Þóra Guðrún Pálsdóttir

07.04.2008 20:53

Komið þið sæl!        

Nú er síðan búin að taka sér gott vetrarfrí.  Það var nú ekki tölvunni að kenna.  Hér á bæ  hefur gengið hita og hálsbólgupest með hósta og tilheyrandi og bæst ofan á gigtarverki í herðum og öxlum húsmóðurinnar svo hún hefur ekki verið í neinu skriftastuði.  Húsbóndinn hefur haldið sig í rúminu í heila viku og hefur verið í því, að laga sér hóstasaft eftir ævagamalli uppskrift sem hann geymdi í minni úr sínu fyrra lífi þegar hann þá, átti þá heima á Suðurlandi.  Í þessa hóstasaft þurfti þrjú efni, í jöfnum hlutföllum.  Ekkert þeirra var finnanlegt innanhúss, en hún vinkona okkar í næsta húsi átti þau öll og var meira en fús að koma með þau.

 Ég, aftur á móti, ákvað að snúa mér að hvítkálinu og  hvítlauknum, soðnu í mjólk. Ákvað að gefa þeirri tilraun eina viku og að henni lokinni held ég að við séum álíka kvefuð.  En okkur er nú að batna.  Ég er betri af gigtinni.  Það er e.t.v. bara af því, að ég hefi ekkert reynt á mig við húsþrif og annað álíka ónauðsýnleg sýsl, þegar svona stendur á.  Við erum bæði með ferlega ljótan hósta svona í hviðum  en fáum góðar hvíldir á  milli.  Ég held að við ættum að passa okkur gagnvart kulda svo við endum ekki hjá lækni.

 Eins og er, er ekki yfir neinu að kvarta.  Við fáum svona pestir svo sjaldan og getum þá haldið okkur inni í upphituðu húsi.  Ég hefi verið að lesa aldirnar að undanförnu.  Þar getur maður nú séð mismuninn á kjörum okkar og þeirra sem á undan okkur eru gengnir.  Mér finnst að þær ættu að vera skyldulesning á unglinga stiginu í skólum þessa lands.

Flettingar í dag: 115
Gestir í dag: 9
Flettingar í gær: 151
Gestir í gær: 13
Samtals flettingar: 151253
Samtals gestir: 28948
Tölur uppfærðar: 5.4.2025 18:50:58

Eldra efni

Tenglar