekki heldur undirbúin. Ég rétti handleggina uppá skörina og vóg mig upp en hún lét undan og brast og ég seig aftur niður. Ég hafði samt aldrei sleppt skólatöskunni sem var létt,fyrirferðarlítil og fáar bækur í henni. Þetta var gjöf frá ömmu minni Sigríði Skarphéðinsdóttur. Þetta endurtók sig nokkrum sinnum að ég vóg mig upp á skörina og hún brast. Hafði ég þannig von um að geta brotist til lands en sú von brást því nú fór að dýpka svo ég treystist ekki til að brjóta lengra og sneri við til baka og vonaði að mér tækist að brjóta þá leiðina. Þar endurtók ég tilraunir mínar en þá fór á sömu leið svo að mér fannst jafnvel dýpka örar en áður þar til mér fannst ég ekki geta fótað mig lengur og sneri við í dauðans ofboði hrædd við að fljóta undir ísinn. Nú sýndust orðið litlar líkur til að ég kæmist lifandi upp úr ánni en áfram hélt ég að biðja. Ég svamlaði nú samt aftur til þeirrar áttar er vissi heim og fór að sem áður, rétti handleggina upp á skörina og spyrnti fótum í botninn um leið og ég vóg mig upp. Vatnið lyfti undir mig og hvað lífsvon mín tendraðist þegar ég fann að skörin lét ekki lengur undan og uppá hana komst ég og ísinn hélt mér þann stutta spöl sem eftir var til lands. Ekki var nú allt búið þótt ég væri komin uppúr. Þá var eftir dálítil kvísl af ánni sem rann norðar og á henni var ís sem ég þorði ekki út á. Þarna stóð ég nú hrædd og skjálfandi þar til ég tek eftir manni sem var að koma utan Móa austan frá Seli. Ég vissi að leið hans mundi liggja nálægt ánni þar sem ég var. Beið ég því drjúga stund. Er hann nálgaðist hrópaði ég á hann og bað hann að hjálpa mér. Þetta var Sigurður bóndi í Holtaseli á leið heim til sín. Áttum við því samleið drjúgan spöl þar til leiðin skiptist og við héldum hvort heim til sín. Þegar ég kom heim varð ég auðvitað að fara úr öllum fötunum, en ekkert varð mér meint af volkinu enda var logn og hlýindi í veðrinu. Ég varð nú ekki margmál um það sem við hafði borið, slík voða hneisa fannst mér, að hafa ekki haft betra vit fyrir mér. Þegar ég kom í skólann á mánudaginn var sagan af svaðilför minni komin á undan mér og er Petrína skólasystir mín fór að spyrja mig út í atburðinn, þá fékk hún litlar upplýsingar og sagði þá:,,Þú villt bara ekkert um þetta tala." Bækurnar sem voru í töskunni fóru ekkert að taka þátt með mér í að hagræða sannleikanum til að bjarga mannorði mínu og gera lítið úr atvikinu. Þeim var nokk sama enda báru þær með sér, að hafa lent í kaffæringu og litur runnið til í þeim. Þær urðu aldrei samar eftir. Það sás ekkert á mér þegar búið var að þurrka fötin. En það var hins vegar gætnari manneskja sem gekk útí lífið eftir að þessi atburður gerðist. Skrifað af Þóru Pálsdóttur Flettingar í dag: 81 Gestir í dag: 30 Flettingar í gær: 66 Gestir í gær: 34 Samtals flettingar: 125336 Samtals gestir: 24995 Tölur uppfærðar: 3.12.2024 18:46:36 |
Eldra efni
Tenglar |
© 2024 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is