Þóra Guðrún Pálsdóttir |
|
01.02.2009 00:34Ótitlað8. janúar 09 2009-01.
Fimmtudaginn hinn 8. janúar 09 fórum við hjónakornin inn í Reykjavík. Ég ætti nú sjálfsagt að fullyrða, sem minnst um hvað sé inn og hvað sé út, hér á Suðurnesjum. Þegar við förum til Keflavíkur héðan úr Innri Njarðvík segi ég líka að ég sé að fara inn í Keflavík þótt það sé alveg í öfuga átt við Reykjavíkurleiðina. Mig vantar að finna einhvern gamalgróinn Innri Njarðvíking. Hann gæti sagt mér hver málvenjan væri hér.
Við ætluðum að vera við jarðarför konu sem við þekktum. Hún átti að vera kl. 1, frá bænhúsinu í Fossvogi. Við vorum svo snemma á ferðinni að við notuðum tímann á undan til að fara í heyrnar og talmeinastöð, því Ásgrímur er farinn að hugsa um að fá sér heyrnartæki. Þessi stöð er til húsa í sjálfstæðishúsinu og þegar þangað var komið var greinilega fundur þar, svo mikið var af bílum í kring. Þegar inn var komið sást inn í stóran sal fullan af fólki, mest karlmenn, með alvöruþrungin andlit eins og við á, á þessum tímum. Konurnar hafa ef til vill verið heima að þvo upp ílátin eftir hádegismatinn.
Heyrnarstöðin var á þriðju eða fjórðu hæð og þar þurftum við ekki að bíða lengi. Ásgrímur fékk viðtalstíma á þriðjudag í næstu viku. Fórum við svo aftur í Fossvoginn og vorum við kveðjuathöfnina, sem var látlaus og viðkunnanleg. Þessi kona var einu ári yngri en ég svo mér kom í hug, að þegar komið er á minn aldur, þá verður að sannmæli sem stendur í ljóðinu. Man ekki fyrir víst eftir hvern það er ,, Mínir vinir fara fjöld, feigðin þessa heimtar köld. Ég kem á eftir, kannski í kvöld, með klofinn hjálm og rofinn skjöld." Þessi kona átti skjöld trúarinnar sem talað er um í Efesus bréfinu 6.16. Ég trúi að hún hafi haldið honum órofnum allt til enda. Hins sama vænti ég mér til handa þegar að mér kemur.
Á eftir fórum við aftur niður í miðbæinn og fórum í búðir. Ásgrímur gerði góða verslun þá loks er hann lét verða af því að endurnýja eitthvað fatakyns handa sér. Ég aftur á móti fann ekki það sem ég leitaði að, en fékk aftur á móti góð ráð að taka með mér heim, sem ekki kostuðu neitt. Svo héldum við heim í rigningunni. Satt að segja vorum við bæði dauðþreytt og hölluðum okkur upp í rúm þegar heim var komið.
Skrifað af Þóru Pálsdóttur Flettingar í dag: 254 Gestir í dag: 133 Flettingar í gær: 1370 Gestir í gær: 389 Samtals flettingar: 123432 Samtals gestir: 24545 Tölur uppfærðar: 21.11.2024 12:33:20 |
Eldra efni
Tenglar |
© 2024 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is