Þóra Guðrún Pálsdóttir

12.01.2010 22:44

Janúar 2010

Guð er mikill

 Það segir í Ritningunni um Guð: ,,Að sjálfur er hann fyrri en allt og allt á tilveru sína í honum,, Jesús sagði við saddúkeana sem ekki gátu trúað upprisunni frá dauðum og lögðu fyrir hann snúnar spurningar ef upprisan væri hugsuð til enda.  ,,En Jesús svaraði þeim:,,Þér villist, því að þér þekkið ekki ritningarnar né mátt Guðs. Mt. 22: 29. Vandi nokkurra við að trúa á yfirnáttúrlega hluti, held ég sé, að þeir hugsa um Guð eins og hann væri aðeins lítið eitt stærri og máttugri en venjulegur maður.  Það gerist margt í veröldinni sem hefði einhvern tíman verið kallað yfirnáttúrlegt. Hvað með skilaboðin sem tölvan flytur á örskotsstundu, heimsálfa á milli. Þú hefur varla tíma til að snúa þér við áður en þau  eru komin á leiðarenda. Fjöldi fólks trúir að þetta sé hægt og hagar sér samkvæmt því, þótt það geti ekki trúað að Guð sé til, sem lagt hefur þessa möguleika í sköpun sína.

 Ég dæmi þetta fólk ekki fyrir trúleysi, því ekki er trúin allra, segir Páll. Hann gat nú trútt um talað. Hann trúði ekki á Jesúm Krist til að byrja með. Við getum ekki séð Guð eða þreifað á honum. Ég hefi ekki séð eða þreifað á rafmagninu sem flýtur eftir línunum frá raforkustöðvunum en ég hefi séð hvað hægt er að framkvæma með því. Það getur lýst upp heilar borgir og þorp svo unun er á að líta þegar skyggja fer. Þannig hefur Guð lýst upp líf margra sem höfðu klúðrað því og sátu í myrkri og skugga dauðans. Þeir hafa risið upp úr myrkrinu fyrir mátt Guðs og sumir þeirra tekið að lýsa öðrum, til að höndla heilbrigt líf og lagt mikið á sig við það.

Þeir á vantrú.is segjast vera á móti öllum yfirnáttúrlegum hindurvitnum og þar á meðal Guði almáttugum og Jesú Kristi. Kalla það kynjasögur og kerlingabækur.  Við eigum margar þjóðsögur til af kynjaverum til lands og sjávar, en það vekur athygli mína  að mér finnst þeir beita sér allra mest móti Jesú Kristi, en forynjur, drauga, afturgöngur og uppvakninga  láta þeir nokkurn vegin sleppa við ávirðingar. Maður gæti haldið að þeim fyndist hann eitthvað fjarskyldari og sér um sefa. Mætti því taka hann fyrir eins og gerist í skólum stundum. Fram kemur í riti þeirra að helst megi jafna Jesú Kristi við Hitler hvað mannvonsku  snertir. Ég hefi samt aldrei heyrt að Hitler hafi arfleitt óvini sína að einu eða neinu. sem þeim mætti að gagni verða, en það gerði Jesús og er bókfært hjá Matteusi 12:32.
,,Hverjum sem mælir gegn mannsyninum, verður það fyrirgefið, en þeim sem mælir gegn heilögum anda, verður ekki fyrirgefið, hvorki í þessum heimi né í hinum komanda"

Fyrst Jesús er svona góður við þá, að fyrirgefa þeim fyrirfram, sem ráðast á hann með tungu sinni, þá verðum við bara að hugsa vel til þeirra líka, svo við fáum ekki Jesú upp á móti okkur. Vonum  að hann eigi eftir að ganga í veg fyrir þá, eins og Sál frá Tarsus forðum. Guð hefur eflaust gefið þeim góða hæfileika líka  eins og honum til að reka sitt erindi, þegar þeir hafa flett sinni blaðsíðu við.

Flettingar í dag: 294
Gestir í dag: 148
Flettingar í gær: 1370
Gestir í gær: 389
Samtals flettingar: 123472
Samtals gestir: 24560
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 14:12:57

Eldra efni

Tenglar