Þóra Guðrún Pálsdóttir |
|
14.06.2008 23:23ÓtitlaðUPPÁÞRENGJA KVÖDD
Hún býður ekki lengur góðan dag á morgnanna með eins atkvæðis mjálmi sínu, og við sjáum bæði eftir henni því hún var skemmtileg. Ég finn nú til léttis aðra röndina því mér fannst hún binda mig, frá því að geta farið að heiman hvert sem væri og hvenær sem væri. Það hefur margur þurft að kaupa frelsið dýru verði. Hún var farin að leyfa sér hluti sem enginn skyldi leyfa sér, þar sem hann er heimilisfastur. Hún var farin að pissa ítrekað í gestarúmið þótt að hún hefði hreinan sand í kassa sínum. Ég skildi það þannig að nú ættum við ekki að hafa kött lengur. Var orðin á nálum með að þetta færi í nýja dýnuna, hjá henni. Ég var líka búin að fara með sængina í hreinsun og láta aðra sæng í rúmið, sem ég gæti þvegið í þvottavélinni. Það sýndi sig líka að eigi veitti af þeirri fyrirhyggju. Ullarteppið mitt góða sem breitt var yfir rúmið hefur ítrekað farið í þvottavélina. Ég elska íslenska ull. Ég klemmdi teppið úti á svölum eftir þvottinn, til að fá nú virkilega gott útiloft í það. Morguninn eftir hrekkur Ásgrímur upp við endurtekið bank en veit fyrst ekki hvaðan það kemur. Enginn sjáanlegur við útidyrnar. Að lokum skilst honum það vera frá svölunum og mikið rétt. Þar stendur þá einn pólverjanna sem eru að vinna hér í byggingunum. Nú eru þeir byrjaðir að slípa svalirnar hjá fólkinu í þessu húsi og þá leggur mökkinn af steinrykinu yfir nágrennið. Það var þá af umhyggju fyrir teppinu sem hann var að banka. Svona umhyggjusemi um annarra hag ætti maður að meta að verðleikum. Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður það skuluð þér og þeim gjöra. Skrifað af Þóru Pálsdóttur Flettingar í dag: 245 Gestir í dag: 130 Flettingar í gær: 1370 Gestir í gær: 389 Samtals flettingar: 123423 Samtals gestir: 24542 Tölur uppfærðar: 21.11.2024 12:10:44 |
Eldra efni
Tenglar |
© 2024 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is