Þóra Guðrún Pálsdóttir

17.02.2009 19:09

Leikfélagar

                             Vitneskja fengin um málvenju.

 

Það leið ekki á löngu eftir ég skrifaði síðasta pistil að ég hitti konu sem gat sagt mér hver málvenja væri um það, ef farið væri úr Innri-Njarðvík til Keflavíkur.  Við fórum að heimsækja eldri konu, frænku mannsins míns.  Hún hafði búið um margra ára skeið í Innri-Njarðvík.  Hún sagði mér að það hefði heitið að fara út í Keflavík frá þeim.  Þá veit ég það og ætla því aldrei að fara inní Keflavík aftur nema ef ég kæmi utan úr Garði.

                               ________________

 

Ég geri ráð fyrir að yngra skyldfólkið mitt vilji helst heyra sögur úr sveitinni þegar ég var að alast upp, svo ég ætla að týna eitthvað til.

 

                               Leikfélagar.

 

Ég fæddist á Rauðabergi í Austur-Skaftafellssýslu og ólst þar upp.  Ég var yngst þriggja systkina sem upp komust og ellefu árum yngri en bróðir minn sem var næstur mér.  Hafði ég lítið af leikfélögum að segja, þeim er á tveimur fótum ganga.  Hundurinn, kötturinn og kálfarnir urðu mínir leikfélagar.  Þeirra greindastur og skemmtilegastur var hundurinn.  Glói hét hann og var fæddur á Viðborði.  Mjallhvítur var hann á belginn ofulítið hrokkinn, með greindarleg augu og lítið eitt lafandi eyru, sem gáfu honum mildan svip, af því að þau stóðu ekki beint upp.  Þetta var nú kátur hvolpur og við lékum okkur og ærsluðumst alla daga.  Ég hafði band og hélt í annan endann en Glói tók í hinn og svo hófst reiptogið og veitti ýmsum betur, því honum jukust ört kraftar er hann stækkaði.  Ég held að við höfum orðið álíka sterk á tímabyli.

 

Glói urraði og rykkti í reipið sitt til hverrar hliðar og við komumst bæði í vígamóð.  Þannig stóðu leikar eitt sinn er Guðjón á Viðborði bar að garði.  Þá lá bandið yfir vegg sem hafði verið hlaðinn kringum kálgarð og var Glói að reyna að draga mig yfir vegginn.  Færðist hann allur í aukana er hann sá sinn sigur nálgast en Guðjón hvatti mig til að vera nú sterk og hefi ég þá efalaust tekið á því sem ég átti til.  Ég hafði gaman af að henda ýmsum hlutum, sem ég vissi að mundu fljóta, í vatn og atti svo Glóa til að sækja þá sem hann oftast gerði og kom svo með þá sigri hrósandi og kátur.  Seinna þegar bróðir minn skaut ýmsa sundfugla synti Glói eftir þeim og kom með þá til lands.  Hann var líka mjög flinkur í boltaleik.  Lét ég hann óspart iðka þá list að grípa hluti sem mér þóttu tiltækilegir.  Stökk hann þá oft hátt í loft upp er hann tók á móti. Sá ljóður var á ráði hans að hann sóttist eftir að stela af fjárstofni  mínum sem voru kindarhorn og ég geymdi í byrgi nálægt bænum.  Bar hann þau út á víðan vang og nagaði.  Þoldi ég honum það illa.

 

Glói hafði ekki sterka fætur. Þegar hann varð eldri þoldi hann illa fjallgöngurnar, lá þá á eftir og sleikti sína sáru gangþófa.  Þegar hann gerðist gamall og ellimóður var ungur hvolpur fenginn á heimilið er taka skyldi við starfi hans, er hann væri orðinn til þess nýtur.  Hann var hvítur og svartflekkóttur með uppreist eyru og hlaut nafnið Kári.  Nú bar svo við þegar þessi unglingur var kominn á heimilið að hann varð hinum gamla og góða leikfélaga mínum hinn mesti þyrnir í augum.  Aldrei vissi ég þó til að hann reyndi að bola honum burtu, en hann forðaðist hann og lét sem hann sæi hann ekki.  Kári lét sem hann yrði ekki þykkjunnar var og vildi stöðugt reyna að leika sér við hann og liggja hjá honum á næturnar.  Glói flúði þá sitt gamla bæli alveg og þegar Kári vildi fá hann í leik með sér stóð hann bara eins og staur, horfði út í bláinn og virtist sannarlega búa yfir mikilli sorg.  Ef til vill speglaðist í augum hans sársauki þess, sem finnur að hann er af öðrum álitinn ófær um að gegna starfi sínu sem hann er þó búinn að stunda alla æfi.

 

Fór þessu nú fram um hríð en þó lauk því svo að léttlyndi og lífsglaði hvolpurinn vann hylli gamla hundsins  Kári var alltaf tilbúinn að hlaupa fyrir kindur ef með þurfti og ég held bara að Glóa hafi fundist vænt um að hann tæki af sér ómakið og allt í einu sá ég að hann fór að sleikja af hvolpinum leirsletturnar þegar hann kom úr einni sendiferðinni.  Eftir þetta fóru þeir að éta úr sama dalli, leika sér saman og sofa í sama bæli  Vera alltaf saman nema þegar Kári þurfti, í þágu heimilisins, að hlaupa smásprett við skepnur.  Glói var feginn að losna við snúningana.  Hann tók því betur á móti þessum fóstursyni sínum þegar hann kom aftur og sleikti leirsletturnar af fótum hans.  Það gerði hann oft.  Kári virtist kunna því mjög vel enda sjálfur latur að þrífa sig.  Allra daga  koma kvöld og gamli leikfélaginn minn kvaddi sitt líf.  Ég var ekki heima og vissi ekki neitt fyrr en ég kom aftur.  Þá var búið að grafa hann.  Það var í rauninni gott úr því sem vera varð.

Flettingar í dag: 313
Gestir í dag: 153
Flettingar í gær: 1370
Gestir í gær: 389
Samtals flettingar: 123491
Samtals gestir: 24565
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 16:45:49

Eldra efni

Tenglar