Þóra Guðrún Pálsdóttir

18.01.2010 23:25

Mildir vetrardagar.

Það rigndi nokkuð í gær fyrripartinn 16 janúar enn svo varð indælisveður. Ég hafði ákveðið að fara til Grindavíkur. Átti erindi á tvo staði. Hún Rósa, gömul skólasystir mín úr Ljósmæðraskóla hafði orðið 80 ára nýlega. Fyrir tilviljun hafði ég frétt af því, og þótti vænt um það, því sjálf fylgdist ég ekki með. Ákvað nú að fara og óska henni til hamingju. Hún var semsé búin að ganga á undan með góðu eftirdæmi þegar ég átti afmæli.  Það er alltaf léttara að ganga í annarra slóð. Ég ferðast nú oftast með einkabílstjóra eins og forsetinn og maðurinn minn tekur það sem sjálfsagðan hlut og spyr ekki einu sinni að því hvort hann þurfi nokkuð að koma með. Sem betur fór kom nú ekkert alvarlegt uppá hjá okkur eins og hjá forsetanum og hans ferðafélaga, þarna rétt fyrir Indlandsferðina. Höfðum heldur ekki um svo stórt mál að véla, dagana á undan,eins og þeir.


Við hittum Rósu heima og vorum strax drifin að kaffiborði. Maður hennar hafði nýlega gengist undir aðgerð á sjúkrahúsi og var ekki kominn heim. Við höfum nú ekki verið mjög duglegar við að heimsækja hvor aðra, þótt ekki sé langt að fara. Hefði ég sennilega fremur átt að hafa frumkvæði þar sem ég hefði átt auðveldara með það.  Samt fer nú vel á með okkur þegar við hittumst. Við stoppuðum nú ekki lengi hjá Rósu því báðar þurftum við líka að nota daginn í annað. Ég hafði nýlega frétt að ég ætti frænku í Grindavík og ætlaði að heimsækja hana. Það vildi svo til, að hún bjá ásamt sínum manni örskammt frá Rósu. Þar var mér heilsað eins og nánum ættingja sem auðvitað var. Hún heitir Þóra og er dótturdóttir Hallberu sem var systir móður minnar. Sonur þeirra hjóna býr skammt þar frá og annar inn í Hafnarfirði. Sá var nú staddur úti á Haiti með Rústabjörgunarsveitinni íslensku.

Mikið finnst mér virðingarvert að svo margir gefa sér tíma til að vera í þessum björgunarsveitum okkar hér á landi og eru alltaf tilbúnir að veita hjálp þegar háski steðjar að, sem æði oft vill nú verða. Mér finnst þessar Björgunarsveitir og Lögreglan ætti að vera stöðugt í bænum okkar. Hver mundi vilja vera í landi þar sem engin regla ríkti á neinu og sérhver fengi að gera það sem honum gott þætti. Þetta eru hjá hvorum tveggja hættuleg störf. Ég  var auðvitað upp með mér að heyra að ég ætti frænda þarna úti. Það munu nú ekki hafa verið neitt auðleyst eða hættulaus verkefni sem biðu þeirra þar. Við sátum og spjölluðum áfram um liðinn tíma og líðandi. Drukkum aftur kaffi og ákváðum að hafa samband. Lögðum svo af stað heim í indælu veðri.

Flettingar í dag: 294
Gestir í dag: 148
Flettingar í gær: 1370
Gestir í gær: 389
Samtals flettingar: 123472
Samtals gestir: 24560
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 14:12:57

Eldra efni

Tenglar