Þóra Guðrún Pálsdóttir

24.01.2010 23:52

Gráni

Þegar Gráni var folald keypti faðir minn hann af Jóni Þórðarsyni bónda í Holtaseli og gaf fyrir hann á með lambi. Hann þótti lítill þá og var það alla tíð. Þó hafa nú ýmsir stærri hestar hrokkið undan honum ef hann hefur viljað láta þá kenna á valdi sínu. Þegar hann var trippi þótti hann ódæll og vann það sér til óhelgis að vilja hlaupast út að Hólmi og sjúga þar folaldsmeri í algeru heimildarleysi. Hann var þá settur í haft sem ekki var algengt með trippi. Það var hinsvegar algengt að hefta hross sem nota þurfti, því lítið var um girðingar þegar ég man fyrst eftir, nema kringum túnin. Pabbi vann hnappheldurnar sem notaðar voru til að hefta hrossin með og fleira úr hrosshárinu til dæmis reipi til að binda heybaggana með. Hann vann líka hrosshár fyrir aðra. Ekki var hægt að vinna hrosshárið annarstaðar en í þessari litlu baðstofu okkar. Það komust fyrir þrjú fullorðinsrúm og einn beddi því hlerinn yfir stigaopinu var aftan við eitt rúmið. Milli rúmanna komst fyrir lítið borð. Niðri var eldhús og búr. Ég man að mömmu þótti mikil óþrif fylgja hrosshársvinnunni.


Ég sé það núna að hjá því hefði mátt komast að miklu leyti ef hrosshárið hefði verið þvegið fyrst eins og ullin en það var ekki siður. Svo að sögunni sé snúið að Grána aftur, þá má bæta við, að hann bar litla virðingu fyrir girðingum ef hann hélt að hann hefði það betra innan þeirra. Gráni varð enginn gæðingur. Hann bar sig ekki vel og fór því ekki fallega undir manni og mér fannst hann framlágur er á bak var komið. Gangur hans var brokk og stökk og hvorugt til að hrópa húrra fyrir en hann var alltaf fús til allrar þjónustu eins og ekkert væri sjálfsagðara en að leggja sig allanfram. Með tímanum gerðist hann húsbóndi á sínu  heimili og stóð í því að passa Brúnku sína sem hann var hafður með í stíu á veturna. Þegar vorið var komið og náttúran öll fór að lifna við, vildi Brúnka fara að skreppa á aðra bæi til að lyfta sér upp og hitta skemmtileg hross. Gráni var nú tregur til að skrifa uppá leyfi handa henni til þess. Einu sinni varð  ég vitni að því. Þá var  Brúnka komin niður á aura í átt til Holtasels. Hann hafði víst verið eitthvað annars hugar. Allt í einu verður honum ljóst hvað í býgerð sé hjá merinni. Hann leggur þá af stað og nær henni líklega miðja vega milli bæja og kemur með hana rekandi á undan sér heim aftur.


Einu sinni þegar ég var smástelpa, var ég á ferð á Grána um jarðföllin en um þau liggur leið milli Haukafells og Rauðabergs. Það mun hafa verið eftir rigningu og hlaupið vatn undir jarðveginn og kviksyndi myndast. Dúaði þá jarðvegurinn eins og stigið sé á Gúmmíbelg. Ég hafði ekki lent í því áður en í þessu tilfelli hefðum við þurft að fara allmiklu ofar en hin venjulega leið lá. Hvorugt okkar Grána hafði víst afgangsvisku í kollinum til að ímynda okkur að svona gæti farið á venjulegu götunum. Hann var alltaf svo óragur þegar maður sat á baki hans. Það getur bæði verið kostur og ókostur því að þeim hrossum er hægt að beita á hvaða foræði sem er. Þarna lenti hann niður og sökk uppundir kvið. Hann ætlað nú fljótlega að brjótast upúr en sökk alltaf jafnharðan niður aftur. Varð ég nú alveg dauðhrædd um að hann mundi sökkva alveg eða bilast alvarlega í þessum miklu umbrotum Ég fór af baki og tók beislið út úr honum og hvatti hann vel með því. Hér var um lífið að tefla að hann kæmist á fast land sem fyrst. því mér fannst hann vera að linast í umbrotunum. Að lokum tókst honum að brjótast uppúr og á fast land. Varð ég þá fegnari en frá megi segja að sjá hann ganga óhaltan.


Gráni og Brúnka voru mikið notuð til dráttar og bæði saman drógu þau herfi þegar farið var að rækta kartöflur og rækta tún. Brúnka hafði til að verða fúl í skapi ef upphaf verks fór ekki rétt af stöfnum að hennar dómi. Ég held að hún hafi orðið vond útaf því, að Gráni legðist ekki jafnsnemma í aktaugarar eins og hún, sem gat hafa stafað af því, að hún var stærra hross og hafi staðið aðeins framar honum þegar verk hófst. Hvað sem það var, þá sýndi hún það greinilega að hún ætlaði ekki að fara að draga tveggja hesta æki. Hún hristi sig og  aktygin með og gekk aftur á bak. En þegar hún varð ánægð með upphafið gekk allt vel og bæði gerðu sitt besta. Þau drógu líka allt byggingarefni heim þegar að því kom að endurnýja húsakost yfir menn og skepnur.

Flettingar í dag: 300
Gestir í dag: 149
Flettingar í gær: 1370
Gestir í gær: 389
Samtals flettingar: 123478
Samtals gestir: 24561
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 14:34:44

Eldra efni

Tenglar