Þóra Guðrún Pálsdóttir |
|
10.09.2009 22:50Stórt afmæliÞann 10 ágúst að morgni lögðum við hjónin af stað norður til Akureyrar. Veðrið var gott og ég byrjaði að aka inn að Hafnarfirði. Þar tók hann við og ók áfram þar til komið var í gegnum hvalfjarðargöng. Þá tók ég við og ók til Borgarnes. Þar sem ég var ekkert orðin svöng þá gat ég vel hugsað mér að halda lengra áður en við settumst að snæðingi. Hann vill nú yfirleitt stoppa sem minnst á ferðalögum. Okkur hafði verið boðið í mat á sunnudeginum og mér fannst nú skemmtilegra að þiggja það, en var búin að taka kjúkling út úr frysti til að hafa í sunnudagsmat og ákvað að við gætum þá bara borðað hann á leiðinni norður, á mánudeginum. Það vildi nú bara þannig til þegar Ásgrímur sat við stírið og ég sá einhvern líklegan áningarstað þá var hann á örskotsstundu orðinn svo langt að baki að ekki tók því að snúa við. Ég fann svo sem ekkert til svengdar svo ég lét þetta gott heita. Svona gekk þetta en þegar norður yfir Holtavörðuheiði kom var komin rigning og dimm þoka á parti. Þá var engin leið að hugsa um að borða úti. Það er auðvitað vandræðalaust að fá sér bita inní bílnum en fyrst við vorum nú komin þetta langt, þá hugsaði ég að best væri að komast í Staðarskála. Ásgrímur heldur að hann sé ekki lengur til, nýji skálinn muni heita N1. Það finnst mér alveg fráleitt að vinsæll áningastaður heiti ekki einhverju almennilegu nafni sem vísi til einhvers kennileitis í umhverfi eða sögulegra atburða. Mér finnst álíka slæmt þegar verið er að skifta um nöfn á sögufrægum stöðum eins og einhver ætlaði að kaupa Þingeyrar og þætti nauðsýn að breyta nafni til að hafa það nógu stutt og kæmi helst hug, Sporður, Speni eða Rófa. Ætli Húnvetningum þætti það í lagi? Sem betur fór blasti nú nafnið Staðarskáli við mér þegar að skálanum var komið. Við ákváðum að fá okkur pylsur eins og við vorum áður vön, því mér fannst að ekki væri viðeigandi að vera með sjálfsþurftarbúskap og setjast að nesti, úr því við vorum komin inn í þessi rúmu húsakynni, í samanburði við gamla skálann. Veðrið var nú orðið miklu betra og bjartara aftur. Er við höfðum etið eina pylsu hvort og hvílt okkur á meðan var kominn tími til að halda áfram. Næsti áfangi var til Hvammstanga að heilsa upp á tvær gamlar konur er búa þar í íbúðum fyrir eldra fólk. Þær eru bróðurdætur fyrri mannsins míns. Gamalt fólk er oft svo þakklátt, aðeins fyrir smá innlit, rétt eins og öðrum fyndist að fá stórgjöf. Ég var nú ekkert að bjóða mig fram að aka þangað því Ásgrímur yrði eflaust fljótari að finna húsið. Hann hefur miklu betra sjónminni heldur en ég. Við höfum held ég aðeins einu sinni komið til þeirra systra áður á þennan stað. Báðar eru fyrrverandi húsmæður á sveitabæjum í Húnaþingi. Þegar við fórum þaðan og út á vegamótin tók ég við að aka og ók til Blönduóss. Þar á Ásgrímur systur búsetta en hún hafði farið suður og var alveg nýkomin heim. Við gátum spjallað smástund við hana og son hennar sem hafði ekið henni norður. Þar næst tók Ásgrímur við stýri og skilaði okkur til Akureyrar. Veðrið var unaðslegt. Trjágróðurinn á Akureyri og umhverfi verður mikilfenglegri með hverju ári. Við ákváðum að líta inn til vina okkar í Lögbergsgötu 1. Við báðum um leyfi til að fá að drekka kakóið sem ég hafði lagað og tekið með um morguninn, til að vernda okkur fyrir uppþornun á leiðinni norður. Þau leyfðu það með eftirtölum, voru víst ekki vön að gestir kæmu með vistir með sér og svona fáránlega beiðni. Helga sagðist eiga nógar kökur og sótti þær og við vorum líka með kökur. Kakóið var enn vel heitt og við fengum þar með tækifæri að hitta hjónin og hafa samfélag áður en þau færu í Skagafjörð morguninn eftir. Að þessari heimsókn lokinni settumst við svo upp hjá dóttur minni og fjölskyldu og urðum hvíldinni fegin um kvölið. Tengdasonurinn er eðalgóður kokkur og ræktar grænmeti í eldhúsglugganum í tæru blávatni, í einhverjum ljósalampa sem kona hans var að selja í búðinni að ég held. Með þessu drýgir hann matinn. þegar ættingjarnir hrúgast óvænt að úr öllum áttum. Velviljað fólk mundi kalla þetta kryddjurtir. Það var gaman að hitta þau og heimasætan var líka heima í sumarfríi frá náminu í Danmörku. Kötturinn Máni var vingjarnlegur eins og hann á vanda til en Birta var þurr á manninn eins og hún vildi segja:,,Ég þekki þig ekki." Þau eru höfð í þvottahúsinu á næturnar og þegar ég kom upp stigann, sem liggur að þvottahúsinu, morguninn eftir, þá hefur það líklega rifjast upp fyrir henni að ég kom upp þennan stiga í fyrra og gaf þeim morgunmat. Hún var þvílíkt vinsamleg og neri sér upp við mig og heilsaði mörgum sinnum upphátt. Dóttir mín hafði gefið þeim áður en hún fór í vinnu svo þau voru búin að fá sinn morgunmat núna. Daginn eftir um miðjan dag, var svo afmælisveisla Irene haldin í Dvalarheimilinu Hlíð og var vel mætt, meðal annarra var systir hennar frá Englandi þar komin ásamt fylgdarmanneskju. Viðtöl fóru fram við afmælisbarnið og gat hún tekið þátt í því sem fram fór og gengið um. Ræður voru fluttar og söngvar sungnir og nógar veitingar. Fjöldi afkomenda var til staðar, fleiri ættliðir. Hún var nú samt ekki blóðmóðir þeirra heldur hafði fengið þrjú börn í einu í brúðargjöf um leið og hún giftist. Þau hefðu varla getað reynst henni betur þótt þau hefðu verið af henni fædd, eða þá hún þeim, þótt hún hefði borið þau undir brjóstum. Irene hefur nú nokkrum sinnum veikst mikið á seinni árum en alltaf skriðið saman aftur og komist á fætur. Hún er ekki kvartsár manneskja eða gefin fyrir að bera sig illa. Segist ekki mega kvarta er hún horfi á þá sem yngri eru en samt verr á sig komnir. Hún er Guði þakklát. Daginn eftir fórum við út í Hrísey að hitta Jón bróður. Ásgríms og Auði konu hans. Þau búa þar á sumrum. og unna greinilega eyjunni. Ekki þurftum við lengi að bíða eftir ferjunni og ekki tekur langan tíma að sigla yfir. Jón var mættur með dráttarvélina og við fengum sæti fyrir aftan ekilinn og nú var bara að halda sér. Golan var nú fremur köld. Við fengum góðan viðurgerning og létt spjall hjá þeim hjónum og tíminn leið fljótt. Óðar en varði var kominn tími til að kveðja og halda til lands. Næsta morgun á fimmtudegi fór Ásgrímur að heimsækja vin sinn en seinna þann dag vorum við boðin í kaffi til trúsystkina á Akureyri. Föstudagsmorgun fórum við fram í fjörð. Mikið var nú Eyjafjörðurinn fagur í morgunsólinni. Við fórum heim að Núpufelli og hittum jafnöldru mína Ingibjörgu heima. Við stoppuðum nokkra stund hjá henni. Fórum svo aftur yfir brúna og ókum dálítið lengra fram en snerum eftir það til baka. Ég hefði viljað líta inn til Ingiborgar á Árbakka en kunni ekki við það þar sem við fórum þar framhjá kl.12. á hádegi. Einu sinni litum við inn á Sjónarhæð, því ég hafði ekki náð að heilsa allri fjölskyldunni í afmælisveislunni. Mikið höfðu trén þar í brekkunni stækkað síðan ég fór frá Akureyri. Við litum einu sinni inn til Jóhanns Pálssonar og einnig til Jarþrúðar og Jóns Sveinssonar. Það var svo á laugardagsmorgun sem við lögðum af stað suður. Dóttir mín vildi láta okkur hafa nesti en þar sem við höfðum ekkert smakkað á nesti á norðurleiðinni vildi ég ekkert eiga við það. Lögðum svo af stað í góðu veðri og gekk allt snurðulaust lengi vel. Þegar í Langadalinn var komið hafði stórum trukk verið lagt þvert yfir veginn og okkur boðið að fara hjáleið. Er við fregnuðum eftir hvort orðið hefði slys fengum við að vita, að slysið hefði orðið daginn áður og nú væri verið að flytja bílinn burtu. Við hlýddum því sem sjálfsagt var og fórum hjáleiðina þar til við komum að skilti sem benti á leiðina yfir Kjöl. Eigum við að fara yfir Kjöl ?, spyr Ásgrímur. Já, Já, segi ég og held að þetta sé gaman fyrir hann, því að hann hefur aldrei farið það áður. Ég hafði farið þessa leið með bróður mínum og konu hans, fyrir löngu síðan, svo við tókum stefnuna til heiða. Veðrið var gott og segir nú lítið af ferðum okkar fyrr en við sjáum skála, þó nokkurn spöl burtu, til hægri við veginn og álitum að þar mundi einhverja hressingu að fá. Við hættum þó við að fara þangað og héldum það vera í lagi að halda lengra áður en við færum að byggja upp líkamann með mat. Ásgrímur var annað slagið að dást að hvað vegurinn væri góður þar til við komum til Hveravalla. Þá tók nú verra við, eintóm urð og grjót og alls ekki fyrir litla og létta Jepplinga. Á endanum sáum við nú skilti sem benti á Gíslaskála og nú mundi stutt í hressingu hugsa ég. Svolítið fannst okkur skrítið hvað skálinn var staðsettur fjarri alfaraleið en tókum þó stefnuna þangað, líklega 1- 2 kílómetra. Við skálann sáum við allmarga bíla og hóp fólks. Einnig nokkur hross í girðingu. Okkur var seinna sagt að þetta muni hafa verið hestafólk. Við lögðum nú bílnum og ég tók litla handtösku með fjármunum til að geta borgað fyrir einhverja lífsnæringu. Við fengum þá að vita að þessi hópur hefði fengið skálann á leigu í heila viku og skálavörðurinn hefði farið kvöldið áður. Auðvitað var ekkert við því að segja en þar sem ég vissi nú ekkert um vegalengdir til næsta áningarstaðar, áleit ég skynsamlegt að fá leyfi til að fara á snyrtingu. Ein vingjarnleg kona veitti mér fúslega leyfi og ekkert meira með það. Við ókum svo burt og komust fljótlega á þennan hræðilega vonda veg aftur. Það var þó að sömu leyti meira afslappandi að aka þennan veg heldur en fjölfarnari vegi í byggð Það var ekki hægt að aka nema löturhægt og enginn var að æða framúr og fáum að mæta. Það var ekki yfir neinu að kvarta nema hristingnum. Við ókum nú æðilengi enn og þá verður mér allt í einu ljóst að ég er ekki með handtöskuna. Hún hafði orðið eftir í Gíslaskála. Ásgrímur spurði hvort við ættum að snúa við til að sækja töskuna. Ekki gat ég hugsað mér það, þennan vonda veg. Við gætum hugsanlega hringt í skálann þegar við kæmum til byggða. Við ókum enn um stund um öræfi. Þá hringir farsíminn. Spurt var hvort ég hefði ekki saknað einhvers. Ég játaði því auðvitað og bað konuna að geyma töskuna. Glöð var ég að heyra að Guð hafði látið engla sína í mannsmynd bæta úr vitglöpum mínum. Spurði ég hana hvenær þau kæmu til byggða og hvar þau ættu heima. Hún sagði þau eiga heima í Biskupstungum og kæmu seinni partinn daginn eftir. Þetta voru góðar fréttir fyrir mig, að þau ætluðu að koma niður sunnan megin fjalla en ekki norðan megin. Ég spurði hvort hún kannaðist við Ellu í Miðfelli og játti hún því. (Hún er systir Ásgríms) Ég sagði að við værum að fara þangað og þar með var tenging komin sem leiddi til þess, að ég fékk töskuna senda með afkomanda Ellu til Hafnarfjarðar og gátum við seinna sótt hana þangað. Af okkur er það að segja, að þegar við vorum komin að Gullfossi og ætluðum að fara þar inn vildi Ásgrímur fyrst hringja í Elínu systur sína og sagði hún okkur að koma í kaffi, hún væri ein heima. Vildi hann þá að við færum strax til Miðfells sem við og gerðum og þáðum kaffi hjá henni. Ég saknaði ökuskírteinisins af því ég hefði viljað hvíla manninn minn svolítið. En er svo mikill bókstafsþræll að ég vildi ekki aka þegar ég vissi að ég var ekki lengur með ökuskírteinið innan seilingar eins og ætlast er til lögum samkvæmt. Ef ég hefði verið stöðvuð og beðin að sýna ökuskírteini, þá hefði það ekki hljómað trúverðuglega að segja ,,Það er norður á Kili". Ég lét því bóndann um að koma okkur heim sem hann gerði með sóma. Við komum aðeins við hjá Lilju og Kristni sem var fóstursonur Ásgríms um nokkurra ára skeið. Þau búa á Selfossi. Eftir smáspjall lögðum við af stað heim og gekk allt vel.Þegar heim var komið hringdi ég til dóttur minnar fyrir norðan og lét hana vita að við værum komin heim. Við fórum Kjöl, sagði ég. ,,Ha, ég trúi þessu ekki!" segir hún "og matarlaus", bætti hún við, minnug þess að ég vildi ekki þiggja nestið um morguninn. Hún og systir hennar höfðu þá farið suður Kjöl fyrir eitthvað um ári síðan og ekki fundið neinn hressingarskála á leiðinni yfir hálendið.
Skrifað af Þóru Pálsdóttur Flettingar í dag: 267 Gestir í dag: 140 Flettingar í gær: 1370 Gestir í gær: 389 Samtals flettingar: 123445 Samtals gestir: 24552 Tölur uppfærðar: 21.11.2024 12:54:54 |
Eldra efni
Tenglar |
© 2024 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is