Þóra Guðrún Pálsdóttir |
|
21.06.2008 00:17Ótitlað
Það er með mörgu móti hægt að koma sér upp óvinum. Ég heyrði Í útvarpinu um daginn, eða sjónvarpinu, að Frakkar séu stórreiðir út í skýluburð kvenna og vilji alls ekki að konur noti þann búnað til þess að skýla sér með. Það eru nú ekki svo margir áratugir síðan að klútar og sjöl tilheyrðu ígangsklæðum kvenna hér á landi. Ég man ekki betur en að frænkur mínar væru með ljósar léreftsskýlur úti á túni við heyþurk þegar ég var unglingur. Að vetrinum dugðu nú ekki annað en þykkari sjöl eða klútar. Þetta var svona og enginn stökk upp á nef sér útaf því. Ef til vill er þetta upphlaup á okkar tíma runnið frá rótum kvenna og þær fengið karlmenn í lið með sér. Það verður sjálfsagt naumast sagt að skýlan geri nokkra konu fallegri en þær um það. Einhverntíma stóð þessi setning í íslensku ljóði: ,,Fegurð hrífur hugann meir ef hulin er". Ef útlendar konur langar til að varðveita venju frá heimahögum sínum þá finnst mér nú nær að reyna að venja þær af að umskera dætur sínar, heldur en að vera að æsa sig út af því, sem þær bera á höfðinu, sér að skaðlausu. Sumir vilja meina að skýlan eða slæðan sé trúartákn þessara kvenna en af hverju geta hinir aðrir ekki borið trúartákn sín eða merkt sig öðruvísi ef þeir eiga enga trú og allir svo unað við sitt? Guð bauð Ísraelsmönnum svo í þriðju Mósebók 19 k. ,,Ef útlendur maður býr hjá þér í landi yðar, þá skuluð þér ekki sýna honum ójöfnuð. Útlendan mann, sem hjá yður býr, skuluð þér svo með fara sem innborinn mann meðal yðar, og þú skalt elska hann eins og sjálfan þig, því að þér voruð útlendingar í Egyptalandi. Ég er Drottinn, Guð yðar."
Skrifað af Þóru Pálsdóttur Flettingar í dag: 282 Gestir í dag: 144 Flettingar í gær: 1370 Gestir í gær: 389 Samtals flettingar: 123460 Samtals gestir: 24556 Tölur uppfærðar: 21.11.2024 13:16:45 |
Eldra efni
Tenglar |
© 2024 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is